13.11.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

51. mál, bygging útvarpshúss

Flm. (Markús Á. Einarsson):

Herra forseti. Till. þá, sem hér er tekin til umr. flyt ég vegna þess óeðlilega og um margt óskiljanlega dráttar sem orðið hefur á byggingu útvarpshúss við Háaleitisbraut í Reykjavík, en grunnur þess hefur staðið opinn og beðið athafna í tvö ár. Þótt fé sé fyrir hendi í byggingarsjóði stofnunarinnar og þrátt fyrir óskir forráðamanna hennar og yfirlýstan ásetning hæstv. menntmrh. hefur ekki tekist að leysa þann hnút sem málið illu heilli hefur lent í.

Það mun hafa verið í tilefni 40 ára afmælis Ríkisútvarpsins fyrir 10 árum að skriður komst á húsbyggingarmál stofnunarinnar, en þá skipaði þáv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, byggingarnefnd og hélt hún sinn fyrsta fund 28. des. 1970. Hófst þá fljótlega undirbúningsstarf, sem staðið hefur óslitið síðan. Ráðinn var hönnunarstjóri, Karl Guðmundsson verkfræðingur, og arkitektar, þeir Helgi og Vilhjálmur Hjálmarssynir. Einnig var leitað eftir ráðgjöf erlendra sérfræðinga og varð úr að einkum var stuðst við reynslu af byggingu útvarpshúss Íra að tillögu Sambands útvarpsstöðva Evrópu. Reykjavikurborg tryggði Ríkisútvarpinu 5.6 hektara lóð við Háaleitisbraut, og er reiknað með að þar sé nægilegt framtíðarrými bæði fyrir hljóðvarp og sjónvarp. Við hönnun var síðan í samráði við samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir ákveðið að stefna að byggingu sem rúmaði bæði hljóðvarp og sjónvarp.

Eftir 71/2 árs undirbúning var það almennt ánægjuefni er hafin var jarðvegsvinna við grunn útvarpshússins árið 1978. Var í starfsáætlun gert ráð fyrir að hljóðvarpið gæti flutt í nýbyggingu árið 1983 og sjónvarp ári síðar. Þetta fór þó því miður á annan veg eins og allir vita. Framkvæmdir stöðvuðust með öllu að lokinni jarðvegsvinnu og situr allt við það sama í því efni nú tveim árum síðar. Þessi langa töf á framhaldi verksins á sér stað þrátt fyrir þá sérstöðu þessarar byggingarframkvæmdar hvað varðar fjármögnun sem Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins skapar.

Í 14. gr. útvarpslaga nr. 19/ 1971 segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Í sjóð, er nefnist Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins, skal leggja 5% af brúttótekjum stofnunarinnar. Fé Framkvæmdasjóðs skal verja til að tryggja viðunandi húsnæði og tækjakost fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins.“

Með lögum nr. 49/1979 um breytingu á útvarpslögum var framlagið í Framkvæmdasjóð hækkað úr 5% í 10%. Var Vilhjálmur Hjálmarsson, fyrrv. menntmrh., flm. þess frv. Ég tel óhætt að fullyrða að svo til allir þeir, sem um málefni Ríkisútvarpsins hafa fjallað, líta á Framkvæmdasjóð sem byggingarsjóð sem standa eigi undir kostnaði við að koma upp framtíðarhúsnæði fyrir stofnunina. Hins vegar mun sú skoðun hafa verið á kreiki innan samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir, að hlutverk sjóðsins ætti að vera víðtækara og ætti hann t.d. að fjármagna nýja langbylgjustöð. Er þar e.t.v. kominn hluti skýringar á töf framkvæmda, — töf sem þó hefur án efa bæði orðið byggingu útvarpshúss og langbylgjustöðvar til tjóns. Ég vil í þessu sambandi vitna í orð Vilhjálms Hjálmarssonar í umr. um frv. um hækkun framlags til Framkvæmdasjóðs hinn 8. maí 1979, en þá lét hann m.a. eftirfarandi orð falla, með leyfi forseta:

„Í útvarpslögum eru fyrirmæli um að leggja 5% af brúttótekjum Ríkisútvarpsins í Framkvæmdasjóð, það er skylt að gera það. Ég hygg að einkum hafi verið haft í huga, þegar það ákvæði var tekið upp í lögin, bygging og búnaður útvarpshúss.“

