28.10.1976
Sameinað þing: 11. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

1. mál, fjárlög 1977

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hæstv. landbrh. vék að því í upphafi máls síns, að í þann tíð sem hann gegndi embætti fjmrh. hefði það tekið nokkru lengri tíma að ræða fjárlagafrv. Ég vék að því við einn af þeim hv. ræðumönnum, sem hér höfðu talað í dag, að þetta færi auðvitað allt eftir því hversu lífleg og sterk stjórnarandstaða væri á Alþingi hverju sinni, hvernig umr. um fjárlagafrv. færu fram, en ekki kannske það eingöngu, heldur líka hitt, að þegar breytt er reglum um þingsköp, þá getur það að sjálfsögðu haft áhrif á umr. eins og hefur sýnt sig í sambandi við fjárlagafrv.

Þær umr., sem hér hafa farið fram eftir að ég flutti mína ræðu, bera líkan keim og umr. frá s.l. þingi. Það eru bornar saman tölur, það gera menn gjarnan og fara í talnaleik. Ýmsir hv. alþm. eru kunnir að slíku, þó að þeir hafi e.t.v. ekki í þessum umr, látið til sín heyra, og hafa menn stundum haft gaman af þegar tölur hafa verið notaðar hér í umr. og sýnt fram á með hvaða hætti og hvernig menn gætu sannað sitt mál með mismunandi flutningi talna.

Ég get þó ekki látið hjá líða að vekja athygli á samanburðartölum þeim sem hv. 11, landsk. þm. var með um embætti bæjarfógeta og sýslumanna í sambandi við fjárl. 1976 og svo fjárlagafrv. 1977. Ef þessi hv. þm. hefði skoðað ríkisreikninginn 1975 og áttað sig þar á því hvað hefði farið til rekstrar þessara ýmsu embætta, þá hefðu komið í ljós allt aðrar prósentutölur en þær sem hann hér hafði, því að vanáætlun var og hafði verið viða í sambandi við fjárlagafrv. og fjárl. Var sú ákvörðun tekin nú að þetta skyldi lagfært og leiðrétt. Þegar við unnum að fjárlagafrv., höfðum fyrir okkur ríkisreikninginn 1975 og fjárl. 1976 og menn gerðu sér raunverulega grein fyrir því að tölurnar í fjárl. 1976 voru lægri en í ríkisreikningnum 1975, þá gerðu menn sér grein fyrir því að vanáætlun hafði átt sér stað einhverra og ýmissa hluta vegna. En ég læt útrætt um það, vildi aðeins vekja athygli á því, að það hefur verið eitt af þeim atriðum, sem ég hef talið að leggja bæri áherslu á, að það væru raunhæf fjárlög, og þá yrði að sjálfsögðu að hafa þau gögn við höndina sem gefa upplýsingar og þær bestar í þessum málum. Þess vegna gat ég þess í ræðu minni að í undirbúningi væri að fá ríkisreikning ársins 1976 fram lagðan í apríl næsta ár. Það hafði tekist með A-hlutann fyrir tveimur árum, en gert nú ráð fyrir því að bæði A- og B-hlutinn verði lagðir fram í vor. Þá hafa þm. ríkisreikninginn yfir sumarið og geta þá gert sér grein fyrir hvernig árið 1976 kom út, og þegar síðan fjárlagafrv. fyrir árið 1978 verður lagt fram, þá yrðu til samanburðar við þá fjárlagaliði, sem þar koma fram, tölur úr ríkisreikningi 1976 og fjárl. 1977, þannig að alþm. sæju hver þróun hefði átt sér stað á þremur árum.

