14.12.1976
Sameinað þing: 31. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (827)

1. mál, fjárlög 1977

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég flyt hér brtt. á þskj. 165 með hv. þm. Helga F. Seljan. Þar er um að ræða þrjár till. sem allar eru um heilbrigðismál.

Fyrsta till. er um það, að fjárveiting til sjúkrahússins í Neskaupstað verði hækkuð frá því sem meiri hl. fjvn. leggur til, úr 52 millj. í 60 millj. kr. Eins og kunnugt er, þá er sjúkrahúsbyggingin, sem stendur yfir í Neskaupstað, ein af fjórum sjúkrahúsabyggingum sem nú er unnið að í landinu sem teljast undir hinar meiri háttar framkvæmdir eða þar sem heilbrn. hafði gert till. um að varið yrði til framkvæmdanna á næsta ári 100 millj. kr. eða meira. Þessi fjögur sjúkrahús eru sjúkrahúsið á Ísafirði, en rn. hafði lagt til að leggja til þess 140 millj. kr., sjúkrahúsið á Akureyri, þar lagði rn, til að verja 180 millj. kr., til sjúkrahúsbyggingarinnar í Neskaupstað 100 millj. kr. og til sjúkrahússins á Selfossi 110 millj. kr. Þetta eru stærstu framkvæmdirnar sem í gangi eru af þeim sem flokkast undir þessar framkvæmdir. Nú fór það svo að við athugun hagsýslunnar á þessum till. þótti henni ekki fært að samþ. svona háar fjárveitingar og skar því þessar fjárveitingar allar nokkuð niður frá till. rn. Síðan hefur fjvn. fjallað um þessar till., sem þarna lágu fyrir bæði frá hálfu rn. og frá hálfu hagsýslunnar, og þá gerist það að meiri hl. fjvn. leggur til að skera niður fjarveitingar til aðeins eins af þessum húsum frá því sem hagsýslan hafði skorið þetta niður. Fjvn, leggur til að hækka fjárveitinguna ti1 Ísafjarðarhússins um 15 millj. kr. frá því sem hagsýslan hafði gert till. um og um 30 millj. kr. til Akureyrarhússins frá því sem hagsýslan hafði lagt til, en leggur til að til Selfosssjúkrahússins verði varið sömu fjárhæð og hagsýslan hafði lagt til, eða 74 millj. kr. Hins vegar leggur meiri hl. fjvn. til að skera niður fjárveitinguna til hússins í Neskaupstað, þar sem ég hygg að ástandið í fjárhagsmálum hafi verið verst því þegar hafa verið gerðir samningar við verktaka sem vinna nú við byggingu hússins, og má segja að mikill meiri hluti af þessari fjárveitingu sé þegar bundinn með samningum sem gerðir hafa verið. Verði þessi fjárveiting skorin niður á þennan hátt, þá er mjög hætt við því að svo fari að verkið verði stöðvað á miðju næsta ári, það verði sem sagt ekki samþykkt að fara í nýjan áfanga í húsinu. Enn er byggingin ekki að neinu leyti komin í gagnið þó húsið sé fullsteypt, en verið er að vinna inni í húsinu. Ég hef því lagt til og við hv. þm. Helgi F. Seljan að fjárveitingin til þessarar framkvæmdar verði 60 millj. kr., eins og hagsýslan hafði lagt til, en þá er búið að skera till. heilbrrn. niður um 40 millj. kr.

Þetta er alveg einstakt af hálfu fjvn. og hefur einna helst verið skýrt með því að hún hafi fallist á að taka upp till. rn. um fjárveitingu til heilsugæslustöðvar á Seyðisfirði sem hafði verið lofað af hálfu rn. En það sýnist harla einkennilegt að það skuli eiga að skera í rauninni bundna fjárveitingu til stórframkvæmdar í Neskaupstað til þess að hægt sé að standa við minni háttar loforð sem seyðfirðingum hafði verið gefið. Það væri auðvitað alveg einstakt ef þannig væri staðið að málum við stórframkvæmd, sem er í gangi og gerður hefur verið samningur um við rn. hvernig staðið skuli að, að fjárveitingar yrðu skornar þar svo mikið niður að verkið stöðvaðist, eins og lítur helst út fyrir. Ég vil nú vænta þess að fjvn. taki þessa till. sína til endurskoðunar, vegna þess, að hér er ekki farið fram á annað en það að till. hagsýslunnar verði fylgt og þar var þó um stórlega niðurskornar till. að ræða, eins og ég hef bent á.

Í öðru lagi leggjum við til að tekinn verði upp nýr liður í till. um fjárveitingar: til heilsugæslustöðvar á Fáskrúðsfirði, að varið verði millj. kr. sem byrjunarframlagi til byggingar heilsugæslustöðvar á Fáskrúðsfirði. á þessum stað er öll aðstaða þannig að það er orðin knýjandi nauðsyn á því að hefjast handa um framkvæmdir í þessum efnum. Heimamenn hafa undirbúið í alllangan tíma og hafa fengið loforð, eftir því sem ég veit best, frá heilbrrn. um að þeir fái heimild til þess að byrja á þessu verki, enda leggur heilbrrn, til í sínum till. að fé verði lagt fram í þessu skyni, 15 millj. kr. En hagsýslan hafði ekki séð sér fært að samþ. þessar till. rn. og skar þetta niður með öllu. Við leggjum hins vegar til að þarna verði varið 5 millj. kr. í byrjunarframkvæmdir.

Þá leggjum við í þriðja lagi til að tekinn verði upp 2 millj. kr. fjárveiting til læknisbústaðar á Fáskrúðsfirði, en þar er um framhaldsframkvæmd að ræða. Það er beinlínis unnið að þessu verki og óhjákvæmilegt að ljúka því verki sem þar hefur verið unnið að. Fjárveitingar hafa verið til þessa verks á síðustu fjárl., en nú er þetta fellt niður með öllu sem við sjáum ekki að sé frambærilegt á neinn hátt, og því höfum við lagt fram þessa tillögu.

Ég geri ráð fyrir að við tökum þessar till. aftur til 3. umr. þó að þær séu fluttar nú, í von um að fjvn. athugi þessi mál betur en hún hefur gert, því að það er full sanngirni að þessar till. séu samþ. Hér er ekki farið fram á mikið með hliðsjón af því hvernig ástatt er og með hliðsjón af því hvað rn. leggur til að gert verði varðandi allar þessar framkvæmdir sem ég hef rætt um.

Aðrar till. hef ég ekki flutt og mun ekki tala fyrir öðrum till. að sinni. Um afgreiðslu málsins mun ég ekki ræða hér. Það mætti segja margt um það hvernig staðið er að fjárlagaafgreiðslu að þessu sinni, en það hefur þegar verið gert fyrir hönd okkar í stjórnarandstöðunni og það mjög skilmerkilega. Ég skal því ekki tefja hér tímann og fara út í neinar almennar umr. um það, en vildi hér fyrst og fremst tala fyrir þessum þremur brtt. sem ég er fyrsti flm. að.