19.12.1979
Neðri deild: 6. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

16. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Í tilefni af því frv., sem hér liggur fyrir, langar mig til að segja örfá orð og lýsa afstöðu minni til verðjöfnunargjaldsins.

Hér er gert ráð fyrir að sú hækkun verðjöfnunargjalds, sem samþykkt var á næstsíðasta Alþ., úr 13% í 19%, haldi áfram og gildi fyrir árið 1980. Þessi hækkun verðjöfnunargjalds var mikið deilumál og reyndar tvísýnt um úrslit þó að hún hafi á endanum verið samþykkt. Gjald þetta var upphaflega — og er reyndar enn — sett til að standa undir halla á RARIK og hefur farið smáhækkandi eftir því sem fjárhagsvandi RARIK hefur aukist. Þó hefur alltaf verið litið á þetta verðjöfnunargjald sem bráðabirgðaskatt. Hann hefur verið framlengdur frá ári til árs og oft a.m.k., ég segi ekki alltaf, hafa fylgt því yfirlýsingar um að nú eigi að taka fjárhag RARIK til endurskoðunar þannig að ekki sé lengur nauðsyn á að leggja sérstakan skatt á almenna raforkusölu í landinu til að standa undir þessum hallarekstri.

Ég læt það koma hér fram, að ég er andvígur þessu verðjöfnunargjaldi eins og það er byggt upp. Sú andstaða byggist á þeirri skoðun, að fjárhagsvanda RARIK eigi að leysa á annan hátt en með almennri skattlagningu á raforkusölu. Ég met mikils það hlutverk RARIK að dreifa orku um hinar dreifðu byggðir landsins. En við gerum okkur allir grein fyrir því, að vegna strjálbýlis og landshátta er vonlaust að margar þær framkvæmdir, sem RARIK leggur út í, geti staðið undir sér. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að undir þeim framkvæmdum, sem RARIK leggur í og flokkast til félagslegra framkvæmda, þ.e.a.s. eru ekki arðbærar, eigi að standa með óafturkræfum framlögum úr ríkissjóði til RARIK. Það er óeðlilegt að halda áfram stöðugum lántökum til óarðbærra framkvæmda og hlaða þannig skuldum á skuldir ofan hjá RARIK. Ég tel að fjárhagsvanda RARIK eigi að leysa með því að greiða sundur hinar miklu skuldir fyrirtækisins, gera mun á skuldum vegna óarðbærra framkvæmda, þær skuldir eigi ríkissjóður að taka á sig, en RARIK síðan að standa undir öðrum skuldum og reka síðan fyrirtækið á þann hátt að það geti staðið undir sér, eins og ég tel að hljóti að vera markmið með öllum þeim fyrirtækjum sem eru eign ríkisins og hafa sjálfstæðan fjárhag og sjálfstæðar tekjur. Ég hef trú á því, að með slíkri aðferð sé hægt að ná tiltölulega jöfnu raforkuverði um land allt og ekki síst þegar að því kemur, sem nú er skammt undan vegna samtengingar raforkukerfisins, að framleiðsla raforku með olíu muni nær hverfa nema í neyðartilvikum.

Það er mjög margt sem mælir gegn slíku gjaldi eins og verðjöfnunargjaldið er. Í fyrsta lagi er orðið verðjöfnunargjald öfugmæli, því að þeir neytendur, sem hæst raforkuverð greiða fyrir, greiða hæst verðjöfnunargjald, vegna þess að það er lagt sem prósenttala ofan á raforkuverðið. En að vísu má segja á móti að þær tekjur, sem gjaldið gefur, komi þá í veg fyrir frekari hækkanir hjá þeim sem hæstu gjöldin bera.

Í öðru lagi, og það tel ég kannske mikilvægasta þátt þessa máls, er skattheimta á raforkusölu hér á landi komin fram úr öllu hófi. Það er greiddur 22% söluskattur af raforkusölu og nú 19% verðjöfnunargjald, og slík skattlagning á raforkusölu þekkist hvergi annars staðar, a.m.k. ekki í þeim löndum sem ég hef aflað mér upplýsinga um. Slíkt gjald kemur mjög illa við atvinnuvegi þjóðarinnar, einkum iðnaðinn. Raforkukostnaður er mikill þáttur í rekstrarkostnaði margra iðnfyrirtækja, en slík skattlagning skerðir að sjálfsögðu samkeppnisaðstöðu iðnaðar okkar gagnvart iðnaði annarra landa sem íslenskur iðnaður þarf að keppa við.

