17.11.1987
Neðri deild: 12. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

42. mál, áfengislög

Ingi Björn Albertsson:

Hæstv. forseti. Ég er einn af fjórum flm. að þessu frv. til l. til breytingu á áfengislögum, nr. 82/1969. Hv. 1. flm. Jón Magnússon og hv. þm. Geir H. Haarde hafa fært fullgild rök fyrir frv. þessu og ætla ég því ekki að eyða dýrmætum tíma hv. Alþingis í að endurtaka þau rök sem þeir hafa fært fyrir lagabreytingu þessari. Þó vil ég ítreka nokkur þeirra.

Það er óviðunandi mismunun sem á sér stað hér á landi þegar bjór er annars vegar. Af hverju eiga flugmenn, flugfreyjur, farmenn, viðskiptamenn, embættismenn og aðrir er mikið þurfa að ferðast að fá að kaupa og njóta bjórs en ekki aðrir? Það eru ekki bara þessir aðilar sem njóta bjórsins heldur einnig fólkið í kringum þá og er því um verulegan fjölda fólks að ræða.

Á síðasta ári voru seldir á sjöunda hundrað þúsund lítrar í Fríhöfninni einni. Þann 15. okt. sl. var búið að selja á áttunda hundrað þúsund lítra þar.

Það þýðir ekkert að horfa fram hjá þessari staðreynd. Bjór er staðreynd á Íslandi. Hér er nóg af bjór ef menn nenna að bera sig eftir honum. Almannarómur segir og hann lýgur víst sjaldan að bjór sé smyglað hér inn í stórum stíl og hann leki út hér og þar. Og er þá ekki nær að forða fólki frá lögbrotum, sem það fremur með því að kaupa smyglaðan bjór, og er þá ekki nær að þessar tekjur renni í lasburða ríkiskassann? Er nokkur ástæða til að láta þessar skattfríu tekjur í hendur smyglurum?

Hér í verslunum eru seld öll þau efni er þarf til bruggunar á bjór ásamt nákvæmum leiðbeiningum. Hvað er þetta annað en tvískinnungsháttur?

Menn tala af föðurlegri og móðurlegri umhyggju fyrir vesalings fólkinu sem nú á að fara að ota bjórnum að. Það er talað um að börn og unglingar komi til með að vera meira og minna drukkin alla daga. Það er engu líkara en tillagan hljóði upp á að skipta eigi út skólamjólkinni fyrir bjór. Síðan tala þessir frömuðir um rökleysu flm. Sérhver er nú rökleysan!

Það er ekki amast við því að í hverjum söluturni og hverri verslun er hægt að kaupa þrælsterkt áfengi. Það vita allir sem vilja vita að í slíkum verslunum er selt sælgæti með hinum ýmsu áfengistegundum í fljótandi formi og það er notað af þannig innstilltum mönnum sem afréttari á slæmum morgnum. Við þessu er ekki hreyft þó þarna sé verið að fremja lögbrot beint fyrir framan nefið á mönnum.

Herra forseti. Ég leyfði mér að labba inn í næsta söluturn og keypti sýnishorn af þessu sem þingheimur getur séð. Hér er t.d. tegund með fljótandi koníaki inni í, þrælsterku áfengi. Þetta er eina áfengið í dag sem börn og unglingar geta keypt löglega. Við því er ekki amast.

Ég dreg enga dul á að í mínum huga mun tilkoma bjórs inn á markaðinn auka neyslu áfengis í landinu. En ég er ekki þeirrar skoðunar að tilkoma hans muni auka neitt verulega áfengisvandamál þjóðarinnar. Ég treysti alveg Íslendingum til að fara af skynsemi með bjórinn og er þess fullviss að svo verði.

Hins vegar eru auðvitað þeir sem í sér hafa þann veikleika að falla fyrir Bakkusi og gerast ofneyslumenn á áfengi. Þessir menn lenda held ég í allflestum tilfellum út á þeirri ógæfubraut hvort sem hér er bjór á markaðnum eða ekki.

