07.11.1958
Neðri deild: 17. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (1372)

9. mál, biskupskosning

Frsm. meiri hl. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, þá er í ráði, að þrír þingmenn þessarar hv. d., hæstv. forseti, hv. þm. Hafnf. og ég, förum burt nú um helgina og verðum a.m.k. vikutíma burtu til þess að sitja fund Norðurlandaráðs. Mér þykir það ekki ósennilegt, án þess að ég viti það, að þessi 3 atkv. kunni að geta ráðið úrslitum í málinu. Ég veit ekki hvorum megin nokkur þeirra er, utan ég sjálfur, en sýnt er, að ef þrír menn fara og enginn varamaður kemur í staðinn, þá getur það ráðið úrslitum. Þess vegna þætti mér æskilegra, að málið væri afgreitt hér í dag, ef fært þykir. Auðvitað er það hæstv. forseti, sem ræður því, og sjálfsagt er að gefa mönnum færi á, og sízt hef ég á móti því, að mönnum sé gefið færi á því að flytja brtt.

En þannig stendur á, að máli hefur verið vikið til okkar sjálfstæðismanna til athugunar, og ég hafði hugsað mér, ef hér yrði dráttur á eða stæði yfir fundur til lengdar, að biðja um fundarhlé í hálftíma eða klukkutíma til athugunar því máli, og ég vil skjóta því til hv. frsm. minni hl. og annarra þeirra, sem hafa hug á að flytja brtt., hvort sá frestur, ef hæstv. forseti vildi leyfa hann, mundi nægja til þess að semja brtt. Annars er þetta auðvitað alveg í hendi forseta, og það er ekki hægt að hafa á móti því, að menn hafi tíma til þess að flytja brtt., ég hef sízt á móti því.