06.12.1973
Sameinað þing: 31. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (1027)

109. mál, aðild að háskóla Sameinuðu þjóðanna

Flm. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég hef tekið þetta mál upp hér á hinu háa Alþ. ásamt með hv. 9. landsk. þm., er sú, að ég var í haust einn af fulltrúum Íslands á þingi Sameinuðu þjóðanna, fulltrúum þingflokkanna, og kynntist þá máli þessu og sýndist það vera þess eðlis, að nauðsynlegt væri að taka það upp á Alþ., vegna þess að meðferð málsins hefur ekki verið hér heima eins og hefði þurft að vera. Ég skal ekki þreyta hér langt mál, þó að ástæða væri til þess, vegna þess að hér er um mjög merkilegt mál að ræða.

Hugmyndin um háskóla Sameinuðu þjóðanna mun upphaflega hafa verið fram sett af framkvst. þeirra, U Thant, 1969, í skýrslu hans til allsherjarþingsins. Síðan hefur þetta mál verið hugleitt og verið til umr. hæði hjá Sameinuðu þjóðunum sem stofnun og þó ekki síst hjá ýmsum deildum Sameinuðu þjóðanna, sem um þessi mál hafa fjallað, svo sem UNESCO, Menningarmálastofnuninni, og UNITAR, sem er eins konar tækniþróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Það, sem gerist næst í málinu, er, að á síðasta allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna er samþykkt till. um að undirbúa stofnun þessa háskóla, og með samþykki utanrrn. hér heima stóð Ísland að flutningi þeirrar till. ásamt fleiri löndum. Þar var af hálfu Íslands talað fyrir till. og lýst yfir áhuga Íslands á þessu máli, og það var núv. varafastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, dr. Gunnar G. Schram, sem flutti þá ræðu. Á þennan hátt var Ísland þegar í upphafi tengt þessari hugmynd.

En menn munu þá spyrja: Hvað er háskóli Sameinuðu þjóðanna, og hvaða ástæða er til þess, að Ísland hafi áhuga á þessu máli?

Háskóli Sameinuðu þjóðanna eða hugmyndin um hann var fyrst í því formi, að þetta yrði alþjóðlegur háskóli, þar sem stúdentar væru við nám í ýmsum alþjóðlegum verkefnum. En við nánari athugun á málinu og í þeirri skýrslu, sem nú var lögð af hálfu framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna fyrir stjórnmálanefnd allsherjarþingsins, er orðin sú niðurstaða, að háskólinn verði með öðrum hætti, hann verði á hærra stigi, þ. e. a. s. að þar eigi fyrst og fremst hlut að máli menn, eldri og yngri, sem lengra eru komnir í námi heldur en á sér stað um venjulega háskólastúdenta, það verði sem sagt vísindamenn og menn, sem eru við framhaldsathuganir á viðkomandi sviði, sem eigi sókn í þennan skóla. Í þessu formi mun málið væntanlega verða samþykkt á þingi Sameinuðu þjóðanna nú endanlega, en hins vegar þeirri stjórnarnefnd skólans eða skólaráði, sem kjörið verður, falið að móta ákveðnar þetta starfssvið skólans. Þessi háskóli verður að því leyti sérstæður, að hann mun aðeins fást við alþjóðleg mál, ekki mál, sem snerta einstakar þjóðir, eða vísindastarfsemi, sem snertir einstakar þjóðir, heldur af alþjóðlegum uppruna og eðli. Með þessum háskóla er ætlunin að taka upp þá merkilegu nýbreytni, að aðalstöðvar skólans verði að vísu á ákveðnum stað, en síðar verði deildir skólans staðsettar víða um heim.

Ekki síst þróunarlöndin hafa sýnt mikinn áhuga á þessu máli, vegna þess að með því er vonast til, að hægt verði að koma í veg fyrir þann atgervisflótta eða hvað sem menn vilja kalla þá grein, sem gætir víða, þ. e. a. s. að hinir lærðu menn, sem uppruna eiga í þróunarlöndunum, setjist fremur að heima og síðan komi vísindamenn annarra landa og taki þátt í starfi þeirra háskóladeilda, sem þar eru.

Eins og ég sagði áðan, er ætlunin, að þessi háskóli starfi víðs vegar um heim. Það gerir það að verkum, að við hljótum að gefa gaum að því, Íslendingar, hvort ekki sé einhver sú starfsemi á Íslandi, sem gæti verið fengur að tengja þessum háskóla, þannig að við getum notið góðs af og auk þess að nokkru leyti verið veitendur. Og þá hefur helst komið til greina í því sambandi, að hafrannsóknir, Hafranasóknadeild eða Rannsóknastofnanir atvinnuveganna, yrðu þáttur í þessum skóla.

