14.12.1972
Sameinað þing: 30. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

1. mál, fjárlög 1973

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Mér sýnist raunar, að það muni varla vera siður, að stuðningsþm. hæstv. ríkisstj. tali við fjárlagaafgreiðslu. Það met ég af þeirri stuttu reynzlu, sem ég hef af störfum á Alþ. Og það virðist raunar ekki vera ýkjamikill áhugi fyrir þessu máli, ef meta má af þunnskipuðum sölum. Það mætti nánast ætla, að hér væri um eins konar einkamál hæstv. fjmrh. að ræða.

Ég ætla þó að leyfa mér að segja fáein orð, en vil í upphafi míns máls upplýsa hæstv. fjmrh. um það, að það, sem ég segi hér, verða fyrst og fremst velviljaðar ábendingar, og vona ég, að hann og aðrir líti á það sem slíkt. Raunar mætti segja, að ég hafi nokkra sérstöðu að því leyti í þessu máli, að ég hef í 15 ár veitt ríkisstofnun forstöðu, og ég get þess vegna litið á þetta mál frá hinum endanum.

Ég verð að segja það, að mér hefur virzt mjög miklu ábótavant við undirbúning fjárl., allt frá því að ég kynntist þessum málum fyrst, en þó farið versnandi. Á fyrstu árum var þetta allt saman heldur lítið í sniðum. Þá voru fjárhagsáætlanir gerðar eins og nú eða með svipuðu móti. Þær væru sendar viðkomandi rn., og maður fékk venjulega nokkuð góðan aðgang að þessum rn. og gat rætt þar um málin, og það var jafnvel tiltölulega auðvelt að fá aðgang að fjmrn. og starfsliði þess og benda þar á þá þætti, sem mikilvægastir voru, því að sjálfsögðu var ekki þá fremur en nú veitt fjármagn til alls þess, sem ríkisstofnanir óskuðu.

Fyrir nokkrum árum var hins vegar þessu breytt. Þá var sett upp sérstök fjárlaga- og hagsýslustofnun. Ég tel, að þetta hafi verið réttmætt, því að fjárlagaundirbúningur er allur orðinn langtum meiri og flóknari en áður var. Mér virtist í upphafi, að þessi stofnun eða ágætt starfslið hennar vildi kynna sér málin, þegar þau voru hjá henni, en þetta finnst mér, að hafi breytzt. Nú má segja, virðist mér, að fjárhagsáætlanir, eftir að þær eru farnar frá viðkomandi rn., þar sem venjulega er lítið um þær fjallað, séu læstar inni hjá þessu starfslið í nálægt því skotheldu byrgi. Mér hefur a.m.k. reynzt nánast útilokað að komast þar að til að gera grein fyrir þeim málum, sem ég tel mikilvæg í þeim málaflokkum, sem ég hef fjallað um.

Ég veit, að það ágæta starfslið, sem þarna er, hefur mjög erfitt verk með höndum. Það er ekki vinsælt að þurfa að skera niður óskir fjölmargra aðila, en ég er sannfærður um, að þetta verk væri langtum betur unnið, þegar á heildina er lítið, ef mat á fjárlagaóskum færi fram á fyrra stigi þessa undirbúnings heldur en nú er. Ég er sannfærður um, að það væru betri vinnubrögð, ef starfslið fjárlagastofnunarinnar ásamt t.d. undirnefnd fjvn. skoðaði hina ýmsu liði þegar á sumri og kæmi fjárlagafrv. þannig langtum betur skoðuðu og athuguðu í hendur Alþ. Þetta er fyrst og fremst sú gagnrýni, sem ég vildi koma hér á framfæri og leggja ríka áherzlu á, að þessi vinnubrögð verði tekin til endurskoðunar. Stundum er sagt, að þetta sé allt of mikið verk. En er það þá ekki allt of mikið verk fyrir hv. fjvn. að ætla henni að skoða nálægt því hvern einstakan þátt fjárl. á þeim stutta tíma, sem hún hefur fjárlagafrv, til meðferðar.

