14.01.1959
Sameinað þing: 21. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (1875)

60. mál, læknishjálp sjómanna á fjarlægum miðum

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég vil þakka allshn. fyrir skjóta afgreiðslu á þessari till. Till. hefur vakið mikla athygli hjá þeim sjómönnum, sem fiska á fjarlægum miðum og hafa að sjálfsögðu nú um meira en missirisskeið fundið mjög til þess, hve illa þeir voru settir, þegar slys og veikindi hefur borið að höndum. Ég held, að Alþingi hafi þegar borizt áskoranir frá flestum, ef ekki öllum skipshöfnum íslenzkra togara, sem sótt hafa á þessi mið, um það, að orðið yrði við því, sem í till. felst, að tekið væri til athugunar og leitað ráða til þess að bæta úr því ástandi.

Það er ekki í sjálfri till. eða grg. hennar farið langt inn á það að benda á leiðir til þess að leysa þetta mál. Það er að sjálfsögðu á það bent, sem haldbezt mundi vera, ef þess væri kostur, að hafa skip á þessum miðum, sem sinnti þessu verkefni. Einnig er á það bent, að hugsanlegt væri, að sýnd væri viðleitni til þess að sinna þörfum fiskimannanna á þessum fjarlægu miðum með þeim hætti, að ávallt væri læknir í einhverjum af þeim togurum, sem á veiðum eru þarna á hverjum tíma. Það eru að sjálfsögðu, eins og hér hefur verið bent á, allmikil vandkvæði á því, að slík hjálp gæti ávallt komið að notum, þar sem erfitt gæti orðið að hafa samband á milli skipanna. En þó telja bæði skipstjórar og sjómenn, sem þarna eru, að í þessu mundi þó felast þeim til handa nokkur úrbót eða úrlausn frá því, sem nú er, því að í mörgum tilfellum mundi það nú vera svo, að hægt væri að ná til læknis með þessum hætti, þegar slys ber að höndum eða bráð veikindi. En í þeim tilfellum, þegar það væri ekki hægt, er þó alltaf hægt að leita ráða hjá slíkum lækni, eins og hér var nú bent á áðan að hugsanlegt væri að gera, ef læknir væri staddur á miðunum. En á því eru sjálfsagt allmikil vandkvæði, býst ég við, að ætla að leita læknisráða hér á landi fyrir sjómenn, sem staddir eru á Nýfundnalandsmiðum. Hitt liggur þó miklu nær, ef læknir er staddur á miðunum, að hann geti gefið ráð í þessu efni. En slik ráð mundu náttúrlega í fæstum tilfellum samgilda því, að læknisaðgerð gæti verið fyrir hendi.

Ég veit það eftir undirtektum, sem þetta mál hefur fengið í allshn., og vissi það raunar áður, að Alþingi væri reiðubúið að sinna þessu máli. Þá verður þessi till. nú afgreidd hér frá Alþingi, og kemur þá að sjálfsögðu til kasta hæstv. ríkisstj. að framkvæma það, sem í till. felst, og vil ég í því sambandi snúa mínu máli til hæstv. dómsmrh., sem mun fara með heilbrigðismálin, að hann bregðist hér vel við og leiti tiltækilegra úrræða til úrbóta í þessu efni, og tel ég þá líklegast til þess að fá heppilega lausn þessa máls, að hæstv. ráðh. hefði um það samráð við útgerðarmenn, sjómenn og lækna, hversu fara skyldi að til þess að ráða bót á þessu ástandi. Ég vil ljúka mínum þætti þessa máls hér á Alþingi með því að vænta þess fastlega af hæstv. dómsmrh., sem með heilbrigðismálin fer, að hann beri ráð sín saman við þessa aðila, sem ég hef hér bent á, um það, hvernig bezt verði úr þessu leyst, og að niðurstaðan af því verði sú, að sú bezta og ýtarlegasta lausn, sem hugsanleg er undir þessum erfiðu kringumstæðum, verði tekin. Að sjálfsögðu sýnir reynslan, þegar farið er að vinna að þessu máli, hvaða fyrirkomulag skilar beztum árangri.