15.12.1960
Neðri deild: 39. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

130. mál, söluskattur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þegar sá söluskattur var á lagður, sem nú er rætt um að framlengja, þá held ég að ég megi segja það, að hann hafi komið flestum nokkuð á óvart. Hæstv. ríkisstj. hafði þá lýst því yfir í grg. fyrir fjárlfrv. sínu á s.l. vetri, að hún hygðist að vísu leggja á allmikinn söluskatt, en hún tók það alveg skýrt fram: Ekki er áformað að breyta núgildandi söluskatti í innflutningi, sagði í grg. hæstv. ríkisstj.

Ég hygg því, að það hafi flestir reiknað með því sem nokkurn veginn gefnu, að það væri ráðið hjá hæstv. ríkisstj. að leggja ekki á nýjan söluskatt í innflutningi. En þetta fór á annan veg, eins og menn muna. Það liðu ekki nema nokkrar vikur, þangað til hæstv. ríkisstj. varð að snúa frá þessu fyrirheiti og leggja fram frv. á Alþingi, sem fól í sér hækkun á söluskattinum í innflutningi um rúmlega helming. Áður hafði verið í gildi söluskattur, sem innheimtur var af innflutningi og nam 7% eða í framkvæmd 7.7%, en nú átti að bæta við þessi 7.7% nýjum söluskatti í tolli, sem nam 8.8%, þrátt fyrir þetta loforð, sem ég minntist á, að hafði verið gefið þá nokkrum vikum áður.

Þegar hæstv. ríkisstj. lagði fram till. sínar um þennan stórhækkaða söluskatt í tolli, þurfti hún auðvitað að gefa á því einhverjar skýringar, og skýring hennar var sú, að sá söluskattur, sem stjórnin hygðist leggja á, 3% söluskattur á alla smásöluverzlun í landinu, næði því ekki að innheimtast nema nokkurn hluta af yfirstandandi ári og hann gæti því ekki veitt ríkissjóði þær tekjur, sem áætlað hefði verið í upphafi, og því þyrfti hér að brúa bilið, og af því hefði nú verið horfið að því ráði að leggja á þennan viðbótarsöluskatt í tolli, þrátt fyrir fyrri yfirlýsingu, sem gefin hafði verið nokkrum vikum áður.

Ég hygg, að öllum hv. alþm. hafi verið það ljóst, þegar þessi skýring var gefin, að hún var ekki skýring á því, sem þarna hafði gerzt, hún var ekki fullnægjandi skýring, hún var ekki rétt skýring. Þegar hæstv. ríkisstj. lagði fram fjárlfrv. sitt, sá hún það algerlega fyrir, að sá söluskattur, sem þá var ólögfestur, gat ekki orðið innheimtur allt árið 1960. Þetta vissi hún því nákvæmlega, þegar hún gaf sitt fyrra fyrirheit um það að leggja ekki á frekari söluskatt í tolli en í gildi var.

Enn fremur var það, að líka var augljóst mál, að það þurfti ekki að leggja á nýjan söluskatt svona háan, sem nam 8.8%, til þess að brúa þetta bil. Skýringin, sem þarna var gefin, var því ekki rétt. Það var annað, sem hafði gerzt. Það kom hér nokkuð fram í umr. á hv. Alþingi um það leyti, sem þessi söluskattur var ákveðinn.

Það er enginn vafi á því, að aðalskýringin á því, að horfið var að þessu ráði þrátt fyrir áður gefið loforð, var sú, að ríkisstj. og sérfræðingum hennar hafði talizt rangt til í sínum áætlunum. Sérfræðingarnir höfðu hreinlega reiknað rangt, og það skakkaði yfir 100 millj. kr., og það kom fram strax á fyrstu vikunum, og þurfti að bæta þetta upp með því að finna nýjan tekjustofn. Ég fyrir mitt leyti er ekki í nokkrum vafa um það, að svona var málinu farið, því að hinar skýringarnar gátu ekki dugað með nokkru móti.