Í jan. á þessu ári var sent út bréf til allra þjóða, sem höfðu sýnt áhuga á málinu, og spurst fyrir um það, hvað þessar þjóðir vildu leggja af mörkum eða hvaða háskóladeildir eða stofnanir þær gætu hugsað sér, að yrðu tengdar háskólanum, þannig að fram kæmu nú þegar þær óskir, sem væru um þetta efni, og síðan mundi skólaráðið, sem kosið er nú, og því er þetta mjög tímabært mál, taka ákvarðanir um það, hvar þessar einstöku deildir yrðu staðsettar.

Það kannske skýrir best, hvernig á þessu máli hefur verið tekið af sendinefnd okkar eða fastanefnd hjá Sameinuðu þjóðunum, að ég lesi hér smákafla, sem ég held, að sé ekki trúnaðarmál, og vonast til þess, að hæstv. utanrrh. hafi ekki á móti, að komi fram. Það er skýrsla til hans um þetta mál, að ég hygg frá fastanefndinni. Það er viðtal sem varafastafulltrúinn átti við forustumenn Sameinuðu þjóðanna á þessu sviði, en þar kemur fram ábending um það, hvernig við gætum orðið aðilar að þessari stofnun. Svo sem ég gat um, kæmu þar aðallega hafrannsóknir til greina. Jafnframt er þar gerð grein fyrir því, hvernig þessi stofnun hyggst starfa.

„Að því er varðar fyrirkomulag á samvinnu aðildarríkjanna,“ segir í skýrslunni, „og háskólans er þetta helst að segja: Ætlunin er, að ýmist verði nýjar vísindastofnanir stofnaðar í aðildarríkjunum, sem verði hluti hins nýja háskóla, en jafnframt er ráð fyrir því gert, að vísinda- og rannsóknastofnanir, sem nú eru starfandi, geti einnig tengst háskólanum sem deildir hans. Mundu þessar rannsóknastofnanir þá að allnokkru leyti verða að beina starfskröftum sínum að alþjóðlegum verkefnum og einnig opna dyr sínar fyrir vísindamönnum og sérfræðingum frá öðrum þjóðum, sem starfa vilja við hlutaðeigandi stofnanir um skeið. Er gert ráð fyrir því, að því er kostnað varðar, að hlutaðeigandi ríkisstjórnir í þróuðum löndum standi undir kostnaði við slíkar vísindastofnanir. Hins vegar væri gert ráð fyrir því, að alþjóðleg rannsóknarverkefni, sem slíkar vísindastofnanir tækju að sér, væru fjármögnuð sérstaklega úr sjóði háskólans, og einnig, að hinir erlendu vísindamenn fengju styrki úr háskólasjóði, þannig að heimalandið þyrfti ekki að standa straum af kostnaði við dvöl þeirra.

Þá var rætt um hugsanlega samvinnu háskóla Sameinuðu þjóðanna og íslenskra vísindamanna á sviði haf- og fiskifræðirannsókna. Tjáði undirritaður,“ þ. e. a. s. varafastafulltrúinn, „þeim embættismönnum, sem hann ræddi við, að ekkert væri ákveðið af hálfu íslenskra stjórnvalda í þessu efni fram yfir það, sem áður hafði verið frá greint, og ljóst væri, að kostnaðarhliðin mundi ráða úrslitum um, hvort íslensk stjórnvöld hefðu áhuga á framkvæmdum í þessu efni eða ekki. Þeir félager bentu á af þessu tilefni, að unnt væri að hugsa sér tvenns konar fyrirkomulag á samvinnu við Ísland í þessum efnum:

1. Að Hafrannsóknastofnunin sem slík yrði vísindastofnun, sem starfaði sem hluti af háskólanum á sínu sérsviði. Það mundi hafa í för með sér, að stofnunin yrði að vinna að verkefnum, sem talin væru hafa alþjóðlegt gildi, en væntanlega mundu verkefni þau, sem hún hefur með höndum í dag, að miklu leyti falla innan þess ramma. Þar að auki mundi stofnunin verða að opna dyr sínar fyrir erlendum vísindamönnum, sem kysu að taka þátt í rannsóknum og vísindastörfum á þessu sviði innan ramma háskólans.

