21.03.1985
Sameinað þing: 62. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3775 í B-deild Alþingistíðinda. (3106)

350. mál, bætt aðstaða hreyfihamlaða í Þjóðleikhúsinu

Flm. (Sigríður Þorvaldsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 558 hef ég ásamt hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur og Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur borið fram till. til þál. um bætta aðstöðu hreyfihamlaðra í Þjóðleikhúsinu. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að sjá til þess að fyrir upphaf næsta leikárs verði gerðar endurbætur á aðstöðu fatlaðra til að sækja Þjóðleikhúsið.

Undirbúningsvinna að þessum framkvæmdum hefjist hið fyrsta.“

Í grg. með till. segir svo með leyfi forseta:

„Í byggingarlögum nr. 54 16. maí 1978 er m. a. það nýmæli að fjallað er um aðstöðu fatlaðra. Þar stendur: „Í byggingarreglugerð skal setja ákvæði varðandi umbúnað bygginga til þess að auðvelda ellihrumu og föttuðu fólki að komast leiðar sinnar.“

Gera verður ráð fyrir að hagsmuna hreyfihamlaðra sé gætt í nýbyggingum en treglega hefur gengið að færa eldri opinberar byggingar í viðunandi horf fyrir fatlaða. Það á ekki síst við um Þjóðleikhúsið en þar er örðugt fyrir hreyfihamlaða að komast upp háar útitröppur og stiga og innan dyra er mikið um mishæðir.

Ekki er hægt að koma nema tveimur hjólastólum fyrir í húsinu en í gildandi byggingarsamþykkt er kveðið á um að 1% sætarýmis skuli vera ætlað hjólastólum. Skv. því ætti að vera rými fyrir sjö hjólastóla í húsinu en sæti eru þar 661. Einnig er salernisaðstaða enn ófullnægjandi þó að bætt hafi verið úr brýnasta vandanum með því að setja snyrtingu í forstofu framan við sal. Þó nær sú snyrtiaðstaða því miður ekki þeirri stærð sem reglugerðir gera ráð fyrir.

Hinn 22. maí 1980 samþykkti Alþingi þáltill. um málefni hreyfihamlaðra þar sem skorað var á ríkisstj. að láta gera úttekt á nauðsynlegum endurbótum á opinberu húsnæði til að auðvelda hreyfihömluðum aðgang og gera kostnaðaráætlun um þau verk sem brýnust þóttu.

Þessi úttekt var gerð og skilaði starfshópur um ferlimál fatlaðra úttekt sinni 2. apríl 1981. Í framhaldi af þessum niðurstöðum lagði starfshópurinn til í bréfi dagsettu 26. júní 1981 við þáv. félmrh. að hann hæfi viðræður við menntmrh. og forsrh. — sem yfirmann húsameistara — um breytingar á Þjóðleikhúsinu. Félmrh. varð við þessari tillögu og í september 1981 lögðu húsameistari og formaður starfshópsins fram athuganir og áætlanir til endurbóta á húsinu. Þar var gert ráð fyrir:

1. að sett yrði upp lyfta með fimm viðkomustöðum á austurhlið hússins,

2. að nýtt stórt anddyri með miðasölu hússins yrði byggt við austurhlið,

3. að sæti í 10. og 11. röð í sal yrðu losuð svo að hægt væri að skapa þar rými fyrir sjö hjólastóla,

4. að sérhannaðri snyrtiaðstöðu fyrir fatlaða yrði komið fyrir í kjallara í tengslum við núverandi salerni og fatageymslu,

5. að möguleikar yrðu á því fyrir fatlaða að komast að litla sviðinu og í veitingasal.

Lausleg kostnaðaráætlun um breytingar var gerð og hljóðaði sú áætlun upp á 2 millj. 600 þús. kr. Þar er gert ráð fyrir að anddyri það hið mikla, sem áætlað var, kostaði 800 þús. krónur eða tæplega þriðjung alls kostnaðarins. Farið var fram á a. m. k. 800 þús. kr. til að hefja undirbúningsframkvæmdir á árinu 1982.

