23.11.1966
Sameinað þing: 11. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í D-deild Alþingistíðinda. (2313)

24. mál, endurnýjun strandferðaskipaflotans og skipulagning strandferða

Flm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Við 4 af þm. Framsfl. höfum leyft okkur að bera fram þáltill. á þskj. 24, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa 7 manna mþn. til að gera till. um endurnýjun strandferðaflotans og skipulagningu strandferðanna. Skal n. haga störfum með tilliti til þess, að hægt sé að leggja till. fyrir Alþ. 1967. Skal að því stefnt, að hægt sé að veita landsbyggðinni sem hagkvæmasta þjónustu og reksturinn verði sem ódýrastur, miðað við veitta þjónustu. Á meðan nefndarstörfum er ólokið, leggur þingið að gefnu tilefni áherzlu á, að ekki verði dregið úr strandferðaþjónustunni frá því, sem verið hefur að jafnaði undanfarin ár.“

Þessi till. er að meginmáli samhljóða þeirri, sem við sömu þm. bárum fram í strandferðamálum á síðasta þingi. Breyt. á þeirri till. svo og grg., sem henni fylgdi, eru afleiðingar þess, að málið fékk þá ekki afgreiðslu, og einnig vegna þess, sem gerzt hefur í strandferðamálunum, síðan síðasta þingi lauk.

Það er vitað, að hæstv. ríkisstj. hefur löngum á liðnum árum barmað sér yfir hinum óvefengjanlega rekstrarhalla Skipaútgerðarinnar, sem komið hefur fram í síauknum mæli hin síðari ár. Flestir þeir, sem þekkt hafa til málanna, hafa ekki þurft að fara í grafgötur með að sjá orsakirnar. Þær hafa legið ljósar fyrir. Er þá fyrst að nefna óðaverðbólguna, sem sífellt hefur geisað í æ ríkari mæli, eftir því sem árin hafa liðið, og að algerlega hefur verið vanrækt að gera Skipaútgerðinni léttara um vik að mæta verðbólgunni með því að bæta rekstraraðstöðu hennar, t.d. með umbótum á afgreiðsluaðstöðu hér í Reykjavík, sem er og hefur verið að mörgu leyti neðan við allar hellur, og enn fremur, að algerlega hefur verið vanrækt að endurnýja skipaflotann, fá í stað hinna gömlu og úr sér gengnu skipa ný og hentug skip, sniðin eftir nútímaþörfum og kröfum, sbr. og þar um grg. okkar, sem fylgir till.

Hin augljósa staðreynd í máli þessu er, að bókstaflega ekkert hefur verið gert til þess að bæta rekstraraðstöðu Skipaútgerðarinnar, svo að meiri líkur mættu verða til þess, að hún yrði fremur en áður megnug þess að mæta rekstrarhalla vegna verðbólgu og annarra slíkra erfiðleika Það er vitað, að Skipaútgerð ríkisins hefur löngum verið hálfgert olnbogabarn núverandi ráðamanna. Það sýndi sig strax glögglega við afgreiðslu fjárl. 1959. Þá var rekstrarframlag ríkissjóðs lækkað um rúmlega þriðjung frá fjárl. 1958 og þar með girt fyrir allar umbætur á afgreiðsluaðstöðu útgerðarinnar, t.d. hér við höfnina. Næsta ár var rekstrarframlagið á fjárl. hækkað nokkuð, en var strax lækkað aftur árið á eftir niður í ca. 2/3 af því, sem veitt hafði verið á fjárl. 1958. Þessi niðurskorna fjárveiting til Skipaútgerðarinnar stóð svo óbreytt til fjárl. 1964, og komst þá fyrst dálítið upp fyrir það, sem hafði verið veitt til rekstrar útgerðarinnar áður. Það má segja, að hér hafi verið um hálfgerðan skrípaleik ráðamanna að ræða, því að öllum var kunnugt um rekstrarfjárþörf útgerðarinnar, og mönnum var líka kunnugt um, að nokkru áður var sú eina tekjulind, sem tilheyrði Skipaútgerðinni, vélskipið Þyrill, tekin og seld. Auk þess var vitað, að það var óhjákvæmilegt að greiða raunverulegan rekstrarhalla, sem til féll á hverju ári, enda hefur svo verið gert, þó að fjárlög hafi ekki verið á þessum árum, sem ég minntist á, ríflegri en raun bar vitni.

