28.04.1980
Sameinað þing: 48. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2094 í B-deild Alþingistíðinda. (1983)

152. mál, iðnaður á Suðurlandi

Flm. (Sigurður Óskarsson):

Herra forseti. Á þskj. 324 hef ég ásamt hv. 9. landsk. þm., Guðmundi Karlssyni, leyft mér að flytja till. til þál. um eflingu iðnaðar á Suðurlandi. Með leyfi forseta, hljóðar þáltill. á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um gerð iðnþróunaráætlunar fyrir Suðurland. Áætlunin verði stefnumótun ríkisvaldsins og heimamanna um framtíðarþróun atvinnulífs á Suðurlandi.

Í áætlun þessari skal gerð grein fyrir þörfinni á nýjum atvinnutækifærum á Suðurlandi næstu tíu árin og hvernig hagkvæmast er að mæta henni. Gerð skal athugun á möguleikum starfandi atvinnugreina til vaxtar. Einnig skal athuga ný iðnaðartækifæri sem til greina koma á Suðurlandi.

Í áætluninni er bent á leiðir til þess að efla iðnað. Gera skal grein fyrir því, hvaða þörf er á framkvæmdum hins opinbera í stoðkerfum atvinnulífsins, svo sem orkumálum og samgöngumálum.

Byggðadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins verði falið að gera áætlun þessa í sem nánastri samvinnu við Sunnlendinga. Til að fylgjast með verkinu og móta það verði skipuð áætlunarnefnd fulltrúum aðila vinnumarkaðarins og samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi.“

Eins og fram kemur í upphafi grg. með þessari till. hefur Suðurland ekki haldið hlut sínum í heildarfjölda landsmanna. Um síðustu aldamót bjuggu á Suðurlandi 17% landsmanna, en árið 1979 aðeins 8.6% af íbúum landsins, 19 462 manns. Þannig hefur þróunin orðið í blómlegustu landbúnaðarhéruðum landsins, — héruðunum sem meginhluti raforku landsmanna er framleiddur í, héruðunum sem eiga strendur að einum auðugustu fiskimiðum veraldarinnar, héruðum sem fætt hafa og alið upp ungt fólk til að flytja til annarra landshluta sem lífvænlegri lífskjör hafa boðið.

Því hefur oft verið haldið fram, að landbúnaðarhéraðið Suðurland haldi ekki hlut sínum hvað varðar íbúafjölda vegna breyttra búskaparhátta og tæknivæðingar sveitanna. Að sjálfsögðu þarf nú færri hendur til að sinna framleiðslu landbúnaðarvara en áður var. En það svar er ekki fullnægjandi og þéttbýlisstaðir á Suðurlandi hafa ekki megnað að byggja upp vinnumarkað til að taka við nema hluta þess ungs fólks sem komið hefur á vinnumarkaðinn á síðustu áratugum.

Eins og fram kemur í töflum í grg. með þeirri till., sem hér er flutt, er skipting íbúafjölda á Suðurlandi eftir þéttbýlisstigi þannig: Bæir með yfir 1000 íbúa eru þrír, íbúar samtals 9 184. Þéttbýli með 200–1 000 íbúa eru á sex stöðum með 3 431 íbúa samtals. Þéttbýli með innan við 200 íbúa er á sjö stöðum, samtals 641 íbúi. Í sveitabyggð eru 6 026 íbúar.

Í annarri töflu, sem fylgir grg., má einnig sjá hvernig þessi landshluti sker sig úr miðað við landið allt um hátt hlutfall ungs fólks.

Nú hefur enginn reynt að halda því fram, a. m. k. ekki mér vitanlega, að fólk flytjist frá Suðurlandi af ævintýraþrá einni saman eða vegna þess að því líki ekki landkostir eða veðurfar. Einhver hlýtur þó ástæðan að vera. Ástæðan er einfaldlega sú, a. m. k. að mínu mati og margra annarra, að fólk hefur flust á brott frá þessum landshluta möguleikanna vegna þess að það hefur ekki mátt nýta þessa möguleika fyrir þá sem þar búa. Fólk flytur frá þessum landshluta vegna þess að það eygir annars staðar tryggari afkomumöguleika sér og sínum til handa. Sú þróun, sem ég hef bent á hér varðandi íbúafjölda á Suðurlandi, hefur orðið hvað átakanlegust á síðasta áratug þrátt fyrir verulegan vinnumarkað á hálendi Suðurlands við virkjanaframkvæmdir, sem sumir hafa viljað halda fram að leysti allan vanda Sunnlendinga og því væri ástæðulaust að hafa áhyggjur af atvinnuþróun þar.

