30.03.1954
Efri deild: 73. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

184. mál, fasteignaskattur

Andrés Eyjólfsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins leyfa mér að vekja athygli hv. d. á því, og þá sérstaklega n., sem hefur nú gefið út nál. um þetta mál, að í bráðabirgðaákvæðinu er gert ráð fyrir því, með leyfi hæstv. forseta, að „lögreglustjórar, eða hver sá embættismaður, sem innheimta hefði átt fasteignaskattinn að óbreyttum þeim l., er um hann hafa gilt, afhendi hver í sínu umdæmi eigi síðar en 1. júní 1954 gjaldkera hvers sveitarsjóðs“ o.s.frv. Það er þetta atriði, 1. júní, sem ég álít að sé dálítið óheppilegt fyrir sveitarstjórnirnar, vegna þess að lögum samkvæmt eiga þær að leggja útsvörin á í maímánuði, og það væri heppilegra fyrir þær að vera búnar að fá vitneskju um það, hvað þessi fasteignaskattur mundi nema mikilli upphæð, áður en þær leggja útsvörin á. Það er aðeins þetta atriði, sem ég vildi biðja hv. n. að taka til afhugunar fyrir 3. umr.