06.02.1984
Efri deild: 47. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2578 í B-deild Alþingistíðinda. (2255)

150. mál, fæðingarorlof

Flm. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Á þskj. 209 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um breytingu á lögum nr. 97 frá 1980, um fæðingarorlof, og breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 67 frá 1971, með síðari breytingum.

Meginmarkmið þessa frv. er að tryggja velferð barna og foreldra þeirra tímabilið eftir fæðingu barns. Það leggur til grundvallar mikilvægi barnaumönnunar og móður- og föðurhlutverksins fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga og fyrir þjóðfélagið sem heild. Lengi býr að fyrstu gerð og það er enginn vafi á því að bættar aðstæður ungbarnaforeldra skila sér margfalt til baka til þjóðfélagsins í formi betra mannlífs, aukinnar heilbrigði og færri félagslegra vandamála.

Á það er að líta, eins og segir í grg. með frv. með leyfi forseta, að „á undanförnum árum hafa þær breytingar m.a. orðið á högum fólks hér á landi að það er nú efnahagsleg nauðsyn fyrir fjölmörg heimili í landinu að hafa tvær fyrirvinnur. Á þetta einkum, en þó engan veginn eingöngu, við um þá aldurshópa sem nú eru að koma sér upp húsnæði, hasla sér völl í atvinnulífinu og eignast börn. Nauðsyn þess að hvert heimili hafi tvær fyrirvinnur sést m.a. á þeirri gífurlegu aukningu sem orðið hefur á atvinnuþátttöku kvenna undanfarin ár. Árið 1960 unnu um 29% kvenna utan heimilis, en árið 1982 voru 86.4% kvenna útivinnandi.“ Atvinnuþátttaka kvenna hefur sem sagt nánast þrefaldast á þessum 20 árum. „Það gefur auga leið að við slíkar aðstæður gefst konum lítið svigrúm til þess að sinna nauðsynlegri umönnun ungabarna. Heimilin bera það ekki fjárhagslega að önnur fyrirvinnan láti af launuðum störfum utan heimilis til þess að sinna því mikilvæga hlutverki að annast um barn á fyrsta æviskeiði þess. Enn fremur fer þeim heimilum sífellt fjölgandi þar sem fyrirvinnan er aðeins ein, en nú mun um fjórða hvert barn í landinu vera á framfæri einstæðrar móður.“

Það ber því brýna nauðsyn til að í skipan fæðingarorlofsmála sé komið til móts við þessar breyttu aðstæður kvenna og konum sé gert það kleift fjárhagslega að eignast börn. Það verður ekki gert nema með því móti að reynt sé að samhæfa hin mismunandi og félagslega nauðsynlegu hlutverk kvenna, móður- og fjölskylduhlutverk þeirra annars vegar og nauðsynlega þátttöku þeirra í atvinnulífinu hins vegar. Það er og eitt af meginmarkmiðum þessa frv.

Breytingar frá núgildandi lögum samkv. þessu frv. eru þessar:

Í fyrsta lagi er í frv. gert ráð fyrir lengingu fæðingarorlofs úr þremur mánuðum í sex mánuði fyrir allar konur. Greiðsla fæðingarorlofs tryggir móður næði og öryggi til samskipta við barn sitt eftir fæðingu þess. Þó að sex mánaða gamalt barn sé enn háð uppalanda sínum og sé hvergi nærri sjálfbjarga er það þó mun þroskaðra til að takast á við umhverfið en þriggja mánaða gamalt barn. Jafnframt er móðurinni gefið tækifæri til að ná sér eftir áreynslu barnsburðarins og aðlagast þeirri gjörbreytingu sem hann veldur á högum hennar.

Fjölmargar rannsóknir hafa leitt í ljós hve mikilvægt það er fyrir velferð og þroska barns að náið og traust samband myndist milli þess og móður þess eða nánasta uppalanda þegar á fyrsta æviskeiði. Gildi móðurmjólkur fyrir ungabörn er ótvírætt bæði til næringar og verndar gegn sýkingum. Þó að allt sé betra en ekkert í þeim efnum hefur löngum verið miðað við a.m.k. sex mánuði sem æskilegan lágmarkstíma brjóstagjafar, en eftir þann tíma fer ónæmiskerfi barnsins að geta annað eigin vörnum. Jafnframt er brjóstagjöf mjög virk til að mynda sterk tilfinningatengsl milli móður og barns.

