06.11.1958
Neðri deild: 16. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (1369)

9. mál, biskupskosning

Frsm. meiri hl. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er ekki margt, sem ég þarf að gera aths. við. Í þessu sem öðru er skylt að hafa það, sem sannara reynist.

Hv. 2. þm. Rang. lagði á það mikla áherzlu, að ég hefði farið rangt með það, að það hefðu verið 9 af hverjum 10 atkvæðisbærum mönnum, eða 9 af hverjum 10 mönnum prestastéttarinnar, sem skoruðu á stjórnarvöldin að heimila biskupi að vera kyrrum í embætti. Það er rétt hjá hv. þm., að miðað við þær tölur hef ég þarna nokkuð of í lagt. Í staðinn fyrir að vera 9 af hverjum 10, þá mun réttur hundraðshluti vera eitthvað tæplega 84. Ég játa það, að í þessu hafði ég ekki reiknað útkomuna, heldur farið eftir því, sem mér hafði verið sagt, og það er ánægjulegt, að þetta er hér leiðrétt. En að það skipti ýkja miklu máli eða breyti niðurstöðu þess, sem hér er um deilt, fæ ég ekki séð.

Það hendir fleiri en mig, að fara ekki alveg nákvæmlega með tölur í þessu sambandi og þar með þann, sem betur á að vera þessu kunnugur en ég, sjálfan 2. þm. Rang. Hann talaði um, að það væru um sextíu menn prestastéttarinnar, sem hefðu val biskups í hendi sér. Eftir þeim tölum, sem hann nefndi, hygg ég, að sú tala sé nær 70 en 60, sem þar hefur úrslitaráðin. Mér finnst það ekki skipta nokkru máli, en úr því að hv. þm. gerði svo mikið úr og gaf í skyn, að ég hefði verið að villa menn með tölunni áðan, þá er einnig rétt að hafa það í þessu, sem sannara reynist.

Hitt vil ég taka alveg skýrt fram, að það var alveg rétt, sem ég sagði, að kirkjuþing hefði einum rómi mælt með þessu frv. Það er föst málvenja, að telja mál samþykkt í einu hljóði, sem er nákvæmlega það sama og að eitthvað sé gert einum rómi, ef engin mótatkv. koma fram. Þetta kemur daglega fram hér við atkvgr. á Alþ. og á öllum mannfundum, og hvort sem einhverjir hafa setið hjá á kirkjuþingi eða ekki, sem mér er ókunnugt um, þá er alveg vist, að þar komu engin mótatkv. fram, jafnvel þó að andstæðingar málsins væru þar allkappsamir undir forustu hæstv. kirkjumrh., að því er mér er sagt. En þegar til atkvgr. kom fékk hann engan sér til stuðnings. Það má náttúrulega segja, eins og hv. þm. gerir, að kirkjuþingið hafi reynzt illa og það hafi átt að skipa öðruvísi. Ég man ekki betur en hv. þm. hafi fyrir einu ári verið mjög kappsamur stuðningsmaður þessa máls og þá talið þar rétt skipað. En þegar hann nú snýst allt í einu á móti því, vegna þess að það er honum ósammála um ákvarðanir, og telur ekkert mark takandi á kirkjuþinginu og enn síður á prestastéttinni sem málsvörum kirkjunnar, þá finnst mér hann meta sinn eigin hug of mikið fram yfir þá, sem eru þó löglega kjörnir málsvarar þessarar stofnunar.

Hverjum finnst sinn fugl fagur, og ég geri ekki mikið úr því, þótt hv. þm. fyndist hann færa betri rök, en fram komu af minni hálfu til stuðnings þessu frv. Ég skal ekki gera mikið úr mínum málflutningi, en ég verð að játa það, að málflutningur hv. þm. sannfærði mig ekki. Og ég hygg, að svo veik sem mín rök vefjalaust hafa verið, þá eru hans rök sízt sterkari. Um það skal ég ekki karpa. Hitt vil ég ítreka, sem ég sagði áðan, að þetta mál er ekki flutt að beiðni herra biskupsins, heldur þeirra manna, sem beittu sér fyrir, hverjir sem það kunna að hafa verið, áskorunum til kirkjustjórnarinnar um, að biskupinn héldi áfram. Þetta frv. er einungis flutt vegna þess, að okkur flm. þess virtist það vera sanngirnismál og eðlilegt, að þau ákvæði yrðu látin haldast, sem alþjóð hefur talið að giltu í þessu efni, frá því að l. um aldurshámark embættismanna fyrst voru framkvæmd varðandi biskup.

Mér er með öllu ókunnugt, með hverjum hætti fengnar hafa verið undirskriftirnar um áskorun til kirkjustjórnarinnar um, að biskup héldi áfram. En ég hygg þó, að það lýsi nokkurri kappgirni hv. 2. þm. Rang., að hann skyldi vera með þær dylgjur um það, sem hann hér flutti. Úr því að hann taldi ekki hæfa að gera betur grein fyrir, hvað á bak við bjó, þá hefði hann heldur átt að láta þann hluta málflutnings síns vera og hreyfa þá frekar í prestanna hóp, ef hann telur einhverju áfátt um þeirra framkomu, í stað þess að vera með áburð hér, sem hann segir vera þess eðlis, að hann vill ekki hafa á orði, heldur einungis gefa í skyn.

Við vitum allir, að hv. þm. er kappsfullur maður, og við því er ekkert að segja. En ég tek einungis fram, að kappgirni er áreiðanlega ekki eingöngu okkar megin í þessu máli, sem komum inn í málið sem hlutlausir áhorfendur og tökum málið einungis upp vegna þess, að við teljum réttarbótar þörf eftir þann úrskurð, sem prófessorarnir felldu. Hún er áreiðanlega ekki siður af hálfu hv. andmælenda frv., eins og glögglega kom fram í málflutningi hv. 2. þm. Rang.

Ég legg áherzlu á, að þetta mál er eingöngu flutt vegna áhuga um virðingu þess embættis, sem hér er um að ræða, og ég sýndi glögglega fram á áðan, að öll hliðstæð embætti, sem hægt er að telja upp, njóta annaðhvort enn þá meiri eða hliðstæðrar undantekningar frá l. um aldurshámark embættismanna.