2. Þá mætti hugsa sér það fyrirkomudag, að innan vébanda Hafrannsóknastofnunarinnar yrði stofnuð sjálfstæð deild, sem starfaði sem deild við háskólann. Yrði sú deild skipuð bæði íslenskum og erlendum vísindamönnum og léti vinna að verkefnum, sem alþjóðlegt vísindagildi hefðu. Jafnframt mundu þau verkefni vitanlega verða íslenskum fiskirannsóknum í hag, eftir því sem föng væru á. Yrði þá ráð fyrir því gert, að þessi sérstaka deild starfaði á sama grundvelli og íslensku vísindamennirnir, þ. e. a. s. fengi rekstrarfé sitt úr ríkissjóði. Að því er varðaði hins vegar kostnað við einstök rannsóknarverkefni, dvöl og þátttöku erlendra vísindamanna á Íslandi, mundi háskólinn geta veitt til þess sérstakar fjárveitingar. Sama gilti um rannsóknarleiðangra. Deild þessi þyrfti ekki að vera stór í sniðum. Vel væri hægt að hugsa sér, að í fyrstu störfuðu þar aðeins 5–6 vísindamenn, t. d. þriðjungur þeirra erlendu, og væri síðan hægt að auka töluna, eftir því sem verkefni væru og fjárhagsaðstaða leyfði. Mundi vitanlega verða náin samvinna milli Hafrannsóknastofnunarinnar og þessarar alþjóðlegu vísindadeildar, bæði hvað snertir starfslið og verkefnaval. Var minnst á af hálfu fulltrúa Sameinuðu þjóðanna, að Þjóðverjar hefðu lagt fram tilboð um stofnun raunvísindastofnunar í tengslum við háskóla, sem mundi í fyrstu verða skipuð fámennu starfsliði, svipað því, sem hér er gert ráð fyrir.“

Ég tel ekki ástæðu til að rekja meira af þessari skýrslu. Hún gefur glögga mynd af því, hvernig þetta gæti orðið, og ég get ekki annað séð en hér sé um mál að ræða, sem er þess eðlis, að það sé æskilegt, enda raunar það skref stigið með því, að Ísland gerðist aðili að flutningi till. um þetta mál, að Ísland haldi í horfinu með það og ákveði raunverulega þátttöku sína og með hverjum hætti hún verður.

Þessu er varpað fram sem hugmynd varðandi Hafrannsóknastofnunina. Mætti hugsa sér, að þetta yrði gert með einhverjum öðrum hætti, en því miður hefur málið ekki verið tekið upp við Sameinuðu þjóðirnar, svo sem gert var ráð fyrir og óskað var eftir í bréfi því frá Sameinuðu þjóðunum, sem sent var út og ég gat um áðan, að hefði verið í byrjun ársins. En það átti einmitt að verða til þess að fá fram óskir og ábendingar frá hinum ýmsu þjóðum sem áhuga hefðu sýnt, með hverjum hætti þær gætu staðið að málinu.

Skýrsla sú, sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lagði nú fram fyrir stjórnmálanefndina, sýndi, að margar þjóðir, bæði hér á Norðurlöndum, í þróunarlöndum og af hálfu stórvelda, — ég er ekki að rekja þau nöfn öll, — hefðu þegar svarað þessu bréfi og bent á ýmsar vísindastofnanir, sem þær hugsuðu sér að geta tengt þessum væntanlega háskóla. Og í skýrslum fulltrúa UNESCO og UNITAR lögðu þeir ríka áherslu á það, að athugun málsins hefði leitt í ljós, að þessi fyrirhugaða stofnun gæti orðið stórkostlega merkileg framfarastofnun á nánast öllum menningarlegum og vísindalegum sviðum, sem hægt væri að vinna að á alþjóðlegum grundvelli.