En vegna þess að hæstv. ríkisstj. greip nú til þess óyndisúrræðis, vil ég segja, að segja rangt til um það, hvernig komið var, þegar hún lagði þennan skatt á, hefur líka framhaldið orðið svipað og upphafið, að hún lendir aftur í ógöngum. Hún sagðist leggja þennan skatt á sem bráðabirgðaskatt, sem aðeins skyldi gilda út þetta ár. Það var greinilega fram tekið í lögunum, að skatturinn skyldi aðeins gilda til ársloka, og hann var nefndur bráðabirgðaskattur og ábyggilega túlkaður þannig almennt, að hér væri aðeins um bráðabirgðaskatt að ræða, sem ætti að vera hægt að létta af nú í árslokin. En af því að forsendurnar fyrir því að leggja skattinn á voru allt aðrar en þær, sem upp voru gefnar, af því var þetta aldrei bráðabirgðaskattur, af því var aldrei nein von um það, að hægt væri að létta skattinum af nú í árslokin, og af því þurfti nú að grípa til þess að framlengja skattinn að nýju, vegna þess að þannig höfðu fjármál ríkisins verið upp byggð í sambandi við viðreisnarlöggjöfina sem heild, að það þurfti fyllilega á þessum tekjustofni að halda sem föstum tekjustofni, — ekki sem neinum bráðabirgðatekjustofni, heldur sem föstum tekjustofni.

Í þessu sambandi, til þess að skýra málið öllu frekar, vildi ég spyrja hæstv. fjmrh.: Hafi þetta verið hugsað sem bráðabirgðaskattur, sem aðeins ætti að duga út árið 1960, eins og hann var nefndur og eins og hann var settur samkvæmt lögum, hver er þá ástæðan til þess, að það þarf að framlengja hann nú fyrir allt næsta ár? Hvernig stendur á því, að nú þarf að innheimta skatt, sem nemur 170 millj. kr.? Hafa einhverjar vonir hæstv. ríkisstj. brugðizt? Hefur eitthvað gengið úr skorðum hjá hæstv. ríkisstj. í þessum efnum, þannig að bráðabirgðaskatturinn þurfi nú skyndilega að verða að föstum tekjustofni?

Hæstv. ríkisstj. getur auðvitað bezt sjálf gefið svör við þessu. En það er mín skoðun, að út af fyrir sig hafi ekkert brugðizt í þessum efnum. Ég kem ekki auga á, hvað það er, sem hefur gerzt í fjármálum ríkisins sérstaklega, sem réttlæti það, að nú þurfi að leggja á þennan skatt, sem lá ekki nokkurn veginn augljóst fyrir, þegar skatturinn var í upphafi lagður á á s.l. vetri. Hann var áreiðanlega ekki lagður á sem neinn bráðabirgðaskattur. Hann var hugsaður sem fastur tekjustofn fyrir ríkið, því að fjármálin voru þannig upp sett í sambandi við viðreisnarlöggjöfina, að ríkið þurfti á þessu að halda. Skýringarnar, sem gefnar voru, þegar skatturinn var á lagður, fengu ekki staðizt, þær voru frá upphafi rangar.

En í sambandi við þennan skatt kemur vitanlega það upp í huga manns, að það er margt fleira, sem hefur gengið úrskeiðis í sambandi við fyrirætlanir hæstv. ríkisstj. í sambandi við viðreisnarlöggjöfina sem heild. Það er ekki aðeins í sambandi við þennan tekjustofn, það er ekki aðeins, að það, sem kallað var bráðabirgðaskattur og átti að standa aðeins nú til ársloka, fær ekki staðizt, það verður að lögfesta þetta sem fastan tekjustofn. Þetta er ekki eini liðurinn, sem þannig hefur farið öðruvísi en upp var gefið í byrjun. Þetta er aðeins einn af mörgum liðum, sem hefur farið á annan veg en hæstv. ríkisstj. lofaði eða lét í skína í upphafi þess tímabils, þegar hún var að setja sína viðreisnarlöggjöf.

Það er að vísu rétt, að það hefur komið greinilega í ljós, að tekjur ríkissjóðs hafa dregizt saman, en það er ómögulegt að hugsa sér það, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki gert ráð fyrir því, um það leyti sem hún var að lögfesta viðreisnina. Það er vitanlega alveg óhugsandi annað, þegar gengið er inn á þá braut, að minnka á verulega innflutning til landsins, en að þá hlytu tolltekjur ríkissjóðs að minnka um leið. Þegar framkvæma átti almennan samdrátt í atvinnulífi landsins, hlutu líka tekjur þær, sem ríkissjóður hefur af almennri umsetningu, að fara minnkandi. Ég hygg, að hæstv. ríkisstj. hafi haft þetta í huga.

