09.05.1974
Sameinað þing: 87. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4443 í B-deild Alþingistíðinda. (4009)

Tilkynning frá forsætisráðherra

Forseti (Eysteinn Jónsson):

Vitað er, að þetta verður síðasti fundur í Sþ. að þessu sinni, og mun ég segja örfá orð, áður en ég gef hæstv. forsrh. orðið.

Mér hefur borist áskorun undirrituð af 31 alþm., bar sem þess er farið á leit, að ég haldi fund í Sþ. til þess að ræða till. til þál. um vantraust á ríkisstj. Um þessa málaleitun hv. alþm. er því til að svara, að svo sem kunnugt er, hefur forseti Íslands gefið út þingrofsboðskap og hæstv. forsrh. hefur skýlausan rétt til þess að birta bann Alþ., þegar hann óskar þess. Dagskrá þessa fundar er í samræmi við þessa þingræðisreglu, og er því ekki unnt að verða við málaleitun hv. alþm. um að taka annað mál fram fyrir þingrofsboðskapinn.

Þetta þing hefur haft fjölda mála til meðferðar, ýmis merk og mörg hlotið afgreiðslu. Störf þingsins hafa þó að sjálfsögðu mótast verulega af þeirri pólitísku stöðu, sem nú leiðir til þingrofs og nýrra kosninga.

Þetta er þjóðhátíðarár, en lífið gengur eigi að síður sinn vanagang í önn dagsins. Einn þáttur í þeirri önn er að efna til alþingiskosninga, þegar þess þykir þörf eftir starfsreglum þingræðis og lýðræðis. Engu þurfa menn um að kvíða, að þetta spilli þjóðhátíðarárinu fremur en önnur nauðsynjaverk, sem vinna þarf í landinu. Þvert á móti ættu alþingiskosningar nú að minna okkur á, að við eigum góðu heilli við frelsi að búa, og gefa þjóðinni tækifæri til að sýna, að hún kann að gera upp málefni sin með vinnuaðferðum lýðræðisins, en einmitt þær vinnuaðferðir hafa fært okkur farsældina og þann góða hag, sem þjóðin býr nú við.

Það mun einnig sýna sig, að þjóðin kann að fagna sameiginlega á þessu ári. Gjarnan má segja frá því nú, þegar við skiljum, vegna þess að það er þáttur í störfum þingsins, sem almenningur þó ekki þekkir, að einmitt þessa sömu viku, sem pólitískar sviptingar hafa staðið hér á Alþ., hafa forustumenn stjórnmálaflokkanna unnið að því sameiginlega með þingforsetum að undirbúa þátt Alþingis í hátíðahöldum þjóðarinnar 28. júlí í sumar á Þingvöllum við Öxará. Og einmitt á þessum vikum hafa stjórnmálaflokkarnir á Alþ. náð algerri samstöðu um stórmál, sem þeir telja sameiginlega verðugt að beita sér fyrir, að afgreitt verði á þeirri fagnaðarhátíð, og sú samstaða mun ekki breytast, hvað sem öðru líður.