20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

105. mál, staðsetning opinberra stofnana

Fyrirspyrjandi (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég hef enga ástæðu til þess að lengja þessar umr., enda lítil heimild til þess, og það gleður mig að heyra hjá hæstv. síðasta ræðumanni, að form. u. hafi gefið þarna hinn eina sanna tón. Ég veit nú ekki, hvort allir hér mundu nú taka undir það á öðrum sviðum. Það er nú önnur saga, og við skulum ekki blanda því hér saman við, en það er þó gott, að hann hefur gert það þarna.

Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svar hans sem raunar mun vera svar tóngefandans. Mér leist ekki á blikuna að vísu, þegar upptalningin hófst um það, hvað þyrfti að athuga í öllum þessum efnum, vegna þess að ég held, að öllum hv. þm. hafi nú verið ljóst, að þetta þyrfti allt að athuga. En niðurlagið var harla gott. Það var búið að tala við ótal forstjóra, og hvað sem því líður, hvort um þá fer hrollur, eins og hv. 6. landsk. þm. sagði, þá kemur mér það ekkert á óvart, en það er nú annað mál. Ég er sammála um, að það sé rétt að taka þetta kerfisbundið og þurfi að ýta þessu áleiðis svo sem verða má, og það gleður mig að heyra, að niðurstaðna frá n. sé að vænta nú skömmu eftir áramótin.

Ég er í engum efa um það og get tekið undir það, að áreiðanlega verður ekkert auðvelt mál að ýta úr sessi mönnum þannig, að þeir vilji færa sig úr þéttbýlinu og út um landsbyggðina. Ég man, að það var eitt mitt fyrsta mál hér á Alþingi að flytja till. um, að einn skóli yrði færður norður til Akureyrar, af því að hann var húsrýmislaus hér í Rvík, en þar stóð nýtt og ágætt húsnæði. En þetta þótti ekki tilhlýðilegt. Að vísu var því miður útkoman úr því máli sú, að það var hið háa Alþingi, sem felldi þá hugmynd, sem þar kom fram. Það var kannske von, vegna þess að það voru fallegar og mætar konur, sem áttu að fara að flytja hér úr höfuðborginni og norður í land, en sleppum því. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi um, hvað auðvelt er við þetta að fást, jafnvel þó að til staðar séu allar aðstæður, sem voru í þessu tilfelli, til þess að þetta mætti verða. Með þessu er ég ekki að draga úr, að þetta verði gert, síður en svo, heldur aðeins, að við gerum okkur grein fyrir, hvern vanda er við að fást, en vona, að verði tekið á þessu með festu og myndarskap, þegar þar að kemur.