03.11.1986
Neðri deild: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

102. mál, skógrækt

Magdalena Margrét Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég fagna því að lagt skuli hafa verið fram frv. til l. um skógvernd og skógrækt. Eldri lögin voru frá 1955, að mig minnir, og miklar breytingar hafa orðið á viðhorfi til skógræktar í landinu á þessum tíma.

Í I. kafla 1. gr. er kveðið á um markmið laganna og er ekkert nema gott eitt um það að segja, en mér finnst ekki koma nógu skýrt fram í þessum lögum hvernig eigi að ná þessum markmiðum. Þó markmiðin séu góð fer lítið fyrir þeim ef þau eru ekki framkvæmd á þann besta máta sem hægt er.

Í 4. gr. lagafrv. segir að Skógrækt ríkisins annist rekstur skóglenda, gróðrarstöðva, skógjarða í eigu ríkisins og leigulanda samkvæmt sérstökum samningum. Hvernig á að framkvæma þetta er ekki kveðið neitt á um.

Hvað er átt við með skóglendi? Í 2. gr. segir: „Skóglendi telst samkvæmt lögum þessum land sem að mestu eða öllu leyti er vaxið trjágróðri, náttúrulegum eða ræktuðum, skógi eða kjarri.“

Ég verð að segja að það er tilhlökkunarefni fyrir okkur Vestfirðinga ef við fáum starfsmenn til að annast allt það skóglendi sem þar er að finna því það er 21% af skóglendi alls landsins og vona ég að sú verði túlkun ráðamanna Skógræktar ríkisins á frv. ef að lögum verður.

Í 15. gr. frv. er talað um auknar skyldur gróðurverndarnefnda sem starfandi eiga að vera í sýslum landsins. Æskilegt væri að skógræktarfélög á viðkomandi svæðum ættu fulltrúa í þessum gróðurverndarnefndum. Þá væri nokkurn veginn tryggt að þar sæti alla vega einn áhugamaður um gróðurvernd og skógvernd.

Einn kafli er sérstaklega um Skógræktarfélag Íslands, þ.e. VIII. kaflinn, og fagna ég þeirri grein, sem þar er komin til viðbótar, að ríkissjóði sé heimilt að greiða laun og ferðakostnað vegna sérfróðs starfsmanns í skógrækt sem Skógræktarfélag Íslands kann að ráða til fræðslu- og ráðgjafarstarfs í skógvernd og skógrækt á vegum félagsins. Þetta er mér mikið fagnaðarefni því þetta er búið að vera baráttumál skógræktarfélaga um landið í nokkuð mörg undanfarin ár og vona ég sannarlega að þessi heimild verði að raunveruleika.

En ég sakna þess að það er ekki meira í þessum lögum um skógrækt í þéttbýli og á hvern hátt Skógrækt ríkisins gæti stuðlað að aukinni starfsemi á þéttbýlissvæðum. Þar sem við sjáum aukinn gróður nærri okkur og sjáum þann möguleika sem skógrækt gefur eykst áhugi okkar á skógrækt í stærri mynd en ella.

Varðandi skógræktarfélögin vil ég bæta því við að í stórum landshlutum eru einu tilraunaræktanir sem fram hafa farið þær ræktanir sem skógræktarfélögin hafa gert. Á Vestfjörðum er svo lítil starfsemi frá Skógrækt ríkisins að skógarvörðurinn, sem með það svæði hefur að gera, hefur starfssvæði alla leið frá Hvítá í Borgarfirði, um Mýrasýslu, Snæfellsnessýslu, Dali, Barðastrandarsýslu, Ísafjarðarsýslurnar, Ísafjarðarkaupstað og Strandasýslu. Hann hefur aðalaðsetur sitt í Norðtungu í Borgarfirði. Ég tel að hámarkstíminn sem hann ver til starfa vestur á fjörðum sé vika að ferðatíma meðtöldum. Þess vegna er það ákaflega mikilvægt að starfsemi Skógræktar ríkisins sé dreifð um allar byggðir landsins.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.