06.12.1956
Sameinað þing: 15. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2312 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

Endurskoðun varnarsamningsins

Ólafur Thors:

Herra forseti. Það er nú eins og fyrr um þessi varnarmál, að ég hafði ekki ætlað mér að kveðja hljóðs, en vegna þess að þingsköp takmarka ræðutíma einstakra ræðumanna og hæstv. forseti hefur úrskurðað, að frsm. Sjálfstfl. í þessum málum geti ekki talað oftar, ætla ég að leyfa mér að segja örfá orð.

Hæstv. utanrrh. endaði á því að staðhæfa, að 7. gr. varnarsamningsins væri í fullu gildi og óbreytt, en þó væri nú á henni breyting, og mig langar þá að spyrja, hver hún er.

Ég vil leyfa mér að spyrja: Er það enn í gildi, að ríkisstj. Íslands beri, eins og nú er samkvæmt 7. gr. varnarsamningsins, að hefja undirbúninginn að brottför hersins með þeim hætti að leita umsagnar NATO? Ég endurtek: Er þetta enn þá samnings- og lagaskylda, eða er það ekki? Hafi tilgangurinn verið sá að hreyta 7. gr., tel ég að til þess þurfi lögboð.

Hæstv. utanrrh. svaraði hv. 3. þm. Reykv. að gefnu tilefni frá honum því, að engin önnur mál hefðu verið rædd í sambandi við þessa samninga en þau skjöl bera með sér, sem við höfum fengið aðstöðu til að heyra og augum að líta.

Hv. 3. þm. Reykv. spurði þá: Hefur þá ekkert verið minnzt á lán í sambandi við þetta mál? Hv. 1. þm. Reykv. áréttaði þessa spurningu. Hæstv. utanrrh. sagði: Ég hef ekki minnzt á lán við Bandaríkjamenn. Ég spyr nú: Er það satt, eða er það ósatt, að menn í umboði íslenzku ríkisstj. hafi verið að ræða lántöku fyrir hönd Íslands í Bandaríkjunum í beinu sambandi við þá varnarsamninga, sem hér hafa verið til umræðu? Alþingi Íslendinga á skilyrðislausa og skýlausa kröfu á að fá að vita það, hvort því er nú bætt ofan á auðmýkt okkar í þessu máli, að ríkisstj. Íslands sé tekin að verzla með réttinn til að verja Ísland.

Hæstv. utanrrh. segir: Ekki hef ég selt þennan rétt. — En ég spyr: Hefur nokkur annar gert það í umboði ríkisstj.? Ríkisstj. Íslands verður að svara því hér á Alþ.: Hafa lántökubeiðnir fyrir hönd íslands verið til umræðu þessa dagana, sem varnarsamningarnir voru til umræðu, og hafa þau tvö mál verið tengd saman eða hafa þau ekki veríð tengd saman? Það þýðir ekkert að neita því, að það gengur þrálátur og hávær orðrómur um, að þetta sé. Ég veit ekki sönnur á honum, en þetta er rætt manna á meðal, og hér á Alþ. ber ríkisstj. að svara þessu: Hún má ekki ætla sér að komast undan í flæmingi. Þetta er svo alvarlegt mál, að við eigum kröfu á að vita hið sanna í því.

Hv. 3. þm. Reykv. var að reyna að afsaka hringsnúning sinn í þessu máli, og ég skal virða honum það til vorkunnar. Ég hef sjaldan heyrt hann tala eins vesællega og hann gerði áðan og þegar hann sagði: Það er þó sannarlega mikil gæfa í þessu máli, að með því að gefa frestinn höfum við hindrað það, að gerður væri langur samningur við Bandaríkin, þá segir hæstv. utanrrh. við sinn góða stuðningsmann: Þetta er allt tómt rugl. Bandaríkin buðu að flytja herinn strax úr landi, svo sem samningar standa til, ef stjórn Íslands óskar þess. — Er þá fokið í öll skjól fyrir kommúnistum.

