26.10.1978
Sameinað þing: 9. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

12. mál, efling þjónustu- og úrvinnsluiðnaðar í sveitum

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er vissulega ánægjulegt þegar menn hafa áhuga á iðnþróun og byggðaþróun hér á Alþ., og ég verð að segja, að ég hlakka til að fá tækifæri til þess í atvmn. Sþ. að fá að fjalla um þessi mál svo og önnur. En það, sem rekur mig í ræðustólinn að sinni til að taka til máls um þessa tillögu, er það sem kom fram hjá hv. 3. þm. Austurl. varðandi rekstrarformið. Ég get ómögulega skilið hvers vegna flm. þessarar till. þurfa að setja það fram, að ákveðnu rekstrarformi skuli veittur sérstakur stuðningur umfram önnur rekstrarform. Eins og hv. 3. þm. Austurl. sagði, taldi hann ástæðuna vera þá, að einkarekstur væri heldur hvimleiður að hans áliti. Ég vil minna á það, að Alþb. gefur út dagblað hér í borginni, og ég veit ekki betur en rekstraraðilar þess blaðs og reyndar annarra stofnana á vegum þessa flokks séu hlutafélög, og að sögn þeirra manna, sem starfa í þessum flokki, virðist sá rekstur ganga talsvert vel, en um það voru opinberar umr. fyrir nokkrum missirum.

Annað er það í sambandi við þessi mál og kannske almennara sem ég vildi gjarnan fá að koma hér á framfæri, en það er í sambandi við byggðamál almennt. Það virðist stundum vera trú manna, að það sé nægilegt, þegar rætt er um byggðamál og ekki síst iðnþróun og ný atvinnutækifæri úti á landsbyggðinni, að veita til þess arna talsvert fjármagn. Skoðun mín er sú, að þar þurfi talsvert fleira til að koma. Og það, sem er e.t.v. mikilvægast, er sú þekking sem verður að liggja að baki því að reka fyrirtæki, hvort sem það eru hlutafélög eða framleiðslusamvinnufélög. Það er að mínu áliti talsvert til í því sem ýmsir hafa haldið fram, að fyrirtæki úti á landsbyggðinni skorti ekki eingöngu fjármagn, heldur e.t.v. rekstrarlega þekkingu. Þess vegna dettur mér í hug, hvort ekki sé ástæða til að þeir aðilar, sem mundu hugsanlega verða fengnir til að koma á laggirnar fyrirtækjum eins og hér er lýst eða öðrum slíkum, hafi samstarf við þá aðila aðra sem láta sig varða menntun þeirra sem stýra fyrirtækjum og reka þau. Og vegna þess að hér er verið að ræða um málefni sem áreiðanlega koma til með að snerta Austurland, auk annarra landshluta að sjálfsögðu, vil ég minna á að á Austurlandi er mikill skilningur í þessum efnum. Þar er starfandi a.m.k. eitt áhugamannafélag sem lætur sig slíkt varða, og þar á ég við Stjórnunarfélag Austurlands, sem á undanförnum árum hefur unnið talsvert starf til þess að mennta eigin félagsmenn í þessum fræðum. Og ég vil taka það skýrt fram, að þeir, sem hafa sýnt þessu félagi hvað mestan áhuga, eru ekki eingöngu þeir sem starfa að hlutafélagarekstri, heldur einnig hinir, sem standa að rekstri með talsverðum dugnaði, svo að til fyrirmyndar er á sumum sviðum, og það eru þeir aðilar sem reka fyrirtækin á Neskaupstað og hv. flm. er vel kunnugt um.

Það eru þessi atriði sem ég vildi koma til skila í þessu máli þegar við þessar umr., þótt ég fái auðvitað tækifæri til þess að fara höndum um þessi mál í n. og muni þá að sjálfsögðu koma fram með mínar aths., en styðja það í þessari till. sem ég tel að til heilla horfi.