12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það hafa talað hér tveir hæstv. ráðherrar í þessari ríkisstj., síðan ég talaði hér í kvöld, og einn fyrrv. ráðh. Ég held nú, að sá hefði átt að fara heim að sofa, og ekki flytja þessa ræðu. En það er ekki hægt við því að gera, þessi ræða var flutt, og mun ég koma síðar að henni.

Hæstv. sjútvrh. gerði margumræddan samning við Breta frá 1961 að umræðuefni og fór að reyna að svara þeim röksemdum, sem fram hafa komið, bæði í fyrri ræðu minni í kvöld og ræðum nokkurra annarra þm. Hann taldi einskis virði breytingu á grunnlinum í samningnum frá 1961. Hann taldi það lítilsvirði, þó að það hefði stækkað íslenska fiskveiðilögsögu á 6. þús. km2, taldi, að það hefði miklu frekar mátt mæla það í dagsláttum. Þannig var málflutningur þessa hæstv. ráðherra, þetta var efnishlið málsins. Það er kannske ekki undir eigandi að halda öllu lengur áfram að mæða við þessa hæstv. ráðherra Alþb., því að þeir eru gersamlega farnir á taugum eftir allt það stríð, sem hefur verið hjá Alþb. að undanförnu.

Svo segir þessi hæstv. ráðherra, og hæstv. forsrh. tók undir það, því það hefur ekki staðið í honum, þó að hann fari heldur vægilega í sakirnar, að við, þessir menn, sem núna hefðum á móti samningnum í þessum umr., hefðum ekkert látið í okkur heyra. Þeir létu að því liggja, að ég hefði eiginlega flúið stjórnarfund í Landssambandi ísl. útvegsmanna, vegna þess að ég hefði ekki þorað að taka afstöðu til þessa máls. Ég mætti á þessum stjórnarfundi, og ég var svo heiðarlegur, heiðarlegri en samstarfsmenn Ólafs Jóhannessonar, Lúðvík Jósepsson og Magnús Kjartansson, að ég sagði á þessum fundi, að ég vildi ekki taka þátt í afgreiðslu þessa máls, vegna þess að þetta mál væri trúnaðarmál í þingflokkunum og þar tæki ég afstöðu til málsins. Ef litið er á þessa afstöðu mína sem neikvæða, þá skil ég það frá hendi Lúðvíks Jósepssonar, hæstv. sjútvrh., og einnig hæstv. iðnrh., en mér þætti gaman að spyrja hæstv. forsrh. að því hvort hann teldi þetta óeðlilegt, hvort þetta hefði ekki verið samkvæmt þeim skilaboðum, sem fulltrúar Sjálfstfl. í utanrmn. báru fram við þingflokk Sjálfstfl. og við tókum allir þm. Sjálfstfl. fyllilega til greina. (Forsrh.: Ég var búinn að birta þetta allt.) Já, en það var ekki búið að afgreiða málið í þingflokki Sjálfstfl. En hér eftir á maður að muna það, ef Ólafur Jóhannesson biður menn fyrir eitthvað sem trúnaðarmál, þá á að segja frá því, eins og félagar hans í ríkisstj. gera. Ég mun meta þennan hæstv. forsrh. hér eftir á þann hátt.