Á árunum 1972–1977 fækkaði um 81 mann í störfum við framleiðslugreinar á Suðurlandi. Á sama tíma fjölgaði slíkum störfum um 6 600 í landinu í heild. Heildarmannafli á Suðurlandi hefur á fyrrnefndu fimm ára tímabili aðeins aukist um 2.9%, en á landinu öllu um 12.3%. Aukning mannafla á Suðurlandi á þessum árum er nærri þrisvar sinnum hægari en í nokkru öðru héraði landsins. Á þessu tiltekna árabili, þegar á Suðurlandi voru framkvæmdar stófelldar virkjana- og vatnsmiðlunarbyggingar, fluttu burt þaðan 888 menn umfram aðflutta. Þetta er mesti byggðaflótti á þessum tíma og jafngildir hlutfallslegri fækkun íbúa um 0,4%.

Hvað tekjuþróun á Suðurlandi varðar hefur hún verið mjög óhagstæð undanfarin ár. Á töflu, sem fylgir grg. þessarar þáltill., kemur að vísu fram að Vestmannaeyjar hafa hæstu meðaltekjur, en frá 1977 hefur fastalandið á Suðurlandi, Árnes- og Rangárvallasýslur og Vestur-Skaftafellssýsla, verið allra landshluta verst sett hvað meðaltekjur varðar. Og þótt meðaltekjur í Vestmannaeyjum hafi á þessum árum verið háar er ljóst að ekkert má út af bera hvað aflabrögð varðar eða markaði fyrir sjávarafurðir. Það atriði út af fyrir sig, hve vinnumarkaður í Vestmannaeyjum er einhæfur og nálega að öllu leyti háður útgerð og aflabrögðum, þarfnast sérstakrar athugunar.

Á 5. þingi Alþýðusambands Suðurlands, sem haldið var 10. og 11. febr. 1979, var samþ. ályktun um atvinnumál sem ég tel dæmigerða fyrir umræður og ályktanir fólks almennt um þessi mál á Suðurlandi á síðustu árum og er svo, með leyfi forseta:

„Fimmta þing Alþýðusambands Suðurlands telur að á kerfisbundinn hátt og með öflugri sjóðamyndun skuli unnið að eflingu atvinnurekstrar og allsherjar uppbyggingu í öllum héruðum landsins þar sem skilyrði eru til arðbærrar framleiðslu. Atvinnufyrirtækjum og sveitarfélögum sé jafnframt tryggð nauðsynleg fjárhagsaðstoð þegar tímabundið atvinnuleysi og efnahagsörðugleikar steðja að. Fullt tillit sé ævinlega tekið til félagslegra aðstæðna og félagslegra viðhorfa.

Þingið telur að á Suðurlandi eigi, auk þess að tryggja framfarir í hinum hefðbundnu atvinnugreinum: landbúnaði og sjávarútvegi, að leggja sérstaka áherslu á stórátak við uppbyggingu hvers konar iðnaðar, svo sem hagnýtingu jarðvarmans í Hveragerði til sykurhreinsunar, jarðefnaiðnaður á þeim svæðum austanfjalls þar sem skilyrði eru best, stórauka vinnslu úr sláturafurðum heima í héraði og unnið verði markvisst að aukinni hagnýtingu sjávarafla með fullnýtingu alls afla sem á land berst.

Þingið harmar þá þróun, sem átt hefur sér stað hvað varðar fullnaðarvinnslu landbúnaðarafurða á Suðurlandi, og átelur þá forustumenn bænda sem látið hafa ginnast af sjónarmiðum sem stuðla að auknu atvinnuleysi í landbúnaðarhéruðum Suðurlands og fólksflótta til annarra landshluta.

