15.04.1955
Neðri deild: 72. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 1611 í B-deild Alþingistíðinda. (1864)

185. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil vona, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, athugi þann taxta, sem Eimskipafélagið hefur um vöruflutninga til landsins. Hæstv. forsrh. var að minnast á, að hann mundi ekki vera hærri en önnur skip tækju. Það má vel vera rétt, að hann sé ekki hærri en önnur skip tækju fyrir flutning hingað. Hvernig mundi nú eitt venjulegt skipafélag haga sér, þegar það færi að athuga, hvaða taxta það hefur við sína flutninga hingað til landsins? Skyldi það ekki fara þannig að, að það athugaði, hvaða taxtar væru skráðir fyrir flutninga til Íslands? Og hvaða taxtar eru fyrst og fremst skráðir fyrir flutninga til Íslands? Jú, það er þeir taxtar, sem Eimskipafélag Íslands hefur. M.ö.o.: Þegar verið er að reyna að fá útlend skipafélög til þess að taka að sér flutninga, þá býst ég við, að þau miði við þann taxta, sem gildir hjá því félagi, sem mestar siglingar hefur. Eimskipafélag Íslands markar þess vegna alveg tvímælalaust taxtana, sem teknir eru, miðað við tonn, fyrir siglingar til landsins. Nú vildi ég hins vegar, einmitt vegna þess að hæstv. forsrh. lýsti því yfir, að fjhn., sem líklega fær þetta til meðferðar, muni fá taxta Eimskipafélagsins til athugunar, leyfa mér að biðja hv. fjhn. þessarar deildar að taka taxta annarra skipafélaga á öðrum skipaleiðum veraldarinnar til samanburðar og gera svo vel að reikna síðan út, hvað er taxtinn á tonn á mílu, sem siglt er, og birta okkur hér við 2. umr. þessa máls hlutfallið þarna á milli. N. gæti athugað, hvað tekið er almennt, við skulum segja í siglingum milli Englands og Ameríku eða í siglingum milli Noregs og Englands á tonn á mílu, og athugað síðan, hvað tekið er milli Englands og Ameríku, Englands og Danmerkur, milli Íslands og Ameríku, Íslands og Danmerkur, Íslands og Englands. Þetta þætti mér mjög vænt um að hv. fjhn. þessarar deildar gerði, þannig að hún fengi ekki aðeins taxta Eimskipafélagsins og kannske tilboð frá öðrum skipafélögum, heldur líka bæri saman, hvaða taxti er skráður á samsvarandi siglingaleiðum annars staðar í veröldinni, og legði hér fyrir okkur, hvað út kemur í fragt á mílu og á tonn. Ég er hræddur um, að kæmi út nokkuð hærri fragtupphæð á þeim ferðum, sem til Íslands eru skráðar, hvort heldur er frá Ameríku til Íslands, Englandi til Íslands eða Danmörku til Íslands. Og það væri nauðsynlegt fyrir okkur að fá þetta. (Gripið fram í.) Við skulum líka taka samanburð á kostnaði. Ég ætla að vonast til þess, að hv. fjhn. athugi kostnaðinn líka og sjái til, að það verði vel upplýst, hvernig er með kostnaðinn. Þá má hún líka reikna inn í, hvort það séu einhverjar meiri áhættur í því að ferðast til Íslands. Það er sjálfsagt að taka tillit til alls í þessu sambandi.

Ég hef ofur litla hugmynd um, hvað græðzt hefur í sumum ferðum. Ég hef áður komið fram með það hérna, og hæstv. forsrh., eins og hann er vanur, tekið vel undir það eins og flestar mínar ræður. Ég upplýsti, að eitt skip, sem sigldi frá Íslandi til Ameríku og til baka frá Ameríku til Íslands í byrjun verkfallsins, sem var í febrúar, og kostaði svona 15–20 þús. kr. á dag, flutti farm út og flutti góðan farm heim líka, þ. á m. ýmsa fína bíla frá Ameríku, það var minna skip en flest skip Eimskipafélags Íslands, og það hafði grætt 1 millj. og 100 þús. kr. á þeirri ferð. Hæstv. forsrh. svaraði mér, og hann sagði ekki einu sinni, að þetta væri vaðall, eins og hefði nú verið mjög skiljanlegt að hann hefði sagt, því að það er „billega“ sloppið, heldur sagði hann: Ég efast ekki um það, að mörg skipafélög græða og græða mikið. — 1 millj. á einni ferð til Ameríku hjá einu litlu skipi, hvað þýddi það? 12 svoleiðis ferðir hjá einu litlu skipi væru 12 millj. Hún tók mánuð sú ferð með litlu skipi. Hvað græða þá stóru skipin? má ég spyrja.