Þessu mótmælti enginn á þeim tíma, og ég vek auk þessi athygli á því, að vilji flestra hv. alþm. vorið 1979 til að hækka framlag í Framkvæmdasjóð á vafalaust rætur að rekja til þeirrar staðreyndar, að framkvæmdir höfðu þá nýverið átt sér stað við grunn útvarpshússins og ljóst að nú skyldi húsinu komið upp. Umr. um frv. Vilhjálms snerust eingöngu um byggingu útvarpshúss. Hæstv. menntmrh. Ingvar Gíslason hefur mjög tekið í sama streng hvað varðar þetta atriði. Nægir að geta ummæla hans í þættinum Víðsjá 29. ágúst s.l., en þar sagði hann m.a. að ljóst væri að gert væri ráð fyrir að Framkvæmdasjóð ætti að nota til að koma upp eigin húsnæði fyrir Ríkisútvarpið. Með leyfi forseta vil ég svo vitna til orða Vilhjálms Hjálmarssonar í umr. um fyrrgreint frv. hinn 10. maí 1979, þar sem hann sagði — með leyfi hæstv. forseta:

„Og svo er annað atriði, sem ég vil nefna núna og ég kom ekki inn á við l. umr., að nú er allt tilbúið til að bjóða út næsta áfanga útvarpshúss. En samstarfsnefnd hefur verið hikandi að samþykkja fyrir sitt leyti að fara í útboð vegna þess að ekki væri séð fyrir fjármögnuninni allt verkið á enda, því að ákvæði eru í lögum um að þess skuli gætt, að framhaldið sé tryggt, þegar farið er af stað með einn tiltekinn áfanga. M.a. þess vegna held ég að samþykkt þessa frv. væri ákaflega nauðsynleg fyrir framgang þessa verks sem allir virðast lýsa sig samþykka, þ.e. byggingu útvarpshúss.“

Af framangreindu dreg ég þá ályktun, að ekki geti leikið neinn vafi á um þann skilning hv. alþm. að nota skuli Framkvæmdasjóð til byggingar útvarpshúss og því fráleitt að tefja framkvæmdir um tvö ár á grundvelli efa í því efni. Ljóst er að leitun er að framkvæmd á vegum ríkisins sem fer af stað með jafntraustan fjárhagsgrundvöll og væntanleg bygging útvarpshúss. Talið er að í Framkvæmdasjóðnum verði um næstu áramót um 1.3 milljarðar kr. Í framkvæmda- og kostnaðaráætlun frá fyrri hluta þessa árs var áætlaður byggingarkostnaður, miðaður við verðlag 1. jan. 1980, 5 750 millj. kr. fyrir hús sem rúmaði bæði hljóðvarp og sjónvarp, en það mun á septemberverðlagi vera rúmar 7 000 millj. kr. Miðað við byggingartíma 1980–1986 hefði sjóðurinn alfarið staðið undir kostnaði út árið 1982 og hefði því fyrst komið til beinna framlaga á árinu 1983 eða — sem líklegra er — að lán hefðu þá verið tekin sem sjóðurinn stæði síðar skil á.

Gerðar hafa verið áætlanir um tvo minni áfanga þar sem einungis er reiknað með að leysa úr vanda hljóðvarps í byrjun. Á verðlagi 1. jan. 1980 kostaði ódýrari kosturinn 3 100 millj, kr. Er í því sambandi athyglisvert að staða framkvæmdasjóðs er á svipuðum forsendum áætluð 3 030 millj. kr. um áramót 1983–1984. Það hlýtur að vera íhugunarefni, að samkv. þessu á að vera unnt að byggja yfir hljóðvarpið á grundvelli tekna Framkvæmdasjóðs eins sér, en húsnæðisvandræði þess hluta stofnunarinnar eru óskapleg, eins og ég mun víkja að síðar.