Mér er raunar ekkert sérstaklega ljúft að tala hér um þá stofnun, sem ég veiti forstöðu, enda má segja, að það ætti að vera óþarft, því að það sitja 8 alþm. í Rannsóknaráði. En ég hef ekki séð, að neinn þeirra ætli að hafa döngun í sér til þess að ræða um Rannsóknaráð, svo að ég verð víst að gera það sjálfur. Enda má nú segja, að það sé kannske bezta dæmið um meðferð á fjárhagsáætlunum fyrir mig að ræða um, því að ég þekki það að sjálfsögðu bezt.

Um rannsóknir í þágu atvinnuveganna voru sett ný lög árið 1965. Þar var gerð töluverð breyting á því kerfi, sem áður var. M.a. var verkefnum Rannsóknaráðs breytt mjög verulega. Samkv. þessum lögum er því ætlað sem fyrsta og meginverkefni að vinna að eflingu vísinda í landinu. Sem fyrsta aukaverkefni getum við nefnt athugun á nýtingu náttúruauðæfa landsins og eins konar annað aukaverkefni að stuðla að auknu vísindasamstarfi á alþjóðlegum vettvangi. Þegar þessi lög komu til framkvæmda, var þegar gerð allítarleg starfsáætlun og að sjálfsögðu lögð megináherzla á meginverkefni Rannsóknaráðs. Ekki tókst betur til en svo, að fjármagn fékkst næstum ekkert til almennrar eflingar á vísindastarfsemi í landinu, til athugana og rannsókna á því sviði. Hins vegar reyndist tiltölulega auðvelt að fá fjármagn til athugunar og nýtingar náttúruauðæfa landsins, og er það vissulega góðra gjalda vert. Sú starfsemi á vegum Rannsóknaráðs hefur þess vegna blómgazt allmjög. Til þeirrar starfsemi hafa fengizt ágætir starfskraftar, og ég fyrir mitt leyti er mjög stoltur af þeim árangri, sem þarna hefur náðst, vil ég reyndar leyfa mér að fullyrða, að þótt aðeins sé litið á frv., sem nú liggur fyrir þessu hv. Alþ. um þangvinnslu á Reykhólum, sé margfalt endurgoldið það fjármagn, sem til þessarar starfsemi hefur verið veitt. Ég vænti einnig mikils af ítarlegri rannsókn á saltvinnslu á Reykjanesi. En því er ekki að neita, að Rannsóknaráð hefur á meðal vísindamanna legið mjög undir ámæli fyrir það að hafa ekki sinnt meginverkefni ráðsins, að vinna að eflingu og samræmingu rannsóknastarfseminnar í landinu.

Nú brá svo við á þessu ári, að aukinn starfskraftur fékkst, ágætur ungur maður, og sömuleiðis fékkst vilyrði fyrir því, að prýðilegur starfsmaður, sem þar hefur verið lausráðinn, yrði fastráðinn. Þess virtist þá að vænta, að breyting yrði á starfsemi þessarar stofnunar, og var þá þegar hafizt handa og gerð á ný ítarleg starfsáætlun, sem ég er með hér og leyfi mér að fullyrða, að sé einhver sú ítarlegasta, sem opinber stofnun hafi gert. Mætti ætla, að hún væri velkomin, ekki sízt þar sem á það hefur verið deilt, að rannsóknastofnanir hafa yfirleitt ekki gert slíkar starfsáætlanir.

Einnig var gerð áætlun í fjármálum þess efnis að flytja nú starfsemina að verulegu leyti frá athugunum á nýtingu náttúruauðæfa landsins yfir á þann þáttinn, sem er meginverkefni Rannsóknaráðs.