Þáverandi félmrh. og fjmrh. ákváðu að þeirri 1 millj. kr., sem gert var ráð fyrir í fjárlögum fyrir árið 1982 vegna breytinga á húsnæði vegna fatlaðra, yrði varið til ofangreindra breytinga á Þjóðleikhúsinu. Það verður að segjast eins og er að ekkert varð úr framkvæmdum og féð var því ekki nýtt.

Á fjárlögum 1983 var fjárveiting að upphæð 1.4 millj. ætluð til verksins en enn varð ekkert úr framkvæmdum, þó svo að samstarfsnefnd um ferlimál fatlaðra reyndi að ýta á eftir málinu með bréfi dags. 30. júní 1983 til menntmrh. Á fjárlögum 1984 mun hafa verið veitt sama fjárhæð og árið áður til breytinga á húsnæði vegna fatlaðra en ekki bar á því að það fé væri nýtt til breytinga á Þjóðleikhúsinu. Hins vegar var 200 þús. kr. af þessu fé varið til framkvæmda annars staðar.

Á fjárlögum þessa árs virðist ekki vera nein fjárveiting til breytinga á húsnæði vegna fattaðra. Við leggjum því til að eftirstöðvum af þeim 3.8 millj. kr., sem samtals var gert ráð fyrir á fjárlögum á árinu 1982, 1983 og 1984 til breytinga á húsnæði vegna fatlaðra verði nú varið til þess að setja upp lyftu, lagfæra stétt og skapa aðstöðu fyrir hjólastóla á miðsvölum.

Flm. þessarar þáltill. gerðu í febrúarmánuði s. l. frumkostnaðaráætlun um endurbætur í þessu sambandi. Þessi áætlun er byggð á upplýsingum frá embætti húsameistara ríkisins og vélsmiðjunni Héðni og sýnir eftirfarandi:

Stétt

600 000 kr.

Lítið anddyri (án miðasölu)

300 000 kr.

Lyfta með fjórum viðkomustöðum

1 300 000 kr.

Lyftustokkur úr stáli og gleri

400 000 kr.

Múrbrot- og gryfjugerð

350 000 kr.

Samtals

2 950 000 kr.

Hönnunar- og eftirlitskostnaður er ekki innifalinn í þessari áætlun, en gera má ráð fyrir að hann verði allt að 10% af kostnaði. Sáralítið kostar að losa um sæti til að fá rými fyrir átta hjólastóla og haft var samráð við umsjónarmann eldvarna um stað fyrir hjólastóla á miðsvölum.

Flm. telja að þessar 3.6 millj. kr., sem ekki hafa enn verið nýttar en gert var ráð fyrir á fjárlögum, séu yfrið nóg fé til að koma þessu máli heilu í höfn þannig að hreyfihamlaðir geti sótt Þjóðleikhúsið rétt eins og aðrir þegnar þjóðfélagsins.“

Lögin sem tóku gildi 1979 leystu af hólmi lög um byggingarsamþykkt frá 1905. Hvorki í hinum gömlu lögum frá 1905 né í nýrri reglugerðum, svo sem reglugerðum frá árunum 1964 og 1967, er minnst á hagsmuni hreyfihamlaðra. Það er því ekki að undra að sá mæti húsameistari, sem teiknaði Þjóðleikhúsið fyrir u. þ. b. hálfri öld, hafi ekki gefið gaum að því hvort hreyfihamlaðir ættu auðsótt f húsið, hvað þá að gert væri ráð fyrir hreyfihömluðu starfsfólki. Slíkur var tíðarandinn þá, enda mun hreyfihömluðum hafa fjölgað til muna á þessum 50 árum, einkum ungu hreyfihömluðu fólki. Um 400 manns munu nú vera í hjólastólum á Íslandi. Bætist einn í þann hóp á þriggja mánaða fresti vegna bílslysa og eru ungmenni 18 til 19 ára þar í miklum meiri hluta.