En svo að við vikjum að hinum alvarlegustu hliðum þessa máls, þá beini ég athygli hv. alþm. og annarra, sem mál mitt heyra, að því, að hér stendur stjórn landsins alveg tvísaga, og að hún er ekki meira en tvísaga, er sennilega vegna þess, að það hafa bara tveir ráðh. talað. Og þeir eru ekki tvísaga í neinum smávægilegum atriðum. Þeir eru tvísaga um sjálfan kjarna málsins. Hæstv. félmrh. segir: Það er aðeins gefinn frestur í 3–4 mánuði, og þá tökum við þetta allt upp aftur og rekum herinn í burtu. — Aðspurður um það, hvort hæstv. félmrh. hafi þarna lög að mæla, segir utanrrh.: Það er nú eitthvað annað. Þetta fer allt eftir kringumstæðunum í heiminum, hvað langur tími líður þangað til við tökum upp samninga. Það getur orðið dagur, það geta orðið vikur, og það geta orðið mánuðir eða ár. — Og svo endar hann á því að segja: Ég veit ekkert, hvað það verður lengi, fyrr en Bjarni Benediktsson eða Ólafur Thors segja mér, hvenær verður kominn friður á í heiminum.

Finnst mönnum boðlegt, að hér komi fram tveir ráðh. í jafnveigamiklu máli sem þessu og annar segir þinginu: Það er aftalað á milli okkar, sem stöndum að ríkisstj., að fresturinn gildi í fáa mánuði, — hinn segir: Þetta er tóm vitleysa, sem félmrh. er að segja. Enginn veit, hvort fresturinn verður lengri eða skemmri? — Sættir Alþ. sig við þetta? Sætta stjórnmálaflokkarnir sig við svona frammistöðu?

Ég spyr sem Íslendingur, sem vil, að landið sé varið á hættutímum, ég spyr ríkisstj. Íslands: Er ykkar meining að verja landið, eða er það ekki? Hæstv. utanrrh. segir: Ég vil verja landið og hafa það varið, meðan ég tel hættu á ferðinni. — Annar ráðh. segir aftur á móti: Þetta er ekki rétt, því að ríkisstj. hefur ákveðið, að eftir fáa mánuði skuli uppsögnin aftur ganga í gildi. — Verða slík svör tekin gild í svo mikilsverðu máli?

Aðspurður um það, hvort leyft muni verða að hefja mannvirkjagerð að nýju, sagði hæstv. utanrrh.: Ég veit ekkert um það, á þetta var alls ekki minnzt. — Er sennilegt, að það hafi alls ekki verið minnzt á það, þegar samið var um að hætta við að standa við yfirlýsingu Alþingis frá 28. marz? Er þá sennilegt, að það hafi ekkert verið getið um það, hvort þá mannvirkjagerð, sem stöðvaðist, mætti hefja að nýju eða ekki? Ég segi það alveg eins og er, að ég trúi þessu ekki. Hefði ég verið umboðsmaður Bandaríkjanna, hefði ég spurt um þetta. Og ef ég hefði verið umboðsmaður Íslands, þá hefði ég líka viljað hafa þetta á því hreina. Það hefur eitthvað undarlegt verið hér á seyði, ef þetta hefur ekki borið á góma. Þessi loðnu og óhreinu svör utanrrh. um mál, sem í jafnríkum mæli snerta hagsmuni kjósenda hans, en auk þess öryggi lands og þjóðar, eru vítaverð og hrein óvirðing við Alþingi.

Hv. 1. þm. Reykv. spurðist fyrir um það, hvað væri átt við með því, að Íslendingar tækju í ríkari mæli en áður að sér störf, er varða varnir landsins, á meðan völ er á hæfum mönnum til slíkra starfa, svo og að tryggja, að menn séu æfðir í þessu skyni. Hv. 1. þm. Reykv. leiddi athygli að því, að hér er beinlínis vikið við orðalagi þáltill. frá 28. marz s.l., því að þar stendur beint: „þó ekki hernaðarstarfa.“ Hér er sú setning látin niður falla. Hvað liggur nær en álykta, að með þessu sé verið að tala um að koma upp því varnarliði, sem sé fært um að verja herstöðvarnar, þegar erlendur her er farinn? Ég vildi mælast til þess, að hæstv. utanrrh. gæfi á því skýringar sérstaklega, hvers vegna niður er fellt eða breytt því orðalagi, sem var látið gilda um þáltill. frá 28. marz.

