14.11.1956
Sameinað þing: 9. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (2346)

31. mál, endurskoðun hjúkrunarkvennalaga og laga um Hjúkrunarkvennaskóla Íslands

Flm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa langt mál um till. þá, sem hér liggur fyrir. Með henni er stefnt að því að finna leiðir til að bæta úr mikilli eklu á faglærðu hjúkrunarliði í landinu, eklu, sem hefur lengi ríkt hér og verður stöðugt tilfinnanlegri.

Á meðan sjúkrahús voru fá og smá og sjúkrahjálpin að mestu einskorðuð við heimilin og heimilislæknana, gætti þessa skorts lítils, en nú er hann fyrir löngu orðinn áberandi og til vandræða.

Með hverju nýju sjúkrahúsi aukast vandkvæðin á að fá lærðar hjúkrunarkonur til starfa. Á seinustu árum hafa allmörg ný sjúkrahús verið tekin í notkun víðs vegar í landinu. Á Akureyri var stór og vandaður spítali byggður fyrir fáum árum í stað hins gamla, er orðinn var of lítill.

Á Akranesi og í Keflavík hafa verið reist ný sjúkrahús, og hið sama hefur nýlega orðið í Neskaupstað og á Blönduósi. Nýr spítali er tekinn til starfa í húsakynnum heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur. Hjúkrunarspítali í Hafnarfirði hóf starfsemi fyrir fáum árum, og elliheimilið Grund í Rvík stækkaði nýlega sína sjúkradeild að miklum mun með nýbyggingu. Loks hafa tvö fávitahæli tekið til starfa eigi alls fyrir löngu. Það er augljóst mál, að slík aukning á sjúkrahúsrými hlýtur að krefjast aukins hjúkrunarliðs, ef vel á að fara. Þetta hefur þó ekki fylgzt að. Skortur á faglærðum hjúkrunarkonum var fyrir, en hann hefur þó aukizt um allan helming síðustu árin.

Forráðamenn sjúkrahúsa og hæla eiga i stöðugu stríði vegna skorts á hæfu hjúkrunarliði. Langtímum saman verða þessar stofnanir að vera án tilskilins og nauðsynlegs fjölda hjúkrunarkvenna. Títt verða þær að bjargast við ófaglært hjálparlið að einhverju leyti, og það þykir hátíð, þegar tekst að fá erlendar hjúkrunarkonur, ókunnugar öllu hér og mállausar.

Í einu sjúkrahúsi í nágrenni Reykjavíkur er nú sem stendur þriðjungur hjúkrunarliðsins útlendur. Annar þriðjungur er ófaglærður, svo að þar er aðeins þriðji hlutinn fullnuma íslenzkar hjúkrunarkonur. Á einu stærsta hæli landsins eru erlendar hjúkrunarkonur að staðaldri í yfirgnæfandi meiri hluta. Þær koma og fara á hálfs til eins árs fresti. Á þessu hæli gegna nokkrar ljósmæður störfum hjúkrunarkvenna, en fullnuma íslenzkar hjúkrunarkonur eru aðeins örfáar. Slíkt ástand skapar mikla erfiðleika, og þeir erfiðleikar bitna harðast á sjúklingunum. Stundum hefur legið við borð, að loka yrði hælum vegna vöntunar á hæfu hjúkrunarliði, og veit ég tvö nýleg dæmi þess.

Í öllum sjúkrahúsum og hælum, smáum og stórum, í Reykjavík og utan hennar, gætir þessara erfiðleika meira eða minna. Þaðan berast stöðugar kvartanir um skort á hjúkrunarliði. Þessir erfiðleikar hljóta enn að fara vaxandi, nema gripið verði til skjótra ráða.

Nú er verið að framkvæma mikla stækkun landsspítalans, og hafin er bygging mikils og veglegs bæjarspítala Reykjavíkur. Elliheimili sjómanna má heita fullgert og tekur vafalaust bráðlega til starfa. Stækkun fávitahællsins í Kópavogi er aðkallandi nauðsyn, og ekki er ólíklegt, að sjúkrahús Suðurlandsundirlendis verði reist í náinni framtíð. Með hverri þessara stofnana vex enn og aftur þörfin fyrir fjölgun í stétt hjúkrunarfólks. Þá hefur og vaxandi starfsemi á sviði heilsuverndar drjúgum dregið til sín hjúkrunarlið. Sú starfsemi mun ekki standa í stað á næstu árum, heldur aukast og þannig heimta aukinn fjölda hjúkrunarkvenna til sinnar þjónustu.

Fyrir fáeinum árum var rækilega á það bent af ábyrgum aðilum, að til lítils væri að byggja sjúkrahús, ef ekki fengist hæft hjúkrunarlið til að starfa við þau. Þá var bent á þá leið til úrbóta að stækka hjúkrunarkvennaskólann verulega, svo að unnt yrði að veita fleiri nemendum viðtöku. Sú stækkun er nú komin í framkvæmd að nokkru leyti. En jafnskjótt og það er orðið eða fyrr verður öllum kunnugum það ljóst, að stækkunin ein muni aldrei geta leyst vandann. Stækkun þessa skóla var vissulega nauðsynleg og táknar framfaraspor, en það þarf að gera fleira. Svo mikil eru vandræðin á þessu sviði. Það verður að finna fleiri leiðir. Hjá því verður ekki komizt. Aðrar þjóðir búa einnig við skort í þessum efnum. Hafa sumar þeirra þegar stigið spor í þá átt að leysa vandann. Er ein leiðin sú að kenna konum frumatriði hjúkrunar og gera þær síðan að eins konar aðstoðarhjúkrunarkonum. Önnur hugsanleg leið er, að hjúkrunarnáminu yrði skipt í tvo hluta, fyrri og síðari hluta, þannig að þær konur, sem aðeins hefðu lokið fyrri hluta námsins, mættu starfa undir stjórn og eftirliti fullnuma hjúkrunarkvenna, en gætu síðar, ef þær staðnæmdust í starfi, átt þess kost að fá lokið síðari hluta.

Á það má minna, að ein meginorsökin til hjúkrunarkvennaskortsins er sú, að margar þeirra giftast og hverfa frá starfi að nýloknu löngu og ströngu námi. Er reiknað með, að tæpur helmingur hjúkrunarkvenna giftist um þær mundir, er þær ljúka prófi, eða stuttu eftir. Þess vegna hefur sums staðar verið reynt að bæta úr skortinum með því að breyta svo til um starfshætti á spítölum, að giftum hjúkrunarkonum yrði mögulegt að starfa þar einhvern lítinn hluta dags.

Ég hef hér aðeins tæpt á nokkrum möguleikum til úrbóta, en fer ekki fleiri orðum um það efni, enda er það ekki á dagskrá.

Skorturinn er staðreynd, og úr honum verður að bæta. Því einu er slegið föstu í till., sem fyrir liggur. Hvort lagabreytinga gerist þörf, er undir því komið, hver ráð verða tekin síðar. Ósennilegt þykir mér ekki, að talin verði þörf einhverra breytinga á þeim lögum, sem þessi mál snerta, en slíkt bíður síns tíma. Að þessu sinni tel ég vel farið, ef hið háa Alþingi samþykkir till. þá, sem nú er til umræðu. Hún felur aðeins í sér vilja um athugun og ábendingar. Skal ég svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en legg til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.