03.05.1974
Efri deild: 116. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4125 í B-deild Alþingistíðinda. (3728)

291. mál, almannatryggingar

Auður Auðuns:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. heilbr.- og trn. hefur þegar tekið fram í framsöguræðu og fram kemur í nál., mælir n. með samþykkt frv. En við tvö, auk mín hv. 3. þm. Reykn., skrifum undir nál. með fyrirvara, og skal ég koma seinna að því, hvaða ákvæði frv. minn fyrirvari snertir.

Þetta frv. er, að því er í grg. segir, samið með það fyrir augum, að eigi sér stað tilfærsla innan almannatryggingakerfisins. Ákvæði frv. um auknar bætur ýmsum aðilum, einstaklingum eða hópum, til handa eru sprottnar í rétta átt, og um þær má segja það, að allir mundu vilja auka bætur til þessara aðila, styðja það, sem hér er lagt til, og gert verði í þágu landsmanna. Hins vegar hefur þá yfirleitt verið á það litið, hvað hlutirnir mundu kosta.

Svo að ég reki ákvæðin, sem í frv. eru að þessu leyti, þá skal ég nú fara fljótt yfir sögu. Eins og fram hefur komið, voru engar aths. við 1. og 2. gr. frv. og ekki heldur við 3. gr. Um þá gr. vil ég segja það, að hún er sniðin að verulegu leyti eftir þeim till., sem sjálfstæðismenn hafa flutt hér á Alþingi, og verð ég að lýsa ánægju minni yfir, að það mál nær nú fram að ganga, þó að í öðru lagafrv, sé. Það sjá menn á brtt., sem n. flytur á þskj. 822, að tölur, sem í frv. felast, eru þegar orðnar hressilega úreltar síðan í haust, að frá frv. mun hafa verið gengið af n., sem undirbjó það. Það var nokkuð um það rætt í n., hvort ætti ekki að miða upphæð þeirra tekna, sem lífeyrisþegunum er heimilt að hafa, án þess að tekjutrygging skerðist, við einhvern ákveðinn hluta af grunnuppbót. En vegna þess að í l. eru yfirleitt bæturnar tilteknar í ákveðinni krónutölu, var það ofan á að víkja ekki frá því. Ég vil sem sé lýsa ánægju minni yfir, að í frv. kemur till. og viðurkenning á þeirri till., sem sjálfstæðismenn hafa áður flutt um þetta mál.

Þá er 4. gr. frv., en eins og menn sjá af grg. og þegar hefur verið skýrt af frsm. n., er ætlunin að spara það í fjölskyldubótum, sem á að standa undir auknum útgjöldum, sem af frv. mundi leiða. Óneitanlega virðist þetta vera nokkuð handahófskennd áætlun. En það er rétt að veita því athygli, að í frv., þegar það er samið, er miðað við 740 þús. kr. brúttótekjur fólks, en það hefði sjálfsagt verið ástæða til að skoða þá upphæð einnig, hvað væri sanngjarnt að hún hækkaði síðan í haust, þegar við hugsum til þess, hvað bótaupphæðirnar hafa hækkað.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um efnishlið málsins. Samkvæmt þessari grein skulu falla niður fjölskyldubætur með fyrsta barni, miðað við visst brúttótekjumark, og einnig ef börnin eru færri en fimm. En hitt má svo út af fyrir sig segja, að hjá fjölskyldu með 4 börn og 700 þús. kr. brúttótekjur er ekki mikið eftir, þegar brýnustu nauðsynjar hafa verið greiddar.

Mér er sagt, að þessi gr. og tekjuöflunin sé hugmynd rn., og er sjálfsagt rétt, að sú hugmynd sé þaðan komin. Tekið er beinlínis fram í grg., að 11. gr. frv. sé ekki komin frá n., sem undirbjó frv., um, að afnám fjölskyldubóta með einu barni eigi ekki að hafa áhrif á kaupgreiðsluvísitölu. Það er varðandi þessar tvær gr., 4. og 11. gr. frv., sem fyrirvari minn gildir.

Við sjálfstæðismenn höfum verið þeirrar skoðunar að fjölskyldubæturnar séu, eins og frsm. n. tók fram, í eðli sínu ekki bætur í þeim skilningi, sem maður leggur í bætur í sambandi við tryggingar, og fjölskyldubæturnar ætti að fella inn í skattakerfið. Um hitt hefur oft verið talað, maður hefur heyrt marga hreyfa því, að það væri óeðlilegt að hafa fjölskyldubætur með einu barni, það ættu allir að geta komist af með eitt barn á framfæri. En í þessu tilfelli á að fella niður fjölskyldubæturnar með einu barni fyrir býsna stóran hóp skattgreiðenda, að ég hygg. Að vísu munu hafa legið fyrir einhverjar upplýsingar miðað við síðustu framtöl um, hve mikill fjöldi skattgreiðenda hafi haft brúttótekjur 700 þús. kr. og þar yfir. En á það er að lita, að það eru þegar orðnar alveg úreltar tölur til viðmiðunar með þeirri ofboðslegu verðbólgu, sem hér geisar.

