28.03.1985
Sameinað þing: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3975 í B-deild Alþingistíðinda. (3307)

392. mál, réttarstaða heimavinnandi fólks

Flm (Maríanna Friðjónsdóttir):

Herra forseti. Til umr. hér er till. til þál. sem birtist á þskj. 633 og ég flyt ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Till. fjallar um réttarstöðu heimavinnandi fólks og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa sjö manna nefnd sem hafi það verkefni að meta þjóðhagslegt gildi heimilisstarfa og gera úttekt á hvernig félagslegum réttindum og mati á heimilisstörfum er háttað samanborið við önnur störf í þjóðfélaginu. Skulu niðurstöður og tillögur til úrbóta liggja fyrir Alþingi eigi síðar en 1. jan. 1986.“

Í grg. með till. er drepið á nokkra þætti sem vert væri að hafa í huga við úttekt þessa. Verður hún ekki rakin hér lið fyrir lið þar sem hv. þm. geta lesið sér til um það á áðurnefndu þskj. Ég vil hins vegar minnast á nokkur atriði sem tengjast málinu og almennu viðhorfi fólks til þessara mála.

Heimavinnandi fólk hefur ekki aðgang að lífeyrissjóði og því mjög takmörkuð lífeyrisréttindi, einungis ellistyrkinn úr almannatryggingum og þykja ekki háar upphæðir. Þótt það séu einstakir karlar sem fylla hóp heimavinnandi er það hverfandi lítill fjöldi miðað við konurnar í þessari stétt þjóðfélagsins. Mun ég því héðan í frá tala um heimavinnandi fólk sem konur.

Hafi konan unnið úti og verið í lífeyrissjóði missir hún þann rétt ef hún hverfur til heimilisstarfa, t. d. vegna þess að börn bætast í hópinn. Hafi konan ekki greitt nógu lengi í lífeyrissjóð til að tryggja sér lánsréttindi áður en heim er haldið fellur sá réttur einnig niður. Fyrir ungt fólk, sem er að afla sér íbúðarhúsnæðis, vegur það þungt. Hvað varðar eldri kynslóðina má benda á að þar í hópi eru margar konur sem stunduðu lítil sem engin störf utan heimilis heldur eyddu starfsdegi sínum við uppeldi barna og húshald. Þær konur eru nú umvörpum að komast á þann aldur að þær skulu lögum skv. njóta lífeyris. Má benda á tölur frá nafnaskrá lífeyrissjóða, sem útgefin var 27. nóvember s. l.

Þar kemur fram að í hópi kvenna, sem fæddar voru 1917 og fara á eftirlaun nú, eru 259 utan lífeyrissjóða. Þær konur, sem á næstu tveimur árum komast á þennan aldur og eru utan lífeyrissjóða, eru 487 skv. þessum upplýsingum.

Nú veit ég að fyrir þinginu liggur frv. til l. um lífeyrisréttindi húsmæðra, en það frv. gengur engan veginn nægjanlega langt. Má í þessu sambandi benda á áratuga gamalt baráttumál Alþfl. um lífeyrissjóð öllum landsmönnum til handa. Störf heimavinnandi fólks eru eina vinnuframlagið í þjóðfélaginu sem ekki eru greidd laun fyrir og mætti í sjálfu sér hafa mikið mál í kringum það. Það er ljóst að heimavinnandi konur spara þjóðarbúinu mikil sameiginleg úfgjöld. Þær vinna launalaus störf sem standa allan sólarhringinn. Þessar konur hafa ekki lögskipaðan hvíldartíma, heldur ekki lögskipaða frídaga. Þær fá ekkert sumarfrí en þær skulu vera til þjónustu reiðubúnar allan sólarhringinn þegar kallið kemur, hvort sem er á nóttu eða degi, hvort sem um er að ræða að seðja hungur þeirra sem heim koma eða vakna að nóttu til til að sinna ungbörnum. Húsmæðurnar eru á þönum frá morgni til kvölds og einu skiptin, sem sést hvað þær eru að gera, eru ef þær láta það ógert. Það vantar hreina sokka, mjólk í ísskápinn og ýmislegt annað. Karlar þessa þjóðfélags geta á þessum grunni stundað félagslíf og atvinnulíf óháð því hvort þeir eiga heimili og börn og hafa hellar hersveitir huggulegra huldukvenna heima við sem sjá um að allt gangi slétt og fellt fyrir sig.