Það, sem merkast hefur gerst í þessu efni, er, að Japan hefur boðist til að leggja til nægilegan húsakast fyrir aðalháskólann, þ.e.a.s. stofnháskólann, ef svo má segja, sem hinar ýmsu deildir yrðu síðan tengdar, og auk þess að leggja fram 100 millj. dollara í þann sjóð, sem á að vera styrktarsjóður háskólans. Má telja öruggt, að þetta boð, sem er mjög höfðinglegt, verði þegið. En málið er komið á það stig, að það verður ekki lengur dregið að taka ákvörðun um af Íslands hálfu, hvernig að því verði staðið. Eins og ég gat um áðan, stóð Ísland að flutningi till. um að fela framkvæmdastjóranum að ljúka undirbúningi málsins fyrir þetta allsherjarþing. Sú till. var flutt á síðasta allsherjarþingi, og nú fékk íslenska sendinefndin leyfi hæstv. utanrrh. til þess að standa að till. á þessu allsherjarþingi um að ákveða formlega stofnun þessa háskóla. En það, sem er leiðast í málinu, er það, að því miður var bæði bréfum sendinefndarinnar, sem send voru hingað heim, og bréfi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um þetta mál, sem ég gat um áðan, að hefði verið sent út 31. jan. til allra ríkisstjórna aðildarríkjanna, — þessum bréfum var aldrei formlega svarað, og var þó af hálfu sendinefndarinnar sent heim uppkast að svari, þannig að það hefði ekki einu sinni þurft að hafa fyrir því að semja það svar hér heima, heldur hefði mátt undirrita þetta bréf. Ég þykist nokkurn veginn sannfærður um það, að hæstv. utanrrh. sé þessi málsmeðferð mjög ógeðfelld. En framkvæmd málsins heyrir að sjálfsögðu undir annað rn., sem verður að hafa forgöngu um, hvað gerist.

Eins og ég sagði, var okkur leyft núna að standa að flutningi till., og það sakar ekki, að það komi fram hér, að það var einróma álit fulltrúa þingflokkanna, sem sátu þetta þing Sameinuðu þjóðanna, að þeir vildu skora á hæstv. utanrrh. að beita sér fyrir því, að úr þessu máli yrði, vegna þess að sannast sagna er þetta annars orðið æði hlálegt mál fyrir okkur Íslendinga, að vera að hreyfa okkur nokkuð, ef þetta á svo eftir að deyja út af og verða að engu í höndunum á okkur, auk þess sem það var sannfæring okkar allra, að hér var um að ræða mál sem Ísland mætti ekki láta fram hjá sér fara. Hér opnuðust möguleikar til þess bæði að láta til sín taka á alþjóðlegum vettvangi á því sviði, þar sem við höfum sérstöðu, og við eigum mjög ágæta vísindamenn á því sviði, og einnig að fá hingað menn og rannsóknarverkefni ekki síst, sem gætu haft mikla þýðingu fyrir íslenskar haf- og fiskirannsóknir. En það sýnist vera einna helst á þessu sviði, sem við gætum haft alþjóðlega stofnun.

Ég skal ekki, herra forseti, orðlengja frekar um þetta mál. Mér þykir mjög leitt, að þetta skuli hafa staðnað með þessum hætti, og ég þykist nokkuð öruggur um það, að hæstv. utanrrh. hafi komið þessu máli áleiðis formlega, svo sem vera ber, vegna þess að ella hefði hann ekki leyft okkur að gerast aðili að till. nú. En ég hygg, að allir geti verið sammála um, að þetta sé vægast sagt óeðlilegt, — ég vil segja og held, að það sé ekki ofsagt: vítavert að svara ekki tilmælum Sameinuðu þjóðanna um afstöðu til máls, sem Ísland í þessu tilfelli var sjálft flutningsaðili að. Væri í rauninni fróðlegt og gott að fá upplýst, hvernig á þessu máli stendur. En ég vonast til, hvernig sem fer um þessa till., að sjálfsögðu er hún flutt til þess, að hún fái samþykki, og ég vonast til, að hún verði athuguð gaumgæfilega, og efast raunar ekki um, að hæstv. utanrrh. a. m. k. fyrir sitt leyti muni vilja styðja hana, þar sem hann hefur gefið leyfi til þess, að að henni verði staðið, — en hvernig sem hún kann að verða meðhöndluð, þá taldi ég rétt að koma þessu máli hér á framfæri. Því miður voru ekki aðrir þm. í þessari nefnd en ég, og ástæðan til þess, að ég hafði þarna annan flm., er, að sá hv. þm. hefur haft mikinn áhuga á þessu máli. Ég efast ekkert um, að aðrir þm. hafa haft það líka, mér var kunnugt um það, og þess vegna hef ég leyft mér að hreyfa þessu, ekki til að gera það að neinu uppsláttarmáli fyrir mig, heldur af þessari ástæðu. Hefðu aðrir þm. átt hér sæti, sem voru hjá Sameinuðu þjóðunum nú í haust, hefðu þeir vafalaust staðið að till., en þess var ekki kostur, og því er hún flutt með þessum hætti, sem ég vona, að verði ekki málinu til tjóns á neinn hátt.

Ég legg svo til, herra forseti, að till. verði vísað til utanrmn., — er það ekki eðlilegast? Þetta er utanríkismál.