En það var annar maður, sem heitir Lúðvík Jósepsson og er sjútvrh., sem gat ekki beðið eftir fundi utanrmn., eftir að ríkisstj. hafði rætt þennan samkomulagsgrundvöll um morguninn, heldur flýtti Alþb. sér að boða til fundar, áður en aðrir flokkar boðuðu sína þingflokksfundi, áður en fundur í utanrmn. var haldinn. Til þess að sanna þessa frásögn mína er ekki til ómerkara sönnunargagn en sjálfur Þjóðviljinn, málgagn sjútvrh. og iðnrh., en hann segir: „Að loknum fundi utanrmn. voru haldnir fundir í þingflokkunum nema Alþb., sem áður hafði haldið þingflokksfund um till. Bretanna og samþykkt einróma að hafna þeim sem óaðgengilegum. Tilkynnti Alþb. samstarfsfl. sínum í ríkisstj. niðurstöður þingflokksins þegar síðdegis í gærdag.“ Liggur þetta ekki alveg hreint og klárt fyrir? Alþb. braut trúnaðinn við forsrh. og flýtti sér að halda fund og hafna með öllu þessum till. Og bréfið, sem Alþb. sendi samstarfsflokkum sínum í ríkisstj. er á þá leið, að Alþb. eða þingfl. þess hafi fjallað um skýrslu forsrh. frá viðræðunum í London og um till. Breta í landhelgismálinu. Það var skýrsla forsrh. og till. Breta. Það er þetta, sem nú er hér á borðinu, það eru till. Breta. Þingfl. hefur gert eftirfarandi samþykkt um málið: „Þingfl. hafnar till. Breta algjörlega sem óaðgengilegum. Till. Breta fela í sér eftirfarandi breytingar frá áður samþykktum lokatill. Íslendinga í viðræðunum, sem fram fóru í Reykjavík 3. og 4. maí s. l.“ Svo er talað um fækkun skipanna, um lokun veiðisvæðanna, og Alþb. fordæmir alveg þennan samningsgrundvöll og hafnar honum afdráttarlaust á fyrsta degi. Og pólitískur fóstursonur 3. þm. Vestf., gamla Selárdalsbóndans, segir: „Aftur á móti hef ég ekki tekið endanlega afstöðu til þessa máls, en eins og grundvöllurinn liggur fyrir í dag, tel ég ekki rétt að samþykkja hann óbreyttan.“ Svona er gamli maðurinn í Selárdalnum alveg gáttaður á því, að það skuli leyfa sér að vera til menn, sem samþykkja ekki samningsgrundvöllinn. Hann, þessi friðarins engill, taldi, að annað kæmi ekki til greina, þegar hann vaknaði í morgun, en hann mundi sjá um miðjan dag 60 hendur alþm. á lofti með þessum samningi, og ég sá, að það hrukku tár af hvörmum, þegar hann sagði þetta, því að hann er viðkvæmur, eins og allir vita.

Hæstv. sjútvrh. sagði, að við hefðum farið vel með skoðanir okkar. Ég var á fundi með hæstv. sjútvrh. í sumar, eftir að slitnaði upp úr viðræðunum milli Breta og Íslendinga, og það var farið þá að tala mjög um að semja við Þjóðverja og þá e. t. v. taldar miklar líkur á því, að samningar við V.-Þjóðverja mundu takast innan ekki langs tíma. Ég held, að ég hafi á þeim fundi talað mjög umbúðalaust og í fullri vinsemd við hæstv. sjútvrh. um samninga við Breta, og það gerðum við fleiri. Það var engin pólitík í þeim umr., heldur eingöngu málefnaleg röksemdafærsla, sem allir báru þar fram. Ég man ekki betur og heyrði ekki betur en hæstv. sjútvrh. væri ánægður með þær umræður og þær hreinskilnislegu yfirlýsingar, sem þar áttu sér stað, bæði frá mér og öðrum mönnum, sem á þessum fundi voru. Og þessum fundi var stjórnað af hæstv. sjútvrh.

Tókuð þið eftir því áðan, þegar 3. þm. Vestf. talaði um, hvað togurunum mundi fækka mikið. Hann sagði: Eru þessir menn á móti því að fækka þetta mörgum verksmiðjutogurum, þetta mörgum frystitogurum, þetta mörgum stórum togurum, þetta mörgum enn stærri togurum. Þegar menn lögðu þá saman, held ég, að það hafi verið 75, sem fækkaði um. Þetta er bara talað fyrir þá, sem ekkert hugsa. En ég ætla þm. og almenningi það að hugsa og sé löngu liðin tíð að tala á þennan hátt, eins og þessi hv. þm. gerði.