En ráðamönnum mun þó hafa að lokum þótt áferðarbetra að láta það heita svo, að kvaddir væru einhverjir eða einhver til ráðuneytis og tillagna um úrlausn þessa vandamáls, Skipaútgerðarinnar. Þá mun hafa átt sár stað, að leitað var til norsks sérfræðings, sérfræðings í rekstri strandferða innan norska skerjagarðsins, og það er talið, að verkefni hans hafi átt að vera að gera till. um endurbætur á rekstri strandferðanna hér, en eingöngu með tilliti til gömlu skipanna. Það er ekki vitað, að nokkur árangur hafi orðið af störfum þessa norska manns, en ýmsar sögur hafa gengið um till. hans. Er ein sú, að hann hafi lagt fram nýja till. um strandferðaáætlun byggða á tímaáætlun fyrir hvert skip, sem sagt, klukkan þetta þennan dag hefur ákveðið strandferðaskip viðkomu í tilgreindri höfn og fer svo þaðan á tilgreindum klukkuslætti sama dag. Mér er sagt, að ráðamenn hafi þóttzt hafa himin höndum tekið, þegar þeir fengu þessar till. og það hafi ekki liðið langur tími, þar til eitt strandferðaskipið sigldi úr höfn hér í Reykjavík með slíka tímaáætlun innanborðs. En það fylgir sögunni, að skipið hafi ekki verið komið nema eitthvað áleiðis á Vestfjörðum, þegar álit var komið úr reipunum, og skipið sigldi án þessarar áætlunar áfram um Vestfirði, Norðurland og Austfirði, án þess að á þessa tímaáætlun væri lítið, en skipshöfnin hafði gert að sjálfsögðu allt, sem hún gat, til þess að hraða ferðinni, um leið og hún gerði það, sem unnt var, til þess að fullnægja þeirri þörf, sem var fyrir hendi á hverjum viðkomustað um afgreiðslu og viðkomu. Það er sagt, að það hafi stytzt nokkuð í veru þessa norska sérfræðings eftir þessa reisu, og mun engum hafa þótt slíkt furðulegt, heldur frekar hitt, að ráðamenn skyldu ekki í upphafi hafa kvatt sér til ráðuneytis og aðstoðar í málinu kunnuga innlenda menn, t.d. meðal annarra þrautreynda strandferðaskipstjóra, sem höfðu siglt jafnvel um áratugi farsælum siglingum með ströndum landsins. Þessi tilraun mun því hafa farið út um þúfur og árangurinn ekki orðið annar en eðlilegur kostnaður, sem leiddi af dvöl þessa sérfræðings.

En rekstrarhalli Skipaútgerðarinnar óx ár frá ári, og virðist ekki vera hægt við að gera. Þá var skipuð að sögn fjögurra manna ráðgefandi nefnd innlendra manna, og er sagt, að tveir nm. séu skrifstofumenn hér í Reykjavík, en aðrir tveir af einu landshorninu. Ég veit ekki til, að þessi n. hafi enn skilað nokkrum till. um framtíðarstrandferðir. Þær vanhugsuðu og tillitslitlu framkvæmdir í strandferðamálunum, sem nú er verið að framkvæma, munu því ekki vera runnar undan rifjum þessarar fjögurra manna n., enda slíkt ótrúlegt, heldur verða þær framkvæmdir að skrifast á reikning hæstv. ríkisstj., sem ástæða er því miður til að ætla að hafi látið ráða meir tilraunir til sparnaðar um rekstur strandferðanna, hvað sem líður hagsmunum dreifbýlisfólksins og hvað sem líður mótmælum og kvörtunum fólksins úti á landi, sem þegar eru fram komnar og hljóta að verða því meiri og háværari sem betur sannreynist, við hvað dreifbýlinu er ætlað að búa á næstunni í þessum málum. Og hin fyrirsjáanlega og fyrirhugaða stórskerðing á strandferðaþjónustunni, sem nú blasir við mönnum, kemur í kjölfar þess, að hlutaðeigandi ráðh. hafði að sögn í lok síðasta þings lýst því hátíðlega yfir fyrir þingheimi, að í strandferðamálunum yrði ekkert gert, sem gengi í þá áttina að draga úr strandferðaþjónustunni við fólkið úti á landi.

