17.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég staðfesti það, sem hv. 2. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, sagði hér áðan, að í morgun óskuðum við formenn þingflokka Alþb. og Alþfl, eftir því, að hæstv. forsrh. gæfi nú í upphafi þingfundar síðdegis í dag skýrslu um það, hvernig samningaviðræður stæðu milli Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og ríkisvaldsins. Það er ekki viðunandi að verkfall skuli hafa staðið — víðtækt og alvarlegt verkfall — jafnlengi og nú ber raun vitni um, án þess að þingheimi sé frá skýrt, hvernig málavextir í raun og veru séu. Nú hefur hæstv. forsrh. gert það og kann ég honum þakkir fyrir það.

Um efni málsins að öðru leyti vil ég segja, án þess þó að gera að umtalsefni einstök atriði í gagnkvæmum samningatilboðum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja annars vegar og ríkisins hins vegar, að það er ómótmælanlegt og það er grundvöllur þess alvarlega ástands, sem nú hefur skapast, að opinberir starfsmenn höfðu dregist mjög verulega aftur úr öðrum launastéttum á undanförnu tímaskeiði. Svo mikið höfðu opinberir starfsmenn dregist aftur úr öðrum launastéttum, að við það ástand var ekki lengur unandi. Það var því fullkomlega eðlilegt, að forustumenn opinberra starfsmanna segðu samningum upp með þeim hætti sem þeir gerðu, og jafnframt fullkomlega eðlilegt, að þeir hagnýttu sér þann rétt, sem Alþ. svo til einróma nýverið hafði veitt þeim, þ.e.a.s. að knýja á kröfur sinar með því að beita verkfalli, með því að hagnýta sér verkfallsréttinn. Að sjálfsögðu hafa allir gert ráð fyrir því, að í því sambandi yrði farið að lögum, eins og raunar varð niðurstaða þess fundar sem nú er afstaðinn milli ráðh. annars vegar og forustumanna ríkisvaldsins hins vegar. Um það eru að sjálfsögðu allir löghlýðnir borgarar sammála, að í einu og öllu, einnig í verkfalli, beri að virða lög. En ég tek undir það með hv. 2. þm. Austurl., Lúðvík Jósepssyni, að á þessu augnabliki, á þessum degi er það tvímælalaus skylda hæstv. ríkisstj. að hafa forgöngu um lausn málsins, að hafa forgöngu um að efnisviðræður hefjist milli samningsaðila þegar í dag, eins og mér raunar skildist á hæstv. forsrh., að ráðstafanir hefðu verið gerðar til að gæti átt sér stað.

Ég skal ekki fjölyrða um það, að skoðun mín er sú, að hægt hefði verið að komast hjá verkfalli ef nægilegri lagni hefði verið beitt við samningsgerðina. En það er liðinn tími. Verkfallið er skollið á og nú á þessum degi er það mikilvægast af öllu, og þess krefjast mikilvægir þjóðarhagsmunir, að verkfallið leysist sem fyrst. Í því efni hvílir sérstök ábyrgð á hæstv, ríkisstj, að hafa forustu um viðræður sem leiði til jákvæðrar niðurstöðu og þess, að eðlilegt þjóðlíf geti aftur hafist í landinu.

Varðandi það atriði, sem mikið hefur verið rætt um undanfarið í sambandi við samningsgerðina og nokkuð hefur borið á góma í þessum umr., þ.e.a.s. með hverjum hætti hægt væri að tryggja rétt opinberra starfsmanna ef gerður yrði samningur til tveggja ára, þá vil ég að það komi fram, að ég álít sjálfsagt að opinberum starfsmönnum sé tryggt það með algerlega öruggum hætti, að þeir dragist ekki framar úr öðrum launþegastéttum, öðrum launþegum í landinu. Ef aðrar stéttir fá kjarabót, þá sé þannig frá málum gengið í samningi, að opinberir starfsmenn fái hliðstæða kjarabót.

Ég vil svo að síðustu ítreka, að það er skoðun okkar í þingflokki Alþfl. að mjög mikilvægir þjóðarhagsmunir krefjist þess, að þetta verkfall leysist sem fyrst, og í því sambandi hvíli sérstök ábyrgð á herðum hæstv. ríkisstj. Ég vil mega treysta því og beini þeim eindregnu tilmælum til hæstv. ríkisstj., að hún í lokaviðræðum taki sanngjarnt tillit til réttmætra hagsmuna opinberra starfsmanna.