Núgildandi löggjöf gerir ráð fyrir þremur mánuðum í fæðingarorlof. Er augljóst að þeir duga engan veginn til að uppfylla þessar lágmarkskröfur. Hér er því lagt til að fæðingarorlof lengist um þrjá mánuði og verði sex mánuðir. Til samanburðar má geta þess að í nágrannalöndum okkar er fæðingarorlof víðast hvar lengra en hér á landi. Í Frakklandi er fæðingarorlof fjórir mánuðir og fjórir til fimm mánuðir eftir aðstæðum í Noregi og Danmörku. Í Hollandi er fæðingarorlof sex mánuðir, níu mánuðir í Svíþjóð og í Finnlandi er það heilt ár, en þar er það lengst. Það er því ljóst að við erum nokkrir eftirbátar nágranna okkar á þessu sviði.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því í frv. að fæðingarorlofsgreiðslur miðist við full laun foreldris, þannig að foreldrið verði ekki fyrir fjárhagslegu tapi vegna fæðingarorlofs svo sem nú er. Í fyrsta lagi er með þessu verið að viðurkenna að störf þau er lúta að umönnun og uppeldi barna eru engu síður mikilvæg en störf á hinum almenna vinnumarkaði og að foreldrahlutverkið er a.m.k. jafnmikils virði og fyrirvinnuhlutverkið í krónum talið. Í öðru lagi er hér um beint fjárhagsatriði að ræða fyrir konur, sem annars munu lækka í launum við töku fæðingarorlofs og sem óvíst er að fjárhagur heimilanna geti borið, eins og ég gat um áðan. Sama gildir um feður sem velflestir eru hærra launaðir en mæðurnar og mundu því eflaust flestir lækka mikið í launum við töku fæðingarorlofs. Hér er því um að ræða mikilvægan þátt þess að feður geti nýtt sér þessi réttindi og borið aukna ábyrgð á umönnun barna sinna.

Eins og nú standa sakir er það aðeins lítill hluti feðra sem notfærir sér núgildandi heimild til fæðingarorlofs. Á síðasta ári munu karlar hafa verið aðeins rúm 4% þeirra sem fengu greitt fæðingarorlof hér á landi, á móti t.d. 33% í Svíþjóð.

Í dagblaðinu Tímanum 15. jan. s.l. er Jón Sæmundur Sigurjónsson deildarhagfræðingur í heilbr.- og trmrn. spurður að því, hvers vegna hann telji að svo fáir karlar notfæri sér fæðingarorlofsréttindi sín hér á landi.

Hann segir með leyfi forseta: „Reynslan erlendis er sú, að karlmönnum fjölgar yfirleitt hægt sem taka fæðingarorlof. Þeir eru feimnir á þessu sviði. En ekki ber að draga dul á að það kerfi sem við höfum sett upp er viss hindrun. Þarna virkar jafnréttisbaráttan með öfugum formerkjum. Núverandi kerfi þýðir nefnilega að fjölskyldan fer stundum mjög niður í launum ef karlmaðurinn tekur sér fæðingarorlof. Ef við hefðum hins vegar þann hátt á að launþegar héldu sínum föstu launum, þ.e. engin röskun yrði á þeirra högum við fæðingarorlof, þá má telja víst að meiri hvati yrði fyrir karlmenn að nota sér þessa heimild í lögum.“ Þess má geta í leiðinni að í Svíþjóð, þar sem þriðjungur fæðingarorlofsþega eru karlar, fá menn 90% launa sinna greidd í fæðingarorlofsgreiðslum auk þess sem kaupmáttur þeirra er mun meiri en hér á landi.

Í nágrannalöndum okkar er ekki óalgengt að fæðingarorlofsgreiðslur séu miðaðar við 70–90% af launum foreldra, nema í Frakklandi og Hollandi, þar sem foreldrar fá greidd full laun í fæðingarorlofi. Það er þó hæpið að bera saman fæðingarorlofsgreiðslu á þessum grundvelli því að vitaskuld eru laun og launakjör misjöfn eftir löndum. Hvað varðar aðstæður hér á landi þá vitum við að nú er svo komið fjárhag fjölmargra heimila að þau geta ekki séð á eftir einni einustu krónu af tekjum sínum. Því er hér lagt til að fæðingarorlofsgreiðslur miðist við full laun foreldris en ekki eitthvert prósentuhlutfall þeirra. Hins vegar gæti komið til álita að setja eitthvert þak á fæðingarorlofsgreiðslur þannig að þær færu aldrei upp fyrir ákveðna upphæð. Er það hugmynd sem mætti vel athuga í nefnd þeirri sem fær frv. til athugunar.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því í frv. að allar konur fái a.m.k. óskert lágmarksfæðingarorlof án tillits til atvinnuþátttöku. Hér með er afnumið það óréttlæti gagnvart heimavinnandi konum sem viðgengst samkvæmt núgildandi lögum og í verki viðurkennd réttarstaða heimavinnandi móður og gildi starfa hennar fyrir þjóðfélagið í heild. Heimavinnandi konur sinna störfum sínum alla jafna án þess að fyrir komi nokkur greiðsla af hálfu þjóðfétagsins og tel ég það vera lágmarksviðurkenningu á störfum þeirra að þær sitji við sama borð og aðrar fæðandi konur.