Haldið skal áfram virkjunum stórfljóta sunnlenskra héraða með byggingu orkuvera sem verði hagkvæmur aflgjafi fjölþætts atvinnurekstrar á Suðurlandi. Unnið verði markvisst að gagngerðum endurbótum á dreifikerfi rafveitna á Suðurlandi og heimilum séð fyrir nægri raforku á sanngjörnu verði. Tryggð sé næg raforka til húshitunar í þeim sveitarfélögum, sem ekki hafa jarðvarma, og við verðlagningu þeirrar raforku sé tekið mið af hagstæðustu kjörum við upphitun á hitaveitusvæðum.

Þingið telur, að skapa verði verslun og þjónustu á Suðurlandi eðlilega samkeppnisaðstöðu og vaxtarskilyrði, og bendir í því sambandi á nauðsyn þess, að verðlagning símagjalda og flutningskostnaðar nauðsynjavöru sé samræmd og jöfnuð.

Þingið telur að sérstaka áherslu beri að leggja á að hiklaust verði haldið áfram uppbyggingu vegakerfisins á Suðurlandi, enda hafa íbúar í sunnlenskum héruðum ekki að öðru að hverfa hvað samgöngur varðar. Áherslu ber að leggja á að staðið verði við fyrirheit af hálfu stjórnvalda um að hafist verði handa við byggingu brúar á Ölfusárós, svo að nýtingar möguleikar hinnar fullkomnu hafnar í Þorlákshöfn og fiskvinnslustöðva austan Ölfusár aukist.“

Þá samþykkti stjórn Alþýðusambands Suðurlands 13. apríl s. l. svo hljóðandi ályktun um stefnu og vinnubrögð varðandi þessi mál, með leyfi forseta:

„Fundur stjórnar Alþýðusambands Suðurlands, haldinn á Selfossi sunnudaginn 13. apríl 1980, skorar á fulltrúa þjóðarinnar á Alþingi Íslendinga að þeir beiti sér fyrir því, að ríkisstj. skipi vinnumarkaðsnefnd fyrir Suðurland sem hafi að verkefni m. a. eftirfarandi: Könnun á ástandi og horfum varðandi vinnumarkaðsmál í Suðurlandskjördæmi. Könnun á vinnumarkaðsuppbyggingu í Suðurlandskjördæmi, m. a. með hliðsjón af nýtingu landkosta og fiskimiða, samgöngumálum og nýtingu sveitarfélaga á lögbundnum fjárframlögum til atvinnuuppbyggingar og félagslegra framkvæmda. Könnun á raforkuverði og orkuverði almennt í kjördæminu. Könnun á framkvæmd vinnumiðlunar á vegum sveitarfélaganna.

Nefndin starfi í samvinnu við viðkomandi samtök aðila vinnumarkaðarins á Suðurlandi og samtök sveitarfélaga, eftir því sem við verði komið, og ljúki störfum fyrir 1. maí 1981. Þá skal nefndin leggja fram skýrslu varðandi störf sín og niðurstöður fyrir ríkisstjórn Íslands.“

Þá vil ég geta þess, að kjördæmisráð Sjálfstfl. í Suðurlandskjördæmi samþykkti á aðalfundi sínum, sem haldinn var í Vestmannaeyjum 12. apríl s. l., ályktanir varðandi atvinnuuppbyggingu, atvinnuþróun og orkumál í Suðurlandskjördæmi. Í þeim ályktunum er hvatt til að fram fari á vegum stjórnvalda ítarleg könnun þessara mála og með hliðsjón af niðurstöðum verði gerð atvinnuþróunaráætlun fyrir Suðurland. Þá hafa sveitarstjórnir, sýslunefndir og verkalýðsfélög á Suðurlandi einnig ályktað um þessi mál og bent á nauðsyn aðgerða varðandi orku- og atvinnumál á Suðurlandi.