Það, sem nú liggur opinberlega fyrir, er, að seld hafa verið 2 af gömlu strandferðaskipunum, þ.e. Skjaldbreið og Hekla, og mætti skjóta því að, að eftir fregnum er Hekla, glæsilegasta farþegaskip, sem hefur þjónað hér við ströndina, seld fyrir minna en andvirði eins fiskibáts. Svo mikið liggur við að losa sig við þessi skip, áður en nokkuð viðhlítandi kemur í staðinn. En eftir höfum við samt elzta strandferðaskipið, þ.e. Esju, ekki fyrir það, að hún hafi ekki líka verið boðin út til sölu, heldur fyrir það, að enginn fæst kaupandinn að henni. Þessar söluráðstafanir eru gerðar á haustnóttum, þegar vetur er fram undan og allra veðra er von og strandsiglingar geta af þeim sökum mjög tafizt eða jafnvel hindrazt um lengri eða skemmri tíma, sbr. hafísinn við strendur landsins s.l. vetur og stundum áður. Í stað þessara tveggja skipa, sem búið er að farga eða á að farga á næstunni, kemur eitt leiguskip til 6 mánaða. Það skip er ekki búið frystilest og leysir því ekki flutningsþörf á frosnum matvælum né að flytja beitusíld milli hafna, sem bráðaðkallandi er, fyrst og fremst á vetrarvertíð. Nauðsyn á flutningum á frosnum vörum með ströndum fram flesta tíma ársins hefur löngum verið viðurkennd svo mikil, að öll gömlu strandferðaskipin eru búin frystilestum. Og það hefur sýnt sig, að slíkt hefur reynzt rekstrarlega hagkvæmt fyrir ríkisskipin, því að reynslan hefur sýnt, að það eru frystilestirnar, sem hafa nýtzt tiltölulega bezt. En fyrirsjáanlegar þrengingar fólksins í sambandi við strandferðaþjónustuna, sem ráðamenn ætla því a.m.k. fyrst um sinn að búa við, eru hér með ekki allar taldar. Nú hefur það óhapp skeð, að Herðubreið hefur orðið fyrir svo alvarlegu áfalli, að ósennilegt er talið, að hún komi aftur til starfa á ströndinni. Nú sem stendur virðist því eiga að láta duga til strandferðanna 1 af 4 eldri skipanna og svo hið fyrrnefnda leiguskip, sem auk þess að það er að ýmsu leyti vanbúið til að fullnægja nauðsynlegum strandferðum, þá er það þegar komið í ljós og mun enn betur sannast, að það skip er víðs fjarri því að geta fullnægt þörfum smærri hafnanna og þeim, sem búa við lökust hafnarskilyrði. Gömlu skipin smærri hafa getað lagzt við bryggju á flestum eða öllum viðkomustöðum. En það er vitað, að þetta leiguskip, sem er ekki byggt fyrir íslenzkar aðstæður, heldur grænlenzkar, hefur ekki getað það og mun ekki gera það fremur en verkast vill. Þarf ekki að fjölyrða um afleiðingarnar. Afgreiðsla á bátum úti á rúmsjó er dýr og oft útilokuð í misjöfnum veðrum. Er því fyrirsjáanlegt, að skipið kemur víða að stopulum notum í hinum strjálu ferðum, sem því er ætlað að halda uppi við strendur landsins.

