03.11.1977
Sameinað þing: 13. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ríkisstj. á ekki eftir nema hlaðsprettinn, síðasta þing á kjörtímabilinu. Engin ríkisstj. hefur í aldarfjórðung og ríflega það haft jafnstóran þingmeirihluta við að styðjast og ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar. Hún ætti því að hafa bolmagn til að taka hlaðsprettinn með nokkurri reisn. En það er öðru nær en svo sé. Hvorki ríkisstj. né færleikur hennar, þingliðið, sem hóf hana til valda og borið hefur hana uppi kjörtímabilið út í gegn, er svo á sig komið að það sé fært um að sýna af sér knáleik eða bera sig vel.

Stefnuræða forsrh. í kvöld ber því ljósan vott. Þar er viðurkennt að ný verðbólguholskefla er að ríða yfir þjóðina. „Hætta er á að verðbólgan aukist enn á ný,“ segir í ræðunni. Og á öðrum stað er enn dýpra tekið í árinni. Þar segir forsrh.: „Er nú hætta á því, að kapphlaupið milli launa og verðlags magnist.“ En þó tekur fyrst steininn úr í lokasetningum stefnuræðunnar. Þar er það viðurkennt að stefnuræðan lýsi ekki raunhæfri, fastmótaðri stefnu, heldur frómum óskum. Orðrétt segir forsrh. í nafni ríkisstj. sinnar: „Sú efnahagsstefna, sem hér er lýst, byggist á forsendum sem geta brugðist. Ef það gerist verður nauðsynlegt að grípa til enn öflugri ráðstafana. Þjóðin öll verður að vera undir það búin.“ Þetta eru uggvænleg orð og þeim mun ískyggilegri sem þau eru vandlegar skoðuð, því það er öðru nær en forsrh. hafi að öðru leyti gleðiboðskap að flytja frá ríkisstj. sinni.

Ríkisstj. boðar í stefnuræðunni aukna skattheimtu. Það felst bæði í ákvörðun skattvísitölu á þann veg, að tekjuskattur næsta ár leggst á af meiri þunga en var á þessu ári, og í yfirlýsingu um, að ríkisstj. hafi ekki hugmynd um hvar hún ætti að taka þá 8–9 milljarða kr. sem á þarf að halda á næsta ári til að standa við nýgerða kjarasamninga við opinbera starfsmenn. Ríkisstj. boðar niðurskurð framkvæmda. Ekki skal aðeins dregið úr opinberum framkvæmdum á öllum sviðum nema einu — vegagerð er undanskilin — heldur skal einnig búið svo um hnúta með takmörkun lánveitinga að framkvæmdir einkaaðila dragist líka saman svo og framkvæmdir sveitarfélaga.

Að hvaða marki beinast þessar aðhaldsaðgerðir ríkisstj.: aukin skattheimta og skertar framkvæmdir? Er með því verið að eyða viðskiptahallanum gagnvart útlöndum sem mætt hefur verið með töku eyðslulána? Nei, öðru nær samkvæmt því sem í stefnuræðunni segir. Þar er aðeins talað um að komast sem næst jöfnuði í viðskiptum við útlönd. Og úr því svo er hefur ríkisstj. auðvitað enga tilburði til að grynna á erlendum skuldum sem fyrirsjáanlegt er að muni á næstu árum gleypa í vexti og afborganir fimmta hluta útflutningstekna þjóðarinnar. Enda segir í stefnuræðunni að ríkisstj. stefni að því að halda skuldum erlendis óbreyttum með því móti að takmarka nýjar lántökur við greiðslubyrðina af skuldum sem fyrir eru. Sú stefna felur það í rauninni í sér að um ófyrirsjáanlegan tíma skuli fimmtungur af aflafé þjóðarinnar ganga til erlendra lánardrottna.

Í stefnuræðunni segir reyndar berum orðum í hvaða skyni samdráttur framkvæmda og stöðvun á aukningu félagslegrar þjónustu eigi sér stað. Þessar ráðstafanir gerir ríkisstj. svo rúm sé fyrir aukningu einkaneyslu. Það stendur svart á hvílu í stefnuræðunni. En þar er líka komið að stóra spurningarmerkinu sem ræðan endar á, eins og ég áðan rakti.