En e.t.v. er það svo, að samdrátturinn hafi orðið meiri en hæstv. ríkisstj. hafði reiknað með, því getur hún ein svarað. Mér er ekki kunnugt um það. En hitt er mér ljóst, að ástandið er þannig í fjármálum ríkisins, að augljóslega þarf ríkið á þessum tekjustofni að halda sem föstum tekjustofni, en ekki sem neinum bráðabirgðatekjustofni, eins og á hefur verið haldið, og ég sé ekki annað betur en hæstv. ríkisstj. verði að áætla tekjur á því fjárlfrv., sem nú er verið að afgreiða, á þá lund, að það muni vera allhæpið, að ekki verði um einhvern greiðsluhalla hjá ríkinu að ræða á næsta ári. Ég vil í þeim efnum benda á það, að efnahagsmálaráðunautur ríkisstj. gerði nú fyrir stuttu endurskoðaða áætlun um það, hvað áætla mætti tekjur ríkissjóðs miklar á næsta ári af öllum helztu tekjuliðum ríkisins. Samkvæmt áætlun hans taldi hann, að ekki væri með nokkru móti hægt að áætla, að tekjurnar yrðu hærri hjá ríkissjóði á næsta ári en fjárlfrv., eins og það var lagt fram nú í byrjun þings, gerði ráð fyrir. En hæstv. ríkisstj. gat ekki komið saman fjárl. nú, þannig að ekki yrði um beinan greiðsluhalla að ræða, ef tekjurnar voru áætlaðar á þessa lund. Af því varð hún að grípa til þess ráðs að áætla hreinlega tekjurnar hærri af tekjustofnum ríkisins á næsta ári en efnahagsmálaráðunautur ríkisstj. alveg nýlega hafði þó gefið út að mætti áætla þessa liði. Ríkisstj. varð að áætla það, að tekjurnar yrðu um 35 millj. kr. hærri, til þess að hægt væri að ná jöfnuði í fjárlfrv. Það bendir því margt til þess, að samdrátturinn sé orðinn slíkur og sé farinn að bitna þannig á sjálfum ríkissjóði, að hann vanti tekjustofna, eins og nú er komið, miðað við þau útgjöld, sem ríkissjóður hefur á sér samkvæmt lögum.

Þegar málin standa svona, get ég ekki séð annað en það sé skylda hæstv. fjmrh. að játa það hreinlega hér á Alþingi og fyrir þjóðinni, að þessi söluskattur, sem hér er til umr. nú, sé enginn bráðabirgðaskattur, hann sé óhjákvæmilegur tekjustofn, nema þá ríkisstj. hafi í huga að breyta hér til, finna eitthvað annað form, skipta um skatt. En ekki er fyrirsjáanlegt annað en hún verði að halda þessum tekjum öllum, því að enginn veit það betur en hæstv. fjmrh., að í framkvæmdinni hefur orðið lítið úr sparnaði hjá ríkinu, og litlar líkur eru til þess, að útgjöld lækki nokkuð hjá ríkinu, eins og á hefur verið haldið, og að ríkið þoli af þeim ástæðum að falla frá einhverjum af sínum eldri tekjustofnum.

Nú er það svo, að þessi söluskattur, sem innheimtur er af innfluttum vörum, er í eðli sínu mjög varhugaverður skattur, og það er mjög illt, að hann skuli þurfa að vera í gildi. Það er enginn vafi á því, að þessi skattur eykur alveg stórkostlega á þá mjög óeðlilegu tollvernd, sem nú er í okkar landi, fyrir ýmsar greinar innlenda iðnaðarins. Það er enginn vafi á því, að einmitt í skjóli þessa söluskatts, sem orðinn er svona hár, og annarrar tollverndar, sem fyrir er og jókst auðvitað til mikilla muna við gengislækkunina, hafa ýmsar greinar iðnaðarins hér innanlands möguleika til þess að hagnast allvel, þó að slíkar iðngreinar eigi í sjálfu sér sáralítinn rétt á sér, vegna þess að þær eru engan veginn samkeppnisfærar, hvernig sem á það mál er litið, við erlendar iðnaðarvörur af sama tagi. Af þessu hefur það leitt, sem menn vita, að vissar iðngreinar hafa beinlínis aukið framleiðslu sína nú á þessu ári í skjóli þessarar stórkostlega auknu tollverndar, á sama tíma sem dregið hefur aftur úr innflutningi á vörum, sem hefði raunverulega verið hægt að selja hér á miklu lægra verði og lækka verðlagið í landinu, ef þessi óeðlilega tollvernd hefði ekki komið til greina.