Heimavinnandi konur búa oft einnig við fjárhagslegt óöryggi engu síður en útivinnandi konur, í sumum tilfellum jafnvel öllu meira. Er því jafnframt þess vegna brýnt að það öryggi sem greiðsla lágmarksfæðingarorlofs veitir nái einnig til þeirra. Þessu atriði hefur áður verið hreyft í frv. sem hæstv. núverandi félmrh. flutti á síðasta þingi en náði ekki að hljóta þar afgreiðslu.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að breytingar á lágmarksfæðingarorlofi miðist við 9. flokk taxta Verkamannasambands Íslands í stað 8. flokks skv. núgildandi lögum, en í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins haustið 1982 var svo um samið að allir launamenn skyldu hækka um einn flokk 1. jan. 1983, þannig að þeir sem tóku laun samkvæmt 8. flokki VMSÍ þegar lögin voru sett taka nú laun skv. 9. flokki VMSÍ. Hér er því aðeins um eðlilega lagfæringu að ræða.

Í fimmta lagi er í frv. gert ráð fyrir að faðir eigi þess kost að taka fæðingarorlof í tvo mánuði með samþykki móður í stað þess eina mánaðar sem núgildandi lög kveða á um. Skerðist þá fæðingarorlof móður sem því nemur. Það er ekki síður mikilvægt að faðir hafi tök á að tengjast barni sínu sem nánast og sem fyrst og að foreldrum sé gefið tækifæri til að leggja grunninn að jafnri ábyrgð á börnum sínum. En til þess er sá eini mánuður, sem feður eiga nú rétt á skv. gildandi lögum, mjög naumur. Ekki er gert að skilyrði að hér sé um að ræða tvo síðustu mánuði fæðingarorlofs, heldur ráða foreldrar tilhögun orlofstökunnar sjálf án afskipta löggjafans.

Sveigjanleiki í tímaákvörðunum er æskilegur að þessu leyti vegna breytilegra aðstæðna fjölskyldna. Því getur faðir tekið orlof sitt hvenær sem er á þessum sex mánuðum svo fremi móðir sé því samþykk. Ákvæðið um samþykki móður er óbreytt frá núgildandi lögum og tekur sem fyrr mið af því að það er móðirin sem þarf að ná sér heilsufarslega eftir áreynslu barnsburðarins.

Í sjötta lagi er gert ráð fyrir að fæðingarorlof lengist um tvo mánuði sé um tvíburafæðingu að ræða, og um allt að fjóra mánuði eignist kona fleiri en tvö börn. Slíkar fæðingar eru fáar hér á landi svo að ekki er um neinn umtalsverðan kostnaðarauka að ræða af þessum sökum. Hins vegar er það ljóst að fjölburaforeldrar þurfa lengri tíma til að aðlagast breyttum aðstæðum en einburaforeldrar og að ýmis vandamál geta komið upp í þessu sambandi, eins og dæmi um fæðingu þríbura á Djúpavogi leiddi í ljós nýlega. Hér er því aðeins um sjálfsagt tilhliðrunaratriði að ræða.

Í sjöunda lagi er í frv. gert ráð fyrir að kjörforeldrar, uppeldis- eða fósturforeldrar eigi sama rétt á fæðingarorlofi vegna töku barns eða barna og aðrir foreldrar. Eðlilegt hlýtur að teljast að kjörforeldrar, uppeldis- eða fósturforeldrar njóti sama réttar og aðrir foreldrar í þessu sambandi, þar sem tíma þarf til þess að aðlagast breyttum aðstæðum, bæði fyrir foreldrana og barnið. Einnig hér eru tilfelli svo fá að ekki mun vera um umtalsverða kostnaðaraukningu að ræða.

