29.11.1984
Sameinað þing: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

177. mál, fjárfestingar erlendra aðila í atvinnufyrirtækjum

Flm. (Björn Líndal):

Herra forseti. Þáltill. sú sem hér liggur fyrir fjallar um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnufyrirtækjum hér á landi. Í henni felst að Alþingi marki skýra stefnu gagnvart fjárfestingum af þessu tagi. Í því skyni er lagt til að ríkisstj. skipi nefnd sem verði falið það verkefni að semja frv. til l. um slíkar fjárfestingar og eigi í henni sæti fulltrúar allra þingflokka. Gerir till. ráð fyrir að störfum nefndarinnar ljúki svo tímanlega að unnt sé að leggja frv. fyrir næsta löggjafarþing.

Eins og orðalag till. ber með sér er ekki tekin bein afstaða til þess hvort fjárfestingar erlendra aðila í atvinnufyrirtækjum hér á landi séu æskilegar eða ekki, heldur er megináherslan lögð á nauðsyn þess að sett verði sérstök lög í þessu efni. Engu að síður ætti till. að kalla á umr. þar sem vonandi fengist úr því skorið hver afstaða hv. þm. væri til þessara fjárfestinga. Í mínum huga leikur enginn vafi á því að skoðanaskipti og ákvarðanir í þessu máli eru mjög brýnar. Hitt er ekki síður mikilvægt að rætt sé um aðrar atvinnugreinar en stóriðju í þessu sambandi. Það er deginum ljósara að hefðbundnar atvinnugreinar landsmanna munu ekki einar sér geta bætt lífskjör þjóðarinnar á næstu árum og áratugum. Þetta vita flestir og það er varla lengur til sá maður er tekur til máls um efnahags- og atvinnumál sem ekki leggur áherslu á að efla verði nýsköpun í atvinnulífi. Þessa er þörf bæði til þess að auka útflutningstekjur og fjölga störfum.

Hæstv. forsrh. gerði þetta m.a. að umtalsefni í stefnuræðu sinni í síðustu viku. Hann benti hins vegar á að svigrúm til nýsköpunar væri lítið vegna mikilla erlendra skulda og lítils hagvaxtar. Þetta sjónarmið tók hæstv. fjmrh. síðan undir á þriðjudaginn var þegar 1. umr. við fjárlagafrv. fór fram. Hann sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Sé hugað að þeim áformum sem eru í sjónmáli um nýsköpun í íslensku atvinnulífi, þar með taldar stóriðjuframkvæmdir, er ljóst að þjóðin stendur frammi fyrir þeim staðreyndum að ekki er unnt að fjármagna þær nema til komi erlendar lántökur í ríkum mæli. Þar sem erlendar lántökur á undanförnum árum eru nú taldar komnar að hættumörkum sem hlutfall af þjóðarframleiðslunni virðist lítið svigrúm vera til þeirra áforma nema menn sætti sig við að erlenda skuldahlutfallið aukist á næstu árum frá því sem nú er. Afar brýnt er að það takmarkaða svigrúm sem er til erlendrar lántöku verði aðeins nýtt til arðbærra verkefna.“

Það er hverju orði sannara að erlendar lántökur eru komnar að hættumörkum sem hlutfall af þjóðarframleiðslu einkum þegar litið er til þess að í heild hafa lántökurnar ekki skilað sér í auknum hagvexti og að fjórða hver króna af útflutningstekjum þjóðarinnar mun á þessu ári ganga til greiðslu erlendra skulda. Það er einnig staðreynd sem horfast verður í augu við, að erlent fjármagn er undirstaða þess að unnt sé að efla lífsnauðsynlega nýsköpun í atvinnulífi. Þessar tvær staðreyndir rekast harkalega hvor á aðra og því er mikilvægt að brjóta nýjar leiðir. Í því efni er mikilvægt að löggjafinn, Alþingi, geri upp við sig hvort til greina komi að ná erlendu fjármagni hingað til lands í auknum mæli í formi fjárfestinga erlendra aðila í atvinnufyrirtækjum. Er þá bæði átt við fjárfestingar með stofnun nýrra fyrirtækja og þátttöku í starfandi fyrirtækjum. Eins og síðar verður komið að vantar mikið á að skýr stefna sé fyrir hendi á þessu sviði í íslenskri löggjöf. Ef litið er t.d. á fiskeldi sem miklar vonir eru bundnar við sem framtíðarútflutningsgrein er ljóst að þátttaka erlendra aðila, einkum Norðmanna og Bandaríkjamanna, er Íslendingum afar mikilvæg. Í fyrsta lagi verður áhættan sem því er samfara að byggja upp nýja útflutningsgrein mun minni. Í öðru lagi er líklegt að þátttaka bandarískra fyrirtækja muni auðvelda að koma vörunni á markað í Bandaríkjunum sem ég hygg að sé stærsti markaðurinn fyrir þessa vöru. Í þriðja lagi mun þátttaka Norðmanna flytja hingað til landsins tækniþekkingu á þessu sviði, sem gerir kleift að hraða uppbyggingu atvinnugreinarinnar. Hinu er ekki að leyna að löggjöfin sem um þetta fjallar veitir engin skýr svör um það hversu stór eignarhlutur erlendra aðila í fyrirtækjum á sviði fiskeldis má vera. Sýnist þar sitt hverjum. Á hinn bóginn sýnir fiskeldið okkur að verulegir hagsmunir geta verið í því fólgnir fyrir þjóðina að fá erlenda aðila til að fjárfesta í atvinnufyrirtækjum hér á landi.

