13.11.1968
Sameinað þing: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í D-deild Alþingistíðinda. (3619)

261. mál, Áburðarverksmiðjan

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. sagði hér áðan, að það hefði ekki þótt ástæða til að breyta áburðar verzluninni. Það væri miklu hentugra, að ríkið keypti útlendan áburð, sem þarf að nota, í einu lagi. Þá væri hægt að tryggja, að hér væri nóg af þessari vöru og það væri hægt að komast að miklu betri kaupum með því að gera innkaupin öll í einu lagi og kaupa þá dálítið mikið.

Mér þótti þetta nýstárleg kenning úr munni ráðh., sem telst til Sjálfstfl. Mér hefur skilizt fram að þessu, að þeir hefðu frjálsa verzlun á sinni stefnuskrá, en þetta er eitthvað að breytast. Úr því að þetta gildir um tilbúinn áburð, hlýtur það að gilda um fleiri vörur. Þeir hljóta þá að vilja stofna ríkisverzlun til þess að verzla með aðrar nauðsynjar, sem við kaupum frá öðrum löndum. Það er miklu auðveldara samkvæmt hans orðum að tryggja, að nóg sé til af nauðsynjavörum í landinu, ef þetta er keypt af ríkinu í einu lagi og það er hægt að komast að betri kjörum við kaupin, ef keypt er mikið í einu. Það er nú það.

Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt. Nú vil ég minna á, að hæstv. viðskrh. hefur að undanförnu, þegar hann mætir á aðalfundum Verzlunarráðs Íslands, flutt þar mjög merkilega fyrirlestra um landbúnaðarmál. Nú vildi ég stinga upp á því, að hæstv. landbrh. mæti á næsta aðalfundi Stéttarsambands bænda og flytji þar fyrirlestur um viðskiptamál og boði þessa nýju kenningu sína og síns flokks, að það sé miklu betra, að ríkið taki alla utanríkisverzlunina í sínar hendur. Það fáist betri innkaup og þá sé tryggt, að það verði nóg til af nauðsynjavörum í landinu. Þetta væri verkefni fyrir hann svona til mótvægis við landbúnaðarfyrirlestra starfsbróður hans á aðalfundum Verzlunarráðsins.