Þá er komið að kostnaðarhlið þessa frv. Í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir að lenging fæðingarorlofs taki gildi í áföngum, þannig að við gildistöku frv. sem laga frá Alþingi lengist fæðingarorlof aðeins um einn mánuð og verði fjórir mánuðir, en lengist síðan um aðra tvo og verði sex mánuðir, eins og frv. kveður á um, ári síðar. Er þetta gert vegna þess að frv. felur í sér nokkurn kostnað fyrir ríkissjóð sem auðveldara ætti að vera að ráða við í áföngum miðað við núverandi stöðu ríkisfjármála.

Skv. upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins munu á síðasta ári hafa verið greiddar 121 millj. 743 þús. kr. í fæðingarorlof til 4258 fæðandi kvenna. Þessar greiðslur skiptast þannig að fullt fæðingarorlof fengu 2718 konur, 2/3 hluta fæðingarorlofs fengu 778 konur og 1/3 hluta fengu 762 konur. Ef allar konurnar hefðu fengið fullt fæðingarorlof, eins og frv. kveður á um, hefðu fæðingarorlofsgreiðslur hækkað um 21.7% og heildarupphæð þeirra orðið 148.2 millj. kr. Þarna bætast því við rúmar 26 millj. Ef miðað er við lágmarksfæðingarorlofsgreiðslur til allra kvenna, 4% hækkun á ári og fjögurra mánaða fæðingarorlof, ef við bætum m.ö.o. við einum mánuði, eins og fyrsti áfangi frv. gerir ráð fyrir, hækkar upphæðin um 74 millj. kr. og verður 2221 millj. kr. Ef við síðan gerum ráð fyrir að konurnar njóti fullra launagreiðslna þessa fjóra mánuði hækkar upphæðin enn um 61 millj. og verður tæpar 283 millj. kr. Þessar tölur eru byggðar á útreikningi kjararannsóknarnefndar á áætluðum meðallaunum kvenna á aldrinum 15–44 ára í janúar 1984. Með því að gera ráð fyrir 61% hækkun á taxtavísitölu áætlar kjararannsóknarnefnd að meðallaun kvenna á barneignaraldri mundu verða um 17 830 kr. í janúar 1984. Er sú tala lögð til grundvallar í þessum útreikningum sem Tryggingastofnun ríkisins annars annaðist.

Þar sem áætlað er að á þessu ári verði greiddar 137 millj. 300 þús. kr. í fæðingarorlof skv. núgildandi lögum telst kostnaður við fyrri áfanga þessa frv. alls vera u.þ.b. 145.6 millj. kr. Þegar við síðan bætum tveimur mánuðum við þá fjóra mánuði sem þá eru komnir, þannig að fæðingarorlof verði sex mánuðir eins og frv. kveður á um, munu fæðingarorlofsgreiðslur nema 421 millj. 800 þús. kr. miðað við sömu forsendur. Það eru sem sagt um 139 millj. kr. sem bætast við vegna framkvæmdar síðari áfanga frv. Er heildarkostnaður vegna þessa frv. þá orðinn 284 millj. 500 þús. kr.

Ef feður skyldu nýta sér fæðingarorlofsréttindi í auknari mæli við þessa lagabreytingu en nú er, þá má gera ráð fyrir að þessi upphæð hækki eitthvað vegna þess að meðallaun karta eru allmiklu hærri en meðallaun kvenna. Þetta er óvissuatriði sem því miður er ekki hægt að ná inn í þessa útreikninga.

Nú kann ýmsum að finnast að hér sé verið að fara fram á töluvert, að 285 millj. kr. á ári sé nokkuð há fjárhæð. En er sú fjárhæð nokkurn tíma of há sem við verjum til aðbúnaðar barna okkar? Er það ekki siðferðileg og samfélagsleg skylda okkar að horfa ekki í eyrinn þegar þau eiga í hlut? Við vitum jafnframt að ef við spörum á þessu sviði erum við að spara eyrinn og kasta krónunni. Það getur kostað okkur margar beinharðar krónurnar, þegar fram í sækir, að hafa sparað við barn í uppvexti. Það vitum við af fenginni reynslu. Hvaðan eiga peningarnir að koma? kann einhver að spyrja. En þá spyr ég: Hvaðan koma þeir peningar sem við erum yfirleitt að ráðstafa hér á Alþingi? Hvaðan koma peningar t.d. í uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir? Þar er um nokkurn veginn sömu upphæð að ræða í ár og ég er að tala um. Þar er um að ræða 280 millj. kr. Hvaðan koma peningar í nýja flugstöð á Keflavíkurflugvelli, í afborganir af erlendum lánum o.s.frv.? Enn á ný er það spurningin hvernig við viljum skipta okkar sameiginlegu fjármunum, hverjum við viljum veita forgang að hverju við viljum hlúa.

