21.10.1981
Neðri deild: 5. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Á síðasta fundi í þessari hv. deild, þegar frv. þetta var til umr., hafði forseti risið á fætur úr stól sínum og b jóst til þess að slíta umr. og vísa málinu til nefndar strax að lokinni ræðu frsm..vegna þess að enginn annar hafði kvatt sér hljóðs. Áður en forseta gafst ráðrúm til að slíta umr. og láta atkv. ganga og umr. lokið, a. m. k. á þessu stigi málsins, kvaddi ég mér hljóðs til þess að spyrja um hvort enginn af þeim verkalýðsforustumönnum, sem hér eiga sæti í deildinni, teldi ástæðu til að fjalla um skipulagsmál alþýðusamtakanna einmitt nú á þessum tímamótum, þegar — eins og ég leyfði mér að fullyrða — ýmislegt virðist benda til þess, að sú samstaða, sem hefur verið á vegum Alþýðusambandsins, sé að riðlast. Sá ánægjulegi atburður hefur gerst, að flestir, nær því allir forustumenn í alþýðusamtökunum sem jafnframt eru þm. í þessari hv. deild, hafa tekið til máls í framhaldi af þessum hvatningarorðum mínum. Og mér er nær að halda um þann eina, sem eftir á að biðja um orðið, að það muni vera skammt í að hann geri það.

Það er fagnaðarefni að fram skuli fara umr. um skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar og um launa- og kjaramálin einmitt hér á Alþingi við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu. Er það eitt út af fyrir sig fagnaðarefni, hvernig svo sem Alþingi afgreiðir þau mál, hvort sem Alþingi telur tímabært að gera það nú eða hvort rétt sé að gera það með öðrum hætti en hv. flm. frv., Vilmundur Gylfason, leggur til.

Hv. þm. Baldur Óskarsson sagði áðan að hann reisti afstöðu sína til þessara skipulagsmála á 15 ára viðkynningu við störf verkalýðshreyfingarinnar. Ég verð nú að segja, herra forseti, að ég reisi mína afstöðu og byggi mína þekkingu á samtölum við forustumenn í verkalýðshreyfingunni sem höfðu tekið þar við forustustörfum löngu áður en hv. þm. gekk í Möðruvallahreyfinguna. Afstaða sú, sem við höfum mótað okkur, þm. Alþfl. og Alþfl., til skipulagsmála hreyfingarinnar, byggist því ekki á neinum 15 ára tengslum eins og h já hv. þm. Baldri Óskarssyni. Hún byggist á reynslu og þekkingu manna sem voru í forustusveit verkalýðshreyfingarinnar löngu áður en hv. þm. Baldur Óskarsson var þangað kjörinn og löngu áður en hv. þm. taldi rétt að flytja sig hreppaflutningi á milli flokka.

Hv. þm. fór nokkrum orðum um læknadeiluna og þá samninga sem þar voru gerðir. Ég vil aðeins minna hv. alþm. á það, að til þess að gera kjarasamning þarf tvo aðila. Það nægir ekki, þegar slíkir samningar eru gerðir, að þeir, sem vinnu sína selja, skrifi undir samninginn. Læknarnir í þessu tilviki þurftu einnig viðsemjanda. Hver var viðsemjandi læknanna í þessari deilu? Það var, eftir því sem mér er best kunnugt, hæstv. fjmrh., fyrrv. formaður Alþb. og einn helsti pólitíski leiðtogi þess. Það væri e. t. v. fróðlegt að fá upplýst — og verður sjálfsagt gerð tilraun til — hvað hæstv. fjmrh. taldi hæfa að læknar fengju mikla launahækkun við þá samninga sem hann gerði við þá. Mér er sagt, að ég hef ekki fullar upplýsingar um það, að að meðaltali hafi launagreiðslur til lækna eftir þessa kjarasamninga hækkað um eitthvað milli 20 og 25%. Hins vegar hefur aldrei fengist upplýst hvernig þeim samningamálum hafi lyktað, og væri rétt af alþm. og áhugamönnum um verkalýðsmál — ekki síst áhugamönnum um samningamál sem standa nú í því að gera kröfur m. a. á hendur ríkisvaldinu um launahækkanir fyrir lægst launaða fólkið í landinu — að ganga úr skugga um hvað hæstv. fjmrh. taldi rétt að gera samninga um miklar launahækkanir við hæst launuðu stéttirnar í landinu.