Það er dálítið furðulegt satt að segja, þegar í næsta sal er hv. Nd. Alþingis að ræða stjfrv., þar sem verið er að hækka fjölskyldubæturnar úr 12 í 15 þús. kr., ef ég man rétt, að í þessari d. er verið að ræða frv., þar sem verið er að taka fjölskyldubætur af fólki og kveða svo á, að það skuli engin áhrif hafa á vísitöluna. En það kannske hefur ekkert að segja að vera að ræða um vísitölu í þessu sambandi, því að hér fyrir handan í Nd. er verið líka að ræða frv., sem ég áður gat um, þar sem lagt er til, að vísitalan verði tekin úr sambandi. En furðulegur hráskinnsleikur er þetta, og ég verð að segja, að ég a.m.k. ætla mér ekki að greiða þessari frvgr. atkv. Það er best, að ríkisstj. beri á henni ábyrgðina.

Það var mikið rætt í n. um 5. gr., upphaf gr. um sérfræðingagjaldið. Það er sagt í grg., að 150 kr. gjald fyrir heimsókn hjá sérfræðingi muni ekki verða til að auka útgjöld Tryggingastofnunarinnar eða sjúkratrygginganna. En það var okkur í n. lítt skiljanlegt, vegna þess að við fengum upplýsingar um, að það væri lágmarksgjald 150 kr. fyrir heimsókn nú og töluvert hærra hjá vissum hópum sérfræðinga, en að vísu lækkandi, þegar menn koma í fleiri heimsóknir til sama sérfræðings. Í sambandi við slíkar vitjanir hjá sérfræðingum er oft ýmislegt annað, sem gert er. Það hafa verið nefnd t.d. hjartarit og sitthvað fleira, sem hefur hleypt þessum kostnaði geysilega mikið upp. Ég held því, að það sé vægast sagt bjartsýni eða m.ö.o. að það megi reikna með því, að þetta ákvæði auki útgjöld trygginganna, hve mikið er sjálfsagt ómögulegt um að segja á þessu stigi.

Um lyfjakostnaðinn var ákaflega mikið rætt líka. A.m.k. er fullyrðing um, að þarna sé ekki um mikla útgjaldaaukningu að ræða, að ég held, meira en hæpin. Var í umr. í n. bent á þá reynslu, sem hefur orðið hjá Svíum af þessu skipulagi, sem þarna er lagt til, að upp verði tekið. Það varð til þess, að lyfjakaupin stórjukust og útgjöld trygginga þar með.

Um röntgengreiningu, sem næst kemur í 5. gr., er ákveðið 250 kr. gjald fyrir hverja röntgengreiningu. Þetta er miðað við það, að fólk greiði áfram fjórða hluta af röntgengreiningarkostnaðinum, heildarkostnaðinum, sem mun í mjög mörgum tilfellum vera um 1000 kr. Hins vegar getur þessi kostnaður farið langtum hærra, 5000–10000 kr., sem einhver sagði mér að gæti farið upp í. Það má kannske segja, að það sé óeðlilegt, að fólk sé látið bera svo mikil útgjöld af nauðsynlegri greiningu, en þá verður líka að horfa á það, að enginn vafi er á því, að þessi liður hlýtur að auka töluvert útgjöld trygginganna. Ég spurði um það í n., hvort ekki væri hægt að fá gagngera athugun á því, hvað þetta mundi kosta, en á því voru talin öll tormerki. Ég vil fyrir mitt leyti segja, að hefði verið gengið í það með góðum fyrirvara að fá um þetta nokkurn veginn örugga vitneskju, þá hefði það átt að vera hægt.

Þá kem ég að 6. gr. frv., en sú gr. er um tannlækningar. Ég skal fyrst snúa mér að skólatannlækningum eða tannlækningum fyrir börn og unglinga 6–15 ára. Þetta er sú tegund af heilbrigðisþjónustu, sem vissulega er nauðsynleg í hverju þjóðfélagi. Þessi þjónusta hefur viða verið veitt í skólum eða á vegum skólanna, þó að hins vegar hafi staðið aukningu hennar fyrir þrifum, að hingað til hefur verið mikill skortur á tannlæknum hér á landi, eins og við vitum.