Hæstv. sjútvrh. sagðist vera búinn að takast á við Breta í tvö ár. Það hafa nú verið átök í lagi, eða hitt þó heldur. Hann hefur tekist á við lafðina í tvö ár, og hefur aldrei komið henni á annað hnéð, hvað þá meira, og hafa þó verið þrír um það stundum. Og hvernig hefur verið með landhelgisgæsluna? Hvað var sagt eftir útfærsluna um landhelgisgæsluna? Lúðvík Jósepsson, hæstv. sjútvrh., brá sér til síns heimabæjar til fundar við skipherravarðskips til að ræða við hann, sennilega um hernaðarmál, hvernig skyldi taka togara, og hann lýsti því yfir á eftir, að það yrði tekinn togari eftir nokkra daga. Og það stóð auðvitað ekki á vini hans Hannibal að lýsa líka yfir, að fljótlega yrði tekinn togari, því að ekki hefur hann viljað vera minni en Lúðvík, eins og allir vita. En það var bara enginn togari tekinn allt þetta tímabil. Það var látið liggja að því oft á tíðum, að þetta væri bara landhelgisgæslan. Það vita auðvitað allir menn, að ef landhelgisgæslan hefði fengið fyrirmæli um að taka erlenda togara, þá efast ég ekki um, að íslenskir varðskipsmenn hefðu ráðið við það, áður en hennar hátign sendi herskip inn í íslenska fiskveiðilandhelgi.

Í raun og veru þarf ég ekki að svara hæstv. forsrh. miklu, því að hann kom inn á þetta sama og sjútvrh., að því viðbættu, að hann talaði um þessa veislu, sem ég ásamt 10. þm. Reykv. var boðinn til í Tromsö í Noregi eina kvöldstund. Ég skal segja hæstv. forsrh. það, að þetta var í tilefni þess, að þar voru sjómenn að taka á móti skipi, sem er á leiðinni til landsins. Ég veit ekki, hvernig á þessu stóð, við vorum staddir þarna og okkur var boðið að borða með þessum mönnum. Það voru þar allmargir Norðmenn og svo áhöfn þessa skips, ásamt þeim, sem önnuðust kaupin fyrir útgerðina. Við vorum þarna um kvöldið, en þurftum því miður að fara snemma, við áttum að mæta á flugvelli kl. 5 um morguninn. En eins og 10 þm. Reykv. sagði, þá barst sú fregn, að ríkisstj. væri fallin, og þessi fregn kom frá ágætum framsóknarmanni, og hann var ekkert grátandi, þó að hann tilkynnti þetta, og ég get vel skilið það. En ég var nú ekki glaðari en það að ég sagði: „Fjandans ólán er þetta, að þeir fengu ekki að afgreiða fjárl. og kaupgjaldssamningana a. m. k.“ Þeir mega gjarnan fá það fyrir mér, og ég meina það sannarlega. Það fóru engar tilkynningar fram í ræðuhöldum þarna. Svo skal ég ekki svara hæstv. forsrh. meira.

En mér þykir leitt til þess að vita, að hæstv. forsrh. hefur ekki svarað nokkrum fsp., sem ég lagði fram hérna áðan. Ég spurði hann: Ætla Bretar að viðurkenna 50 mílna fiskveiðilögsögu að samningstímanum loknum, eða má búast við því, að aftur komi herskip inn í íslenska fiskveiðilandhelgi til þess að vernda breska veiðiþjófa, eins og þau hafa gert undanfarna mánuði? Ég spurði einnig: Hvað verður gert við þá togara, sem brotið hafa íslenska fiskveiðilögsögu, frá því að hún var færð út 1. sept. 1972, og sagt er, að allir séu skráðir hjá landhelgisgæslunni?

