02.02.1956
Neðri deild: 61. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

143. mál, eftirlit með skipum

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Að tilhlutan hins háa atvmrn. hefur sjútvn. þessarar hv. d. flutt frv. það á þskj. 294, sem hér er tekið till meðferðar.

Frv. fjallar um breyt. á lögum nr. 68 5. júní 1947, um eftirlit með skipum. Eins og segir í grg., sem fylgdi frv. frá hv. ráðun. og prentuð er með frv. á þskj. 294, er talið, að komið hafi í ljós í ýmsum verstöðvum, að nokkrir fiskibátar væru svo illa hirtir og útbúnir, að nýr fiskur skemmdist í þeim og það jafnvel eftir eins dags útivíst. Hafa borizt kvartanir erlendis frá um skemmdir á frystum fiski, sem sendur hefur verið á erlendan markað, og telja fiskmatsmenn og trúnaðarmenn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna sig geta rakið þessar skemmdir í fiskinum til vanhirðu í þeim bátum, sem notaðir hafa verið til veiðanna. Mun hér aðallega vera um að ræða slagvatnslykt, sem fiskurinn mengast af og hverfur ekki, þó að fiskurinn sé soðinn eða steiktur.

Atvmrh. og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hafa gert ráðstafanir til að fyrirbyggja, að skemmdir komi fram í fiski af þessum sökum. Einn liður í þeim ráðstöfunum er, að skipaeftirlitið liti eftir hreinlæti í lestum fiskiskipa, um leið og skipaskoðun fer fram. Fram til þessa hafa skipaskoðunarmenn einungis talið sér skylt að líta eftir hreinlæti í vistarverum og forðageymslum skipa. Í þessu frv. er einnig gert skylt að líta eftir því, að lestir fiskiskipa og báta séu vel hirtar og hreinar.

Ég hef fyrir hönd sjútvn. rætt þetta nýja ákvæði við yfirfiskmatið, og telur það þá breytingu, sem hér um ræðir, heppilega og til bóta. Frv. er flutt af nefnd. Vil ég því mælast til við hæstv. forseta, að því verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari 1. umr.