Ég vil geta þess, að hæstv. menntmrh. Ingvar Gíslason hefur ítrekað lýst á opinberum vettvangi vilja sínum til að leysa þetta húsbyggingarmál farsællega. Nægir í því sambandi að nefna grein hans: „Ríkisútvarpið í tekjusvelti“, sem birtist í Tímanum 9. ágúst 1980, svo og svör hans í Víðsjárþættinum 29. ágúst sem áður var nefndur. Þar sagði hann m.a. efnislega um ástæður þeirra tafa sem orðið hafa á framkvæmdum, að Ríkisútvarpið sé gert ófrjálst að því að nota framkvæmdasjóð sinn eins og reglur um sjóðinn gera ráð fyrir og komi það aðallega fram í því, að samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir hafi ekki viljað leggja til við fjárveitingavaldið að hafist verði handa um áframhald húsbyggingar fyrir Ríkisútvarpið, jafnvel þó að augljóst sé að stofnunin ræður yfir verulegu fé til þessa verkefnis og þurfi ekki að sækja til ríkissjóðs í því efni. Kvaðst hann mundu gera þá kröfu, að þessum hömlum á byggingu útvarpshúss verði aflétt. Ég vil gjarnan að litið sé á þessa till. mína sem stuðning við þann ásetning sem þarna kom fram í máli hæstv. ráðh. Hömlunum verður að aflétta.

Áætlanir hafa verið gerðar um ýmsa möguleika hvað varðar áfangaskipti við byggingarframkvæmdir, og eiga ákvarðanir um slíkt því ekki að geta tafið fyrir. Einnig eru teikningar og útboðsgögn til fokhelds ástands svo til tilbúnar, hvaða leið sem valin verður, og því væntanlega unnt að hefjast handa með stuttum fyrirvara.

Ég mun nú víkja aðeins að húsnæðisvandræðum Ríkisútvarpsins og þá fyrst að hljóðvarpinu, þar sem ástandið er orðið ákaflega slæmt. Auk mikilla þrengsla er húsnæðið, sem útvarpið hefur til afnota á Skúlagötu 4, leiguhúsnæði, og mun oftar en einu sinni hafa verið óskað eftir því að það flytti burt, þar eð stofnanir þær sem húsnæðið eiga, þurfa á því að halda fyrir sína starfsemi. Rétt er að nefna nokkur dæmi um þrengslin á Skúlagötunni.

Á fréttastofu hljóðvarps starfa samtals 16 menn. Í einum vinnusal, sem er tæpir 80 m2 að stærð, eru 12 skrifborð. Þar eru oftast 5–6 menn við vinnu samtímis og stundum mun fleiri. Mikill umgangur er á fréttastofunni og hávaði og kveður stundum svo rammt að þessu, að fréttamenn sjá sér ekki annað fært en að fara heim með vinnu sína. Ekki er með góðu móti unnt að ræða í síma um viðkvæm málefni, því að oft standa gestir á gólfinu í salnum svo til við hlið þess sem talar. Við þessar aðstæður er ætlast til að fréttamenn skrifi fréttir og fréttaskýringar, sem síðan eru undir smásjá almennings umfram annað efni útvarpsins, m.a. undir smásjá hv. alþm.

Vegna Morgunpóstsins var á sinum tíma komið upp kytru eða búri á gangi 5. hæðar til þess að umsjónarmenn þáttarins fengju nokkra aðstöðu til undirbúnings dagskrárliða.

Alvarlegt dæmi um afleiðingar þrengslanna átti sér stað nú í haust, er fréttamenn sáu sér ekki fært að halda þættinum Víðsjá áfram í vetur þrátt fyrir eindregnar óskir útvarpsráðs. Báru þeir ekki síst við slæmri vinnuaðstöðu og ófullnægjandi húsnæði. Þarna er komið dæmi um að fella verður niður ágætan útvarpsþátt beinlínis vegna aðstöðuleysis á Skúlagötu 4.

