11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4483 í B-deild Alþingistíðinda. (3113)

242. mál, innflutningur loðdýra til kynbóta

Ríkharð Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég tek undir þakkir fyrri hv. ræðumanna til þeirra sem lögðu fram þessa þáltill. fyrir að vekja máls á þessu. Það er augljóst að hv. þm. liggja málefni loðdýraræktarinnar þungt á hjarta. Það eru hér á dagskrá tvö mál um það efni, hvort með sínum hætti, og fleiri eru á lofti, m.a. fsp. frá mér og fleiri hv. þm. um hvaða úrræði séu fyrirhuguð í refaræktinni.

Þó að loðdýrarækt sé oft tekin sem heild í umræðum skilur mikið á milli refa og minka, þeirra tveggja megintegunda sem hér eru ræktaðar, og í ýmsu er síst minni munur á þessum tegundum en á kúm og kindum. Vandamál þau sem tengjast þessum tveimur tegundum nú eru einnig að hluta til af mjög ólíkum toga spunnin. Í refaræktinni er fyrst og fremst um að ræða yfirþyrmandi fjárhagsvanda þar sem mestu skiptir lágt skinnaverð almennt. Í minkarækt er afkoman miklum mun betri vegna þess að minkaskinn eru almennt í hærra verði en refaskinn. Þegar hins vegar verið er að gera samanburð á verði þessara íslensku afurða og erlendra verður að gæta dálítið að við hvað er miðað. Danskur minkur er í hæstu verði af öllum mink sem seldur er. Hins vegar er danskur refur í lágu verði. Minkur sem seldur er frá Íslandi er í hærra verði en minkur sem seldur er frá Noregi, en refur frá Íslandi er í lægra verði en refur sem seldur er frá Noregi þannig að í hvorugu tilvikinu getum við miðað okkur við það sem best gerist í heiminum, en vissulega eru til lönd þar sem framleiðslan er lakari en okkar. Það skortir sem sé mikið á að gæði íslensku skinnanna jafnist á við það sem best gerist í minkaræktinni dönsku, eins og vel kemur fram í grg. með þeirri tillögu sem hér er til umræðu. Hún snýr að mikilvægum þætti í lausn þessa máls, nefnilega hvernig tryggja megi að erfðaeðli minkanna verði sem best.

Með þeirri geysihröðu uppbyggingu sem varð í minkaræktinni hefur verið teflt á tæpasta vað með gæði ásetningsdýra og hér eins og í annarri búfjárrækt er hætta á afturför í erfðum stofnsins ef svo helst í lengri tíma. Rétt sem dæmi um þetta má segja að í minkastofni í jafnvægi hvað fjölda snertir má ætla að setja þurfi á um það bil fimmtung þeirra kvendýra sem upp komast, en hér hefur verið algengt að setja á helming eða jafnvel enn meira.

Þessu fylgir líka, þessum mikla ásetningi, að í læðuskinn, sem héðan eru seld, vantar, ef svo má segja, besta hlutann, fjórðung til þriðjung þeirra sem til sölu kæmu ef stofninn væri í jafnvægi. Meðan þetta ástand varir er sem betur fer ekki hægt að taka mismun í flokkun íslenskra og danskra skinna sem einhlítan mælikvarða á mun í erfðaeiginleikum. Engu að síður hníga öll rök að því að erfðaeðli íslensku dýranna sé nú lakara en erfðaeðli þeirra dönsku.

Erfðagæði dýranna má bæta með tvennum hætti. Í fyrsta lagi með skipulögðum kynbótum innan stofnsins og í öðru lagi með innflutningi úrvalsdýra erlendis frá. Innflutningi fylgja ýmis vandkvæði eins og hér hefur verið drepið á, allveruleg sjúkdómahætta, og þar kennir reynslan okkur að seint er of varlega farið. Eigi að gæta fyllsta öryggis er óhjákvæmilegt að innflutningur er ærið kostnaðarsamur.

Meðan sú uppbygging helst og fjölgun sem nú er í minkarækt er engu að síður óhjákvæmilegt að treysta að verulegu leyti á innflutning kynbótadýra til að koma í veg fyrir stöðnun eða jafnvel afturför vegna mikils ásetnings. Eins er æskilegt að flytja inn reglulega kynbótadýr eftir að jafnvægi er náð svo að við getum á hverjum tíma nýtt okkur það besta sem fram kemur erlendis. Hversu mikið og hversu oft er flutt inn ræðst af því hvernig metinn er saman kostnaður og áhætta við innflutning og sú framför eða bót á stofninum sem vænta má af innflutningi. Ef innlent ræktunarstarf er í molum er mikill innflutningur nauðsynlegur, en miklu minni ef ræktunarstarfið er skipulagt og markvisst. Þess vegna ber að líta á innflutninginn eftir að jafnvægi er náð sem viðbót við það starf sem fyrir er og það er áreiðanlega affarasælla að fara þá leið sem flm. benda á, stöðugan innflutning, en rjúka upp öðru hverju með mikil umsvif í því efni. Á það verður þó að leggja áherslu að til lítils er unnið ef ekki er samtímis unnið skipulega að kynbótastarfi innan stofnsins.

Á vegum Búnaðarfélags Íslands og fleiri aðila hefur verið unnið að skipulagningu kynbóta í loðdýrarækt. Hornsteinn þess er skýrsluhald loðdýrabænda og þátttaka þeirra í því er mun meiri en annars staðar gerist. Það ætti að tryggja örugga framþróun með kynbótum.

Þetta kynbótastarf ásamt með því að innflutningur verði nýttur sem best mun tryggja að ekki þarf að óttast um erfðaeðli íslenska minkastofnsins í framtíðinni, en þetta tvennt verður að haldast í hendur eins og áður er sagt. Hinu má heldur ekki gleyma að góð arfgerð er ekki einhlít til að ná fram góðu skinni. Máltækið segir að fjórðungi bregði til fósturs. Í þessu tilviki er nær að segja að helmingi eða 3/4 bregði til fósturs. Fóstrið er samsett úr fjölda þátta. Það er hús, fóður, umhirða, pelsun og skinnaverkun svo gróft sé talið. Hvaða þáttur sem er getur haft afgerandi áhrif á afkomuna. Mistök geta gert skinn af eðlisgóðu dýri ónýtt, en skinn af lélegu dýri verður aldrei gott.

Loðdýraræktin hefur vaxið úr nær engu í umtalsverðan útflutningsatvinnuveg á örskömmum tíma.

Því hafa ekki síst valdið breyttar aðstæður í sveitum landsins. Til þessa hefur verið hvatt af stjórnvöldum bæði beint og óbeint. Vaxtarverkir með svo örri þróun hafa verið óhjákvæmilegir. Verkþekkingu íslenskra loðdýrabænda hefur þó fleygt fram og margir hafa náð mjög góðum tökum á framleiðslunni. Innan skamms má gera ráð fyrir því að verkþekking íslenskra loðdýrabænda verði eins og best gerist hjá grönnum okkar ef hvergi er slakað á um ráðgjöf og leiðbeiningar. Það má ekki henda að við sitjum uppi með lakari minkastofn en nágrannarnir.

Innflutningur kynbótadýra er nauðsynlegur til að tryggja að svo verði ekki og því styð ég efni þessarar þáltill. og treysti því að Alþingi komi henni í það horf sem viðunandi er, ef því sýnist svo, um hversu bindandi hún verður fyrir landbrh. Ég treysti hæstv. landbrh. og ráðuneyti hans til að vinna að þessu máli í samráði við samtök loðdýrabænda og aðra sérfróða aðila á þessu sviði.