Hv. þm. Baldur Óskarsson sagði mig hafa fullyrt að Alþýðusamband Íslands væri nú í upplausn. Það vill nú svo vel til hér á Alþingi, eins og hv. þm. væntanlega veit þótt um varaþm. sé að ræða, að allar ræður manna eru teknar upp á segulbönd og síðan fá menn þær í hendur vélritaðar og þær eru síðan birtar í þingtíðindum. Ég var alveg nýlega að lesa yfir ræðu sem ég flutti hér fyrir röskum sólarhring. Þar er ekki orð um, að ég hafi tekið til orða eins og hv. þm. sagði, né heldur eitt orð um að ég hafi kennt forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar um að láglaunafólkið hafi ekki fengið meiri kjarabætur en því hefur auðnast að fá. Ekkert af þessu er fyrirfinnanlegt í minni ræðu. Þetta er allt saman hreinn skáldskapur af hálfu hv. þm. Hann er ekki vanur því, hv. þm., að hægt sé að staðreyna málflutning manna með því að leggja fram á segulbandi það sem þeir hafa sagt, nema hv. þm. sé e. t. v. einn af þeim sem telja ekki treystandi því sem inn á segulband er talað. Ég tók einnig sérstaklega fram í minni ræðu, að um leið og menn skoðuðu skipulag launþegasamtakanna — ekki bara Alþýðusambandsins heldur launþegasamtakanna í heild, — m. a. þau vandamál sem skapast hafa á mörkum Alþýðusambands Íslands annars vegar og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hins vegar þar sem fólk í sömu störfum getur búið við mjög ólík kjör, og sama máli gegnir um vandamál á mörkum t: d. BSRB-félaganna og BHM-félaganna, t. d. varðandi kennara í grunnskólum, það getur skipt miklu máli fyrir launkjör þessara aðila hvoru sambandinu þeir gerast aðilar að, — þá þurfi að sjálfsögðu, um leið og þessi mál eru athuguð, að kynna sér skipulagsmál atvinnurekenda þannig að réttur viðsemjandi finnist ávallt, hvort sem í hlut á atvinnurekandi eða launþegi. Hv. þm. hefur því til skiptis gert mér upp orð, sem ég hef ekki sagt, og látið hjá líða að minnast á atriði sem ég ræddi.

Hitt er hins vegar alveg rétt, að Alþýðusamband Íslands hefur styrkst mjög að fræðingum. Ég held að Alþýðusamband Íslands sé eina launþegasambandið á Norðurlöndum sem nú lýtur forustu forseta og varaforseta hvar af annar var til skamms tíma í Bandalagi háskólamanna og hinn hefur allar tekjur sínar af eigin atvinnurekstri. Það er orðið nokkuð skrýtið ástandið á hinum íslenska vinnumarkaði. Ef maður lítur á fjóra helstu forustumenn aðila vinnumarkaðarins, Vinnuveitendasambandsmegin og Alþýðusambandsmegin, þá hefur aðeins einn af þeim tekjur af eigin atvinnurekstri og það er varaforseti Alþýðusambandsins. Ég er hræddur um að þeim verkalýðsforingjum, sem við Alþfl. menn reisum okkar þekkingu á — og eins og ég sagði voru orðnir forustumenn í verkalýðshreyfingunni áður en hv. þm. varð aðili að Möðruvallahreyfingunni, — þeim þyki þetta ekki æskilegasta eða eðlilegasta ástandið, án þess þó að ég sé með nokkrum hætti að dæma um mannkosti þessara ágætu forustumanna sem eiga hlut að máli. A. m. k. vil ég aðeins leyfa mér að minnast á orð sem einn af merkustu forvígismönnum alþýðusamtakanna á Norðurlöndum lét falla við þetta tækifæri um sérfræðingana: Þá kaupum við í alþýðusamböndum Norðurlanda okkur til ráðuneytis.

