15.12.1977
Sameinað þing: 32. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

133. mál, gagnkvæmar fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Ég hyggst að þessu sinni ekki gera að umtalsefni einstök ákvæði þess samkomulags við Færeyinga sem hér er lagt fyrir Alþingi. En mér finnst ástæða til að fara örfáum orðum um einn þátt þessa máls, sem mér hefur fundist liggja um of í láginni í þeim umr. sem farið hafa fram um samskiptin í fiskveiðimálum við Færeyinga, bæði hér á Alþ. nokkrum sinnum og ekki síður á opinberum vettvangi utan þings. Mér þykja þessi orðaskipti bera of mikinn keim af því, að allt of margir liti svo á að fiskveiðiheimildir Færeyingum til handa, miklar eða litlar, séu einhvers konar góðgerðastarfsemi af okkar hálfu. Þeim, sem svo hugsa, skjátlast algerlega að mínum dómi. Eins og hæstv. utanrrh. vék að og ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um hér þá er enginn vafi á því, að skipti okkar við Færeyinga varðandi fiskveiðimál hafa áhrif á aðstöðu okkar á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og hafa áhrif á það, hver aðstaða okkar er til þess að koma þar fram okkar sjónarmiðum sem strandríki sem í yfirgnæfandi mæli er háð fiskveiðum. En það er einnig önnur hlið á þessu máli sem varðar alþjóðleg samskipti, milliríkjasamskipti í fiskveiðum á norðanverðu Atlantshafi, eins og málum er nú komið. Þegar hvert og eitt strandríki við hafið norðanvert hefur tekið sér 200 mílna fiskveiðilögsögu, þá hefur það gerst, eins og menn vita, að Efnahagsbandalagsríkin, hin öfluga samsteypa í Vestur-Evrópu, hafa sameinað sitt lögsögusvæði í eina heildarlögsögu sem er undir stjórn yfirstjórnar Efnahagsbandalagsins í Brüssel. Færeyingum stóð til boða að ganga í Efnahagsbandalagið og fella fiskveiðilögsögn sína, sem liggur að okkar lögsögu, inn í hina sameiginlegu fiskveiðilögsögu bandalagsins. Þeir afréðu að gera þetta ekki, heldur leitast við eins og fyrr að halda uppi sjálfstæðri nýtingu, sjálfstæðu atvinnulífi sem að yfirgnæfandi hluta er byggt á fiskveiðum, því Færeyingar eru sú þjóð sem er enn háðari fiskveiðum en við Íslendingar, og er þá mikið sagt.

Annað, sem greinir aðstöðu þeirra nokkuð frá okkar, er hversu mjög þeir hafa sótt afla sinn á fjarlæg fiskimið, þ. á m. að verulegu leyti á mið sem lent hafa innan sameiginlegrar fiskveiðilögsögu Efnahagsbandalagsins, sér í lagi við Grænland og í Norðursjó. Nú hafa mál þróast þannig, að ljóst er að Efnahagsbandalagið hyggst beita ýtrasta þrýstingi á Færeyinga til þess að leitast við að knýja þá frá sinni sjálfstæðu afstöðu, að reyna að knýja þá til að breyta ákvörðuninni um að halda fiskveiðilögsögu sinni utan hinnar sameiginlegu lögsögu Efnahagsbandalagsins og fá þá inn í þetta stóra svæði.

Þetta er alveg ljóst af því sem fram kom í viðræðum sem fóru fram, ef ég man rétt, nálægt síðustu mánaðamótum í Brüssel. Þá voru t.d. Færeyingum settir þeir kostir að skera niður fiskveiðikvóta þeirra á ákveðinni tegund við Grænland rækjunni sem þeir veiddu þar fyrstir manna og veiddu einir árum saman, að skera þar,n kvóta niður í 1/12 hluta frá því sem verið hefur, og sjá menn auðvitað í hendi sér hvaða þýðingu slíkt hefur fyrir útgerð Færeyinga. Því hljótum við Íslendingar að mínum dómi að líta mjög til þess, hver staða okkar yrði ef Efnahagsbandalaginu tækist að þvinga Færeyinga með aðferðum slíkum sem þessum til að ganga inn í það, til þess að fella sína sérstöku fiskveiðilögsögu, sem nú er, inn í hina sameiginlegu fiskveiðilögsögu Efnahagsbandalagsins. Þá er kominn stór fleygur milli fiskveiðilögsögu Íslands og fiskveiðilögsögu Noregs. Ef efnahagsbandalagið hefur sitt mál fram gegn Færeyingum er það tvímælalaust komið í mun sterkari aðstöðu bæði gagnvart Íslendingum og gagnvart Norðmönnum en það er nú, þegar Færeyingar hafa sína eigin fiskveiðilögsögu og þar með aðstöðu til að reka sjálfstæða fiskveiðistefnu, eins og hefur verið eindreginn ásetningur þeirra eins og okkar og Norðmanna.

Ég álít að þessi sjónarmið hafi legið um of í láginni, en til þeirra beri að taka verulegt tillit þegar við ræðum um það, hver skuli vera afstaða okkar til gagnkvæms fiskveiðisamkomulags við Færeyinga. Ekki stafa þau af tilfinningasemi né frændrækni þau rök sem með því mæla fastast. Rökin eru fyrst og fremst þau, að Íslendingar og Færeyingar hafa, þegar á heildina er litið, sameiginlegra hagsmuna að gæta í öllum langtímasjónarmiðum gagnvart fiskveiðiaðstöðu og fiskveiðistefnu á því hafsvæði sem fiskveiðilögsaga okkar beggja liggur á.