Var gert um þetta nokkurt samkomulag, munnlegt samkomulag, ef ekki, hver er þá skoðun dómsmrh.? Þessi spurning er nú endurtekin, og báðar þessar spurningar. Okkur leikur forvitni á að heyra, hvaða svar hæstv. dómsmrh. og forsrh. gefur við þessu.

Í sannleika sagt, þegar ég heyrði ræðu 3. þm. Vestf. hér áðan, þá komu mér í hug þessar hendingar úr kvæði Tómasar: „Og svo er mikill ljóssins undrakraftur, að jafnvel gamlir símastaurar syngja í sólskininu og verða grænir aftur.“ Mér finnst þetta eiga ákaflega vel við, að heyra aftur þennan gamla símastaur syngja í sólskininu, í bjarmanum frá þessum ágæta samningi, sem forsrh. kom með frá Mr. Heath. Hann sagði það, að við værum undanvillingar, sem ekki vildum samþ. samninginn. Þeir eru sko ekki undanvillingar, kommarnir hans núna, því að nú eru þeir alveg komnir á rétta línu, og félagi hans og stórvinur, 7. landsk. þm., var bara undanvillingur örstuttan tíma, meðan hann var á forsíðunni í Alþýðublaðinu. Nú er hann ekki lengur undanvillingur. Nú erum það við. Og hann segir, að við séum svo voðalegir, að við séum að ráðast á forustu okkar flokks, sem standi að þessum samningi alveg eins og stjórnarliðið, því að sjáandi sér hann ekki og heyrandi heyrir hann ekki. Hefur það gjörsamlega farið fram hjá þessum gamla manni í dag, að stjórnarliðið, að viðbættum Alþfl., hefur skilað hér nál. upp á eina og hálfa línu, en fulltrúar Sjálfstæðisfl. í utanrmn., sem báðir hverjir lýsa yfir stuðningi við þessa þáltill., gera fjölmargar athugasemdir bæði við efni samkomulagsins, en þó sérstaklega við alla málsmeðferð? Þetta þýðir ekki, að þeir hafi haft forustu eða að þeir hafi samið þetta samkomulag. Það, sem okkur greinir á, mig og þessa, sem hv. 3. þm. Vestf. — enda hefur hann helst efni á því — kallar undanvillinga, við aðra okkar flokksbræður, er það, að við teljum galla samningsins vera það mikla og hafa það alvarlegar afleiðingar, ef samningurinn verður samþykktur, að við getum ekki fellt okkur við að samþykkja þessa þáltill., en þeir, þrátt fyrir þær athugasemdir, sem þeir gera, bæði efnislega við samninginn og alla málsmeðferð, telja sig heldur vilja samþykkja till., þó þeir telji sig vera fjarri því að vera ánægðir með samninginn.

Ég verð að segja það, að mér finnst koma úr hörðustu átt, þegar 3, þm. Vestf. er að kalla þm. undanvillinga. Hver hefur oftar verið undanvillingur í íslenskum stjórnmálum á liðnum áratugum en núverandi hv. 3. þm. Vestf.? Hann hefur vaxið undanvillingur úr Alþfl. Lengi var hann erfiður þar. Þegar kratar lágu svona, þá vildi hann liggja hinsegin, og það endaði með því að hann fór, og hann fór með marga úr Alþfl. með sér. Þá voru kommúnistar einangraðir, og þeim fannst gott að fá liðsauka, jafnvel að fá undanvilling, og þeir tóku við þessum undanvillingi fegins hendi, af því að það kom dálítið með honum úr Alþfl. En Alþb. hélt ekki þessum manni mjög lengi, hann varð aftur undanvillingur þar, og hann hefur verið hálfgerður undanvillingur alltaf síðan. Hann gerðist forustumaður í samtökum frjálslyndra og vinstri manna, sem nú eru talin mistök almennt, sem er eðlilegt, enda hefur einn af þessum mönnum lýst þeim flokki og vinnubrögðum þar með þeim hætti. Þar drap hann strax af sér 1/5 af þingliðinu, það tók ekki langan tíma, og ef karl heldur lengi áfram, þá veit ég, að það fer ekki hjá því, að hann verður einu sinni enn undanvillingur. Hvaða íslenskur stjórnmálamaður á frekar skilið þá nafnbót að vera kallaður undanvillingur en Hannibal Valdimarsson? Ekki einn einasti.

