16.05.1984
Neðri deild: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6039 í B-deild Alþingistíðinda. (5422)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Frsm. minni hl. (Elsa Kristjánsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hl. sjútvn. um frv. til l. um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum. Nál. er á þskj. 871 og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Frv. þetta er lagt fram til staðfestingar á brbl. sem gefin voru út fyrir rétt tæpu ári, þann 27. maí 1983. Enn þá einu sinni stendur Alþingi frammi fyrir gerðum hlut. Sem dæmi má nefna að af þeim næstum 600 millj. sem áætlað er að innheimtist í gengismun skv. 3. gr. frv. er einungis eftir að greiða út tæpar 115 millj.

Í þessu frv. skipta tvö atriði mestu máli, þ. e. kostnaðarhlutur útgerðar og upptaka gengismunar. Varðandi fyrra atriðið má m. a. vísa á ályktanir Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands sem eru prentaðar sem fskj. með áliti minni hl. sjútvn. Ed. (þskj. 587). Þar er bent á að ákvæði frv. vega að frjálsum samningum og hlutaskiptakerfi. Er augljóst að tímabært er að taka launakerfi sjómanna til rækilegrar endurskoðunar.

Upptaka og ráðstöfun gengismunar er enn ein stjórnvaldsaðgerðin sem byggist á andlausum útkomum úr meðaltalsmaskínum stjórnarráðanna en tekur ekkert tillit til raunverulegrar afkomu fólks eða fyrirtækja. Millifærslurnar flytja fé milli ýmissa greina sjávarútvegsins, fyrirtækja og landshluta, og verka oft til refsingar hjá vel reknum fyrirtækjum en til styrktar fyrirtækjum sem sýna lélega útkomu vegna óstjórnar og reiðileysis. Ágætt dæmi um fánýti þessarar stjórnunaraðferðar er upptaka gengismunar af skreið. Skreiðarverkun hefur átt mjög erfitt að undanförnu vegna verðfalls, sölutregðu og seinkunar á greiðslum og taprekstur í greininni er verulegur. Engu að síður er áformað að innheimta næstum 200 millj. í gengismun af skreið skv. svari sjútvrh. við fsp. um ráðstöfun gengismunar á þskj. 395 sem dreift var í mars s. l. Ef markmiðið með upptöku gengismunar er að styrkja rekstur sjávarútvegs og ýmissa greina hans virðist fráleitt að auka á taprekstur skreiðarverkunar með aðgerðum af þessu tagi.

Vísað er til fskj. með áliti minni hl. sjútvn. Ed. (þskj. 587) um afkomu skreiðarverkunar.

Með hliðsjón af framansögðu leggur minni hl. til að frv. verði fellt. Minni hl. stendur þó að brtt. varðandi upptöku gengismunar af skreið í því skyni að lagfæra verstu agnúa 3. gr. frv.

Alþingi, 14. maí 1984, Elsa Kristjánsdóttir. Guðmundur Einarsson.“

Þó að nú sé langt komið umfjöllun þessa máls get ég ekki stillt mig um að fara hér nokkrum orðum um þetta frv. þar sem að það snertir mjög Suðurnesin, þann landshluta sem ég kem frá.

Í 3. gr. frv. segir að taka skuli 10% gengismun af sjávarafurðum sem framleiddar voru fyrir 1. júní 1983. Vissulega eiga slíkar millifærslur stundum rétt á sér, en hvað varðar skreið, sem framleidd var fyrir þennan tíma, er þetta beinlínis fáránleg ráðstöfun og órökrétt eins og fram kemur í nál. Enn er mikið óselt af skreið framleiddri 1981 og 1982 og gefur auga leið að rýrnun hlýtur að verða við svo langa geymslu. Þótt hækkun verði á söluverði vegna gengisfellingar þá hækka einnig lánin, sem á birgðunum hvíla, af sömu ástæðu og vaxtakostnaður hleðst upp. Það er jafnvel spurning hvort skilaverð dugar fyrir áhvílandi lánum í sumum tilfellum. Í áætlunum skreiðarframleiðenda kemur fram að rúmlega 18% vantar upp á að söluverðmæti dugi fyrir þeim kostnaði sem þegar hefur verið lagður út. Í því dæmi er reiknað með töku gengismunarins. Því hlýtur að vera skylda stjórnvalda að taka tillit til breyttra aðstæðna. Þetta viðurkenna margir af þm. stjórnarinnar og hafa meira að segja gert opinberlega. En hvers vegna í ósköpunum greiða þeir þessu þá atkv. ge°n betri vitund?