Það væri því víssulega mikil þörf á því að breyta þessum skatti, því að hann er áreiðanlega hættulegur fyrir atvinnulífið sem heild, og hann heldur hér uppi í landinu mjög óeðlilega háu vöruverði.

Hér hefur áður verið á það minnzt í umr. á hv. Alþingi, hvernig viðreisnarlöggjöfin hefur reynzt í framkvæmd í öðrum greinum efnahagslífsins. Í sambandi við þennan söluskatt gefur að líta nokkra mynd af því, hvernig viðreisnarráðstafanirnar hafa leikið ríkið og ríkissjóð. En ekki er ástandið betra, ef litið er til atvinnuveganna í landinu. Ég veit vel, að þegar hæstv. ríkisstj. nú stendur frammi fyrir slíkum vanda, eins og hún víssulega stendur frammi fyrir, varðandi ástand atvinnuveganna í landinu og þá alveg sérstaklega sjávarútvegsins, og sér, hversu gersamlega ráðstafanir hennar í efnahagsmálum hafa farið út um þúfur í sambandi við það að skapa sjávarútveginum eðlileg rekstrarskilyrði, — ég veit, að þegar hún stendur frammi fyrir þessum vanda, þá er það helzta, sem hún hefur sér til afsökunar, það, að hún hafi tekið við svo slæmu ástandi í efnahagsmálunum, að okkur, sem þá höfðum nokkuð með framkvæmd mála að gera, farist ekki að tala hér mikið um.

En það virðist svo vera, að menn séu ekki fyllilega á það sáttir, hvað sé raunverulega góð afkoma og hvað ekki góð afkoma. Hæstv. ríkisstj. heldur því mjög á lofti, að það hafi verið komið illa okkar efnahagsmálum í árslok 1958, um það leyti sem vinstri stjórnin fór frá völdum. Ég skal ekki fara langt út í að ræða þau mál, en það má öllum mönnum vera ljóst, að það er í rauninni engin afsökun á því, hvernig farið hefur með viðreisnarráðstafanirnar, hvernig ástandið var hér árið 1958 eða einhvern tíma áður. Það, sem skiptir aðalmáli, er, hvernig ástandið er nú, hvernig viðreisnarlöggjöfin hefur reynzt í framkvæmd. En í örfáum orðum vildi ég þó víkja að því, hvernig ástandið var raunverulega í árslok 1958, sem ég tel að hafi raunverulega sýnt þá góða afkomu, en ekki slæma.

Það liggur fyrir, svo að ekki verður hægt að deila mjög um það, að afkoma atvinnuveganna árið 1958 og í árslok 1958 var hin bezta, sem hefur verið um margra ára skeið. Það liggur nú fyrir, að þá var talinn hagnaður á flestum þáttum útgerðarinnar í landinu það ár. Ég hef áður minnzt á það, að reikningaskrifstofa sjávarútvegsins telur, að það hafi verið almennt hagnaður á rekstri bátaflotans í landinu árið 1958. Það liggur líka fyrir, að togaraútgerð landsmanna sýndi þá almennt hagnað. Og frystihúsin hafa lýst því yfir, að það hafi verið eitt þeirra bezta rekstrarár, árið 1958. M.ö.o.: flestar mikilvægustu greinar atvinnulífsins sýna það, því að nú liggja þessar skýrslur að fullu og öllu fyrir, að þá var afkoman hjá þeim góð. En hér er ekki nema um einn þátt að ræða. En á þessu ári, 1958, varð metframleiðsla á Íslandi. Við höfðum aldrei aflað meira á einu ári en þá. Gjaldeyristekjurnar náðu hámarki þá. Var það slæm afkoma? Nei, greiðsluyfirlit, sem út hefur verið gefið fyrir árið 1958 af hagstofunni, sýnir, að það ár hafði þjóðin gjaldeyristekjur litlu minni en öll gjaldeyrisútgjöld voru á því ári. Þá skorti um 90 millj. upp á, að gjaldeyristekjurnar, sem komu inn í bankana, jafngiltu þeim gjaldeyrisútgjöldum, sem voru á því ári, en hins vegar varð á þessu ári um 90 millj. kr. aukning á afurðabirgðum þjóðarinnar, svo að raunverulega var á þessu ári um fultkominn greiðslujöfnuð að ræða. Þetta var ekki vond afkoma. Uppgjör ríkissjóðs fyrir árið 1958 liggur líka fyrir. Það sýndi sig og sýnir sig, að það ár hafði ríkissjóður allálitlegan tekjuafgang.