Hér er sýknt og heilagt verið að taka dæmi frá hinum ýmsu löndum, eins og t.d. Danmörku og Þýskalandi, og því lýst hvernig menn hafa upplifað nokkrar stundir í þeim löndum. Þær lýsingar eru á einn veg, að allir séu þar útúrfullir allan daginn og einu umræðurnar manna á milli séu þess eðlis að rifist sé um hver fari næst út í búð eftir bjór. Þarna er á ferðinni enn ein rökleysan. Flm. gera ráð fyrir að bjórinn verði seldur í verslunum ÁTVR, ekki úti í næstu matvöruverslun. Hví eru menn þá að reyna að draga upp mynd af bjórmarkaði sem alls ekki hefur verið nefndur og aldrei gert ráð fyrir? Jú, það er vegna þess að rök þeirra eru fá og veikburða.

Það er sagt að við höfum ekki fengið reynslu af bjórneyslu. Spyrja má: Hvernig öðlast menn yfirleitt reynslu á nokkru sviði ef ekki með því að reyna? Og hvernig á að skilja orð hv. þm. Birgis Dýrfjörð þegar hann segir í ræðu sinni hér um daginn, með leyfi forseta, að gömlu, góðu, heiðarlegu fylliríin séu hættuleg? Hvað meinar hann með „gömlu, góðu, heiðarlegu fylliríin?" Eru það þau sem hér er verið að takast á um? Má ég þá frekar biðja um bjórinn. Ég dreg einnig í efa þá fullyrðingu þm. að 25% Norðmanna séu eiturlyfjaneytendur vegna ölneyslu.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson kallar það fráleita röksemdafærslu að mikið öl sé í landinu, enda þótt það liggi á borðinu að neysla öls sé nálægt 2 millj. lítra á ári. Hann neitar einnig að viðurkenna þá staðreynd að áfengt öl sé aðgengilegt og kallar það falsrök og rangar upplýsingar. Ég held að ef nokkrar fráleitar röksemdafærslur hafi verið færðar í þessu máli sé það í máli hv. þm. Sverris Hermannssonar og reyndar fleiri sem hafa talað í dag og verð ég að segja að ræða hans var með slíkum eindæmum að hún mun mér seint úr minni líða. Það hlýtur að vera krafa á jafnábyrgan þm. að hann geri annað tveggja, flytji frv. til l. er banni allan bjór í landinu eða öllu nær að hann flytji frv. til l. í samræmi við málflutning sinn er banni algerlega sölu áfengra drykkja í landinu.

Ég tek undir það, sem fram hefur komið, að það sé ekki spurning um hversu sterkur drykkur sé í alkóhóli mælt. Það nægir að um alkóhól sé að ræða til að hætta sé á ferðum. Þá má spyrja: Hvers vegna má flytja inn á frjálsan markað drykkjarvöru sem hefur alkóhólinnihald allt að 2,25%? Og hver er munurinn á 2,25% og 2,26 samkvæmt þessum rökum? Er þá ekki óhæfa að flytja inn drykkjarvörur með 2,25% alkóhólinnihaldi? Annaðhvort er að banna að flytja alkóhól inn á frjálsan markað eða ekki.

Herra forseti. Ég gerði mér vonir um málefnalegar umræður um frv. þetta, en þær vonir hafa brugðist og mér þykir það miður. Andstæðingar frv. hafa kosið að fara leið hræðsluáróðurs en látið minna fara fyrir rökum sem þeir þó eiga í fórum sínum, eins og hv. þm. Birgir Dýrfjörð sýndi.

Ég get tekið undir að tilkoma bjórs muni auka drykkju en ekki endilega að sama skapi drykkjuvandamál. Ég ætla ekki að mæla í mót þeim tölulegu staðreyndum sem hér hafa verið nefndar varðandi reynslu annarra þjóða af bjór, en ég er ekki jafnviss um að þær eigi við hér. Ekki skal ég efast um þær ályktanir er fram koma úr ýmsum áttum, eins og frá fulltrúum heilbrigðis- og bindindismála. Það er að sjálfsögðu skylda þeirra að senda slíkar ályktanir frá sér.