Ég flyt brtt. á þskj. 872 við 3. gr. frv. Till. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Aftan við 1. málsgr. 3. gr. bætist: Þó skal ekki taka gengismun af skreið sem greiðist eftir 1. janúar 1984.“ Tel ég að vel sé hægt að framkvæma þetta vegna þess að lítið sem ekkert hefur greiðst af skreið eftir þann tíma. Ég skora á þá hv. þm. sem þekkja þessi mál að styðja brtt. mína.

Í 1. gr. frv. er kveðið á um að greiða skuli útgerðarfyrirtæki 29% af fiskverði sem sérstakan kostnaðarhlut útgerðar, en 25% af skipum undir 240 brúttórúmlestum. Kemur þetta í stað 7% olíugjalds áður. Hér er enn einu sinni verið að breyta með lögum forsendum gerðra kjarasamninga og að sjálfsögðu launþeganum í óhag. sífellt er verið að taka stærri hluta fiskverðs utan skipta. Fyrir utan þessi 29% eru tekin 10% í Stofnfjársjóð. Það vantar ekki fjálgleg orð um hetjur hafsins í ræðum á Sjómannadaginn og um mikilvægi fiskveiða fyrir íslenskan þjóðarbúskap, en þegar meta á framlag þessara aðila til verðs þá kemur annað hljóð í strokkinn. Kannske það séu hetjulaunin að fá að taka á sig byrðar útvegsins.

Íslenskir sjómenn vinna við erfiðar aðstæður, einkum yfir vetrartímann. Aðbúnaður er misjafn, sums staðar góður, annars staðar slæmur. Vinnutíminn er langur og launin oft ekki í neinu samræmi við vinnuframlagið. Eða vita menn annars að í raun gilda engin lög um hvíldartíma sjómanna önnur er gömlu vökulögin? Þegar rætt er um tekjur sjómanna í fjölmiðlum er nær undantekningalaust slegið upp hásetahlut á aflahæstu skipum eða jafnvel einstakri velheppnaðri veiðiferð skellt á ársgrundvöllinn margumtalaða. Hitt er svo látið liggja milli hluta, að hér er aðeins um lítið brot af sjómannastéttinni að ræða. En þetta er myndin sem dregin er upp fyrir almenning. Mönnum verður tíðrætt um framleiðni hinna ýmsu stétta og bera sig þá gjarnan saman við nágrannalöndin. Ekki fara íslenskir sjómenn illa út úr þeim samanburði.

Í nýútkomnum Fjármálatíðindum er grein eftir Jón Sigurðsson hagrannsóknarstjóra og ber hún nafnið „Útvegur í öldudal.“ Þar kemur fram í töflu á bls. 53 að hlutur fiskveiða í heildarvinnuaflsnotkun er 5%, en hlutur þeirra í vergri landsframleiðslu er 9.4%. Ekki gefur það heldur ástæðu til að rýra hlut sjómanna.

Þær greinar í fyrirliggjandi frv. sem varða hlut sjómanna eru aðstandendum þess til lítils sóma. Hv. þm. Halldór Blöndal lét þau orð falla á fundi sjútvn. Nd. að sjómenn hefðu ekki gert verulegan ágreining út af ákvæðum brbl. við síðustu samningagerð. Af orðum hans mátti ráða að þeir tækju þessu nokkurn veginn möglunarlaust. En ætli það hafi verið af því að þeir væru ánægðir? Nei, þeir mótmæltu brbl. kröftuglega og nú er gjörsamlega búið að slá öll vopn úr höndum þeirra með kvótaskiptingunni. Þeir hafa enga stöðu til að fylgja sínum málum eftir.

Í Sjómanninum, blaði Sjómannafélags Reykjavíkur, segir um brbl. frá 27. maí 1983, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér er enn eitt dæmið um hvernig útgerðarmenn beita ríkisvaldinu fyrir sig í ránsferðum sínum í umsamin skiptakjör sín við fiskimenn. Nú hefur útgerðarmönnum tekist að koma skiptaprósentu fiskimanna á skuttogara af minni gerðinni niður í 20.71% af raunverulegu aflaverðmæti.“

Flestum, sem um þessi mál fjalla, er ljóst að það eru ekki laun sjómanna sem eru að kollsigla útgerðinni. Þar koma önnur atriði til og vegur þar langþyngst fjármagnskostnaðurinn. Það segir sig sjálft að þegar stór hluti lána, sem hvíla á fiskiskipastólnum, eru í Bandaríkjadollurum, við vitum hvernig þróun hans hefur verið, og auk þess með einhverjum óhagstæðustu vöxtum sem þekkjast, þá þarf meira en lítið til að standa undir slíku. Það má heita undarleg fjarstæða að þessi þunga byrði er að stórum hluta afleiðing aðgerða ríkisstj. til að létta byrði þess sama sjávarútvegs. Ég tel því alls ekki fráleitt að ríkissjóður greiði niður í eitt skipti fyrir öll með einni aðgerð hluta af fjármagnskostnaði eða skuldum útgerðarinnar, að sjálfsögðu að vel athuguðu máli og með ákveðnum skilyrðum, m. a. að það hvetji ekki til frekari skipakaupa. Þetta tel ég vera skárri kost en krukk hér og millifærslur þar. Það má segja að hér sé verið að nálgast pennastrikið hans Alberts. En þetta á þjóðin öll að taka á sig sem heild, ekki sjómenn einir, því það er einmitt þjóðarheildin sem nýtur góðs af vinnu þessara manna og þeim verðmætum sem skapast í sjávarútvegi.