Tónlistardeild Ríkisútvarpsins hefur ekki farið varhluta af þrengslum fremur en aðrar deildir. Í þessu mikilvægasta hljómplötusafni landsins er nú svo komið, að menn eru hættir að kaupa plötur að öðru leyti en því sem nauðsynlegt telst til að fylgjast með poppinu. Allir skápar eru þar fullir. Auk þess vantar fólk til skrásetningarvinnu, en þótt það fengist væri ekkert pláss fyrir það. Spjaldskrá mun vera gamaldags og fullnýtt og engin aðstaða til endurnýjunar. Lýsing á tækjabúnaði hljóðvarps verður í svipuðum dúr þótt „moll“ eigi reyndar betur við vegna ástandsins. Tæki, sem flest eru talin hafa 10 ára endingartíma, hafa verið notuð í um það bil 20 ár. Bilanatíðni mun vera há og langt er frá því að tækin uppfylli þær tæknikröfur sem gerðar eru nú á dögum til útsendingar dagskrár. Ég hygg að ég taki í rauninni ekki of sterkt til orða þegar ég staðhæfi að starfslið hljóðvarps vinni á hverjum degi afrek með því að koma út þeirri dagskrá sem við þrátt fyrir allt njótum.

Starfslið sjónvarps á ekki síður við ýmis vandamál að stríða sem það leysir furðuvel úr. Þar er þó sá munur á, að um eignarhúsnæði er að ræða, þar sem þrengsli eru miklu minni en á Skúlagötunni. Þó er það svo, að útlendingar reka upp stór augu er þeir sjá að öll stúdíóvinna fer fram í einum sjónvarpssal. Segja má að hann sé sæmilega stór að flatarmáli, en lofthæð er allt of lítil. Er erfitt að ná víðri mynd og nær ómögulegt að sýna heildarmynd af t.d. stórum kór eða hljómsveit á borð við sinfóníuhljómsveit. Segja má að í sjónvarpinu sé ekki síst þörf á sérstöku fréttastúdíói og svo geymslum, sem nú munu vera í leiguhúsnæði.

Ég vænti þess, að þau dæmi, sem hér hafa verið tekin um vinnuaðstöðu starfsliðs Ríkisútvarpsins, sýni svo að ekki verði um villst að úrbóta er þörf og það svo fljótt sem auðið er.

Flestir munu samdóma um að Ríkisútvarpið sé öflugur og mikilvægur menningar- og fjölmiðill og reyndar eini fjölmiðillinn sem með nokkrum rétti getur talist fjölmiðill þjóðarinnar allrar. Einnig má leiða að því gild rök, að um ákaflega ódýra fjölmiðlun sé að ræða fyrir notendur, þegar litið er á það dagskrármagn sem berst inn á hvert heimili í landinu. Fjarri fer þó að möguleikar hljóðvarps og sjónvarps séu fullnýttir og nægir að nefna vöntun skipulegrar fræðslu sem dæmi, en hún gæti bæði verið til stuðnings í skólum og í þágu fullorðinsfræðslu.

Hver svo sem þróun útvarpsfjölmiðlunar verður er víst að Ríkisútvarpið mun um ófyrirsjáanlega framtíð teljast meðal mikilvægustu stofnana þjóðarinnár sem hlúa beri að eftir mætti. Eigi stofnunin á næstu 50 árum að gegna með sóma jafnþýðingarmiklu hlutverki og hún óneitanlega hefur gegnt undanfarin 50 ár verður ekki hjá því komist að búa henni þá aðstöðu sem til þess þarf. Nýtt útvarpshús mun á örfáum árum gerbreyta aðstöðu til dagskrárgerðar og útsendingar með bestu gæðum og verður þá unnt að koma til móts við eðlilegar óskir almennings um fjölbreyttari og betri dagskrá. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að ekki verði undan því vikist að hetja þegar á nýjan leik framkvæmdir þar sem frá var horfið fyrir tveim árum. Ég tel að með samþykkt frv. um hækkun framlags í Framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins vorið 1979 hafi hv. alþm. sýnt ótvíræðan jákvæðan hug til byggingar útvarpshúss og með því verið að tryggja að fé væri til reiðu þar eð framkvæmdir voru að hefjast. Ég álít að formlega sé ekkert því til fyrirstöðu, að stjórnvöld leysi nú þegar úr þeim hnút sem tafið hefur byggingarframkvæmdir. Væri ánægjulegt ef málið leystist með svo skjótum hætti að þessi till. reyndist óþörf. Verði málið hins vegar enn tafið svo mánuðum skipti lít ég á það sem ótvírætt merki þess, að nauðsyn sé að Alþ. ítreki vilja sinn í þessu efni.

Herra forseti. Að svo mæltu legg ég til að till. verði að lokinni umr. vísað til allshn.