Standast þessi stefnumið, sem ríkisstj. kunngerði í upphafi þings, þegar á reynir? Líkurnar benda til að svo verði ekki, að fyrirvarinn í lok stefnuræðunnar hafi meira gildi en allt sem á undan fer í því plaggi.

Útflutningsverð á fiskafurðum er nú með hæsta móti og verð á framleiðslu frystihúsanna í algeru lámarki. Þrátt fyrir þessi hagstæðu viðskiptakjör hefur ríkisstj. séð ástæðu til að láta ríkissjóð ábyrgjast viðmiðunarverð til vinnslustöðvanna. Menn geta gert sér í hugarlund hvað skeður, ef verðlækkun á sér stað á erlendum mörkuðum, eins og einatt hefur gerst. Ábyrgð á viðmiðunarverði, eins og ríkisstj. hefur gefið, hlýtur að vera hugsuð sem bráðabirgðaráðstöfun, því ríkissjóður hefur afar takmarkað svigrúm til að mæta útgjöldum í þessu skyni. Hér er sannarlega teflt á tæpt vað.

Framleiðsluaukning á árinu á sjávarútvegi kemur að mestu leyti frá loðnuveiðum og öðrum veiðum fyrir verksmiðjuvinnslu. Verð á fiskmjöli hefur verið allhátt, en stendur nú í stað. og spáð er verðlækkun á því í kjölfar metuppskeru og verðlækkunar á fóðurkorni sem er samkeppnisvara fiskmjölsins. Ekki eru því horfurnar hagstæðar í þessari þýðingarmiklu útflutningsgrein.

Saltfisksmarkaðurinn í Portúgal hefur um langan aldur verið einhver dýrmætasti útflutningsmarkaður okkar. Þar hefur verið selt mikið magn, en tiltölulega litið verið keypt af Portúgölum, svo andvirði saltfisksins hefur að mestu leyti verið til ráðstöfunar til að mæta halla á viðskiptum við önnur lönd. Nú hefur verið kunngert í Lissabon, að bág gjaldeyrisstaða Portúgals geri það að verkum að tekið verði fyrir innflutning á saltfiski þar í landi næsta vor. ef ekki hafi áður fundist úrræði til að greiða fyrir innflutninginn án þess að ganga á gjaldeyrisforða. Geri Portúgalsmenn alvöru úr þessari fyrirætlun er sannarlega vá fyrir dyrum hjá íslenskri saltfiskverkun.

Þessar eru þá horfurnar í þrem þýðingarmestu útflutningsgreinum fiskvinnslunnar. Þrátt fyrir metverð er greitt með frystihúsaframleiðslunni úr ríkissjóði. Mjölframleiðslan og saltfisksverkunin standa frammi fyrir verðfalli eða lokun þýðingarmesta markaðarins.

Hér innanlands er verðlag á hraðri leið upp á við. Búvörur, rafmagn og hitaveita hafa þegar hækkað verulega. Fram undan eru hækkanir á hvers konar þjónustugjöldum opinberra stofnana. Kostnaður útflutningsframleiðslunnar hækkar síðan í tilteknu hlutfalli við hækkun framfærslukostnaðar. Er nokkur sá með opin augu sem ekki sér hvert stefnir?

Rétt er að forðast hrakspár, en tvímælalaust eru erfiðir tímar fram undan. Ríkisstj., sem veit sig hafa traust þjóðarinnar, hefði sagt það opinskátt, og vaxið af. En ríkisstj., sem sendi Alþ. og landsmönnum þá stefnuyfirlýsingu sem flutt var hér í kvöld, veit sig hafa fyrirgert trausti á ferli sínum og því sendir hún frá sér stefnuræðu þar sem bollalagt er um samdrátt samneyslu til að auka einkaneyslu, ráðgerð jafnframt nokkur skattahækkun til að halda greiðsluhalla innan þolanlegra marka, imprað á frjálsri gjaldeyrisverslun og nýju verðlagskerfi, en svo er klykkt út með því, að vel geti farið svo að ekkert af þessu sé að marka, forsendurnar, sem ríkisstj. hefur gefið sér, geti brugðist gersamlega.

