26.04.1978
Neðri deild: 83. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3974 í B-deild Alþingistíðinda. (3146)

262. mál, samningur milli lýðveldisins Íslands og Sambandslýðveldisins Þýskalands um aðstoð í tollamálum

Frsm. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Hæstv. forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar d. hefur athugað þetta frv. og leggur einróma til að það verði samþykkt. Einn nm. var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Hér er um það að ræða, að í ágúst 1977, ágúst í fyrra, var gengið frá samningi, sem undirritaður var formlega í Bonn 11. okt. 1977, um gagnkvæma aðstoð í tollamálum milli Lýðveldisins Íslands og Sambandslýðveldisins Þýskalands. Sú aðstoð, sem gert er ráð fyrir í þessum milliríkjasamningi, er tvenns konar. Það er annars vegar aðstoð við framkvæmd tollalaga almennt, álagningu tolla og annarra innflutnings- og útflutningsgjalda, svo og að haldnar séu reglur um inn- og útflutning, og hins vegar aðstoð til þess að koma í veg fyrir, rannsaka og upplýsa brot á tollalöggjöfinni, en samningurinn tekur til tolla og annarra opinberra gjalda sem ákveðin eru af tollyfirvöldum.

Svo sem kunnugt er hafa viðskipti Íslands og Sambandslýðveldisins Þýskalands aukist mjög á undanförnum árum. Eru báðir aðilar sammála um að æskilegt sé að samvinna þeirra á milli verði bundin í tvíhliða samningi um gagnkvæma aðstoð á sviði tollamála, þar sem slíkur samningur mundi leggja grundvöll að virkari aðgerðum tollyfirvalda í báðum löndum á þessu sviði. Hér er um að ræða algerlega eðlilegt og sjálfsagt framhald á samstarfi sem stofnað var til á sínum tíma, eða 1953, með ályktun Tollasamvinnuráðsins í Brüssel. Þessi samningur er byggður á nákvæmlega sams konar tvíhliða samningum milli Þýskalands annars vegar og hinna Norðurlandanna, að Danmörku einni undanskilinni, hins vegar með vissum breytingum þó vegna íslenskra aðstæðna.

Þessi samningur er að því leyti merkilegur, að hann er fyrsti tvíhliða samningurinn um tollamál sem Ísland gerir.

Það er einróma till. fjh.- og viðskn. að Alþ. heimili ríkisstj. að fullgilda fyrir Íslands hönd þennan samning milli Þýskalands og Íslands um gagnkvæma aðstoð í tollamálum.