Ég vil aðeins í þessu sambandi víkja að því, ástæða væri til að hafa nokkrar áhyggjur af framþróun Alþýðusambandsins. Vegna þess, hversu erfiðlega hefur gengið að hrinda í framkvæmd skipulagstillögum sem Alþýðusambandið samþykkti fyrir um það bil 20 árum, lét ég í ljós ótta um að það kynni að vera að Alþýðusambandið stefndi nú til meiri sundrungar en oftast áður. Því mótmælir hv. þm. Baldur Óskarsson og segir svo ekki vera. En ég vil aðeins leyfa mér að benda á nokkrar staðreyndir í því máli.

Elsta og virðulegasta stéttarfélag á Íslandi, frumkvöðull íslenskrar verkalýðsbaráttu, er Hið íslenska prentarafélag. Það hefur nú sagt skilið við heildarsamtök launafólks, Alþýðusamband Íslands. Vekur þetta menn ekki til neinnar umhugsunar né heldur veldur mönnum áhyggjum? Þá liggur það einnig fyrir, sem að vísu er ekki nýmæli, að Rafiðnaðarsamband Íslands hefur tekið þá ákvörðun að fylgja ekki Alþýðusambandinu í komandi kjarasamningagerð. Er þetta ekki líka skrift á vegginn? Hv. þm. Baldur Óskarsson lét svo ummælt — eða svo virtist a. m. k. mega ráða af hans máli þó að það kæmi ekki ljóslega fram — að öll önnur landssambönd hinna faglærðu mundu ætla að taka þátt í samflotinu. Það er ekki rétt. Það er bara yfirborðið, það eru bara fyrirsagnirnar í Þjóðviljanum, hv. þm., vegna þess að reyndin er allt önnur. Í samþykkt Sambands byggingarmanna, sem kynnt var 72 manna nefndarfundinum í gær, segir orðrétt að „sambandið hyggist sjálft fara með alla aðra samninga en hvað varðar kaupgjaldsvísitöluna“. Er þetta yfirlýsing um samflot? Nei, þvert á móti. Þetta staðfestir það sem ég sagði í ræðu minni fyrir einum sólarhring, að ég hefði grun um að þessi faglærðu sambönd ætluðu aðeins að taka þátt í heildarsamflotinu — með hálfgerðum svo-sem-hætti — að því er varðaði vísitölumálin og hugsanlega félagsmálapakka. Sú afstaða, sem Samband byggingamanna kynnti á 72 manna nefndarfundinum í gær staðfestir þetta, að sambandið fari með samninga að öðru leyti en hvað varðar kaupgjaldsvísitöluna sem Alþýðusamband Íslands fari með. Þetta er kallað samflot í fyrirsögnum Þjóðviljans. Þetta kalla ég ekki að ætla að eiga samstöðu með Alþýðusambandinu, síður en svo. Þarna er verið að boða það, að Samband byggingamanna til viðbótar við samband rafiðnaðarmanna og samtök bókagerðarmanna ætli aðsemja eitt og sjálfstætt. Og þau eru fleiri samböndin sem tilkynntu sömu afstöðu. Það gerði Málm- og skipasmíðasamband Íslands einnig á 72 manna nefndarfundinum í gær. Segir orðrétt í þeirri samþykkt:

„Jafnframt er óhjákvæmilegt að málmiðnaðarmenn og skipasmiðir leiti eftir beinum viðræðum við við semjendur sambandsfélaga Málm- og skipasmiðasambands Íslands um margvísleg hagsmuna- og kjaramál sem ekki verða leyst á óðrum vettvangi.“

Eftir standa þá aðeins landssambönd hinna ófaglærðu stétta, félög fátæka fólksins í landinu. Þau ein standa eftir þegar landssambönd allra faglærðu félaganna, allra hálaunahópanna innan Alþýðusambands Íslands eru búin að tilkynna um sérstöðu. Eftir standa þá aðeins iðnverkamenn, ófaglærðir verkamenn og verkakonur og verslunarmenn. Þeim á að beita fyrir vagninn. Hinir ætla að hafa einhvers konar sendiherra, ambassadora í þeim viðræðum til þess eins að missa ekki einu sinni einn mola sem kann að falla á borð láglaunafólksins. En allir þessir aðilar, allir þessir hálaunahópar innan Alþýðusambands Íslands boða þetta: Nú semjum við einir um okkar mál og á þeim fundum höfum við enga sendiherra, enga ambassadora frá verkamönnunum og verkakonunum, frá iðnverkafólkinu né heldur frá verslunarmönnum. Þar verður samið á bak við byrgða glugga og lokaðar dyr.