Ég vil þó vekja athygli á þeirri staðreynd að um 80% útgerðaraðila reka einnig fiskvinnslu þannig að e. t. v. eru byrðarnar ekki svo óskaplega þungbærar hjá öllum útgerðarfyrirtækjum.

Að sjálfsögðu ráða ríkisstjórnir ekki öllu um gengi sjávarútvegs á Íslandi. Þar eiga fyrirtækin sjálf og sölusamtök þeirra einnig sinn stóra þátt. Og þar má örugglega margt bæta, bæði skipulag, nýtingu, gæði og síðast en ekki síst markaðssókn og sölustarfsemi. Víða er þörf meira aðhalds og eftirlits, t. d. í skipasmíðum. Menn, sem þar þekkja til, segja mér að þegar byggð eru ný skip eða eldri skipum breytt þá séu þau oft búin út fyrir svo margs konar veiðar og fyllt af alls kyns dýrum tækjum, sem síðan eru lítið sem ekkert nýtt og eru hreinlega til trafala við þann veiðiskap sem skipin eru síðan notuð til.

Skuldbreytingar og lenging lána geta bjargað einhverjum, en oft líður svo langur tími frá því að ákvörðun er tekin þar til úr framkvæmdum verður að á meðan hafa skuldir hlaðið á sig vanskilavöxtum og aðstoðin verður því ekki að því gagni sem til var ætlast. En talandi um skuldbreytingar. Nú stendur til að skuldbreyta og lengja lán hjá Fiskveiðasjóði allt upp í 7 ár í viðbót með veði í skipum allt að 90% af húftryggingu þeirra. Ég er hrædd um, miðað við líftíma skipanna, að einhver veðanna verði orðin úr sér gengin eða ónýt áður en skuldirnar eru greiddar.

Ég vil nú víkja nokkrum orðum að hugmyndum ríkisstj. um 10% sveigjanlega bindiskyldu innlánsstofnana og breytingu á afurðalánum, en í grg. með bandorminum segir á bls. 7, með leyfi forseta:

„Hinir margþættu annmarkar endurkaupakerfisins hafa orðið til þess að ríkisstj. setti í upphaflega stefnuskrá sína það ákvæði að afurða- og rekstrarlán atvinnuveganna skyldu færð til viðskiptabanka og sparisjóða. Liggur fyrir ríkisstj. till. frá Seðlabankanum um samhliða lækkun allra endurkaupa um sem næst 5% eða nálægt tíunda hluta þeirra.“

Ég tel þetta vera mjög hættulega stefnu einmitt við ríkjandi aðstæður. Í fyrsta lagi hafa fæstar innlánsstofnanir úti um landið bolmagn til að taka þessi lán að sér. Það leiðir svo annað tveggja af sér að atvinnuvegirnir fá ekki þá fyrirgreiðslu sem þeim ber eða að viðkomandi banki lendir í bullandi yfirdrætti hjá Seðlabankanum með tilheyrandi refsivöxtum. Varla getur það heldur talist til jákvæðra ráðstafana í sjávarútvegsmálum að lækka afurðalánin eins og nú er ástatt.

Nú má enginn taka orð mín svo að eingöngu eigi að sinna sjávarútvegsmálum og láta uppbyggingu nýrra atvinnugreina og menntakerfisins lönd og leið. Síður en svo. En það er framtíðarverkefni sem tekur mörg ár að byggja upp þangað til við förum að njóta arðs. Ekki síst ef á að fylgja þeirri stefnu að skera niður í menntakerfinu á öllum stigum. Á meðan verðum við að treysta á hefðbundnu atvinnugreinarnar. Og vandi sjávarútvegsins er það sem við stöndum frammi fyrir hér og nú og hann verður að leysa. Það væri óskandi að Alþingi bæri gæfu til að afgreiða fyrir þinglok till. Svanfríðar Jónasdóttur um úttekt á stöðu sjávarútvegsins. Ef svo verður ekki þá leyfi ég mér að beina þeim tilmætum til hæstv. sjútvrh. að hann skipi engu að síður nefnd í málið, sem starfi í sumar, þannig að úttekt á stöðu sjávarútvegsins og till. til úrbóta gætu legið fyrir strax við upphaf þings í haust.