Þörf fyrir ný atvinnutæki í þessum landshluta er mjög brýn og með þessari þáltill. er brugðið á það ráð að samstilla sunnlenskt átak í iðnþróun með gerð áætlunar fyrir allan landshlutann. Þá er lagt til að áætlun þessi verði unnin af byggðadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins með virkri og formlegri samvinnu við aðila vinnumarkaðarins á Suðurlandi og samtök sveitarfélaga þar. Byggðadeild hefur á undanförnum árum unnið að almennri áætlanagerð á Suðurlandi, m. a. gert byggðaáætlun fyrir Vestmannaeyjar og iðnþróunaráætlun fyrir Rangárvallasýslu. Hér er lagt til að hinn mikilvægi þáttur iðnaðar í framtíðarþróun á Suðurlandi verði tekinn fyrir sérstaklega og fyrir allan landshlutann til samræmingar og eflingar. Það er alveg ljóst, að við það verður ekki unað að lífskjör í þessum landshluta og framtíðarmöguleikar ungs fólks þar séu með þeim hætti að fólksflótti þaðan verði nokkuð sem sjálfsagt og eðlilegt er talið, meira að segja á þeim tímum sem orkuöflunarmöguleikar þessa héraðs eru nýttir til að byggja upp vinnumarkaði í öðrum landshlutum, — vinnumarkaði sem byggjast á sunnlenskri orku á lágu verði meðan sunnlensk fyrirtæki og einstaklingar búa við orkuokur.

Í þessari till. er því lýst á hvern hátt flm. hugsa sér að áætlunin eigi að vera. Mörg undanfarin ár hefur Alþ. ályktað að gerðar skuli áætlanir fyrir héruð og atvinnugreinar án þess að ljóst sé til hvers er ætlast eða hvaða hlutverki viðkomandi áætlun er ætlað að gegna. Þá hefur oft verið óljóst á hvern hátt áætlanir skuli framkvæmdar, hver sé staða þeirra gagnvart framkvæmdavaldi, hver skuli framkvæma þær og í hve miklum mæli skuli tekið tillit til þeirra.

Svo að áætlanagerð verði raunhæf þarf að vera ljóst frá upphafi í hve miklum mæli opinberar framkvæmdir og útlán fjárfestingarsjóða skuli taka mið af því sem í áætlununum stendur. Við gerð þessarar áætlunar mun Sunnlendingum gefast tækifæri til að fá yfirsýn yfir þá atvinnustarfsemi sem fyrir er á Suðurlandi og hvers hún er megnug til vaxtar. Einnig verður að gera grein fyrir helstu nýiðnaðarmöguleikum, þeim sem hægt er að sjá fyrir. Þá er mikilvægt að fundnir verði farvegir og aðgerðir til eflingar iðnþróun. Fólk á Suðurlandi vill setja markíð háu um framtíð síns landshluta og sættir sig ekki við þróun undangenginna ára í vinnumarkaðsuppbyggingu og vannýtingu möguleika þessa landshluta fyrir þá sem þar búa.

Við þær athuganir á möguleikum starfandi atvinnugreina til vaxtar, sem till. þessi gerir ráð fyrir að framkvæma skuli, verðir óhjákvæmilega að fara fram ítarleg samanburðarkönnun orkuverðs. Sú mismunun á orkuverði, sem nú á sér stað milli einstakra byggðarlaga á Íslandi, er stórfelld mismunun lífskjara. Alvarlegust er þessi kjaraskerðing á þeim landssvæðum þar sem jarðvarmaorka er ekki fyrir hendi eða ekki nýtanleg. Ég held því fram hér úr ræðustól á hv. Alþ. að Sunnlendingar búi við orkuokur, á sama tíma og vinnumarkaðir og heimili annarra landshluta njóta ódýrrar raforku úr sunnlenskum fallvötnum. Vil ég, með leyfi forseta, nefna nokkur dæmi úr samanburðarskýrslu sem verkalýðsfélagið Rangæingur hefur látið gera á kyndingarkostnaði og er dæmigerð fyrir það ástand sem meginhluti Sunnlendinga býr við í þeim efnum. Þar kemur m. a. fram, að kynding á úttektarhúsinu, sem er 420 rúmmetra einbýlishús, miðað við verðlag 1. febr. 1980 er eftirfarandi:

Ársnotkun: Með olíu kostar 1 millj. 139 þús. 600 kr. að kynda þetta hús. Þegar dreginn hefur verið frá olíustyrkur miðað við fjögurra manna fjölskyldu er þessi kostnaður 848 400 kr. Með rafmagni á raftaxta 41 kostar kyndingin á þessu húsi 682 104 kr. Sambærileg orka á taxta Hitaveitu Reykjavíkur, svo að dæmi sé nefnt, kostar 168 965 kr.

Varðandi orkukostnað vegna almennrar heimilisnotkunar er niðurstaða könnunar sú, að í kauptúni á Suðurlandi, sem býr við RARIK-taxta, er árleg heimilisnotkun 189 198 kr., en sama orka, svo að dæmi sé tekið, frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur kostar 89 848 kr.

Í þessari samanburðarkönnun kemur fram að verkamaður á þriðja taxta verkamannalauna ver 5.3% árslauna sinna til kyndingar með hitaveitu samkv. taxta Hitaveitu Reykjavíkur og öðrum sambærilegum. Búi hann við olíukyndingu eyðir hann 26.6% árslauna sinna og með rafkyndingu 21.4%. Sé síðan tekið tillit til hærri stofnkostnaðar olíukyndingar og annarra tengdra þátta jafngildir þessi aðstöðumismunur því, að taxtar verkafólks, sem við þetta ástand býr á Suðurlandi og reyndar annars staðar þar sem sama ástand ríkir, þurfi að hækka um 26.6% svo kjarajöfnuður vegna þessa náist, og er þá ekki tekið tillit til skattahækkana og útsvarshækkana sem slíkt mundi hafa í för með sér.

Það er ljóst, að þetta ástand er ekki einskorðað við Suðurlandið, eins og ég nefndi áðan, og því hlýtur að vera eðlilegt og sjálfsagt að gerð verði heildarkönnun á orkuverði á landinu öllu og þar komi skýrt fram hver kjaramismunun felst í mismun á orkuverði. Það getur ekki verið nein heilög kenning eða sjálfsagt og eðlilegt að einstakir landshlutar eða stór áhrifasvæði fleyti rjómann af auðlindum þessa lands. Meðan verðlagning raforku er með þeim hætti, sem nú er, og meðan þeir, sem verða að nota hana til húskyndingar vegna þess að þeir eiga ekki annarra kosta völ nema þá olíu, greiða fjórum sinnum hærra verð en þeir sem nota jarðvarma, verður ekki mikilla framfara og hagsældar að vænta á þeim landssvæðum þar sem slíkt ástand ríkir.

Það er einnig hætt við að slíkt ástand kalli á ófrið á vinnumarkaði og illleysanlegar deilur vegna lélegra lífskjara einstaklinga og lélegrar afkomu atvinnufyrirtækja, ekki síst á bökkum þeirra fallvatna sem nær öll raforka á Íslandi er framleidd úr. Svo má velta vöngum yfir því hvort sú ósk Sunnlendinga að fá steinullarverksmiðju á Suðurlandi er ósanngjörn eða óeðlileg í atvinnulegri og kjaralegri vannæringu þessa landshluta. Suðurland verður ekki lengur rekið sem eins konar nýlenda í þessu landi, — nýlenda sem framleiðir ungt fólk á vinnumarkaði annarra landshluta, nýlenda sem framleiðir ódýra raforku fyrir aðra landshluta og lítt eða óunnar landbúnaðarafurðir. Það er óhjákvæmilegt að þegar í stað verði hafist handa og stefnan tekin í átt að markmiðum með skipulegum vinnubrögðum. Hina ýmsu þætti þarf að samhæfa svo sem kostur er og gera sér grein fyrir leiðum að markinu. Sunnlendingar hafa enga trú á að þá reki að réttu marki.

Herra forseti. Ég hef lokið framsögu minni með þessari till. og legg til að hún verði að lokinni umr. send atvmn. til umfjöllunar.