Það er vissulega ekki afsakanlegt, að ráðamenn skuli hafa fækkað svo strandferðaskipunum í fyrstu lotu, að ekki sé borð fyrir báru, þótt óhapp, sem mætti Herðubreið, kæmi fyrir. Það óhapp er ekki annað en ætið verður að gera ráð fyrir að geti hent í skipaútgerð. Og svo aumar sem strandferðirnar voru ætlaðar, því vonlausari verða þær til bjarglegs árangurs, þegar bæði Herðubreið og Skjaldbreið eru samtímis úr leik og ekkert viðhlítandi kemur í staðinn.

Hvað sýnir svo reynslan um flutningaþörfina með ströndum fram? 1965, síðasta árið, sem til eru þar um skýrslur, voru fluttar vörur með skipum Skipaútgerðarinnar sem námu um 45 þús. smál., og þar af á fjarlægari hafnir nálægt 35 þús. smál., eðlilega mest til hafna á Norður- og Austurlandi. Það mun sennilega koma í ljós, að heildarvöruflutningar með ríkisskipunum reynast mun meiri á þessu árí en 1965, sem stafar að miklu leyti af hinum óvenjulegu fóðurbætisflutningum s.l. vetur, sem raunar voru svo miklir, að Skipaútgerðin gat ekki annað þeim. Vonandi kemur slík flutningaþörf ekki fyrir á næstunni aftur. En vissulega þarf ekki mikið út af að bera í þessu efni, þegar 2 skip móti 4 áður eru í strandferðum.

1965 var farþegaflutningurinn tæplega 21 þús. manns þrátt fyrir alla bíla og flugvélar. Af þessum farþegafjölda munu hin 4 almennu strandferðaskip hafa flutt um helming eða 10 1/2 þús. manns til og frá höfnum víðs vegar úti um land og sennilega mest til og frá höfnum, þar sem bílar og flugvélar náðu minnst til.

Þessar staðreyndir um þarfir fólksins á strandferðum sýna, að þær eru ekki neitt smáræði eða hégómamál fyrir fjarlægari landshluta. Norðurland, Austurland og Vestfirðir hljóta að gera skilyrðislausar kröfur til ríkisvaldsins um viðhlítandi strandferðaþjónustu, sem geri fólkinu mögulegt að haldast við í heimabyggðum sínum. Slík þjónusta hefur ætíð kostað og mun ætíð kosta hið opinbera allmikið fé, sem ekki hæfir frekar að draga úr nú en áður fyrr. Hitt er svo annað mál, að skylt er að hafa í huga að sýna hvort tveggja í senn, hagsýni í rekstri strandferðanna, jafnframt því að þjónustan komi sem bezt að notum þeim, sem hennar eiga að njóta. Að slíku viljum við tillögumenn stefna með þáltill. okkar á þskj. 24. Við leggjum þar til, að kosin verði 7 manna nefnd í málið. Gefst þar með öllum þingflokkum tækifæri til að eiga þar einn eða fleiri fulltrúa, og gerum við ráð fyrir, að þingflokkarnir velji í n. menn víðs vegar að af landinu, sem skilyrði hafa til að gerþekkja þarfir landsbyggðarinnar allrar og hvar skórinn kreppir að í þessu máli í hinum dreifðu byggðum og hvað gera þarf til að tryggja viðunandi og sem hagkvæmasta strandferðaþjónustu með sem minnstum tilkostnaði af hálfu þess opinbera. Framkvæmdir í framtíðarskipulagi strandferðanna þola enga bið, og er því þess vænzt, að væntanleg nefnd hraði störfum og hæstv. ríkisstj. fái sem fyrst umbótatill. í sínar hendur frá henni, ef það m.a. gæti orðið til þess, að hún væði ekki lengur en orðið er í villu og svima um það, hvað gera þarf í málinu.

