09.12.1952
Sameinað þing: 23. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

1. mál, fjárlög 1953

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Haustið 1949 lét ég þess getið í viðtali við Alþýðublaðið, að hinar nýafstöðnu alþingiskosningar þá væru spor til hægri í íslenzkum stjórnmálum. Því miður reyndist þetta rétt. Og sporið var ekkert smáspor. Það hefur nálgazt það að vera risaskref. Öll hjálparkokksaðstoð hv. 7. landsk. þm., Finnboga R. Valdimarssonar, í ræðu hans hér í kvöld breytir þar engu, og hef ég engan tíma til þess að svara rausi þessa flokkaflakkara frekar.

Undirrót hins mikla óróa, er nú ríkir í þjóðfélaginu, og einnig ástæðan til þess, hvað allur atvinnurekstur stendur nú höllum fæti, er sú geysilega verðþensla og dýrtíð, er skapazt hefur á tímum núverandi ríkisstj. Áður fyrr töluðu núverandi stjórnarflokkar um það, að ofar öllu ætti að vera skelegg og áhrifarík barátta gegn dýrtíðinni, en þegar þessir sömu flokkar koma sameiginlega í valdastöðu, var jafnvel hætt við að berjast gegn dýrtíðinni í orði og enn þá frekar á borði.

Á tímum þeirrar samstjórnar, er sat að völdum frá ársbyrjun 1947 til síðari hluta árs 1949, var hafður raunverulegur hemill á dýrtíðinni. Vísitalan frá 1939, sem á að sýna verðlagsbreytingarnar, — en við hana verður að miða, ef gera á réttan samanburð, — hækkaði frá valdatöku þeirrar stjórnar úr 310 stigum í 330 stig, miðað við 1. sept. 1949, eða um 6.45%. Á þessu tímabili var lík hækkun í nágrannalöndunum, eða í Svíþjóð um 7.78% og í Danmörku um 7.87%. En svo tók núverandi hæstv. ríkisstj. við. Hún skellti yfir þjóðina stórfelldri gengislækkun, stofnaði síðan til hins illræmda bátagjaldeyrisbrasks, sinnti því engu, þó að allur innflutningur væri skipulagslaus og handahófskenndur, og afnam svo að segja allt verðlagseftirlit. Afleiðingar þessarar stjórnarstefnu komu brátt í ljós. Verðvísitalan hækkaði úr 330 stigum í 669 stig, miðað við 1. nóv. 1952, eða um 102.7%, en ekki um 63%, eins og hér hefur verið kennt í kvöld. Á sama tímabili hækkaði verðvísitalan í Danmörku um 20%, í Svíþjóð um 28.3% og í Noregi um 29%. Núverandi ríkisstj. sló þannig öll met í verðhækkunum og dýrtíðaraukningu. Þessi stjórnarstefna hefur beinlínis leitt til þess, að nú standa hér yfir stórfelldustu verkföll, er þekkzt hafa, samtímis því sem margur atvinnurekstur á í vök að verjast. En ekki nóg með það. Versta plága verkalýðsins, atvinnuleysið, hefur verið mjög alvarlegt og færzt í aukana á tímum þessarar ríkisstjórnar.

Í gærkvöld lýsti hæstv. forsrh., Steingrímur Steinþórsson, því, hvernig hann teldi, að hefði verið umhorfs í árslok 1949. Sagði hann, að þá hefði staðið fyrir dyrum algert hrun, stöðvun framleiðslustarfseminnar og atvinnuleysi. Nú vildi ég ráðleggja hæstv. forsrh. að athuga engu síður, hvernig nú er umhorfs, í árslok 1952, eftir tæpa þriggja ára stjórn hans sjálfs. Um 15 þús. manns eru nú í alvarlegu verkfalli, er þeir hafa talið sig neydda til að leggja út í vegna hraðvaxandi og óþolandi kjararýrnunar á tímum núverandi ríkisstj. Samtímis því liggja nú um 7 þús. lestir óseldar af íslenzkum fiski erlendis. Frystihús landsins hafa nú, þegar ný vertíð stendur fyrir dyrum, í sínum vörzlum um 8–9 þús. lestir af hraðfrystum fiski og geta þannig ekki tekið á móti miklu nýju magni. Talið er, að í Ítalíu liggi nú um 40 þús. lestir af saltfiski víðs vegar að og sé þar um 9 mánaða neyzlu að ræða. Ef ekki hefði verið vinna, áður en verkfallið hófst, sem 1.500 Íslendingar hafa haft í Keflavík á beinum og óbeinum vegum varnarliðsins, þá væri hér í landi hið stórfelldasta atvinnuleysi, er hér hefur þekkzt um langan aldur. Er atvinnuleysið meira en nóg, þó að 1.500 manns starfi hjá varnarliðinu. — Á tímum núverandi ríkisstj. hefur greiðsluhallinn á viðskiptunum við útlönd numið um 600 millj. kr. Þessum halla hefur orðið að mæta, svo að ekki skapaðist algert öngþveiti, með erlendu gjafafé, sem numið hefur um 370 millj. kr. í tíð núverandi ríkisstj., með erlendum lánum og greiðslum fyrir þjónustu frá varnarliðinu. Ég held það væri engu síður þörf fyrir hæstv. forsrh. að líta alvarlegum augum í kringum sig nú við þessi áramót, eftir tæpra þriggja ára stjórn, heldur en mála með fölskum litum ástandið, er hafi verið í árslok 1949. Mætti við hann segja:

„Maður, líttu þér nær; liggur í götunni steinn.“

Dagblaðið Tíminn skýrði frá því skömmu fyrir alþingiskosningarnar 1949, að þá nýverið hefði núverandi hæstv. landbrh., Hermann Jónasson, haldið skörulega ræðu og þá einkum deilt á Sjálfstfl. og forustulið Alþfl., er hefðu, — og nú tek ég orðrétta frásögn blaðsins, — „leikið á þjóðina á undanförnum árum, ginnt hana fyrir síðustu kosningar með hinum fegurstu loforðum um stórfelld mannvirki og framkvæmdir, en síðan sökkt þjóðfélaginu í botnlaust öngþveiti, fjármálaóreiðu, verzlunarspillingu og gjaldeyrisþrot.“ Og blaðið bætir við með feitu letri: „Að lokum spurði Hermann Jónasson: Ef þú, kjósandi góður, hefur falið manni umboð til þess að fara með fjármuni þína og hann hefur gert það á svipaðan hátt og farið hefur verið með fjármál og atvinnumál þjóðarinnar, mundir þú þá veita þeim hinum sama nýtt umboð, þótt hann færi fram á það? Þér ber á sama hátt að dæma þá flokka, sem bera ábyrgð á spillingunni, ef þú vilt fella réttlátan dóm, er þú getur varið fyrir sjálfum þér, þjóð þinni og niðjum þínum.“ — Þannig sagðist Tímanum frá hinni skörulegu ræðu Hermanns Jónassonar þá.

Finnst ekki íslenzku þjóðinni, að það gæti verið ærin ástæða til þess að spyrja sjálfa sig líkrar spurningar og þeirrar, er hæstv. landbrh., Hermann Jónasson, varpaði fram fyrir rúmum þremur árum, og þá nú sérstaklega varðandi meðferð umboðs þess, sem þjóðin gaf núverandi stjórnarflokkum og leitt hefur til þess ömurlega ástands í málum þjóðarinnar, er ég hef lítillega drepið á og blasir nú við, hvar sem augum er litið.

Ég hef oftar en einu sinni og að gefnu tilefni varað hæstv. ríkisstj. við þeim háska, sem .I því felst að stjórna gegn verkalýðnum og samtökum hans. Þessum viðvörunum hefur ekki verið sinnt.

Þvert á móti er núverandi ríkisstj. sú eina, er setið hefur síðustu áratugina, sem hefur talið sér fært og rétt að beina stefnu sinni og framkvæmdum gegn verkalýðnum og samtökum hans. Því er nú komið sem komið er. Verkalýðurinn hefur ekki séð sér annað fært, en að rísa sameinaður upp gegn þeirri plágu og hörmungum, er stjórnarstefnan hefur skapað. Þess vegna skeifur nú okkar litla þjóðfélag á veikum grunni sínum. Þess vegna rís nú upp há og ógnþrungin alda almennings. Það á að verða í síðasta sinn, og skammt eftir af þeim tíma, sem ríkisstj. Íslands stjórnar gegn verkalýðnum og samtökum hans.

Í eldhúsi hér á Alþingi fyrir tveimur árum líkti ég núverandi ríkisstj. við Pétur Gaut í leikriti Ibsens. Pétur Gautur leitaðist við að umflýja örlög sín og bað um frest á frest ofan. Að lokum dugði það ekki lengur. Á síðustu krossgötunum gat hann ekki fengið frekari frest. — Innan skamms tíma hittir þjóðin núverandi ríkisstj. á krossgötum kosninganna. Þá verður dómurinn kveðinn upp yfir stefnu hennar og afleiðingunum, sem af henni hafa stafað. Þá mun ríkisstj. lenda í deiglu þjóðarinnar og verða brædd upp af hita þess elds, er hún hefur kveikt í huga almennings. Það eiga að verða örlög, sem ekki er unnt að flýja. — Góða nótt.