Í þriðja lagi er hér um algeran neysluskatt að ræða. Allir þurfa rafmagn, bæði til heimilishalds og til annarra þarfa, og hann kemur því niður á öllum landsmönnum. Ég tel að það séu einnig rök gegn slíku gjaldi.

Í fjórða lagi vil ég benda á að okkur hér í Reykjavík hefur fundist einkennilegt, að í mjög mörg ár hafa verðlagsyfirvöld, sama raunar hvaða ríkisstjórnir hafa átt hlut að máli, reynt að halda niðri verðlagi á raforku hér í Reykjavík, synjað árum saman, hvað eftir annað eðlilegum hækkunarbeiðnum frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur með þeim afleiðingum að Rafmagnsveita Reykjavíkur hefur verið knúin til að taka erlend lán sem aftur hafa leitt til þess að nú hvíla á því fyrirtæki þungir vextir og þungar afborganir af erlendum lánum og í rauninni er rafmagnsverð nú hér í Reykjavík hærra en vera þyrfti ef á hverjum tíma hefði verið farið eftir óskum Rafmagnsveitu Reykjavíkur um eðlilegar hækkanir. En okkur hefur fundist það einkennilegt, að á sama tíma sem verðlagi á raforku hefur verið haldið niðri á þennan hátt skuli hafa verið talið eðlilegt að leggja sérstakan skatt á þetta rafmagnsverð til þess að jafna, eins og það er kallað, verðlagningu á raforku nm landið.

Ég vil líka benda á að Samband ísl, rafveitna, en það eru samtök allra rafveitna sem starfa á landinu, hefur lýst sig algjörlega andvígt slíkri skattlagningu og sent um það mörg erindi til hv. Alþ. þegar þessi mál hafa verið hér til umræðu. Og ég vil enn fremur geta þess, að borgarstjórn Reykjavíkur og borgarráð hafa mjög eindregið lýst andstöðu sinni gegn þessu gjaldi og hafa þar allir borgarfulltrúar sameinast, hvar í flokki sem þeir standa.

Þó að þetta gjald hafi verið lagt á sem bráðabirgðaskattur frá ári til árs hafa málefni RARIK ekki verið tekin neinum tökum og menn alltaf staðið frammi fyrir því ár eftir ár, í lok hvers árs, að nauðsynlegt væri að framlengja gjaldið og jafnvel hækka til þess að leysa málefni RARIK. Ég ítreka því það sem ég sagði áðan, að ég er andvígur verðjöfnunargjaldi eins og þessu og get því ekki samþykkt það þegar það kemur til atkvgr. í þessari hv. d. Ég mun gera nánari grein fyrir afstöðu minni í iðnn.

Ég geri mér grein fyrir því, að það er viss ábyrgðarhluti að ætla sér að stöðva framgang þessa máls hér á hv. Alþ. nú í lok ársins, vegna þess að allt hefur verið látið reka á reiðanum, eins og ég gat um, varðandi málefni RARIK. Og hið sérkennilega pólitíska ástand sem hér ríkir, m.a. með þeim afleiðingum að engin fjárlög eru nú til afgreiðslu, gerir nokkuð viðurhlutamikið að þetta mál fái ekki einhverja afgreiðslu hér í þinginu. Ég minni á að fyrir ári, þegar þetta gjald var hér til umræðu, buðust allmargir þm. til að leysa málið á þann hátt að þær tekjur, sem hækkun verðjöfnunargjaldsins úr 13% í 19% mundi gefa, yrðu teknar af fjárlögum og samvinna tekin upp við þáv. hæstv. ríkisstj. um niðurskurð á fjárlögum á móti. En því boði var ekki tekið.

Ég vildi láta þessar aths. koma fram strax við 1. umr. um þetta mál, en mun nánar gera grein fyrir afstöðu minni í iðnn. þessarar hv. d. þegar málið kemur þangað.