Spurningin er þá þessi: Hvað er það, sem menn kalla góða afkomu, og hvað kalla þeir vonda afkomu? Það er mín skoðun, að þegar svo árar, að afli er meiri en nokkru sinni fyrr og þjóðartekjurnar hærri en nokkru sinni fyrr, þegar framleiðslutæki þjóðarinnar hafa verið betur notuð en áður og skilað meiri verðmætum á land, þegar ríkissjóður er rekinn með hagnaði og þegar aðalatvinnuvegir landsmanna eru reknir með hagnaði, þá hafi afkoman verið góð.

Nú er einnig sannað, að það er ekki hægt að bera því við lengur, að þessi góða afkoma sjávarútvegsins árið 1958 hafi stafað af því, að honum hafi verið greiddar uppbætur úr útflutningssjóði með skuldasöfnun í útflutningssjóði. Nú hafa reikningar útflutningssjóðs verið gerðir upp, og þeir sýna, að hann hafi staðið mjög vel fjárhagslega í árslok 1958.

En svo heldur hæstv. ríkisstj. nú, að hún geti afsakað allt það, sem aflaga fer í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar nú í dag, aðeins með því að segja: Ja, þegar vinstri stjórnin fór frá í árslok 1958, var hér allt að fara á höfuðið. — Og hvers vegna fór þá vinstri stjórnin frá? er oft spurt. Jú, það er enginn vafi á því, að á árinu 1958 urðu nokkrar kaupgjaldshækkanir, sem að mínum dómi voru fullkomlega eðlilegar vegna aukinna þjóðartekna á því ári. En það var ekki fyllilega samkomulag, eins og allir vita, í þeirri ríkisstj. um það, hvernig fara ætti með þessar kaupgjaldshækkanir, sem þarna voru samþykktar. Það var, nokkur ágreiningur innan stjórnarinnar í þeim efnum, en þó í rauninni ekkert stórvægilegur, ef rétt og eðlilega hefði verið á haldið. Hins vegar hefur það komið betur og betur í ljós síðan, að einn af stjórnarflokkunum, Alþfl., hafði, nokkrum mánuðum áður en vinstri stjórnin fór frá, raunverulega ákveðið að ráða sig í vist til Sjálfstfl. og mynda með honum ríkisstj. Það var alveg greinilegt á allri framkomu eins stjórnarflokksins, Alþfl., á þessum mánuðum, að hann taldi sig ekki vera í vinstri stjórninni, eftir að hann hafði verið píndur til þess að fylgja hinum stjórnarflokkunum í landhelgismálinu: Hann miðaði frá þeim tíma allt sitt starf við það að leysa upp þá stjórn og komast í samstjórn við Sjálfstfl., enda leið ekki á löngu, þangað til þessir flokkar hlupu saman og mynduðu stjórn í árslok 1958 og hafa stjórnað landinu síðan.

Nei, það mun sýna sig betur, að þau rök munu endast núv. ríkisstj. skammt að ætla að afsaka það ófyrirgefanlega ástand, sem þjóðin býr við nú í efnahagsmálum almennt séð, með því, að ástandið í lok ársins 1958 hafi verið orðið svo skelfilegt. Nú liggur uppgjör fyrir um það, hvernig þetta ár raunverulega kom út, svo greinilega, að það ættu ekki að þurfa að verða ýkjamiklar deilur um það. Þótt hæstv. ráðh. grípi oft til þess að rifja upp þá setningu, sem fyrrv. forsrh., forsrh. í vinstri stjórninni, sagði um það leyti, sem var verið að slíta stjórnarsamvinnunni, að það væri ekkert samkomulag innan vinstri stjórnarinnar um ráðstafanir í efnahagsmálunum, þá verður slíkt þeim ekki nægilegt til þess að ætla að sanna mönnum það, að í árslok 1958 hafi efnahagsmál þjóðarinnar raunverulega staðið illa. Það hefur auðvitað komið fyrir áður, að stjórnir, sem myndaðar eru, leysist upp, þar náist ekki samkomulag um afgreiðslu ýmissa mála, ekki sízt ef svo er í pottinn búið, að einn af stjórnarflokkunum hefur af annarlegum ástæðum raunverulega ákveðið að koma stjórninni fyrir kattarnef.