Þegar rætt er um þessi mál leiða menn sjaldnast hugann að því að erlendar fjárfestingar geta leitt til aukins útflutnings héðan og skapað auknar útflutningstekjur. Umræðan einkennist fyrst og fremst af hræðslu við að útlendingar muni hreinlega gleypa landið og þjóðina með fái þeir að fjárfesta hér í auknum mæli. Þeir sem þannig hugsa virðast einna helst aðhyllast sjálfsþurftarbúskap sem til allrar hamingju rann skeið sitt á enda hér á landi á fyrstu áratugum þessarar aldar. Hugtak eins og efnahagslegt sjálfstæði má ekki binda menn í þessu tilliti. Efnahagslegt sjálfstæði er nefnilega ekki það sama og efnahagsleg einangrunarstefna. Íslendingar eiga nú efnalega afkomu sína undir því hvernig utanríkisviðskipti þjóðarinnar ganga. Hvernig væri t.d. atvinnuástandið á Austfjörðum nú ef ekki hefðu náðst stórir og hagstæðir síldarsamningar við sovétríkin í haust? Mikilvægi utanríkisviðskipta í heiminum mun án efa fara vaxandi og þau verða sífellt fjölbreyttari. Þar á meðal aukast hægt og sígandi fjárfestingar af því tagi sem hér eru gerðar að umtalsefni.

Ef það á að vera stefnan að bæta lífskjörin og tryggja fulla atvinnu eigum við hiklaust að vera virkir þátttakendur í þessari þróun mála, en ekki dæma okkur sjálf úr leik vegna hræðslu eða jafnvel fordóma í garð útlendinga. Á hinn bóginn ber vitaskuld að sýna gætni á þessu sviði eins og öðrum. Ég hygg að setning heildarlöggjafar um þessi mál eins og þáltill. gerir ráð fyrir gæti m.a. að því leyti þjónað veigamiklu hlutverki.

Á Norðurlöndum ríkir töluverður áhugi á fjárfestingum erlendra aðila í atvinnufyrirtækjum. Í sænsku nefndaráliti sem fjallar um þetta og er frá árinu 1978 segir t.d. að nefndarmenn hafi verið sammála um að fjárfestingar erlendra aðila í atvinnufyrirtækjum í Svíþjóð hefðu margvíslega kosti í för með sér, svo sem nýtt fjármagn, fleiri störf, aukna útflutningsmöguleika og nýja þekkingu á sviði tækni, markaðssetningar og stjórnunar. Er á það bent í nál. að þessar fjárfestingar gætu ýtt undir margbreytni, virkni og alþjóðlega samkeppnishæfni sænsks efnahagslífs. Sá áhugi sem þessi orð lýsa og vart verður við á öllum hinum Norðurlöndunum á sér auðsæjar skýringar. Það liggur t.d. fyrir að útibú IBM í Danmörku hefur greitt fyrir útflutningi danskra fyrirtækja á ýmiss konar einingum og búnaði í tölvur til verksmiðja IBM í Evrópu og Bandaríkjunum. Þessi dönsku fyrirtæki eru hvorki fleiri né færri en tæplega 90 talsins. Hér á landi þar sem útibú IBM er eitt af örfáum erlendum fyrirtækjum að stóriðjufyrirtækjunum undanskildum má sjá merki þess að íslensk fyrirtæki geti verið að hefja sams konar útflutning. Þetta ætti vissulega að vera hvatning til að huga betur að þessum málum og setja eins og áður sagði heildarlöggjöf um fjárfestingar erlendra fyrirtækja hér á landi eins og þáltill. gerir ráð fyrir.

