14.02.1978
Neðri deild: 57. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2385 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Varla mun nokkrum hugsandi Íslendingi blandast hugur um að nú á þessum vetri er ófremdarástand íslenskra efnahagsmála orðið slíkt, að óhjákvæmilegt er að gera ráðstafanir í því skyni að útflutningsframleiðslan stöðvist ekki og til atvinnuleysis komi. Gengislækkun krónunnar, sem tilkynnt var fyrir fáum dögum, var orðin staðreynd. Í auglýsingunni fólst aðeins opinber viðurkenning á því sem smám saman hefur orðið afleiðing alrangrar stefnu í efnahagsmálum. Hitt er meginspurning dagsins, og það er sú spurning sem er hér til umr., hvort nauðsynlegt sé að rifta þeim kjarasamningum, sem gerðir voru á síðasta ári, að ekki sé talað um þá framkomu í garð launþegasamtaka sem ríkisstj. hefur sýnt af sér og á sér engin fordæmi.

Rétt er að minna á það, að á síðasta ári samdi ekki aðeins Alþýðusambandið við vinnuveitendur. Ríkisstj, sjálf samdi við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Bandalag háskólamanna fyrir fáeinum mánuðum. Telur ríkisstj. sig engar skyldur hafa gagnvart samningum sem blekið er nýþornað á? Hafi þessir samningar allir verið óraunhæfir, hvernig í ósköpunum telur ríkisstj. sér fært að skella allri skuldinni af því á launþegasamtökin? Ríkisstj. skrifaði sjálf undir tvenna af þessum samningum. Er stjórnvöldum nú á dögum alveg sama hvaða skuldbindingar þau gangast undir? Er hægt að svíkja það í dag sem menn lofuðu í gær?

Áður en ég vík að sjálfu efni málsins, þ. e. a. s. frv. sjálfu og því sem hægt væri að gera, langar mig til þess að fara nokkrum orðum um málsmeðferðina. Hún er nefnilega skýrt dæmi um þá stjórnarhætti sem farnir eru að tíðkast á síðustu og verstu tímum. Verðbólgunefndin svokallaða, sem skipuð var fyrir meira en einu ári, lauk störfum s. l. miðvikudag. Í áliti hennar er að finna ítarlegar upplýsingar um efnahagsþróun undanfarinna áratuga og að mínu viti mjög gagnlegar og skynsamlegar ábendingar um nauðsyn breyttrar efnahagsstefnu á komandi árum. Formaður n. var forstöðumaður Þjóðhagsstofnunarinnar. Hann lagði fyrir n. ýmsa valkosti varðandi þann bráða vanda sem við væri að etja nú í byrjun þessa árs. Að undangengnum ítarlegum umr. urðu fulltrúar stjórnarflokkanna og embættismenn ríkisstj. í n. sammála um till. um lausn þessa vanda. Kjarni úrræðanna skyldi vera helmingun vísitöluuppbóta út árið, niðurfelling helmings vörugjaldsins svonefnda, veruleg aukning á niðurgreiðslum, minnkun opinberra framkvæmda og nokkur aukning á bótum almannatrygginga. Fulltrúar Alþýðusambandsins, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og stjórnarandstöðuflokkanna gerðu hins vegar aðrar till. Nál. var undirritað um hádegi á miðvikudaginn var. En síðar um daginn kom í ljós, að á miðvikudagsmorgninum hafði ríkisstj. setið á fundi og verið að ræða allt, allt aðra lausn á bráðabirgðavandanum en fulltrúar hennar og embættismenn í verðbólgunefnd voru að lýsa fylgi sínu við og skrifa undir. Í stað þess að helminga vísitölubæturnar út þetta ár ætlaði ríkisstj. nú að breyta sjálfu verðlagsuppbótakerfinu til frambúðar, þannig að ekki skyldi tekið tillit til óbeinna skatta, auk ýmissa annarra breytinga á till. í verðbólgunefndinni.

Nú er engum blöðum um það að fletta, að ráðh. eru allir svo reyndir menn, að þeir vita að í augum launþegasamtakanna eru fá samningsatriði í launasamningum jafnviðkvæm og grundvöllur vísitölunnar, sem verðbætur eru miðaðar við. Þessum grundvelli hefur áður verið breytt og auðvitað er þar ekki um neinn helgan dóm að ræða. En það hefur aldrei áður verið gert án þess að málið hafi verið rætt ítarlega við launþegasamtökin. Nú átti hins vegar að leggja fram lagafrv. um þetta atriði án þess að nokkrar viðræður hefðu farið fram um það, hvorki við launþegasamtökin né heldur í verðbólgunefndinni.

Talið er að hugmyndin um þetta hafi fyrst komið úr hópi ráðh. Framsfl. og beinlínis verið hugsuð sem ögrun við launþegasamtökin. En ekki má á milli sjá, hvorum var sýnd meiri lítilsvirðing, forustumönnum launþegasamtakanna eða fulltrúum og embættismönnum stjórnarflokkanna í verðbólgunefnd, sem ekkert fengu um þetta að vita. Vegna þess að forustumenn Alþýðusambandsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja gengu út af fundi með forsrh. og viðskrh., þegar þeir heyrðu um þessar fyrirætlanir, guggnaði ríkisstj. að hluta, hætti við að láta breytingu verðbótagrundvallarins taka gildi á þessu ári, en hélt fast við það, að hún skyldi taka gildi í byrjun næsta árs. Er hér í raun og veru um óskiljanlega óhyggilega ráðstöfun að ræða, þar sem þá hefur þjóðin kosið nýtt þing sem hlýtur að marka stefnuna á næsta kjörtímabili.