Nei, það, sem nú liggur fyrir, er það, að hvert atriðið af öðru af því, sem var meginatriði í viðreisnarlöggjöfinni, hefur nú sýnt sig í framkvæmd þannig, að framkvæmdin eða reynslan hefur orðið allt önnur en ráð var fyrir gert af hálfu ríkisstj. í upphafi viðreisnartímabilsins.

Sjávarútvegurinn lýsir því nú yfir almennt, að þar sé um lakari rekstraraðstöðu að ræða en nokkru sinni áður hefur þar verið. Og stuðningsmenn ríkisstj., sem verið hafa í útgerðarmannastétt, verða raunverulega að standa með samtök útvegsmanna þannig nú þessa dagana, að þeir miða þeim á ríkisstj. svo að segja eins og spenntri byssu. Það verður að framlengja í eitt skiptið eftir annað aðalfund þeirra, á meðan þeir eru rétt að hugsa sig um, hvort þeir eigi að lýsa því yfir, að engin útgerð geti hafizt um næstu áramót. En þeim þykir þó rétt að bíða nokkuð með slíka tilkynningu, þar til algerlega liggur fyrir, hvort ríkisstj. vill ekki eitthvað láta undan og gefa eitthvað upp af sínum gömlu viðreisnarráðstöfunum.

Þannig hefur viðreisnin farið út um þúfur í sambandi við aðalverkefni hennar, sem var að koma sjávarútveginum á þann rekstrargrundvöll, sem átti að tryggja honum hallalausan og styrkjalausan rekstur.

Og ástandið hjá ríkissjóði er beinlínis að fara á sömu lund þrátt fyrir allan þann tekjuauka, sem ríkissjóður fékk á beinan og óbeinan hátt um það leyti, sem gengislækkunin var samþ. og nýir skattar lagðir þá á. Þrátt fyrir þetta er líka komið svo hjá ríkissjóði, að efnahagsmálasérfræðingur ríkisstj., Jónas Haralz, telur, að engar líkur séu til þess, að ríkissjóður muni hafa tekjur á næsta ári á móti þeim útgjöldum, sem hæstv. ríkisstj. leggur þó til að ákveðin verði með afgreiðslu fjárl. Ríkisstj. hefur þurft að víkja til hliðar áætlunum þessa efnahagssérfræðings nú þessa dagana og áætla, að tekjurnar muni verða meiri, til þess þó að geta náð saman endum. Og til viðbótar verður svo ríkisstj. að leggja hér til, að skattur, sem hún hafði kallað bráðabirgðaskatt og lofað að láta standa aðeins út þetta ár, — hún verður að leggja til að framlengja hann allt næsta ár. Og eins og ég hef bent á, ef viðreisnarstefnan fengi að vera í gildi óbreytt, þá má telja alveg víst, að ríkisstj. þurfi fremur að fara fram á nýja tekjustofna heldur en að búast megi við hinu, að hún geti raunverulega gefið upp þennan bráðabirgðatekjustofn, söluskattinn í tolli, sem ætlað er að gefi ríkissjóði 170 millj. kr. á ári.

Það er svo, eins og ég vék að áður, auðvitað málefni út af fyrir sig, býsna kátbroslegt, að þegar sérfræðingar ríkisstj. og hún sjálf gera mikið úr því, að það megi ekki með nokkru móti vera í gildi neinar reglur um styrki eða uppbætur til sjávarútvegsins og slíkt verði að leggja niður, — þó að hún reyndar neyðist nú til þess þessa dagana að vera að veita sjávarútveginum ýmiss konar styrki, svona bakdyramegin, — að þegar þetta er yfirlýst stefna hennar, að það eigi að hverfa frá öllum styrkjum og öllum uppbótum, þá er hún t.d. í formi þessa söluskatts, sem hér er, sem er innheimtur af innfluttum vörum, að veita ýmsum greinum iðnaðarins hér innanlands stórkostlega nýja styrki og stórkostlegar nýjar uppbætur. Það er það, sem er verið að gera.