Þjóðleikhúsið ber öll merki síns sköpunartíma, glæst borg álfa og ævintýra, en fyrir hreyfihamlaða, unga sem aldraða, er þar afar erfitt aðkomu og umferðar. Allir sem þar hafa komið vita um stiga, tröppur og mishæðir sem eru þar hluti af glæsilegri heild en valda fötluðum, bæði hreyfihömluðum, hjartasjúkum og lungnaveikum, erfiðleikum. Það er því að vonum að upp hafa komið umræður um úrbætur fyrir hreyfihamlaða og eins og í grg. segir gerði húsameistari ríkisins áætlun um framkvæmdir og kostnað árið 1981 og endurskoðaði þá fjárhagsáætlun í maí 1982. Var hún þá orðin 3.4 millj., bygging anddyris og aðkomu 1 millj. kr., lyfta, lyftustokkur og lagfæringar þar í kring 1.8 millj., endurbætur á salerni í kjallara 600 þús. kr., en ekkert varð úr framkvæmdum.

Þegar sú er hér talar hefur fært þetta framkvæmdaleysi í tal við ráðamenn hefur viðbáran verið sú að fjárveitingarnar hafi ár hvert verið svo litlar að ekki hafi þótt fært að hefja framkvæmdir. Þó að mér finnist svarið ófullnægjandi, því að vel hefði mátt vinna verkið í áföngum eins og húsameistari gerði raunar ráð fyrir, þá hefur þessi dráttur e. t. v. orðið til góðs því að ekki hefur verið ráðist í byggingu hins nýja anddyrisferlíkis sem hefði sennilega skemmt útlit hússins og kemur ferlimálum fatlaðra harla lítið við. Virðist mér að hér hafi hagsmunir fatlaðra liðið fyrir draumsjónir um stórt, dýrt anddyri. Húsameistari hefur tjáð mér að nauðsyn muni bera til að endurnýja salerni Þjóðleikhússins innan tíðar og að þá muni verða séð fyrir þörfum hreyfihamlaðra í því efni svo að óþarft er að gera sérstaklega ráð fyrir því í þessum framkvæmdum.

Við vinnslu þessarar grg. voru upplýsingar m. a. fengnar hjá starfsmanni félmrn. sem unnið hefur að þessum málum og formanni ferlinefndar Öryrkjabandalagsins. Eftir prentun till. og meðfylgjandi grg. kom hins vegar í ljós að samkv. ríkisreikningi hafa 551 þús. kr. verið teknar út árið 1982 og 91 þús. kr. 1983, eða samtals 642 þús. kr., en enginn hafði svar við því í hvaða tilgangi eða hvað hefði verið gert við peningana. Ég legg til að hv. nefnd sem mun fá þáltill. til umfjöllunar kanni málið. En þó svo að við drögum frá þessa upphæð, 642 þús. kr., kemur út svipuð upphæð og frumkostnaðaráætlun húsameistara ríkisins og vélsmiðjunnar Héðins gerir ráð fyrir.

Mig langar til að benda á til glöggvunar fyrir hv. þm. á bls. 6, þar sem teikning er að neðri svölum eða miðsvölum og tvær efstu sætaraðir eru ætlaðar hjólastólum, að þær yrðu e. t. v. útbúnar þannig að sæti við vegg yrðu fellisæti til. notkunar þegar hjólastólafólk nýtir ekki staðinn og til hægri fyrir miðju hefur húsameistari ríkisins gert teikningu að lyftu. Á hinu litla anddyri yrði sjálfvirk hurð og þar fyrir innan bjalla til að kalla á lyftu og starfsmann sem afhendir aðgöngumiða og kemur um leið í veg fyrir misnotkun á lyftu.

Ég vil leyfa mér að taka fram að áhugamanneskja um ferlimál fatlaðra, Guðrún Halldórsdóttir, skólastjóri Námsflokka Reykjavíkur, hefur einnig unnið undirbúningsvinnu að þessari till. með mér.

Ég ber þá von í brjósti að þm. hvar í flokki sem þeir standa ljái þessu nauðsynjamáli stuðning og að ríkisstj. greiði fyrir málinu og sjái til þess að verkið verði unnið svo að á 35 ára afmæli Þjóðleikhússins geti hreyfihamlaðir loks átt greiðan aðgang að höfuðleikhúsi þjóðarinnar.

Að lokinni umr. um þetta mál legg ég til að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. fjvn.