Ég skal ekki bera á móti því, að ef norskt skip ætti að bjóða í flutningana frá Íslandi til Ameríku og færi að athuga, hvaða taxtar eru, og sæi, að það gæti grætt 1 millj. á einu litlu skipi, þá sé ég ekki nokkra ástæðu til þess fyrir þann norska skipaeiganda að fara að bjóða þetta niður, ekki nema þá eitthvað pínulítið. Hví í ósköpunum skyldi hann ekki taka þennan gróða líka? Ég held, að þessar háu fragtir, sem þarna eru skráðar, séu sameiginlegt áhugamál ekki bara sumra íslenzkra, heldur líka margra erlendra skipafélaga, og það væri ósköp gott, að hæstv. forsrh. kæmi nú aftur fram og endurtæki sína ágætu ræðu frá því í byrjun febrúar um, að skipafélögin græddu og þau græddu mikið. Ég var að vitna í hæstv. forsrh. um, að hann hefði undirstrikað, hvað skipafélögin hefðu grætt, þegar ég hafði upplýst það, að eitt litið skip hefði grætt á eins mánaðar ferð á siglingu til Ameríku 1 millj., og hann undirstrikaði það. Þess vegna er mjög gott, að hæstv. forsrh. skuli hafa gefið fjhn. það sérstaka vegabréf í sambandi við athugunina á þessu skattfrelsisfrv. Eimskips, að athuga um gróðann yfirleitt á skipaferðum að og frá Íslandi og athuga um taxtana á frögtunum, sem íslenzka þjóðin verður að borga. Ég held, að það væri mjög nauðsynlegt að fá þetta upplýst. Ég held, að það sé með hærri töxtum, sem greiddir eru í veröldinni.

Hæstv. forsrh., sagði, að það hefði verið ósköp mikill vaðall hjá mér, sem ég sagði áðan. Það er ákaflega skiljanlegt. Mér dettur í hug, að það var nokkurn veginn alveg sama orðið sem hæstv. fjmrh. — hann var það að vísu ekki þá, en er það núna — notaði við mig einu sinni. Það var í útvarpsumræðum í sept. 1944. Ég hafði talað á undan honum, og hann kom á eftir og var eitthvað ruglaður af þeirri ræðu, sem ég hafði haldið, og sagði, að þetta væri ljóti bölvaður vaðallinn og ekki meintu helvítis kommúnistarnir nokkurn skapaðan hlut með neinu af því, sem þeir segðu. Mér þykir voðalega leiðinlegt, ef hæstv. forsrh. er nú að komast niður á það stig, að hann treysti sér ekki lengur til þess að fara í rökræður um þessi mál. Það getur þó aðeins verið eitt, sem hindrar hann í því, því að venjulega brestur hann ekki hugrekkið, og það hlýtur að vera það, að honum finnist hann sjálfur ekki hafa eins skemmtilegt hlutverk á hendi í afstöðunni í dag viðvíkjandi Eimskipafélaginu og hann hafði, þegar við vorum að vinna saman í því að setja fæturna undir Eimskipafélagið 1944.