Þessi eru þá öll fastatökin hjá sterku ríkisstj. sem kom til valda eftir kosningasigur Sjálfstfl. 1974, — stjórninni sem hefur stuðning rúmlega tveggja þriðju hluta þingheims.

Foringjar Sjálfstfl. stærðu sig af því í kosningabaráttunni fyrir tæpum fjórum árum að hafa á takteinum samræmd heildarúrræði til lausnar efnahagsvanda. Enn bergmála sömu orðin í stefnuræðunni í kvöld. Þar er talað um nauðsyn á að mörkuð sé samræmd heildarstefna og afstaða tekin til markmiða og leiða í efnahagsmálum. En nú eru menn reynslunni ríkari. Það hefur reynst djúpt á samræmdu heilstæðu úrræðunum og ráðdeildinni í meðferð fjármála ríkisins.

Grundvallaratriði er að koma á heilbrigðu skattakerfi í stað þess hrófatildurs sem orðið hefur til við skyndibreytingar á undanförnum árum. En skattalagafrv. frá því í fyrra bögglast enn fyrir brjósti stjórnarflokkanna. Verður því vart trúað að þeir láti þá hneisu henda sig að gefast upp við verkefni sem sérhver skilvís skattgreiðandi biður eftir að leyst verði af hendi. En varlegast er að fortaka sem minnst þegar þessi ríkisstjórn á í hlut. Ráðh., sem bera fram aðra eins firru og ráðgerð kaup á Víðishúsinu fræga fyrir stjórnarskrifstofur, er a.m.k. ekki tiltakanlega annt um orðstír sinn fyrir gætni og yfirvegun í fjármálum.

Slík dæmi, jafnhrópleg og þau eru út af fyrir sig, eru þó nánast aukaatriði í samanburði við það hve gersamlega ríkisstj. hefur brugðist í því máli sem hæst ber þessi árin, viðureigninni við verðbólguna. Þeir, sem tregir voru í báðum stjórnarflokkum til að ganga til núverandi stjórnarsamstarfs, létu loks til leiðast fyrir fortölur foringjanna sem héldu því fram að samstjórn tveggja stærstu flokka landsins væri einmitt það afl sem þyrfti að koma til. ef halda ætti verðbólguþróuninni í skefjum. Aflið fyrirfannst ekki þegar til átti að taka, og er því stjórnin í lok ferils síns sneydd stuðningi sem hún ætti að njóta ef allt væri með felldu.

Ríkisstj„ sem ekki tekst að hemja verðbólguna sem hér hefur ríkt síðustu ár, ræður í rauninni ekki við neitt sem verulegu máli skiptir. Það er verðbólgan sem gert hefur Ísland að láglaunalandi miðað við nálæg lönd, vegna þess að hún veldur því að fjárfesting landsmanna, fjárfesting sem í hlutfalli við þjóðarframleiðslu nálgast heimsmet, skilar ekki eðlilegum þjóðhagslegum arði, heldur að verulegum hluta aðeins verðbólgugróða í vasa þeirra sem fá að ráðskast með lánsfé sem í raun og veru ber ekki vexti, heldur fá lántakendur borgað með því úr vösum sparifjáreigenda og skattgreiðenda.

Það er skerðing verðbólgunnar á umsömdum kaupmætti launa sem gerir kjarasamninga að heiftúðugum átökum sem setja þjóðfélagið í umsátursástand, jafnvel oft á ári.

Það er verðbólgan sem veldur slíku misrétti í lífeyrisgreiðslum til aldraðra að það er orðið árvisst verkefni fyrir ríkisstj. og Alþ. að lappa upp á lífeyriskerfi stéttarfélaganna með bráðabirgðaráðstöfunum. Meðan verðbólgan skekkir öll hlutföll, jafnharðan og reynt er að leggja nýjan grunn, dregst stofnun lífeyriskerfis fyrir alla landsmenn á jafnréttisgrundvelli von úr viti.