Rannsóknaráð hafði 1972 6 millj. 655 þús. kr. til almennrar starfsemi, auk 2 millj, til að athuga nýtingu náttúruauðæfa landsins á framkvæmdaáætlun, eða 8 millj. 655 þús. Hin nýja fjárhagsáætlun varð upp á 9 millj. 784 þús., en á henni eru þær hækkanir, sem stafa af almennum verðhækkunum í landinu, launahækkunum og þess háttar, samkv. upplýsingum hagsýslustofnunarinnar, útreiknaðar 1 millj. 376 þús. eða nálægt því helmingurinn af þeirri hækkun, sem er á fjárhagsáætluninni frá fjárlagalið Rannsóknaráðs, þegar ekki er tekin með fjárveiting á framkvæmdaáætlun. Þessi áætlun fékk ágætar undirtektir í menntmrn. og var rædd þar og vel farið yfir hana, og var starfsáætluninni fagnað, að því er virtist. Þegar hins vegar fjárlagafrv. birtist, eftir að ég hafði gert nokkrar tilraunir til að fá að vita, hvaða meðferð þetta fengi nú, kom í ljós, að til Rannsóknaráðs eru ætlaðar 6 millj. 76 þús. kr., og í frv. gætir stærilætis og ánægju yfir því, að fjárveiting til Rannsóknaráðs lækki um 579 þús., en að vísu er bent á það, að vextir eru færðir yfir á sérstakan lið hjá fjmrn. Ef það er tekið til greina, er hækkun í tölum á þeim lið, sem á fjárl. er veittur til Rannsóknaráðs, 359 þús. Þá er að sjálfsögðu ekki tekin til greina sú fjárveiting, sem ég nefndi áðan og var á framkvæmdaáætlun, en er þar að sjálfsögðu ekki lengur. En á móti þessu koma 360 þús. í húsaleigu, nákvæmlega sama tala og hækkunin getur talizt og ekki þurfti að greiða áður. Þá kemur hækkun á launum samkv. útreikningi hagsýslustofnunarinnar 400 þús. og hækkun á öðrum kostnaði 600 þús. Er því um raunverulega lækkun um 1 millj. kr. að ræða, eftir að ítarleg starfsáætlun er gerð og reynt að sýna fram á hin ýmsu verkefni. Skorið er niður allt það fjármagn, sem beðið er um til athugunar á þróun vísinda, m.a. á mjög mikilvægum þætti að okkar mati, aðstoð við rannsóknastofnanirnar við gerð langtímaáætlana yfir starfsemi þeirra, sem við teljum mjög nauðsynlega og erum þar sammála því, sem fram hefur komið m.a. hjá hæstv. forseta Nd, hv. Alþ. um starfsáætlun einnar rannsóknastofnunar. Það var einnig gert ráð fyrir því að efna árlega til ársfundar, þar sem öllum alþm. yrði til boðið og reynt að gera grein fyrir þróun vísinda og vísindastarfseminnar almennt, eins og tíðkast hjá mörgum nágrannalöndum okkar. Þetta kostar einnig töluvert fé. Eins og nú horfir, er að sjálfsögðu nauðsynlegt að fella burt þessa liði.

Ég held fyrir mitt leyti, að hér hljóti að vera um mistök að ræða, og mistökin eru beinlínis þau, að hið ágæta starfslið, sem vinnur að niðurskurði á fjárhagsáætlunum, lokar sig inni, eins og ég sagði áðan, og leitar ekki upplýsinga um eðlilega þróun þessara mála. Það telur sig líklega ekki hafa tíma til þess, en það tel ég mikinn skaða.

Ég nefni þetta sem dæmi um þá meðferð, sem fjárhagsáætlanir fá. Ég ætla ekki að lengja umr. hér með því að rekja meðferð á fjárhagsáætlun rannsóknastofnananna almennt. En ég vil leyfa mér að fullyrða, að Hafrannsóknastofnunin geti á engan máta sinnt, svo að vel sé, því stóra verkefni, sem henni er falið og mun fara vaxandi með aukinni friðun á okkar fiskimiðum.