Með þessu frv. er verið að leggja til að við kostum nokkru, óneitanlega nokkru til aðbúnaðar barna á fyrsta æviskeiði þeirra, að við kostum nokkru til aukinnar líkamlegrar og andlegrar heilbrigði landsmanna. Slík verkefni teljum við Kvennalistakonur vera forgangsverkefni, verkefni sem enga bið þota. En ef mönnum finnst nauðsynlegt að finna nýjan tekjustofn til að standa straum af kostnaði vegna fæðingarorlofs, þá vil ég benda á að vel kæmi til álita að auka eitthvað hlut atvinnurekenda í þessum greiðslum. Mér sýnist að atvinnurekstur í landinu mundi bera slíkt nú um stundir. Þess ber þá að gæta að atvinnurekendur eiga hér nokkurra hagsmuna að gæta. Aukin heilbrigði og betri aðbúnaður einstaklinga skilar sér tvímælalaust og margfalt til baka í atvinnulífi þjóðarinnar.

Hins vegar er það engan veginn einsýnt að leita þurfi nýrra tekjustofna til að fjármagna þetta frv. Mér sýnist ekki vera í kot vísað hjá ríkissjóði þessa dagana ef marka má þau frumvörp sem nú eru til meðferðar í fjh.og viðskn. um frádrátt frá skattskyldum tekjum manna vegna fjárfestingar í atvinnurekstri. Ef frumvörp þessi verða að lögum þýða þau tekjutap fyrir ríkissjóð og það meira að segja óútreiknanlegt. Virðist ríkissjóð ekki muna um það í bili frekar en þann tekjumissi sem hann hefur borið vegna niðurfellingar gjalds á ferðamannagjaldeyri svo að eitthvað sé nefnt. Varla getur þó verið að okkur sé eigi fjár vant, heldur hlýtur málið að snúast um forgangsröðun verkefna eins og ég hef þegar bent á.

Eins og áður sagði er það megintilgangur þessa frv. að tryggja velferð barna og foreldra þeirra tímabilið eftir fæðingu barns. Á máli peninganna er verið að leggja til að við fjárfestum í auknum mæli í börnunum okkar, í aukinni líkamlegri og andlegri heitbrigði þeirra og foreldra þeirra. Konum hefur alla tíð verið það ljóst að börn eru ekki ókeypis frekar en annað í þessari veröld. Vona ég að sá skilningur fari að skila sér út fyrir þeirra hóp hafi hann ekki þegar gert það.

Með þessu frv. er verið að koma til móts við breyttar þjóðfélagsaðstæður hér á landi, hina gífurlegu aukningu sem orðið hefur á atvinnuþátttöku kvenna á undanförnum árum og þá staðreynd að nú er það efnahagsleg nauðsyn fyrir fjölmörg heimili í landinu að hafa tvær fyrirvinnur. Hér er leitast við að samhæfa móður- og föðurhlutverkið annars vegar og fyrirvinnuhlutverkið hins vegar, leitast við að skapa svigrúm í þjóðfélaginu fyrir fólk, þá ekki síst konur, til að annast um börn sín á fyrsta æviskeiði þeirra. Þannig er leitast við að tryggja velferð barna og mæðra þeirra á fyrsta æviári barnanna sem allir vita að er einkar viðkvæmt fyrir báða aðila. Jafnframt er leitast við að gefa feðrum kost á að taka aukinn þátt í umönnun barna sinna. Með því er verið að stuðla að jöfnun foreldraábyrgðar og treysta innbyrðis tengsl fjölskyldunnar á þýðingarmiklu og viðkvæmu skeiði. Hér er einnig verið að viðurkenna almennt þjóðfélagslegt gildi móðurhlutverksins og þeirra starfa sem því fylgja, þar sem lagt er til að allar fæðandi konur njóti sama réttar án tillits til atvinnuþátttöku.

Að síðustu er hér verið að leggja til, þótt í smáu sé, breytt gildismat við forgangsröðun mála. Það er verið að leggja til að við veitum nokkrum fjármunum til þess að tryggja velferð þeirrar kynslóðar sem á að endurnýja þjóðfélagið og um leið velferð foreldra hennar sem í dag eru veigamikil burðarstoð íslensks þjóðfétags. Framtíð þessa lands býr í börnunum okkar. Það er því þjóðarhagur að hlúa vel að þeim Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu. Ég óska þess að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.