14.02.1963
Neðri deild: 41. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

144. mál, heimild til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 257, fjallar um það, að ríkisstj. skuli vera heimilt að afhenda þjóðkirkju Íslands endurgjaldslaust til eignar og umsjár jörðina Skálholt í Biskupstungum ásamt öllum mannvirkjum og lausafé, sem nú eru í eigu ríkisins á staðnum, enda veiti biskup Íslands og kirkjuráð eign þessari viðtöku fyrir hönd þjóðkirkju Íslands og hafi þar forræði um framkvæmdir og starfrækslu.

Í 2. gr. frv. er svo mælt fyrir um það, að ríkissjóður skuli árlega leggja 1 millj. kr. í sjóð, sem skuli varið til áframhaldandi uppbyggingar í Skálholti og sem rekstrarfé þeirrar starfrækslu, sem biskup og kirkjuráð koma þar upp. Ég heyrði því miður ekki fyrri hlutann af framsöguræðu hæstv. kirkjumrh. um þetta mál, því að ég var þá bundinn á fundi hér annars staðar í húsinu, en mér skilst, að sú breyt., sem gert er ráð fyrir í þessu frv., sé einkum í því fólgin, að biskup landsins og kirkjuráðsmenn eigi eftirleiðis að hafa umráð Skálholts og standa þar fyrir framkvæmdum þeim, sem ríkið leggur fé til og hefur lagt, og að ákveðið skuli, að þetta framlag verði eftirleiðis 1 millj. kr.

Ekki er ólíklegt, að það út af fyrir sig kunni að vera vel ráðið að setja þessa stjórn yfir jörðina Skálholt og framkvæmdir þar og að ákveða fast framlag til framkvæmda á þessum stað. En ég ætla, að þegar það heyrðist, að verið væri að leggja frv. fyrir Alþ. varðandi Skálholtsstað, þá hafi margir vænt sér annars og meira af því frv. en þar er og orðið fyrir nokkrum vonbrigðum, og þykir mér reyndar, að það hafi þegar komið fram, a.m.k. í ræðum tveggja hv. þm., sem hér hafa tekið til máls.

Ég býst við því, að margir hafi vænzt þess, að í þessu frv. mundi verða fjallað um aðsetur biskupsins á Íslandi í sambandi við Skálholt. Það er nokkuð langt síðan fram komu á Alþ. till. um, að aðsetur biskupsins yfir Íslandi yrði flutt að Skálholti. Ég ætla, að það hafi verið árið 1955, sem þáv. þm. Arn., sem þá var sérstakt kjördæmi, fluttu till. um að undirbúa og leggja fyrir næsta þing frv. um endurreisn biskupsstólsins í Skálholti. Einnig á Alþ. 1956–1957 kom fram till. um þetta mál, flutt af 8 alþm., að ég ætla úr öllum stjórnmálaflokkum, og hljóðaði þannig, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar, að biskup Íslands skuli hafa aðsetur í Skálholti. Jafnframt ályktar Alþ, að fela ríkisstj. að undirbúa þá löggjöf, sem nauðsynleg kann að reynast vegna flutnings biskupsstólsins.“

Enn kom fram á Alþ. 1957-58 till. til þál. um þetta mál, flutt af 14 alþm., sem einnig munu hafa verið úr öllum flokkum þingsins, og hljóðaði svo, með leyfi forseta:

Alþ. ályktar, að biskup Íslands skuli hafa aðsetur í Skálholti.”

Loks kom fram s.l. vetur till. um flutning biskupsstóls að Skálholti, og ætla ég, að hún hafi verið flutt af hv. 1. þm. Vestf., sem áðan ræddi þetta mál, og nokkrum öðrum þm.