Það er alveg rétt, að þessar stofnanir hafa verið tregar til þess að gera starfsáætlanir. En varpa mætti fram þessari spurningu: Hvers vegna eiga þær að gera starfsáætlun, þegar starfsáætlun fær þær móttökur, sem ég hef nú minnzt á. Það vekur hins vegar mikla athygli í hópi starfsmanna rannsóknastofnana í þágu atvinnuveganna, að Háskóli Íslands hefur bólgnað mjög út og vaxið. Ég er ekki að átelja það. Það er vissulega góðra gjalda vert, þó að ég leyfi mér að fullyrða, að vöxtur háskólans sé alls ekki eins vel hugsaður og eins vel skipulagður og þyrfti að vera. Ég held, að þar megi margt vera á annan veg. Sá einkennilegi háttur hefur þó verið hafður, — ég hygg, að nú sé verið að breyta því, — að hagsýslustjóri sjálfur hefur setið í samstarfsnefnd með háskólamönnum um allar áætlanir háskólans, hefur þannig á einum stað samþykkt það, sem honum ber svo að skera niður á öðrum. Ég hef fyrir satt, að þessu eigi að breyta, og fagna ég því, en legg hins vegar áherzlu á, að starfsmenn hagsýslunnar þurfa hlutlaust að kynna sér, eins og ég er búinn að segja hér oft, sem allra bezt snemma í fjárlagaundirbúningi þær áætlanir og þær hugmyndir, sem liggja að baki allra fjárhagsáætlana.

Ég ætla svo að leyfa mér að minnast á tvö atriði, sem ég er sannfærður um, að gleymska eða misskilningur eða mistök ein valda, að ekki eru með í þessu fjárlagafrv.

Í árslok 1971 var hafið í Vestur-Evrópu samstarf meðlimaríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar um athugun á útbreiðslu loftmengunar frá iðnaði. Það var leitað til okkar hér um þátttöku í þessu með eina endastöð, sem var talin mjög mikilvæg. Eftir ágætar undirtektir og góðan skilning tveggja rn. var ákveðið að ráðast í þetta, enda ekki kostnaðarsamt. Var áætlað, að það kostaði 250–300 þús. kr. Veðurstofa Íslands tók að sér þetta verkefni. Veittar voru 100 þús. kr. af takmörkuðum fjárhæðum Rannsóknaráðs til að koma því af stað. Farið var fram á þegar í maí s.l. 300 þús. kr. til að halda þessari starfsemi áfram á árinu 1973, en ætlað er, að þessi athugun taki 3 ár. Ég sé þetta hvergi í fjárlfrv. og er sannfærður um, eins og ég sagði hér áðan, að hér hljóti að vera um mistök ein að ræða. Það getur ekki verið ætlunin, að við skerumst þarna úr leik í mjög mikilvægu og athyglisverðu máli. Ég get upplýst, að þær mælingar, sem hérna hafa verið gerðar, eru af öðrum þátttökuríkjum taldar mjög mikilvægar, enda frá eins konar endastöð að þessu leyti.

Þá vil ég leyfa mér að minnast á aðrar rannsóknir, sem ekki er heldur um getið í fjárlfrv., rannsóknir á landgrunni okkar. Við afgreiðslu þáltill. um fiskveiðilögsöguna á þinginu í apríl 1971 var samþ. shlj., ef ég man rétt, till. um aukafjárveitingu eða réttara sagt lánsheimild fyrir hæstv. ríkisstj. að upphæð 30 millj. kr. til þess að hleypa af stokkunum landgrunnsrannsóknum. Þessu var tekið sem eðlilegum þætti í tilraun okkar til þess að afla þekkingar um svæði, sem bætzt hefur við og sjálfsagt er að við könnum og skoðum sjálfir, eins og við frekast megum. Það má raunar segja, að okkur beri siðferðileg skylda til þess. Ég legg enga áherzlu á mikla möguleika á olíu eða öðru verðmætu. Það eru hins vegar mjög mikilvægar mælingar, sem þarna eru gerðar, bæði á hafsbotni og dýpt, og munu koma að stórkostlegu liði fyrir íslenzkar fiskveiðar. Hefur það lengi háð okkar fiskveiðum, að við höfum ekki haft eins góðar upplýsingar um þessi mál og jafnvel þær þjóðir, sem við eigum nú í hálfgerðu stríði við.