Ég hef nú lauslega vikið að meðferð þessa máls í höndum hæstv. ríkisstj. á undanförnum árum, og verður hverja sögu að segja eins og hún gengur, þótt ekki sé fögur. Leynir sér þar ekki hin furðulega vanræksla og áhugaleysi um að leysa aðkallandi og mikilvægt vandamál, sem alþjóð varðar. Hefur ekki heldur orðið vart við sérstakan áhuga um að flýta fyrir afgreiðslu þessarar þáltill. hér á hv. Alþ., þar sem nú er liðið langt á árið, síðan hún var fyrst lögð fram, og hefur nú loksins fengið byrjunarafgreiðslu, þannig að vænta má, að hún komist til meðferðar í n. Hvað sem liður þessu og öðru slíku, er þegar augljóst og vitað, að þessi till. hefur fengið nokkurn hljómgrunn innan stjórnarliðsins, og því hefur stjórnarherrunum þótt hyggilegt og rétt að sýna nú einhverja framkvæmdatilburði í málum Skipaútgerðarinnar. Þess vegna hafa þau góðu tíðindi gerzt á síðustu dögum, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki séð sér annað fært en leyfa stjórnarnefnd Skipaútgerðar ríkisins að undirbúa kaup á tveimur strandferðarskipum eða afla tilboða í slík skip. Þessu ber vissulega að fagna. En forsaga málsins hræðir og því vart að treysta hröðum framkvæmdum ráðamanna til farsællar lausnar málinu. Forstjóri Skipaútgerðarinnar og aðstoðarmenn hans munu aðeins hafa fengið leyfi til að afla tilboða í eldri og yngri skip, svo og skipasmíði, og má segja, að slíkt sé út af fyrir sig þakkavert, eins langt og það nær. Ég geri ráð fyrir, að hinn áhugasami forstjóri ásamt stjórnarnefnd sinni muni ekki liggja á liði sínu að hraða framkvæmdum um öflun tilboða varðandi ný strandferðaskip, þegar loksins hann hefur fengið það leyfi. En hver getur treyst því, sem hugsar til þess, sem gerzt hefur, að hinir áhugalitlu ráðamenn sofi ekki enn um skeið á málinu, eftir að það aftur er komið í hendur þeirra frá Skipaútgerðinni? Mér virðist því alveg augljóst, að það er ekki síður þörf en áður. að hv. Alþ. kjósi þá nefnd í málið, sem þáltill. okkar fjórmenninganna gerir ráð fyrir. Slík n., kosin af Alþ. á breiðum grundvelli, er líklegur ráðunautur hæstv. ríkisstj., til þess að málinu verði sem farsælast og skjótast ráðið til lykta.

Eins og ég hef vikið að, hefur sífelldur dráttur orðið á því, að Alþ. gæfist kostur á að afgreiða þetta mál. Loksins bjarmar fyrir því, að málinu verði vísað í n. Má búast við, ef dæma má eftir reynslu, að nokkur töf verði um afgreiðslu málsins úr n., og þá er eftir að fá lokaafgreiðsluna hér á hv. Alþ. Það má því gera ráð fyrir, að það verði liðið nokkuð á þetta þing, áður en það fær þá afgreiðslu, sem við flm. gerum ráð fyrir. Við vorum bjartsýnni, þegar till. var lögð fram, en aðgerðarleysi í málinu síðan um afgreiðslu sýnir, að ástæða er til að óttast, að málið fái enn að hvílast um stund.

Með tilliti til þessa viðhorfs er það persónuleg skoðun mín, að komið gæti til mála að breyta till. þann veg, að sú n., sem kosin yrði, hefði umboð til að starfa með hæstv. ríkisstj. að framgangi málsins, vegna þess, hve þetta er allt síðbúið og ákvörðunum í málinu þarf að hraða. Hún gæti þannig orðið ráðgefandi í sambandi við ákvarðanir hæstv. ríkisstj. Ég tel þetta út af fyrir sig ekki mjög æskilega leið, en ef hún gæti orðið til að flýta fyrir því, að Alþingi tæki þetta á einhvern hátt til fastari meðferðar og afgreiðslu en nú horfir við, tel ég það fyllilega athugandi. Ég óttast sem sé, og dreg það af því, sem skeð hefur, að ef hæstv. ríkisstj. hefur málið ein til meðferðar, — óttast ég annaðhvort framkvæmdaleysi eða framkvæmdaslys af hennar hálfu.

Ég vil svo, herra forseti, ljúka máli mínu og vil stinga upp á, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til síðari umr. og til hv. fjvn.