10.12.1958
Sameinað þing: 15. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í D-deild Alþingistíðinda. (1872)

60. mál, læknishjálp sjómanna á fjarlægum miðum

Flm. (Pétur Ottesen):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér á þskj. 104 till. um læknishjálp sjómanna á fjarlægum miðum.

Íslendingar hafa nú orðið að sæta því að verða að leita á síðari árum allmikið á fjarlæg mið, sökum þess að mikill aflabrestur og vaxandi er á heimamiðum. Fyrst var förinni aðallega beint til Grænlands og stundaðar fiskveiðar þar um nokkurt skeið að undanförnu. Nú á síðasta sumri varð að sækja enn lengra til fanga, alla leið á Nýfundnalandsmið, en þangað er 41/2 sólarhrings sigling og þeir sjómenn, sem þar eru, eru í mikilli fjarlægð við heimalandið.

Þessi breyt. á fiskveiðunum hefur að sjálfsögðu í för með sér, að það hefur risið upp nýtt vandamál í þessu efni, sem er að sjá sjómönnunum, sem fiska á þessum fjarlægu miðum, fyrir nauðsynlegri læknishjálp. Meðan fiskað var við Grænland, var þetta ekki eins alvarlegt mál, af því að hvort tveggja er, að það er miklu skemmri sigling héðan þangað og eiginlega ekki löng sigling, þegar fiskað var við austurströnd Grænlands, en auk þess var hægara um vik að leita þar hafna og fá læknishjálp, þegar slys bar að höndum. En viðhorfið hvað þetta snertir er allt annað á þessum fjarlægu miðum, við Nýfundnaland.

Eins og ég sagði áðan, er 41/2 sólarhrings sigling á þessi mið, en skemmsta leið til hafnar af þessum miðum í Nýfundnalandi er mér sagt að sé um sólarhrings sigling, og er að sjálfsögðu miklum annmörkum bundið, ef slys ber að höndum, að fá í tæka tíð læknishjálp með því að leita þar hafnar. Auk þess er alltilfinnanlegt að þurfa að eyða í slík ferðalög tveimur sólarhringum frá veiðunum. En í það ber þó að sjálfsögðu ekki að horfa, þegar mannslíf er í veði.

En þetta viðhorf, sem nú hefur skapazt þarna á Nýfundnalandsmiðum, er þess eðlis, að fullkomin ástæða er til að leita úrræða, sem tryggja sjómönnum bráðnauðsynlega læknishjálp, ef slys ber að höndum. Ég hef þess vegna flutt þessa till., sem felur í sér ósk um það, að ríkisstj. taki þetta mál til athugunar og reyni að finna leiðir til þess, að úr þessu öryggisleysi sjómannanna á þessum miðum verði að einhverju leyti bætt.

Ég hef í grg. þessarar till. bent á tvennt, sem gæti orðið nokkur lausn á þessu máli. Í fyrra lagi það, sem náttúrlega væri langæskilegast, ef aðstaða væri til, að skip með lækni og aðstöðu til læknishjálpar gæti verið samtímis flotanum á þessum miðum. En ég geri ráð fyrir því, að það mundi reynast mjög kostnaðarsamt. Þá hef ég í öðru lagi bent á, að það væri tekið til athugunar, hvort það gæti ekki leitt til nokkurrar lausnar á þessu máli, að læknir væri þó ávallt á miðunum með þeim hætti, að hann væri í einhverjum togara þar og færi á milli skipanna, þannig að þegar eitt skipið fer heim, þá færi hann í annað skip, sem þá væri að koma á miðin, og þannig tryggð aðstaða til læknishjálpar á miðunum.

Í sumar var það svo, að þá voru að staðaldri og hafa verið allt til þessa tíma um 30 skip, sem sótt hafa á þessi mið, og á þessum skipum eru um 900 manns, svo að það er um marga menn að ræða þarna, sem háðir eru því að geta orðið fyrir slysum við jafnáhættusaman atvinnurekstur og togveiðarnar eru og þá vitanlega sérstaklega þegar vont er í sjó og vond veður ganga yfir. Mér hefur verið sagt frá því, að það hafi t.d. að taka komið fyrir á einum togara í sumar, togaranum Ísborg, að þar tók framan af fjórum fingrum á einum hásetanum. Það tókst að fá læknishjálp við þessu með þeim hætti, að það var samtímis á miðunum rússneskt skip, sem hafði lækni innanborðs, og var hægt að koma manninum undir handleiðslu hans til þess að búa um sár hans.

Náttúrlega má búast við því, að sá háttur, sem ég hef nú rætt um, að hafa lækni í togurunum, yrði ekki fullnægjandi að því leyti til, að það getur náttúrlega borið við og kannske svo dögum skipti, að erfitt sé að hafa samband milli togaranna sökum vondra veðra. En eigi að síður mundi felast í þessu allveruleg úrlausn í þessu máli frá því, sem nú er, þó að æskilegt væri að sjálfsögðu að geta veitt þar önnur og betri og fullkomnari úrræði.

Ég vildi þess vegna vænta þess, að hæstv. Alþ. vildi gefa þessu máli gaum og vísa því til n. til frekari athugunar þessa máls, sem ég geri þá ráð fyrir að mundi verða allshn. Annars legg ég það á vald hæstv. forseta, en ég geri ráð fyrir því, að málefni liggi þannig, að það væri eðlilegt, að það færi til hennar, og vil ég þá gera það að minni till., að málinu verði að lokinni umr. vísað til allshn.