Af þessu kemur fram, að margir þm. hafa haft hug á því undanfarinn áratug að vinna að flutningi biskupsstólsins að Skálholti, en þaðan var hann fluttur hingað undir bæjarvegg Bessastaðavaldsins á tímum niðurlægingar og hörmunga eftir móðuharðindin í lok 18. aldar. Það hefur verið þannig talað um þetta mál hér í umr., og má vera, að það sé skilningur hæstv. ráðh., sem flytur málið, að með því að setja nú þessa stjórn yfir Skálholtsstað og afhenda þessari kirkjulegu nefnd, biskupi og kirkjuráðsmönnum, umráð yfir staðnum og þessa milljón á ári, þá sé verið að leggja þetta mál líka a þeirra vald, að ákveða um það, og auðvitað er ekki nema gott um það að segja og eðlilegt á allan hátt, að kirkjunnar menn fjalli um staðsetningu biskupsstóla hér á landi. En þjóðkirkja Íslands er ekki bara biskup landsins og kirkjuráð eða prestastétt, heldur er hún að sjálfsögðu allir þeir kristnu söfnuðir í landinu, sem til þjóðkirkjunnar teljast. Þetta er a.m.k. að mínum skilningi þjóðkirkja Íslands. Og ég vildi mega gera ráð fyrir því, að það, sem hér fer fram nú, þýði ekki það, að Alþ. sé að koma af sér vanda, hér sé verið að koma fram með aðferð til þess, að Alþ. geti komið af sér þeim vanda að taka ákvörðun í þessu máli, sem svo oft hefur legið fyrir þinginu áður. Ég ætla, að hæstv. ráðh. hafi gefið tilefni til þess, að á þetta sé minnzt, og ég vil mega vænta þess, að það sé ekki það, sem gerist á bak við, að það sé verið að finna aðferð til þess, að Alþ. þurfi ekki oftar að fást við till. af þessu tagi, eins og þær, sem ég nú hef minnzt á og fluttar hafa verið. En yfirleitt hefur farið svo um þessar till., hvernig sem á því stendur, þó að þær hafi átt formælendur marga á þingi, sem ráða má af því sérstaklega, að ein till. var flutt af 14 þm., að þær hafa ekki orðið útræddar í þinginu.

Nú þykir mér hlýða að nefna það, að mér er kunnugt, að þetta mál, biskupsstóllinn, aðsetur biskupsins, hefur verið til sérstakrar meðferðar í stjórnskipaðri nefnd, sem starfað hefur undanfarin ár að þessum málum og fleiri skyldum, og er mér kunnugt um það, að sú n. skilaði till. til hæstv. ríkisstj. eða nánar tiltekið hæstv. forsrh., s.1. haust, till. í því máli, varðandi aðsetur biskupsins yfir Íslandi. Og ég vildi spyrjast fyrir um það hjá hæstv. kirkjumrh., hvort hann geti sagt hv. d. nokkuð um það, hvort vænta megi e.t.v. til viðbótar við þetta frv. sérstakra till. um það mál. Ég veit að vísu, að sú till., sem ég er hér að tala um, var ekki afgreidd til hans rn., kirkjumrn., heldur til forsrn. og hæstv. forsrh., vegna þess að n. starfaði á vegum þess rn., en eigi að síður geri ég ráð fyrir, að hæstv. kirkjumrh. sé það mál kunnugt, og ég vil nú inna hann eftir því, hvort hann geti um það sagt á þessu stigi, hvort till. sé að vænta frá ríkisstj. um þetta mál e.t.v. til viðbótar því frv., sem hér hefur verið lagt fram, því að ef svo væri, þá er þetta að sjálfsögðu orðið miklu fyllra mál og stærra og meira um vert en þetta frv. er, sem hér liggur fyrir, þó að ég vilji út af fyrir sig ekki andmæla því, að það kunni að miða í rétta átt.

Biskupsstóll var settur í Skálholti á 11. öld. 1056 tók fyrsti biskupinn við biskupsdómi. Annar biskupinn var það í röðinni, sem gaf Skálholt, til þess að þar skyldi jafnan biskupsstóll vera. Hálfri öld eftir að biskup var settur hér á landi fyrst, fengu Norðlendingar sinn biskupsstól á Hólum í Hjaltadal, og það fyndist mér eðlileg þróun þessara mála, ef Skálholtsbiskup yrði nú eftir herleiðinguna fluttur aftur þangað á Skálholtsstað, þá kæmi einnig að því, eins og fyrri daga, að Hólastóll yrði endurreistur, þegar tími þætti til þess kominn að gera það.