Milli 1. og 2. umr. hér í Nd. kom í ljós að mikil andstaða er gegn þessum ákvæðum í Sjálfstfl. Tveir þm. hans gerðu uppreisn í dag og greiddu atkv. gegn þeim við 2. umr. En ríkisstj. lætur sér ekki segjast. Framsfl. ræður ferðinni, enda er hann kunnari að öðru en vilja til samstarfs við launþegasamtökin.

Öll meðferð málsins af hálfu ríkisstj. hefur því verið eins klunnaleg og hugsast getur. Og ekki getur farið hjá því, að ýmsir undrist hvað fulltrúar stjórnarflokkanna í verðbólgunefndinni hafa látið bjóða sér, að vera látnir skrifa í góðri trú undir ákveðnar till. á miðvikudegi, en síðan sagt að verja allt aðrar till. á föstudegi.

Þá vík ég að sjálfu aðalefni málsins, en það er þessi spurning: Er nauðsynlegt að rifta hinum nýgerðu kjarasamningum? Einn af þeim valkostum, sem formaður verðbólgunefndarinnar gerði nm. grein fyrir, var við það miðaður að kjarasamningarnir héldu gildi sínu. Það þýðir því bókstaflega ekki neitt fyrir ríkisstj. að halda því fram, að óhjákvæmilegt sé að rifta kjarasamningunum. Helsti trúnaðarmaður ríkisstj. á sviði efnahagsmála segir í skýrslu n., að það sé hægt að láta kjarasamningana halda gildi sínu m. a. með því að draga mjög úr opinberum framkvæmdum. Það er rétt, að þessi valkostur gerir ráð fyrir nokkru rýrari afkomu atvinnurekstrar en gert er í till. ríkisstj. En í skýrslunni er sýnt fram á að þessi valkostur hefði ekki í för með sér hallarekstur, heldur sómasamlega afkomu bæði sjávarútvegs og iðnaðar. Það, sem fyrst og fremst ber á milli þessa valkosts, sem lýst er rækilega í skýrslunni, og frv. ríkisstj., er að í fyrra tilfellinu er gert ráð fyrir að draga mjög úr umsvifum hins opinbera, en engin ákvörðun er um slíkt í frv. ríkisstj. Það er hér sem kjarna málsins er að finna. Þótt of mikil og arðlaus fjárfesting hafi verið einhver mestu efnahagsmistök undanfarinna ára og bæði Alþýðusambandið og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hafi hvatt til þess að draga úr þessari fjárfestingu, þar eð hún hljóti að bitna á neyslunni, þá má ríkisstj. ekki heyra slíkt nefnt. Hún vill frekar skerða kjör launþeganna en að draga úr fjárfestingu sinni og eyðslu.

Ég gerði það að varatillögu minni í verðbólgunefndinni, að gripið væri til þeirra ráðstafana sem í þessum valkosti fælust. Þá hefði ekki þurft að rifta kjarasamningunum með lagaboði. En ríkisstj. virðist heldur kjósa fjandskap við launþegasamtökin. Ég er hræddur um að slík skammsýni eigi eftir að hefna sín.

Málflutningur talsmanna stjórnarflokkanna í þessum umr. og raunar öllum umr. um efnahagsmál á liðnum mánuðum ber þess glöggan vott, að þeir gera sér ekki grein fyrir því, að erfiðleikar þeir, sem nú er við að etja, eru afleiðing langvarandi óstjórnar sem ekki verður ráðin bót á með einu pennastriki eða einu lagafrv. Það verður að móta algerlega nýja efnahagsstefnu og hverfa frá þeim mistökum, sem einkennt hafa stjórn efnahagsmála á undanförnum árum, svo sem skaðlegum víxlhækkunum verðlags og kaupgjalds, rangri og arðlausri fjárfestingu, hallabúskap ríkisins, erlendri skuldasöfnun, rangri stefnu í landbúnaðarmálum og síðast, en ekki síst, ofveiði fiskstofna.

Tillögur ríkisstj. nú bera ekki aðeins vott um lítilsvirðingu á launþegasamtökunum. Það sem verra er, þegar horft er nokkuð fram á veginn verða þessar ráðstafanir að teljast kák. Í þeim felst ekki mótun neinnar nýrrar heildarstefnu. Eftir eitt ár verður sama öngþveiti skollið yfir aftur. Það vantar traustan grundvöll undir það sem verið er að gera. Og það er er ekki síður mikilvægt, að það vantar heilan hug af hálfu stjórnarflokkanna á bak við þessar ráðstafanir. Það hefur komið glöggt fram í hringlandahættinum við undirbúning málsins. Þar hefur stjórnarflokkana greint á, og það er ágreiningur innan stjórnarflokkanna. Það kemst ekki vit og heilbrigði í íslensk efnahagsmál fyrr en gerbreytt er um stefnu, fyrr en algerlega ný einörð og traust stefna er mörkuð og henni fylgt fram af festu og djörfung, af samhug og án undirhyggju.

Núv. stjórnarflokkar hafa ekki borið gæfu til þess að móta nýja heildarstefnu og þeim hefur ekki tekist að starfa saman af heilindum. Því hefur farið sem farið hefur. En ytri aðstæður eru þjóðinni hagstæðar. Og sjálf er þjóðin ágætlega mennt, vinnufús og búin bestu tækjum, sem skilað geta miklum árangri ef þau eru vel og hyggilega hagnýtt. Það, sem vantar, er farsæl forusta. Ég vona að gæfa þjóðarinnar verði slík, að eftir kosningar verði hér við völd menn sem hafa til að bera þá þekkingu og þá reynslu, þann kjark og þá festu sem til þess þarf að framkvæma nýja og heilbrigða stefnu af heilum hug. — Góða nótt.