Önnur rök hafa ekki komið fram gegn frv. En ég ítreka að þeir sem nú mæla gegn frv. þessu verða að vera sjálfum sér samkvæmir og standa að lagasetningu þess eðlis að allir Íslendingar sitji við sama borð hvað bjórinn varðar.

Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson kom mjög ósmekklega inn á þann mikla harmleik sem átti sér stað á Heysel-leikvanginum í Brussel og reyndi að ýja að því að þar ætti bjór þá væntanlega einhver ítök í. Mér fannst þarna frekar lágt slegið og sennilega fyrir neðan beltisstað. (SvH: Hvað skeði?) Að blanda saman íþróttum og áfengi hefur ekki verið gert hingað til og ég sé það ekki fyrir mér í framtíðinni heldur og vona að svo verði ekki. (ÓÞÞ: Var það ekki gert á þessum leikum?) Það skal ég ekkert segja um hvort einhverjir hafa verið þar drukknir, en það var um almenna múgæsingu að ræða þar og það hefur þm. væntanlega séð sjálfur í sjónvarpinu.

Annars má spyrja: Hvenær lýkur bernskuárunum og hvenær taka fullorðinsárin við? Alþingi hefur samþykkt lög sem gera það að verkum að fólk ályktar að það sé orðið fullorðið við 18 ára aldur. Því er þá treyst til að kjósa fulltrúa á Alþingi t.d. Fólk er talið nógu fullorðið 20 ára til að versla í Áfengisverslun ríkisins. Þar á að selja bjórinn og hvergi annars staðar. Ef hann fer hins vegar í yngra fólk er eitthvað að löggjöfinni og lögregluyfirvöldum sem eiga að fylgja þeim lögum, sem sett eru í landinu, eftir.

Þm. talar um glappaskot lífs míns. Ég vona að guð gefi að þetta sé ekki glappaskot lífs míns. En ég get alveg horft björtum augum til framtíðarinnar þegar ég verð gamall og sit með bjórglas í hendi og les þingtíðindi um þessar umræður.

Ég vil heldur sjá æskuna í landinu, ef hún á annað borð ætlar sér að fara að fikta við áfengi, með bjór í hendi en sterka drykki.

Þm. talar um að þetta muni auka bruggun. Ég get ekki séð með hvaða rökum hann færir slíkt í tal. Þm. vill heldur ekki taka mark á meiri hluta þjóðarinnar. Er hann að segja að ef við færum út í þjóðaratkvæði mundi hann ekki taka mark á því? Um drykkjuskap á vinnustað vil ég helst hafa sem fæst orð því hann miðast við þann málflutning að hér megi kaupa bjór úti í næstu matvöruverslun. Stefán Valgeirsson talaði um að banna ætti nýjar tegundir. ÁTVR hleypir inn nýjum tegundum alltaf af og til og stýrir með því neyslunni. Er skemmst að minnast drykkjar sem hét Twenty One, eða tuttugu og einn, fyrir nokkrum árum og var ekkert annað en bland í flösku og varð geysivinsæll meðal ungs fólks. ÁTVR hefur því varðað veginn í því að auka drykkju í landinu, m.a. með verðstýringu, en fyrir nokkrum árum hélt ÁTVR niðri verði á vermútdrykkjum sem olli því að vermút varð ódýrara en venjulegt kók á skemmtistöðum og fólk fór að blanda með því í staðinn. Er það þetta sem menn vilja?

Árni Gunnarsson talar um vinsældir og kosningamál. Er Árni Gunnarsson að boða til kosninga fljótlega? Ég get ekki séð að þær séu fram undan þó ég voni að þær verði sem fyrst.