Fleira kemur til sem gerir löggjöf af þessu tagi nauðsynlega. Íslensk lagaákvæði er að þessu lúta finnast á víð og dreif um allt lagasafnið. Þessi ákvæði eiga fátt sameiginlegt nema það að þau sýna svo ekki verður um villst að löggjafinn hefur látið undir höfuð leggjast að marka stefnu gagnvart fjárfestingum erlendra aðila í atvinnufyrirtækjum. Einkum á þetta við á sviði iðnaðar, verslunar og þjónustu en síst að því er varðar útgerð. Það er að vísu rétt að atvinnurekstur í iðnaði, verslun og ýmiss konar þjónustu er háður leyfi stjórnvalda og skilyrðum um íslenskt ríkisfang, búsetu hér á landi og stundum meirihlutaeign Íslendinga á hlutafé. Á hinn bóginn er löggjöfin þannig úr garði gerð að stjórnvöld hafa víðtækar heimildir til að veita undanþágur frá þessum skilyrðum. Þegar reynt er að grafast fyrir um hvaða hugmyndir löggjafinn hefur gert sér um beitingu á þessum undanþágum er litlar sem engar skýringar að hafa, hvorki í lagafrv. né umr. á þingi. Þetta á jafnt við um lög um einstakar atvinnugreinar, lög um eignarrétt og afnotarétt fasteigna og lög um hlutafélög. Þetta viljaleysi felur í sér mikið valdaframsal af hálfu Alþingis til framkvæmdavaldsins. Samkvæmt gildandi lögum verða einstök stjórnvöld að móta sjálf þá stefnu sem þau kjósa að fylgja í þessum efnum. Þetta getur ekki alltaf verið auðvelt og þess vegna má búast við að umsóknir erlendra aðila um undanþágur til að geta fjárfest hér verði sendar til umsagnar hagsmunasamtaka. Það virkar ef til vill vel við fyrstu sýn, en miðað við ríkjandi ástand og þá einkum afstöðuleysi löggjafans er ekki fjarri lagi að ætla að þessar umsagnir geti í næstu framtíð haft úrslitaáhrif um það hvort undanþága skuli veitt. Það þýðir að hagsmunasamtök fara að ráða miklu um framvinduna í þessum málum sem Alþingi á með réttu að móta. Úr þessu þarf að bæta og mér virðist að setning heildarlöggjafar um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnufyrirtækjum sé vel til þess fallin. Meginkostur þess að setja ein lóg um þessar fjárfestingar er fólginn í auðveldari og skilvirkari framkvæmd þeirrar stefnu sem lögin koma til með að marka. M.a. yrði yfirstjórn þessara mála í höndum eins aðila í stað margra eins og nú tíðkast en flest sérákvæði í lögum um þessar fjárfestingar yrðu felld úr gildi. Það skal einnig tekið fram að lög af þessu tagi þurfa ekki að hafa að geyma nákvæmlega sömu reglur um allar fjárfestingar erlendra aðila, án tillits til þess hvers konar atvinnurekstur um væri að ræða. Það er heldur ekki nauðsynlegt að láta sömu reglur gilda um allar fjárfestingar án tillits til þess hve stórar þær eru.

Að mínu mati er mikilvægast að auðvelda erlendar fjárfestingar í þeim atvinnugreinum sem tengjast beint því yfirlýsta markmiði ríkisstjórnarinnar að efla nýsköpun í atvinnulífinu.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir þeim atriðum sem ég tel að skipti mestu máli þegar þessi þáltill. verður vegin og metin hér á Alþingi. Eins og kom fram í upphafi máls míns gerir till. ráð fyrir að fulltrúar allra þingflokka eigi aðild að þeirri nefnd sem lagt er til að falið verði að semja frv. um þessar fjárfestingar, en fjöldi nm. verði að öðru leyti ákveðinn af ríkisstj. Með þessum hætti er ætlunin að tryggja að öll sjónarmið sem uppi eru í þessu máli meðal þingflokka geti komist að. Að lokum vil ég leyfa mér að leggja til að till. verði vísað til hv. atvmn. Sþ.