Ég furða mig á því, að menn skuli leyfa sér að segja það, að ef menn eru ekki með einhverju máli og menn hafa sannfæringu í máli og vilja berjast fyrir þeirri sannfæringu, þá geri þeir það af einhverjum illum hug til þeirra manna, sem sitja með þeim á þingi. Þetta sagði hv. 3. þm. Vestf. um okkur þm. Sjálfstfl. í Vestfjarðakjördæmi og 3. þm Sunnl., að það væri gert eingöngu af illgirni til kollega okkar þm. úr þessu kjördæmi. Svona geta þeir talað, sem þannig eru innrættir, hinir ekki. Ég er ekki á móti þessum samningi af því, að Hannibal Valdimarsson og Karvel Pálmason, Steingrímur Hermannsson og Bjarni Guðbjörnsson ætla að greiða honum atkvæði. Ég harma það, að þið skulið greiða honum atkvæði. Ég hefði óskað helst eftir því, að þeir greiddu líka atkvæði á móti, því að það fer ekkert kjördæmi jafnilla út úr þessum samningi og Vestfjarðakjördæmið.

Hannibal Valdimarsson var sá maður, sem vildi taka mikið tillit til verkalýðshreyfingarinnar. Hann var form. verkalýðsfélagsins Baldurs á Ísafirði. Hann var form. Alþýðusambands Vestfjarða í mörg ár. Hann var forseti Alþýðusambands Íslands. Er Alþýðusamband Vestfjarða að gera Hannibal bölvun, Karvel, sem þar á sæti, Steingrími eða Bjarna með því að samþykkja till. í landhelgismálinu nú nýlega á 21. þingi þess, en þar segir m. a. um þessa till., að 21. þing Alþýðusambands Vestfjarða skori á ríkisstj og Alþ. að víkja hvergi frá markaðri stefnu í landhelgismálinu og vari við öllum samningum þar um við þá, sem hafa beitt herskipavaldi til að torvelda framkvæmd landhelgisgæslunnar innan 50 mílnanna á s. l. sumri. Það er ekkert verið að draga þar neitt úr vilja Alþýðusambands Vestfjarða. Er það af illgirni við Hannibal Valdimarsson, að Alþýðusamband Vestfjarða er að samþykkja þessar tillögur? Hvað á svona málflutningur eiginlega að þýða? Hvernig talaði þessi maður 1961, bæði hér á Alþ. og utan þings? Hvernig talaði hann þá um þennan samning? Þá kom hann ekki hér með tárvot augu og sagðist ekki trúa því, að nokkur maður mundi berjast gegn þeim samningi, sem þá var til umr. á hv. Alþ. Hvernig talaði þessi maður fyrir kosningarnar 1971? Þá bar hann kyndil frelsisins eins hátt og höndin leyfði. Þá lýsti hann því yfir, að það væri ekki hægt að trúa stjórnarliðinu, sem þá var, fyrir framvindu landhelgismálsins. Það mundi bregðast, það mundi svíkja. Það er nú komið á daginn, hverjir eru fyrst og fremst að svíkja. Hann sagði þá: En við erum öruggir með að koma þessu máli í höfn. Við ætlum ekki að leyfa erlendum skipum að veiða innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Við ætlum ekki að gera niðurlægjandi samninga við ofbeldisöflin og leyfa þeim að veiða innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi. — Þá var ekki ræðan, sem hann flutti hér áðan, flutt fyrir kjósendum vestur á fjörðum, alls ekki. Það var eitthvað annað. Þá bar hann kyndil frelsisins, þá var hann boðberi sjálfstæðis og frelsis. En núna er hann boðberi þess að samþykkja samning, sem er hvorki byrjun né endir á, samning, sem er opinn í báða enda, samning, sem markar þau tímamót í sumum byggðarlögum, að það er vá fyrir dyrum, þegar á að hleypa þessum erlendu skipum öllum á þau svæði.

