14.05.1959
Sameinað þing: 52. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í D-deild Alþingistíðinda. (2036)

171. mál, viti á Geirfugladrangi

Flm. (Pétur Ottesen):

Herra forseti. Till. þessi er um það, að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að gera í samráði við vitamálastjóra ráðstafanir til þess, að reistur verði, svo fljótt sem við verður komið, viti á Geirfugladrangi.

Geirfugladrangur er lítið sker, sem liggur 10 sjómílur út af Eldey. Umhverfis Geirfugladrang eru fjölsótt fiskimið, og auk þess er drangurinn á siglingaleið flutningaskipa. Er það því nauðsynleg öryggisráðstöfun fyrir sjófarendur, að reistur verði viti á drangnum, og yrði þá til frekara öryggis einnig komið fyrir radíómerkjum í vitanum.

Geirfugladrangur er yzti útvörður lands vors á þessum slóðum. Drangurinn er lágur, lítið eitt upp úr sjó. Hafaldan svarrar á drangnum og eyðir honum smám saman, og gæti hann, er tímar líða, orðið að blindskeri þarna á þessari hættulegu siglingaleið. Þetta verður að fyrirbyggja. Enn er drangnum þannig háttað, að talið er, að hægt sé að reisa á honum varanlega vitabyggingu. Þetta þarf að gera sem allra fyrst.

Eftir að ákvörðun var tekin um flutning þessarar tillögu, hefur okkur verið tjáð, að umræður séu hafnar um að hefja á þessu ári athugun á byggingu vitans á þessum stað, og er það sannarlega vel farið. Með þessari till. er að sjálfsögðu lýst stuðningi við þessa fyrirætlan, jafnframt því sem lögð er á það megináherzla, að vitabyggingunni sé hraðað sem allra mest. Eigi þarf að leita til Alþingis um sérstaka fjárveitingu til byggingar vitans, því að hann verður reistur eins og aðrir vitar fyrir fé, sem fæst með vitagjaldi, en þær tekjur nema um 1.7 millj. kr. á ári, eftir því sem vitamálastjóri hefur gefið upplýsingar um.

Við flm. vitum, að það er ríkur áhugi fyrir vitabyggingu þessari, og leggjum við þess vegna áherzlu á það, að till. verði samþykkt til stuðnings og til þess að flýta fyrir þessari framkvæmd. En þinglausnir eru nú ákveðnar í dag, og þess vegna er ekkert svigrúm til þess að vísa þessu máli til nefndar, enda stendur svo á hér, að 8 af 9 fjárveitinganefndarmönnum standa að flutningi þessarar tillögu, en til þeirrar nefndar hefði henni að sjálfsögðu verið vísað, ef um það hefði verið að ræða. Ég vil svo að lokum endurtaka óskir okkar flm. um jákvæða afgreiðslu þessarar tillögu.