12.05.1959
Neðri deild: 125. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í C-deild Alþingistíðinda. (1442)

93. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég skal ekki eyða mörgum orðum hér að þessu máli. Það er í rauninni óþarft fyrir mig, því að ég hef markað mína afstöðu til frv. í nál. á þskj. 488, sem ég hef skrifað undir með fyrirvara. En minn fyrirvari felst í því, að ég er því mótfallinn, að leyfð sé veiði með dragnót innan fiskveiðilandhelginnar. Einnig hef ég markað þessa sömu afstöðu til málsins í áliti, sem Fiskifélag Íslands hefur sent um þetta atriði. En Fiskifélag Íslands, sem bendir á verulega galla á þessu frv., leggur í sínum till. í heild á móti samþykkt frv., þó að það hins vegar bendi á, að þetta mál væri nánar athugað og þyrfti þá frekari undirbúnings, en enn liggur fyrir:

Fiskveiðar okkar voru komnar í mjög óvænt efni, eins og kunnugt er, sökum þess, hve mjög hafði gengið hér á fiskistofninn allar götur frá því að síðustu styrjöld lauk. Og það var vitað, að dragnótaveiðarnar í landhelgi, eins og þær voru reknar hér um nokkurt skeið, áttu mjög verulegan og viðtækan þátt í, að svona illa var komið fyrir okkur, því að flestum mun hafa ofboðið, sem komust eitthvað í kynni við þessar veiðar, hver ósköpin öll voru dregin upp þar af ungviði fisks, sem varð að fleygja í sjóinn aftur jafnóðum og það var dregið upp, af því að það var skammt komið á þroskaskeiðinu.

Ég held, að ef horfið yrði að því ráði að taka upp slíkar veiðar hér aftur, þá þyrfti það mál miklu betri undirbúning, en felst um takmarkanir í þessu frv., sem fyrir liggur. Ég veit, að það verður miklum erfiðleikum háð að halda þessum veiðum í skefjum, ef þær eru leyfðar. Og þess vegna er áreiðanlegt, eins og Fiskifélag Íslands bendir á, að það þyrfti miklu betri undirbúning, en enn er hafinn og í ákvæðum þessa frv. felst til varnar því, að veiðunum sé beitt á háskalegan hátt.

Ég vildi aðeins taka þetta fram, og mín afstaða er sú, að það sé allsendis ótímabært enn, að fara að opna landhelgina fyrir dragnótaveiðum. Auk þess er vitað, og vér fáum að kenna á því daglega, að vér stöndum hér í stríði við erlenda þjóð út af þeim varnarráðstöfunum, sem vér höfum gert til þess að vernda fiskistofninn og fiskveiðar til nota fyrir landsmenn, og langsamlega sterkustu rökin, sem vér höfum getað fært fyrir því að færa svo út landhelgi vora sem vér höfum gert, er það, að hér hafi gengið verulega á fiskistofninn og til auðnar horfi um þennan atvinnuveg, ef ekki verði reist þar rönd við. Þessi deila okkar er ekki að fullu leyst enn, og vel skyldum vér gæta þess að veikja ekki aðstöðu vora í því stranga atriði, er vér nú stöndum í við Englendinga um verndun lífsvarðandi framtíðarhagsmuna þjóðar vorrar af fiskveiðum, og gaumgæfilega athuga það að slá ekki úr hendi með óhyggilegum samþykktum því vopninu, sem áreiðanlega er sterkast fyrir oss í þessari baráttu vori, að hér þurfi verulegra takmarkana og ráðstafana við til þess að öryggja vöxt og viðgang fiskistofnsins við strendur þessa lands.