21.12.1978
Efri deild: 44. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1852 í B-deild Alþingistíðinda. (1480)

158. mál, iðnaðarlög

Flm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Ég vona að ég tefji ykkur ekki mikið. Þetta frv. gildir kannske ekki stórt miðað við það sem verið er að fást við þessa dagana. Það er aðeins örlítil tilraun til að tryggja, að því er mér finnst, rétt þeirra, sem hafa verið á sjó, að þegar þeir fullorðnast og koma í land eigi þeir rétt á að vinna við það sem hefur kannske verið meginstarf þeirra árum saman, en svo er ekki nú. Þetta er breyting á 8. gr. iðnaðarlaga. Það, sem ég vil bæta við greinina um rétt til iðnaðarstarfa, er þetta: „Þá hafa þeir, sem gegnt hafa netamannsstarfi eða hliðstæðu starfi á sjó í 10 ár eða lengur, rétt til að annast viðhald veiðarfæra í landi. “Það er sem sagt eina breytingin sem lögð er til.

Netamenn og yfirmenn á fiskiskipum eru yfirleitt búnir að fá langa reynslu í að vinna við veiðarfæri, en það er nú svo í dag, að það varðar nánast sektum ef þeir vinna í landi við þessi störf sem þeir hafa unnið við úti á sjó árum saman. Ef þeir vinna við þau í landi, þá er það ekki löglegt. Þetta er það sem mér finnst réttlæti að breyta, og ég vona að það sé ekki svo stórt mál að það þurfi að tefja ykkur mikið. Þessu máli mun eiga að vísa til iðnn.