Í gr. segir, að tryggingarnar skuli greiða 50% á móti sveitarfélögunum. Nú er mér kunnugt um það, að hér í Reykjavík, þar sem hafa verið skólatannlækningar um langt skeið, þótt hins vegar hafi tannlæknaskortur staðið í vegi fyrir því, að þær næðu almennt til barna í skólunum, sem nú er þó úr að rætast og má segja að hafi þegar úr ræst, þá er þrátt fyrir ákvæði laga um, að ríkið greiði, — það er í fyrsta skipti hér, sem það kemur inn í tryggingar, að ríkið greiði helming kostnaðar, — þá er framkvæmdin sú, að hér í Reykjavík t.d. er það 25–26%, sem ríkið greiðir. Það er ekki meira, þegar til kemur. Ekki er vitað hve mikill kostnaður verður af þessu. Ég held, að það sé rennt alveg blint í sjóinn með það. Það er sagt í grg., að hann muni fara, ef ég man rétt, um 45 millj. fram úr því, sem þegar sé á fjárlögum vegna skólatannlækninga. En ég held, að þetta sé heldur lausleg áætlun, ef við hugsum bara um tannlækningakostnaðinn, eins og hann er í dag. Það eru margs konar aðgerðir í sambandi við tannlækningar aðrar en þær, sem taldar eru upp í næstsíðustu málsgr. frv., sem eru undanskildar þátttöku ríkisins eða trygginganna í tannlæknakostnaðinum. Þar er aðeins getið um gullfyllingar, krónu- og brúargerðir, en það eru svo langtum fleiri sérfræðilegar aðgerðir í sambandi við tannlækningar í dag, að þessi útilokun nær ekki nema yfir hluta þeirra, og allar þessar sérfræðiaðgerðir eru geysilega dýrar. Ég skal aðeins nefna það, sem auðvitað kemur ekki til greina nema hjá ungu fólki. Undir þessa gr. frv. falla unglingar á gagnfræðastiginu og enn fremur 16 ára unglingar, að vísu utan skólatannlækninga, en greitt að hálfu af tryggingum. Mér er sagt, t.d., að tannréttingar, sem oft þarf að fá fyrir unglinga, geti hæglega komist upp í 120 þús. kr. á hvern ungling. Það er með áætlun um þetta ákvæði eins og önnur ákvæði frv., að ég held, að sé meira og minna rennt blint í sjóinn. Ég held, að sá grundvöllur, sem í grg. er settur fram, og viðmiðun um útgjöld, sem þar er sett fram, sé meira og minna blekking satt að segja.

Ef við snúum okkur aftur að 3. gr., sem varðar tekjutrygginguna, þá er alveg rennt blint í sjóinn um, hve mikil útgjöld það þýði, enda segir svo beinlínis í grg. Tryggingastofnunin telur, að þar sé um 250 millj. að ræða á ársgrundvelli. Við vitum satt að segja ekkert um, hvernig þetta verður. Rétt er líka að athuga það, að þessi upphæð er miðuð við frv., eins og það var samið í haust. Við sjáum, að þegar eru hækkaðar upphæðir í 3. gr. í till. frá heilbr.- og trn., svo að það er algjörlega rennt blint í sjóinn með þetta.

Sjálfsagt er miklu auðveldara að gera sér grein fyrir sparnaði af niðurfellingu fjölskyldubótanna en áætlanir um útgjöld eru öll meira og minna á sandi reistar. Það má segja, eins og stundum er tekið til orða í dag, að það sé „skotið á“ upphæð til þess að láta dæmið ganga upp. En þrátt fyrir það, mælum við með samþykkt þessa frv. Allt er þetta gott, ágætt að geta veitt þessar auknu bætur og sumt af því, eins og ég áður sagði, mál. sem hafa þegar verið borin fram af þm. og hér eru tekin upp.

Ég verð að lokum að segja það um fjáröflunina til þessara auknu hóta og nýju bótaflokka og endurtaka það, sem ég áðan sagði: Þetta hefðu menn sjálfsagt allt viljað gera og fyrr gera, en það hefur þá verið útgjaldaspursmálið, hvað þetta kostar, sem hefur haldið aftur af mönnum að gera till. um það. Ég verð nú að segja um hráskinnsleikinn með fjölskyldubæturnar, að ég held, að það hefði verið öllu heppilegra að sleppa honum, því að þeim útgjöldum, sem ætlað er, að af þessu verði, sem auðvitað getur alls ekki staðist, 300 millj., — það hefði ekki verið vandi að koma þeim fyrir í þeim hrikalegu fjárlögum, sem verið var að afgreiða hér fyrir jólin. Þar hefði sjálfsagt mátt finna eitthvað, sem frekar hefði mátt missa sig en þær bætur, sem hér er lagt til, að landsfólkinu verði veittar.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um frv. Ég endurtek það, að ég mæli með því. Ég mun samþykkja gr. þess, aðrar en 4. og 11. gr., en tel rétt, að ríkisstj. og stjórnarfl. beri ábyrgð á þeim.