29.11.1983
Sameinað þing: 27. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

Umræður utan dagskrár

Magnús Reynir Guðmundsson:

Herra forseti. Mér þykir tilhlýðilegt sem fulltrúi Vestfirðinga hér á hinu háa Alþingi að blanda mér með örfáum orðum í þessar umr.

Undirrót þeirrar umr. utan dagskrár, sem hv. 7. þm. Reykv. vakti hér í dag, er sú skýrsla sem fiskifræðingar hafa sent frá sér um ástand þorskstofnsins á íslensku miðunum. Sú skýrsla er svört. Hún er svartari en allar aðrar skýrslur sem fram hafa komið um þau efni fram til þessa.

Ef ársafli okkar Íslendinga á þorski á næsta ári yrði 200 þús. lestir í stað 300 þús. lesta, sem hann verður eða nánast um það bil á þessu ári, mundi það þýða stórkostlegt efnahagslegt áfall fyrir íslenska þjóðarbúið. Þess vegna vil ég í upphafi máls míns segja það sem mína skoðun, að ég tel að ekki sé hægt að fara að áliti og tillögum fiskifræðinga í þessu efni að sinni. Hitt er annað mál að við skulum hlusta á fiskifræðingana.

Fiskifræðin er erfið vísindagrein og framfarir á sviði fiskifræðinga hafa ekki orðið eins örar og miklar á síðustu árum og áratugum og annarra vísindagreina, en við skulum hlusta á fiskifræðingana. Þess vegna er rétt að við getum ekki til frambúðar byggt framfarir í þessu landi eingöngu á fiskveiðum. Málið er að renna þarf fleiri arðbærum stoðum undir íslenskt efnahagslíf en gert hefur verið. Það hefur miðað allt of hægt á undanförnum árum og áratugum.

Hvað viðvíkur umr. sem hér hefur farið fram um að það geti komið til þess að fækka þurfi togurum sem stunda veiðar við landið, þá vil ég segja að menn verða að átta sig á landfræðilegum aðstæðum í þessum efnum. Landið er misjafnlega gjöfult. Það eru misjafnar aðstæður vítt og breitt um okkar land, þannig að taka verður tillit til aðstæðna í þessum efnum. Á Vestfjörðum er ekki í önnur hús að venda með atvinnu, sem þó væri hægt víðast hvar annars staðar. Við höfum heyrt um að það standi fyrir dyrum uppbygging ýmissa atvinnugreina vítt og breitt um landið og ekki síst hér á suðvesturhorninu. Það á að byggja kísilmálmverksmiðju á Austfjörðum. Á Sauðárkróki er verið að undirbúa byggingu steinullarverksmiðju. Hér á Suðvesturlandi og Suðurlandi er verið að undirbúa ýmiss konar atvinnustarfsemi sem renni fleiri stoðum undir íslenskt efnahagslíf. Á Vestfjörðum hagar því miður þannig til að Vestfirðingar þurfa um sinn a.m.k. að byggja á sjávarútvegi svo að ekki verði þar stöðnun og jafnvel afturför. Þetta verða menn að taka með í reikninginn þegar rætt er um hugsanlega fækkun togara við landið.

Ég held að þessi umr. og að það, jafnvel þótt það hafi verið úr lausu lofti gripið, gæti staðið til að fækka í togaraflotanum um 30 skip, sé þarft innlegg í umr. sem þarf að eiga sér stað um stefnuna í sjávarútvegsmálum. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir það svar sem hann gaf við fsp. hv. 7. þm. Reykv. Mér fannst hæstv. sjútvrh. mæla af skynsemi og framsýni. Það er ekki ráð nema í tíma sé tekið og menn skyldu átta sig á því að það getur þurft að taka ákvarðanir sem eru sárar, sem eru ekki okkur að skapi. Það getur komið til þess að það þurfi að leggja niður fiskiðnað á ákveðnum stöðum, sem eru svo lánsamir að búa við möguleika til annarra atvinnutækifæra.

Ég vil líka benda á þá staðreynd, að það er ekki sama hvort menn stunda t.d. Vestfjarðamiðin frá Vestfjörðum eða hvort þeir stunda Vestfjarðamiðin héðan af suðvesturhorninu eða frá öðrum landshlutum. Það hlýtur að liggja í hlutarins eðli að það sé hagkvæmast fyrir íslenska þjóðarbúið að sækja á fiskimiðin úr sem minnstri fjarlægð. T.d. eru miðin í kringum Vestmannaeyjar auðvitað nýtt á hagkvæmastan og bestan hátt frá Vestmannaeyjum o.s.frv. o.s.frv. Þetta eru sjónarmið sem við verðum að hafa í huga þegar við stöndum frammi fyrir þeim erfiðu ákvörðunum sem nauðsynlegt reynist að taka á næstu misserum í sjávarútvegsmálum.

Ég vil taka undir orð hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, 4. þm. Norðurl. v., þar sem hann benti á ýmsar aðrar leiðir í sjávarútvegsmálum. Það þarf að gefa því mjög gaum hvað hægt er að gera nýtt á sviði sjávarútvegsmálanna. Rækjuveiðarnar hafa komið vel út í sumar. Það hefur orðið stórkostleg aukning á rækjuveiðum við landið. Ég vona að það verði um sóknaraukningu að ræða í stofna á landgrunninu í svipuðum mæli á komandi árum. En ég vil jafnframt láta það koma hér skýrt fram, að það þýðir ekki að berjast gegn atvinnufyrirtækjum eins og t.d. stóriðju, álvinnslu eða átframleiðslu og framleiðslu á járnblendi og öðrum slíkum efnum, ef um er að ræða arðbæra framleiðslu. Þá eigum við fyrst og fremst að horfa á hana.

Það er nauðsynlegt að við rennum fleiri stoðum undir íslenskt atvinnulíf. Ég vil nefna skipasmíðarnar. Það þarf að færa þær inn í landið. Það þarf að færa þær alfarið inn í landið, að mínu mati, því að skipasmíðar eru forsendan fyrir eðlilegu viðhaldi á íslenska fiskiskipaflotanum. Svona mætti lengi telja.

Þar sem þessi umr. hefur snert það kjördæmi sem ég er fulltrúi fyrir hér nokkra daga vildi ég blanda mér í þessar umr. Ég ítreka að það þarf að taka tillit til aðstæðna eins og þær eru á hverjum stað, en það má ekki koma til togstreitu í þessum efnum. Við stöndum frammi fyrir miklum efnahagslegum vanda, sem snertir allt þjóðarbúið, og við verðum að taka á þeim vanda og helst án þess að pólitísk sjónarmið ráði þar um of ríkjum.