Það er verðbólgan sem bindur sérhverri uppvaxandi kynslóð drápsklyfjar, jafnskjótt og hún þarf að afla sér þaks yfir höfuðið. Álagið, sem lagt er á fólk um þær mundir sem það stofnar heimili, er svo óvægið vegna þess að verðbólgan skapar fjármagns-þröskuldinn sem þá þarf að yfirstiga. Þetta sést best þegar almennt húsnæðislánakerfi hérlendis er borið saman við lánakerfi í löndum sem búa við lága verðbólgu.

Alvarlegast af öllu er þó hvernig verðbólgan grefur undan afkomu útflutningsatvinnuvega og þar með efnahagslegu sjálfsforræði þjóðarinnar. Verðbólga hækkar kostnaðarstig í landinu sem nemur því sem hinn er umfram verðbólgu í viðskiptalandi. Í markaðssamkeppni á seljandi frá landi með meiri verðbólgu en keppinautarnir því sífellt undir högg að sækja. Honum veitist erfitt eða ógerlegt að gera áætlanir fram í tímann og fylgjast með tækniþróun. Afleiðingin er að atvinnuvegir þjóðar með háa verðbólgu dragast aftur úr og raungildi launanna, sem þeir greiða, hefur tilhneigingu til að fara lækkandi. Dæmin sanna að þrautalending hefur einatt orðið þegar í óefni er komið, að erlendir fjármagnseigendur komast upp með afarkosti gagnvart verðbólgulandinu gegn því að leggja fram fjármagn sem þar myndast ekki innanlands af því að verðbólgan hefur sett atvinnuvegina úr samhengi við arðsemi.

Verðbólga, sem komin er á það stig sem hér hefur ríkt síðustu ár, verður ekki færð niður í einu vetfangi, þó ekki væri af öðrum sökum en þeim, að fjölmargir aðilar hafa gert fjárhagsráðstafanir sem miðaðar eru við verðbólguáhrif. En hér er ekkert undanfæri, ef menn vilja taka á stærsta vanda sem nú er uppi í þjóðfélaginu áður en hann færir þjóðina niður á bónbjargastigið, gerir hana háða herstöðvaleigu, orkusölu á afsláttarverði eða öðrum óyndisúrræðum.

Tíminn til stefnu að ná tökum á verðbólgunni kann að vera skemmri en margur hyggur. Meðal þeirra manna, sem hafa það starf með höndum að fylgjast með hagþróun og heimsviðskiptum, vex þeirri skoðun fylgi að samdráttartímabilinu, sem hófst þegar olíukreppan skall á, sé síður en svo lokið. Helstu iðnríkjum, eins og Bandaríkjunum, Vestur-Þýskalandi og Japan, hefur ekki tekist að ná hagvaxtarmörkum sem þau settu sér, og lönd, sem búa við veika viðskiptastöðu, eru enn lengra á eftir.

Ekki þarf að útmála hver áhrif almenn hagþróun hefur á afkomu þjóðarbúskapar okkar sem erum háðari utanríkisverslun en nokkur þjóð önnur. Við eigum hreinlega um það að velja, ef langvarandi stöðnun eða samdráttur heimsviðskipta fer í hönd, hvort aðlögun okkar að breyttum aðstæðum gerist með skipulegum hætti og vísvitandi ráðstöfunum eða ringulreið og jafnvel hruni, sé látið skeika að sköpuðu. Það er ekki seinna vænna að þeir, sem valist hafa til að stjórna málum þjóðarinnar, geri sér og öðrum þetta ljóst.

Núv. ríkisstj. lætur reka á reiðanum. Stefnuyfirlýsing hennar í kvöld ber því gleggst vitni. Við svo búið má ekki lengur standa. Kjósendum, sem sjá að nú er nóg komið, ber að taka í taumana. Til þess fá þeir tækifæri að sumri. — Þökk þeim sem hlýddu.