31.10.1977
Neðri deild: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

16. mál, sveitarstjórnarlög

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð sem ég vil bæta við það sem ég hef áður sagt. Þær umr., sem orðið hafa um þetta frv., hafa farið fram með hinni mestu hógværð og kann ég vel að meta það. En ég vil aðeins segja það, að ég vil ekki láta skilja yfirlýsingu mína á þann hátt, að ég meti ekki og skilji unga fólkið út af fyrir sig. Ég held að þroski þess hér á landi og manndómur sé síst minni en víðast hvar annars staðar þar sem ég þekki til. Mér finnst eðlilegt að kosningaaldur til sveitarstjórna og Alþ. fylgist að. Ég ber alls ekki á móti því, að það séu nokkur rök fyrir að fara með kosningaaldurinn til Alþ. niður í 18 ár, en það eru tvenns konar skoðanir um það. Að sjálfsögðu mun ég greiða þessu frv. atkv. til 2. umr. og n., því að ég tel eðlilegt og sjálfsagt að það fái þinglega meðferð.