Það gerist næst í þessu máli, að menntmrn. setur upp samstarfsnefnd um landgrunnsrannsóknir í maí 1972 að till. Rannsóknaráðs ríkisins. Gerð var fjárhagsáætlun, sem skilað var þegar í maí þetta ár, og hljóðaði hún upp á um það bil 12.8 millj. kr. fyrir rannsóknir á landgrunninu á s.l. sumri, en aftur á móti fylgdi einnig þessari áætlun bráðabirgðaáætlun, sem kölluð var, fyrir landgrunnsrannsóknir á sumrinu 1973, upp á 21 millj., enda var talið, að þá fengist meiri tími og betur yrði unnt að sinna þessum málum heldur en á sumrinu 1972, þegar málið var æði síðbúið. Í ljós kom, þegar fjárlfrv. sást, að ekkert fjármagn er ætlað til þessara rannsókna. Landgrunnsnefnd endurskoðaði þá þegar áætlun sína og skilaði nýrri í nóv. s.l. upp á 20.7 millj., eða mjög svipaðri þeirri, sem gerð var í maí 1972. Ég skal ekkert um það segja, hvort ekki megi lækka þessa upphæð eitthvað, það má vel vera. Það hefur verið skoðað og liggur frammi álit um það. En það er sannfæring mín, að ekki geti verið ætlun hæstv. ríkisstj. og hv. fjvn. að hverfa nú með öllu frá þessum rannsóknum, sem svo voru álitnar nauðsynlegar á vorinu 1971, að samþykkt var samróma hér í þessum sal að heimila ríkisstj. að taka lán til rannsóknanna. Ég trúi því ekki, að það sé ætlunin, þegar svo vel var tekið undir þetta mál á s.l. vori, að hæstv. ríkisstj. útvegaði án tafar þá fjárupphæð, sem um var beðið, þannig að unnt var að sinna þessum rannsóknum af ýmsum stofnunum með miklum ágætum á þessu sumri. Þetta er aðeins ábending frá mér til hv. fjvn., sem ég treysti, að verði tekin til athugunar.

Fleiri ábendingum ætla ég ekki að koma hér á framfæri, en ætla aðeins að lokum að lýsa ánægju minni með ýmsa þætti þessa frv. Þar er margt nýstárlegt vissulega, eins og hlýtur að vera í svona stóru máli.

Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni með það blað, sem nú er brotið í náttúruverndarmálum okkar með myndarlegri fjárveitingu á því sviði. Ég er algerlega ósammála því, sem hér hefur komið fram, að þar sé um einhverja ofrausn að ræða. Ég vænti mikils af því starfi, sem þarna fer fram. Ég hygg, að við getum öll gert það. Það er áreiðanlega orðið tímabært að skipuleggja betur en gert hefur verið sambúð okkar við landið, raunar svo tímabært, að til stórvandræða horfir á fjölmörgum sviðum, ef ekki er þegar gripið til ráðstafana. Ég ætla ekki að ræða þau mál. Það hefur verið gert hér fyrr og verður eflaust gert síðar. En ég vil leggja á það ríka áherzlu, að hv. Alþingi þarf að láta þau mál til sín taka 3 vaxandi mæli. Það er ekki aðeins sambýli okkar við landið, heldur einnig góð samhúð þeirra, sem í dreifbýli búa, við þá, sem þéttbýli hyggja, sem um er að ræða. Málin eru þarna ótalmörg og mikil og e.t.v. meiri en við gerum okkur grein fyrir í fljótu bragði.

Ég vil einnig lýsa ánægju minni með fjárveitingar til heilsugæzlustöðva í því kjördæmi, sem ég starfa fyrir, til Ísafjarðar og Patreksfjarðar, og til læknisbústaðarins á Hólmavík, en vil leggja á það ríka áherzlu, að hraða þar framkvæmdum á þessum stöðum, ef ekki á að koma til meiri háttar vandræða, sem raunar má segja, að séu þegar orðin á Hólmavík.

Ég vil lýsa ánægju minni með myndarlegar fjárveitingar til margra skóla, t.d. Reykjaskóla og skólans á Reykjanesi. Að síðustu vil ég lýsa ánægju minni með það, að hin margrómaða Kokkálsvík á Ströndum virðist hafa hlotið náð fyrir augum hv. fjvn. Þar á að byggja ágætt bátalægi. Ég harma að vísu, að ekki skyldi vera nægilegt fjármagn til þess, að ljúka mætti því verki á næsta ári.