Heimavinnandi konur inna af hendi störf sem annars staðar í þjóðfélaginu eru metin til launa, jafnvel hárra launa. Þær sinna t. d. ráðgjafarþjónustu. Hún er talsvert vel borguð í þessu þjóðfélagi. Þær eru fóstrur. Þær fá góða þjálfun í því að umgangast fólk með ólíka skapgerð. Enginn eiginmaður, sonur eða dóttir hefur sömu skapgerð. Þær þurfa að leysa úr sálarþrautum heimilismanna og sinna kennslustarfi. Slík störf eru metin til launa annars staðar í þjóðfélaginu og krafist í mörgum þeirra háskólamenntunar. Svo eru margar þessara kvenna með eindæmum hagsýnar og nýtnar. Þær prjóna, þær sauma og baka margar hverjar. Það dregur úr innflutningi á tilbúnum fatnaði, á dönsku brauði og sparar þjóðarbúinu dýrmætan gjaldeyri.

Þessar konur hafa, ef þær eru með mörg börn á framfæri, oft og tíðum skuldbundið sig til að vinna kauplaust í allt að 20 ár og þær hafa enga umsamda matar- eða kaffitíma. Það er ekkert verkalýðsfélag sem krefst þess að þær fái lögboðna 10 tíma hvíld á sólarhring eða geti a. m. k. samið við vinnuveitandann um að fá 8 tíma. Í ræðum og riti á hátíðarstundum eru fósturlandsins freyjur svo lofsungnar og ofnar dýrðarljóma. Það væri nær að synir og dætur þessarar þjóðar slepptu slíkum stílbrögðum, brettu upp ermarnar og færu virkilega að sinna alvörumálefnum þessa fólks.

Það er oft talað um það að sjálfstæði konunnar og jafnréttið byggi á fjárhagslegum grunni. Ég er því sammála. Ég er ekki hér að krefjast þess að konur fái kaup frá ríkinu fyrir það að sinna heimilisstörfum. En ég er að krefjast þess hér að það verði skoðað með hvaða hætti mætti taka á þessu máli til þess að þær njóti a. m. k. sömu félagslegra réttinda og aðrir í þjóðfélaginu. Þær eiga ekki að þurfa að hafa það á tilfinningunni sí og æ að þær séu með launalausu starfi sínu í raun þurfalingar á eigin heimilum.

Það er í tísku að tala um val. Allir eiga að hafa val. En frammi fyrir hvaða vali stendur fólk í raun? Konan hefur í flestum tilvikum lægri laun en karlinn úti á hinum almenna vinnumarkaði. Svo þegar börnin bætast í hópinn hefur hún ekki um neitt að velja. Hún hefur lægri launin. Hann verður að vinna fyrir brauðinu en hún að flytja sig um set og hætta að vinna, eins og það er nefnt.

En konur þurfa oft og tíðum einnig að standa frammi fyrir öðru og mun erfiðara vali. Þær þurfa hreinlega að gera það upp við sig hvort þær eigi að eiga börn yfir höfuð eða halda áfram að vinna utan heimilis. Karlmenn þurfa sjaldnast að spyrja sig þessarar spurningar. En það er líka búið að velja fyrir þá. Þeir karlar sem stunda heimavinnu eru stundum álitnir svolítið skrýtnir. En þeir þurfa samt sjaldnast að velta því rækilega fyrir sér í alvöru hvort þeir eigi að eignast erfingja að allri þjóðfélagsdýrðinni.

Nú segja kannske sumir að konur geti bara haldið áfram að vinna úti þótt þær séu með ungbörn á heimilinu. En þá vantar dagvistunarrými og svo eru ýmsar aðrar ástæður fyrir því að konur kjósa að sinna heimilisstörfum. Oft og tíðum hrekkur heldur ekki kaupið, sem þær fá fyrir að vinna utan heimilis, fyrir dagvistun barnanna ef þau eru mörg. Meðan þessar konur sitja heima og gera ekki neitt, eins og það er nefnt, eru þær að spara fyrir þjóðarbúið með því að gæta barnanna sinna og oft og tíðum einnig að sinna eldri borgurum, þjóðfélagsþegnum, ungum og öldnum, sem ella tækju upp dýrmæt pláss á stofnunum sem ríki og sveitarfélög reka.

Þessi beini fjárhagssparnaður fyrir þjóðarbúið er ekki metinn. Hvað skattamálin varðar er það ljóst að það hefur alllengi verið stefna Alþfl. að leggja niður þennan leiðindaskatt sem nefnist tekjuskattur og er ekki orðinn neitt annað en mismununarskattur. Þetta lýsir sér m. a. í því misrétti að heimili með eina fyrirvinnu og sömu tekjur ber hærri skatta en heimili með tvær fyrirvinnur. Þau lög sem héðan voru samþykkt frá hv. Alþingi í desember s. l. leiðrétta ekki þetta misrétti. Þau mótrök sem haldið hefur verið fram í þeirri umræðu, að um sé að ræða skref aftur á bak með því að samskatta hjón, er bara rifrildi um hirðsiði. Ef ekki væri greiddur tekjuskattur af launum félli sá skoðanaágreiningur úr sögunni.