Hafa verkalýðssinnar virkilega engar áhyggjur af þeirri þróun sem hér hefur raunverulega orðið og hins vegar Þjóðviljinn og þeir Alþb.-menn eru að reyna að draga fjöður yfir? Sjá þessir menn virkilega ekki hvað er að gerast í þessum málum þegar svo er orðið að Alþýðusamband Íslands og þeir samningar, sem það á að gera, eiga aldrei í hugum þessara manna annað að vera en láglaunasamningar, sérstakir, þar sem gætt verður þess, að hálaunahóparnir geti hirt a. m. k. alla þá mola sem hrjóta til láglaunafólksins í landinu. Síðan ætla þeir að koma á eftir, eins og hefur komið fram í þessum kröfugerðum, og hefja alvörusamninga fyrir sig. Þá verður enginn ambassador, hvorki hv. þm. Baldur Óskarsson né hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, þar neins staðar nálægur til að fylgjast með því hvað gert er.

Og Verkamannasambandið, samband lægst launaða fólksins í landinu, það stendur ekki heldur heilt í þessari samningalotu sem þannig á að fara fram. Það eru fjölmargir innan þess láglaunasambands sem vita nákvæmlega hvað hér á að gera. Það eru fjölmargir verkamenn og verkakonur sem hafa gert sér ljóst hvernig ætlunin er að halda á þessum málum undir yfirskini samflots. Það eru ekki bara Vestfirðingarnir einir, sem þar eiga hlut að máli, eins og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Verkamannasambands Íslands, komst að raun um á nýloknu þingi Verkamannasambandsins.

Ég vara menn mjög við því að láta íslenskan almenning standa í þeirri trú, að nú séu fram undan heildarsamningar um einhver 4–5%, eins og ríkisstj. boðar, nú séu fram undan einhverjir heildarsamningar um slíka kröfugerð þar sem allir launþegar muni ganga saman að samningaborði. Það er ekki ætlunin eins og málin eru sett upp. Það má vel vera að slíkir samningar verði gerðir fyrir láglaunafólkið í landinu. En það er ljóst af þeim kröfum sem hér hafa verið tilkynntar, að það er ekki ætlunin að ganga til slíkra samninga fyrir önnur sambönd í Alþýðusambandi Íslands. Og ég vara forustumenn Alþýðusambands Íslands og láglaunafélaganna við því að leggja út á þann hála ís. Þó þeir vilji gera margt fyrir sína flokka, þó þeir vilji gera ráðherrum sínum greiða, þá vara ég þá við því að ganga til slíks samkomulags ef þeir vita ekki fyrir fram og hafa tryggt að hálaunahóparnir komi ekki í kjölfarið og geri nýja „læknasamninga“ við hæstv. fjmrh., sem nú er fjarstaddur illu heilli.

Sjálfsagt mun það koma fram hjá þeim ríkisstjórnarmönnum í umr. sem fram fara nú á næstunni, e. t. v. í umr. annað kvöld um stefnuræðu forsrh., að ríkisstj. telji þjóðfélagið ekki þola að gera „læknasamninga“ fyrir láglaunafólkið. Þá mun sjálfsagt hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson taka undir með þeim, að íslenskt þjóðfélag þoli enga „læknasamninga“ við láglaunafólkið. En skyldi þessi kröfugerð, sem hér hefur verið vikið að, hjá sambandi faglærða fólksins innan Alþýðusambands Íslands ekki vera fyrirboði þess, að það eigi nú að gera „læknasamninga“ við aðra en lækna, — ekki láglaunafólkið, ekki verkafólkið, ekki verkakonurnar, heldur við þau sambönd sem að yfirvarpi ætla að vera samferða hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni í samningagerðinni, en ætla fyrst að taka til við alvörukjarasamningana þegar Guðmundur J. Guðmundsson og félagar hans í forsvari láglaunafélaganna hafa lokið sér af? (Forseti: Nú er fundartíma senn lokið. Á ræðumaður mikið eftir af ræðu sinni?) Já, hann á talsvert eftir enn. (Forseti: Þá verð ég að biðja hann svo vel að gera að fresta frekari flutningi hennar.) — [Frh.]