Ég vil aðeins, áður en ég skil við hæstv. utanrrh., leyfa mér enn að minna á það, að hann er sérstaklega spurður um það, hvort því megi treysta, að það sé hreinn ómerkingur, sem áðan stóð upp úr ráðherrastól til þess að lýsa því yfir, að ríkisstj. hefði ákveðið, að innan mjög fárra mánaða skyldi uppsagnarákvæðið ganga í gildi. Í fyrsta lagi er um þetta spurt. í öðru lagi er um það spurt af mörgum, hv. 1. þm. Reykv. (BBen), hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) og mér: Hefur verið rætt um lántökur í sambandi við þetta mál af einhverjum í umboði ríkisstj., hvort sem það er hæstv. utanrrh. sjálfur, sem hefur gengið að því verki, eða ekki? Í þriðja lagi er um það spurt, hvort lagaskylda sé að spyrja NATO að nýju, áður en herinn fer úr landi.

Á hv. 3. þm. Reykv. (EOl) var lagður sá kross að flytja hér áðan ræðu, sem ég bygg að muni geymast í minni þeirra, sem hana heyrðu, betur en sumar aðrar ræður hans. Hann sagðist. vera algerlega andvígur því, sem nú hefði verið gert. Hann taldi forsendur þær, sem stjórnin færir fyrir frestinum á brottför hersins, allar rangar, þ.e.a.s. að stjórnin sé að svíkja þingviljann frá 28. marz. En afleiðingarnar, sem hann tekur af þessu, eru svo þær, að hann lýsir yfir stuðningi við þessa hæstv. stjórn. Hann lýsir því líka yfir samtímis í sömu ræðu, að það hafi verið ágætt, að endurskoðunin fór ekki fram, þ.e.a.s. að þessi svik voru framin, með því hafi verið forðað því, sem verra var, þ.e.a.s. langri hersetu. Allt þetta segir þessi stuðningsmaður stjórnarinnar, enda þótt hann hafi fengið að heyra, að hæstv. utanrrh. skýrði frá því, að Bandaríkin hafi tjáð sig fús að fara með herinn tafarlaust, bara ef utanrrh. hefði fengizt til að samþykkja það.

Nú vil ég biðja þennan hv. þm., sem er nú létt um málið, að gera þetta dæmi upp fyrir mig, svo að ég skilji það betur. Hann segir: Ég er algerlega andvígur því, sem hér hefur farið fram, í fyrsta lagi. Í öðru lagi tel ég forsendur hæstv. utanrrh. allar skakkar. Af þessu leiðir að sjálfsögðu, að utanrrh. er að svíkja bæði mig og aðra stuðningsmenn sína. Samt sem áður lýsi ég stuðningi við hann og fagna svikum hans.

Hv. þm. lauk máli sínu með því að þvo hendur sínar og segja: Þótt þetta sé allt bágt og bölvað, þótt það séu svik og þótt ég sé andvígur því öllu, eins og það leggur sig, og þótt ég þrátt fyrir það styðji ríkisstj., þá hef ég þó, guði sé lof, það að hugga mig við, að enn stendur í gildi þál. frá 28. marz s.l. og enn stendur loforð stjórnarinnar í gildi, og það eina, sem hefur gerzt, er það, að ekkert af þessu er framkvæmt. — Bókstafurinn er þarna. Framkvæmdin fór hina leiðina. Litlu verður Vöggur feginn.

Það hefur verið mjög mikið talað núna undanfarið um kokvíddina hjá kommúnistum og það kannske ekki að ástæðulausu. Það er talsverð lyst að geta rennt niður öllum sínum fyrri staðhæfingum um kaupbindingar og gengi og bátagjaldeyri og þingmannarán og hvað það nú heitir allt. Enn þá er það þó meiri lyst, að vera nú orðnir eins konar mannætur. Þeir eru byrjaðir að renna niður hermönnum líka og það í heilu lagi og 6 þúsund stykkjum í einu. Og þó finnst mér það einna aumast, þegar maður í leiðinni étur sjálfan sig, eins og mér fannst þessi hv. þm. gera áðan.