Hins vegar hlýtur að vera unnt að líta á heimilið sem eina rekstrareiningu og að þau laun sem til þess falla séu sameiginleg. Ég held að á flestum heimilum landsmanna sé búið fyrir fram að ráðstafa öllum tekjum heimilisins í afborganir af lánum, reikninga og mat ásamt öðrum kostnaði sem til heimilisrekstrar þarf. Konan vinnur inni á heimilinu og gerir þar með karlinum kleift að vinna fyrir tekjum annars staðar. Þess vegna á hún jafna hlutdeild í tekjum hans. Í raun ætti kannske að ganga enn lengra og telja öll félagsleg réttindi sameign, því að auðvitað er um sameiginlegt framlag að ræða þótt vinnan fari fram á tveim stöðum í senn. En þetta eru hlutir sem verða vonandi skoðaðir allir í framtíðinni.

Heimavinnandi konur þarf að tryggja sérstaklega á skattaskýrslu eins og hvert annað húsgagn. Slíkt og þvílíkt er bara hrein misvirðing. Einnig er það fráleitt að kona, sem vinnur heima og verður veik sé álitin minna veik en allir aðrir. Það mætti a. m. k. ætla að svo sé.

Hún fær ekki nema 1/4 af sjúkradagpeningum. Svo skiptir hið opinbera konum í verðflokka á fleiri sviðum, t. d. hvað varðar fæðingarorlof. Hefur sú kona, sem heima hefur unnið og fæðir barn, minna fyrir því en konan í næsta húsi? Ég bara spyr.

Ef við tökum eitt lítið dæmi þessu til skýringar þá fær heimavinnandi kona með fjögur börn á framfæri einungis 1/4 af fæðingarorlofi þótt fimmta barnið bætist við. Konan í næsta húsi, sem hefur verið dagmamma með fjögur börn í pössun, fær fullt fæðingarorlof ef hún leggst á sæng. Þetta er svo fráleitt að það liggur við að maður tárist yfir þessu.

Svo hyggst blessuð konan kannske eftir langan starfsdag á heimilinu halda út á vinnumarkaðinn. Og hvað blasir þá við? Alger eyðimörk. Margar þeirra hafa litla menntun. Þær hafa heldur ekki átt kost á lögboðinni endurmenntun við sitt hæfi. Þær fara kannske á ótal námskeið hjá námsflokkunum, hressa upp á enskukunnáttuna og vélritunina. Svo er sótt um vinnu með fullri bjartsýni. En það er fátt um svör. Hún er úr leik. Hún á kost á ræstistörfum, fiskvinnu eða að svara í símann. Hvar er þá uppskera allra áranna? Hvar er nú starfsmatið og starfsaldurshækkanirnar? Hún hefur unnið störf í þágu þjóðfélagsins áratugum saman sem annars staðar færir fólki hækkun á launum með mati á störfum og starfsaldri. Hér fyrst tekur steininn úr. Hvar er rétturinn til þess sem er afrakstur ævistarfs? Svo endar þetta allt saman með því að hún heldur heim á ný og prjónar lopapeysur sem útlendingar græða á og dútlar eitthvað smálegt.

Fyrir hv. þingi liggur fleira en sú till. sem hér er færð fram og kveður á um úttekt á félagslegum réttindum og mati á heimilisstörfum. Hér liggur nefnilega fósturlandsins freyja í allri sinni nekt fyrir hv. Alþingi. Ekki sú kvenímynd sem á afmælis- og tyllidögum er hafin upp á goðkenndan stall og lýst í mærðarlegum mansöngvum. Ekki sú móðir, kona, meyja sem afgreidd er með minningargrein í Mogganum. Nei. Hér er rætt um aðra hlið fósturlandsins freyju. Hér er brugðið upp mynd þeirrar konu sem áratugum saman vinnur ólaunað starf í þágu alls þjóðfélagsins án nokkurrar umbunar, án nokkurra réttinda. Myndin af konu sem sett er skör lægra en aðrir þjóðfélagsþegnar á margan hátt, bæði af hinu opinbera og í viðhorfi manna á meðal. Mynd þeirrar konu sem ekki er metin að verðleikum á einn eða neinn hátt.

Hér hefur verið lýst ástandi sem er og kemur til með að vara ef ekkert verður að gert. Því er það von mín að sú úttekt á högum og félagslegum rétti heimavinnandi, sem væntanlega verður gerð í kjölfar samþykktar þessarar till., kunni að leiða í ljós hvaða leiðir er unnt að fara til að laga þetta ástand.

Að lokinni þessari umr. legg ég til, herra forseti, að till. verði vísað til hv. allshn.