12.04.1967
Sameinað þing: 34. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í D-deild Alþingistíðinda. (2771)

216. mál, námskeið fyrir starfsfólk verksmiðjuiðnaðarins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra farseti. Í lögum um iðnfræðslu, nr. 68/1966, sem samþ. voru á Alþ. á s.l. vori og staðfest 11. maí s.l., segir svo í 15. gr. 2. mgr., með leyfi hæstv. forseta:

„Námskeið fyrir starfsfólk verksmiðjuiðnaðarins skulu haldin eftir nánari ákvörðun ráðherra að fengnum tillögum samtaka iðnrekenda og verksmiðjufólks.“

Enn fremur segir svo í 48. gr. laganna: „Ráðherra setur reglugerðir skv. lögum þessum að fengnum till. iðnfræðsluráðs.“

Skömmu eftir að lögin öðluðust gildi var óskað eftir till. iðnfræðsluráðs varðandi setningu reglugerðar á grundvelli laganna og yrðu þar að sjálfsögðu nánari ákvæði um það, hvernig fyrrnefndum námskeiðum fyrir starfsfólk í verksmiðjuiðnaði yrði hagað framvegis. Till. iðnfræðsluráðs eru ekki enn fullbúnar. Vegna fjölda nýmæla í hinum nýju iðnfræðslulögum er samning reglugerðarinnar mikið verk, en þess er vænzt, að henni verði lokið svo fljótt, að unnt verði að staðfesta reglugerðina fyrir upphaf næsta skólaárs.

Hvað viðkemur sérstaklega námskeiðum þeim, sem um er spurt, höfum við leitað eftir till. frá Iðju, félagi verksmiðjufólks, og samtökum iðnrekenda um tilhögun námskeiðanna, og hefur sérstök n. skipuð fulltrúum þessara samtaka, svo og fulltrúar frá Iðnaðarmálastofnun Íslands, fjallað um skipulagningu og tilhögun námskeiðanna. Till. þessar hafa enn ekki borizt menntmrn., en munu væntanlegar innan skamms. Stefnt er að því, að námskeið þessi geti hafizt á skipulegan hátt hér í Reykjavík við upphaf næsta skólaárs, haustið 1967.