Ég veit, að öllum hv. alþm, er það ljóst, í hverju þetta raunverulega felst. Ég skal taka hér dæmi af einni vörutegund, sem ég hef í huga og ég þekki nokkuð til. Þar mun hafa háttað svo til, að sá innlendi iðnaður, sem

þar um ræðir, mun hafa búið að innanlandsmarkaði hér hartnær að hálfu leyti fyrir sína vöru á móti innfluttri vöru af sömu tegund áður. Innlendi iðnaðurinn átti þarna í nokkuð harðri samkeppni áður við hina erlendu iðnaðarvöru, sem inn var flutt. En þá bjó íslenzki iðnaðurinn auðvitað við mjög mikla tollvernd, áður en viðreisnarlöggjöfin var sett, í sambandi við þessa vörutegund eins og aðrar. En svo kemur gengislækkunin. Hún verkar þannig, að innflutta varan í þessu tilfelli hækkaði auðvitað gífurlega mikið með gengislækkuninni. En innlenda varan hækkaði aðeins að því leyti til, sem hráefnið í hana hækkaði vegna gengislækkunarinnar, en helmingurinn eða rúmlega helmingurinn af framleiðslukostnaði þessarar vöru var auðvitað innlent vinnuafl, og það stóð kyrrt og hækkaði ekki. Á þennan hátt fékk þessi innlenda framleiðsla enn þá mjög aukna tollvernd með breytingunni við gengislækkunina. En ofan á allt var svo dengt þessum nýja söluskatti í tolli, 8.8%, sem gerði það að verkum, að þessi iðngrein lagði auðvitað meir og meir undir sig hér á markaðinum innlenda markaðinn og útrýmdi innfluttu vörunni, sem þá gat ekki staðizt samkeppnina, eftir að tollverndin var orðin svona gífurlega mikil.

Ég segi það, að í þessu tilfelli var verið að veita þessari iðngrein, sem ég nefndi hér, og auðvitað mörgum öðrum iðngreinum gífurlega nýja styrki, gífurlegar nýjar uppbætur á kostnað verðlagsins í landinu. En þetta hefur auðvitað verið þveröfugt við þær kenningar, sem hæstv. ríkisstj. hefur haldið fram og sérfræðingar hennar, að hér ætti að gilda sem allra frjálsast verðlag, þannig að aðeins þær greinar í landinu fengju notið sín, sem hér ættu raunverulega rétt á sér, við yrðum að vera fullfærir þátttakendur í hinum frjálsa viðskiptaheimi, og það átti að gerast á þann hátt, að sjávarútvegurinn átti að skattleggjast hér langt fram yfir það, sem er gert við hann í öðrum löndum. Hér mátti leggja á hann, eins og gert var með viðreisnarlöggjöfinni, sérstakan útflutningsskatt, til viðbótar við þá útflutningsskatta, sem hvíldu á honum áður. En dæminu var snúið við með iðnaðinn, sem áður naut þó hér miklu meiri tollverndar en í flestum öðrum löndum, þannig að nú fékk hann enn þá stórkostlega aukna tollvernd. Þetta var auðvitað, eins og ég sagði, í fullkomnu ósamræmi við það, sem kenningar hæstv. ríkisstj. hafa verið um í þessum efnum, og ég er líka sannfærður um það, að þjóðhagslega er þetta mjög hættulegt fyrir okkur, því að við höfum gert alla afkomu sjávarútvegsins mjög erfiða og dregið þar úr framleiðslunni, en hins vegar örvað ýmsar aðrar starfsgreinar í þjóðfélaginu, til bráðabirgða auðvitað, starfsgreinar, sem alls ekki eiga hér rétt á sér í mörgum tilfellum. Ég vil að vísu taka það fram, að í þessum efnum á ég hér alls ekki við allar iðngreinar, það er fjarri því, því að tollverndin hjá hinum ýmsu greinum iðnaðarins er stórkostlega mismunandi. En þessi stórkostlegi söluskattur í innflutningi, sem nú er innheimtur, upp á 16.5%, hefur vitanlega aukið mjög á þessa óeðlilegu tollvernd. Það er því hvort tveggja í senn, að eðli þessa söluskatts kemur í rauninni alveg þvert á yfirlýsta stefnu ríkisstj. í þessum efnum, og þar að auki er svo þessi söluskattur lagður á gegn því, sem ríkisstj. raunverulega hafði lofað á beinan og óbeinan hátt í sambandi við setningu þessa skatts upphaflega.