Hvað snertir það, sem ég sagði um forstjóra Eimskipafélags Íslands, sem ég þekki ekki nema að góðu, þá þykir mér það nú orðið hart, en hins vegar táknrænt fyrir mannmat auðmannastéttarinnar í Reykjavík, ef sú góðvild og sú umhyggja um þjóðarhag, sem ég ætlaði forstjóra Eimskipafélagsins, væri útlögð sem vesalmennska. Það er þá komið nýtt viðhorf í okkar þjóðfélagi. Hingað til hefur það þótt bera vott um manndóm, um skilning á þörfum þjóðarinnar, að þora að berjast fyrir sættum, þegar menn stæðu í deilum. Hingað til hefur það þótt jafnvel með fegurstu fordæmum, sem við þekkjum, þegar fylkingar siga saman, að menn þyrðu heldur að standa með því að bera klæði á vopnin en að eggja menn til þess að berjast. Hingað til hefur fordæmi eins og Halls á Síðu eða Þorgeirs Ljósvetningagoða þótt til fyrirmyndar, en ekki vesalmennska. Hins vegar notaði Hallur á Síðu þau orð í Njálu, þegar hann hélt sína ræðu, þegar menn höfðu barizt: „Þat vita allir, at ek em lítilmenni.“ Og af hverju notaði hann þau orð? Af því að hann vissi ósköp vel, hvaða frýjunarorð það voru, sem þeir menn hagnýttu, sem vildu eggja til ódáðaverka, sem vildu etja þjóðinni og hinum ýmsu pörtum hennar saman í bræðravíg. Það eru sömu orðin og hæstv. forsrh. notar í dag. Mér er fjarri að ætla þá menn einhverja vesalinga og nota slík orð um þá, sem ég í mínum innsta huga álit að vilji þjóðinni gott. Þess vegna held ég, að hæstv. forsrh. hefði ekki átt að hagnýta þetta orð. Hins vegar skal ég með mestu ánægju senda forstjóra Eimskipafélags Íslands alla mína ræðu, sem ég hér hef flutt, og biðja skrifstofuna um að taka af henni 2 eintök, þannig að hann geti fengið eitt af því, ef það væri nokkur hætta á, að skilningur hæstv. forsrh. á minni ræðu brjálaðist eitthvað á ekki lengri leið en héðan úr alþingishúsinu niður í Eimskipafélagshús. Og ég vil nú leyfa mér að minna hæstv. forsrh. á, að einmitt þessi orð, sem hann var að nota um mág sinn hér áðan, voru sömu orðin svo að segja sem notuð voru um hann sjálfan 1944, þegar var verið að eggja hann, segja honum að vera ekki að ganga til neins samstarfs við ótætis kommúnistana, segja honum að fara ekki að ganga í þjónustu Moskvavaldsins, þegar var verið að eggja hann og segja honum, að það væri miklu betra, að atvinnurekendur stæðu „staffírugir“ og berðust við verkamenn, heldur en að þeir létu undan síga. Hann stóðst öll slík frýjunarorð þá, og ég held, að það sé bezt fyrir alla aðila, að hann haldi áfram að standast þau, og það væri betra fyrir hann og ekki síður fyrir aðra forustumenn stjórnarfiokkanna að þora að koma hér í stólinn og taka upp orð Halls á Síðu: „Ek em lítilmenni“ — og leggja fram sitt til sáttanna, heldur en að ganga í lið með þeirri harðsvíruðu auðmannaklíku, sem nú hyggst — og hyggur þar heimskulega og óraunhæft — að reyna að beygja verkalýð Reykjavíkur til undirgefni.

Ég held, að sá hluti úr Íslandssögunni, sem hæstv. forsrh. hefur skapað, verði líka fyrir framtíðina beztur með því móti, að hann skilji, að það er okkar þjóð fyrir beztu, að það sé ekki látið koma til þeirrar hörku, sem auðmannastétt Reykjavíkur stefnir til í þessari baráttu.

Verkalýðurinn og alþýða landsins er alltaf sá sterkari, ef til átaka á að koma. Það er enginn efi. Hitt er þjóð okkar nauðsynlegt, að hægt sé að hafa samstarf innan hennar. Og það er gæfa fyrir okkar þjóð, þegar stefnt er að því að tryggja henni tæki til notkunar í sínu daglega lífi og sjá um, að þau tæki séu hagnýtt, og sjá um, að þau séu hagnýtt fyrst og fremst til góðs fyrir þá, sem með þessum tækjum vinna, vinnandi stéttir þessa lands. Það er um það, sem baráttan stendur í dag, að þessi tæki, sem þjóðin á, og þau tæki, sem hún þarf að eignast, verði hagnýtt til þess, að verkalýðurinn og vinnandi stéttirnar hafi betri og sanngjarnari lífskjör en þær hafa haft til þessa.