Það skiptir miklu máli, sérstaklega fyrir okkur, sem eigum von á því, að fá flest af þessum skipum inn á þau svæði, sem við eigum heima við, að við hefðum farið betur út úr þessum samningi. Og það var sjónarmið, sem var virt 1961, hvað sem hver segir. Þá var það virt, að Vestfirðir hefðu sérstöðu. Það var virt, og það var ekki gerður samningur um það, að Bretar fengju minnstu veiðiheimild á milli 6 og 12 mílna, eins og víða annars staðar, frá Bjargtöngum að Horni. En nú er fyrst og fremst ráðist á þetta svæði. Og það er alger misskilningur og sagt á móti betri vitund af hæstv. sjútvrh., að Vestfirðir séu ekki langstærsta veiðihólfið, hólfið, sem Bretar hafa langmest veitt í á undanförnum árum og koma til með að gera. Þar næst koma Austf., en eru mun neðar. Þetta veit Lúðvík Jósepsson vel og þarf ekki að halda öðru fram. Þess vegna segi ég það, að ef hæstv. forsrh. hefði staðið mjög fast á því að fá till. um hólfið frá því í maí í vor og hvika ekki frá því, þá hefði kannske verið möguleiki á því, að þessi samningur hefði verið samþykktur með 60 atkv. En þetta gerir út um það, hvað mig snertir, hvernig fyrirkomulagið er með hólfin, að veiða í 5 hólfum og hafa eitt lokað í senn, og svo aftur hitt, sem ég lít á sem móðgun við íslenskt réttarfar og íslenska þjóð, að þegar íslenskir löggæslumenn taka þá sem brjóta lög, eigi að kalla á vini þeirra, sem eru brotlegir, og spyrja þá: Höfum við nú ekki gert alveg rétt í okkar mælingum? Ef breskur þegn eða þegn annarrar þjóðar fremdi afbrot hér á Íslandi, þætti mér það niðurlægjandi, ef þyrfti að kalla á lögregluþjón frá því ríki, sem sá maður væri frá. Ég er hræddur um, að það hefði sungið í Hannibal Valdimarssyni, ef hann hefði verið í stjórnarandstöðu og stjórnarflokkar hefðu staðið að slíkum samningi og slíku ákvæði sem þessu. Og það er ég viss um, að Lúðvík Jósepsson, ég tala nú ekki um Þórarinn Þórarinsson, sem heyrist aldrei í, — að þeir væru ekki búnir að tala kl. 3 eða 4, ef þessi ákvæði hefðu skeð og þessir menn væru í stjórnarandstöðu. Svo mikið höfum við heyrt og séð til þeirra á liðnum árum.

Ég ætla svo að síðustu að segja það, að andstaða mín við þennan samning er fyrst og fremst og eingöngu vegna þess, að það er gengið freklega á rétt þess fólks, sem hefur kosið mig til þess að fara með umboð á Alþ., og það er í fullu samræmi við óskir þess og kröfur, bæði útgerðarmanna og launþega, sbr. þá ályktun, sem ég las frá Alþýðusambandi Vestfjarða. Það er líka álit fjölmargra annarra manna í því byggðarlagi sem víða annars staðar, að þessir samningar séu óaðgengilegir og það hefði ekki verið hægt að ganga svo langt sem gert hefur verið.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en ég harma sérstaklega ræðu hv. 3. þm. Vestf. og þær ómaklegu og ódrengilegu árásir, sem hann gerði á okkur hér áðan.