27.04.1959
Neðri deild: 117. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1713 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

146. mál, sýsluvegasjóðir

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Þetta frv. um breyt. á lögum um samþykktir um sýsluvegasjóði var borið fram í Ed. fyrir skömmu og hefur hlotið þar afgreiðslu með nokkrum breytingum. Ég vil vekja athygli á því, að í þessu frv. felast allstórtækar breytingar á l. um samþykktir um sýsluvegasjóði, og mér virðist, að þessar breytingar séu þess eðlis, að Alþingi hefði þurft að taka sér nokkru lengri tíma til afgreiðslu þessa máls, en horfur eru á að verði með tilliti til þess, hve skammt er liðið síðan þetta mál var lagt hér fram á Alþingi.

Þetta frv. felur aðallega í sér þá breytingu, að í stað þess, að framlag ríkissjóðs til sýsluvegasjóða hefur farið hækkandi eftir því, hve mikið var lagt fram í þessu skyni heima fyrir í sýslunum, þannig að þörfin fyrir þessar framkvæmdir og fjárframlög í sambandi við það hefur til þessa verið grundvöllur fyrir þátttöku ríkísins í þessum vegaframkvæmdum, þá á samkv. þessu frv. að skera þetta framlag allverulega niður. Það er að vísu gert ráð fyrir því, að árlega skuli verja til sýsluvega upphæð, sem sé ekki lægri en 6% af samanlögðu fasteignamatsverði og 3% af lóðarverði í sýslunum, þar sem samþykktir hljóða um það, að sýsluvegasjóðsgjöld séu á lögð í samræmi við þetta. Hins vegar er sett það hámark á framlag ríkissjóðs, að það skuli aldrei vera hærra, en tvöföld heildarupphæð innheimtra sýsluvegasjóðsgjalda um land allt næsta ár á undan. Hér er sem sé alveg snúið frá því að mæta þeirri þörf, sem heima fyrir í sýslunum er talin vera fyrir framkvæmdir í þessu efni.

En í stað þess, að þetta hefur verið grundvöllur fyrir framlagi úr ríkissjóði, hve langt hefur verið gengið í framlögum heima fyrir, þá á að leggja á vald vegamálastjóra að skipta þessu framlagi eftir reglum, sem fram er tekið um í þessu frv., og það virðist, að sá grundvöllur, eins og hann er orðaður í frv., sé harla óákveðinn og sé þess vegna ekki í skjótu bragði hægt að gera sér glögga grein fyrir, hvernig þetta muni koma út. Er þess þó að sjálfsögðu að geta, að sem fylgiskjal með þessu frv. eru nokkrir útreikningar, þar sem sýnt er, hvernig þetta muni breytast, þ.e.a.s. miðað við frv. eins og það var upphaflega lagt fram í Ed.

Nú hafa verið gerðar nokkrar breytingar á frv., sem ég tel að séu til bóta, en vitanlega breyta í nokkrum atriðum þessum útreikningum, sem frv. fylgja.

En sem sagt, þessi grundvöllur, sem nú á að byggja framlögin á, mér virðist, að hann sé nokkuð óákveðinn, og væri þess vegna máske ástæða til að gera þar nokkrar umbætur á í meðferð þessa máls hér í deild.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því í þessu frv. að takmarka allmikið frá því, sem verið hefur, rétt sýslufélaganna til þess að ákveða um hjá sér, hvað skuli af vegum í sýslunum falla inn í hið almenna vegakerfi landsins, og er það atriði að sjálfsögðu einnig til athugunar og þyrfti að gera þar á að mínu viti nokkrar breytingar. Sá varnagli, sem hér er sleginn, er miðaður við það, að e.t.v. mundu sýslufélögin ganga lengra, en rétt væri í þessu efni. En ég álít, að þau eldri ákvæði um þetta, sem hafa ekki, svo að mér sé kunnugt, valdið neinum árekstrum, mundu alveg nægja.

Ég vildi aðeins hreyfa þessu máli, að hér er um mjög stórtækar breytingar að ræða, að því er tekur til fjárframlags til sýsluvegasjóða, vekja athygli samgmn., sem að sjálfsögðu fær þetta mál til meðferðar, og ég hefði fyrir mitt leyti talið eðlilegt um þetta mál, ef það gæfist nokkru lengri tíma til athugunar á þessu frv. en horfur eru á að verða muni, miðað við það, hve nú er talið að skammt sé til þingslita.