En hér kom hinn nýi fulltrúi í fjvn., annar þeirra, hv. 8. landsk. þm., Sighvatur Björgvinsson, og gerði mjög mikinn samanburð á fjárlagafrv. þessu og öðrum fjárlagafrv. Hann vék m.a. að fjárlagafrv. fyrir árið 1974 og gerði samanburð á fyrsta fjárlagafrv. vinstri stjórnarinnar frá 1971 fyrir áríð 1972. Mig langar aðeins til að víkja að því þegar svona samanburður á sér stað. Fjárlagafrv., sem lagt er fram haustið 1973, fyrir 1974, er upp á 27 milljarða 437 millj. kr. Fjárlögin, sem samþ. voru, voru upp á 29 milljarða 402 millj. Ríkisreikningurinn 1974 var upp á tæpan 41 1/2 milljarð. Þessu til skýringar þarf að koma fram að á árinu 1974 eru gerðar umtalsverðar breytingar sem valda þessari hækkun að verulegu leyti, þ.e.a.s. það eru gerðar breytingar á tryggingalöggjöfinni, það eru gerðar breytingar á skattalöggjöfinni, og allt varð þetta til þess að hækka ríkisreikninginn frá því sem fjárlög höfðu verið samþykkt. En þegar lítið er á töluna 27 milljarðar á fjárlagafrv, sem lagt er fram haustið 1973 og sú tala er höfð til viðmiðunar við þá tölu, sem hér er um að ræða, og menn skoða töluna í ríkisreikningi, 41.5 milljarða, þá sjá menn hversu óraunhæfur samanburður hér er. Mér finnst ekkert óeðlilegt þegar núv. ríkisstj. er gagnrýnd að ríkisreikningurinn 1974 upp á 41.5 milljarð tæpan sé hafður sem viðmiðunartala. Og þá höldum við áfram og gerum okkur grein fyrir því að fjárlögin 1975 voru upp á 47 milljarða. Ríkisreikningurinn, sem hér er lagður fram, er um 58 milljarða. Þarna er um að ræða 11 milljarða í mismun, Fjárl. 1976 voru upp á 58 milljarða. Ég hef í dag gert grein fyrir því að útgjöldin muni fara upp í 68 milljarða. Hér er um 10 milljarða mismun að ræða á fjárlögum og ríkisreikningi. Ef þessu héldi áfram; þá sjáum við hvar við endum. Við endum í tiltölulega lágri prósentu á mismun fjárlaga og ríkisreiknings og erum þá komnir með fjárl. miklu raunhæfari en þau oft hafa verið, og að því hefur verið stefnt og að því verður stefnt, eins og fram kom í ræðu minni í dag.

Það er sjálfsagt hægt að deila um það og verður alltaf, hvort of mikið er tekið af skattborgurunum til þess að sjá um ríkisútgjöldin. Við höfum líka reynt að hafa það að markmiði að minnka ríkisútgjöldin sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. 1975 eru ríkisútgjöldin 31.5%. Gert er ráð fyrir því 1976 að þau verði 29.5 og í þessu frv. stefnt að sömu prósentu. Þetta er að reyna að hafa þak á ríkisútgjöldunum, Hversu hátt þakið er, hversu hátt er upp í mæninn, verður svo alltaf að vera matsatriði Alþ. Hér er lagt fram frv. sem gerir ekki ráð fyrir auknu hlutfalli af þjóðarframleiðslu á næsta ári til útgjalda ríkissjóðs. Við sjáum svo hvað Alþ. kemur til með að gera, hvað það leggur til. Að sjálfsögðu breytast tölur frá því að frv. er lagt fram og þar til það verður samþykkt, beggja vegna, tekna og gjalda. En við skulum vona að það takist áfram að halda í horfinu og það verði fremur niðurstaða fjvn. að draga úr útgjöldunum, enda þótt tekju hliðin yrði eitthvað hærri, heldur en að hækka svo útgjöldin að spenna verði tekjuáætlun þannig upp að hún nánast geti orðið óraunhæf.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Ég veit að þessar umr. eru með svipuðum hætti og verið hefur undanfarin tvö ár. Hér höfum við skipst á skoðunum, og ég hef þá skoðun að fjvn, muni vinna að þessu máli á þeim forsendum sem hún telur skynsamlegastar og bestar.