14.11.1956
Sameinað þing: 9. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í D-deild Alþingistíðinda. (2650)

41. mál, byggingar hraðfrystihúsa

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við þetta mál ásamt hv. 1. þm. Árn.. og er þær að finna á þskj. 48, þó að það þingskjal sé ekki tilfært á dagskránni, eins og vera hefði átt.

Í raun og veru þarf ég ekki að fara mörgum orðum um þessa brtt., því að þær eru svo augljósar og lýsa sér sjálfar. En þær eru þess efnis, að mjólkurbú, sem verið er að reisa eða endurbyggja, komi undir sömu ákvæði og frystihúsin og þeim verði séð fyrir lánsfé og ábyrgðum á sama hátt og þeim.

Eins og kunnugt er, var áður sú heimild í lögum, að ríkissjóður greiddi allt að 1/4 byggingarkostnaðar mjólkurbúanna. En í framkvæmdinni er þetta nú orðið bókstafurinn einn og hefur verið um æði mörg ár, þar sem á fjárlögum hefur verið mjög lítið fyrir þessu séð. Eru þar t.d. nú áætlaðar einar 100 þús. kr. í þessu skyni, og hefur svo verið um nokkur undanfarandi ár, að það hefur verið aðeins nafnið tómt, sem hefur verið lagt til þessara mála til að uppfylla það, að veittur yrði að 1/4 byggingarstyrkur mjólkurbúanna. Og fyrir lánsfé til byggingar mjólkurbúanna hefur hvergi verið séð, og þau hafa í raun og veru hvergi nokkurs staðar athvarf til þess að fá lán til þess að endurbyggja eða byggja ný bú.

Hins vegar er svo háttað um mjólkurbúin, að ör framleiðsluaukning gerir umbætur og endurbyggingar mjög knýjandi á tiltölulega fárra ára fresti. Og vélakostur og fyrirkomulag eru mjög hröðum breytingum háð og sennilega hraðari breytingum en í nokkrum öðrum verksmiðjum, þar sem framfarir og breytingar í þessum efnum eru svo geysiörar, að gera má fullkomlega ráð fyrir, að um allan vélakost mjólkurbúa þurfi yfirleitt að skipta á fimm ára fresti, eins og verið hefur undanfarandi.

Nú er verið að endurbyggja alveg stærsta mjólkurbúið af þessum sökum, og kostar vitanlega geysifé, tugmilljónir króna, án þess að nokkurs staðar sé fyrir því séð, að það fái lánsfé til þess að gera þetta, eða að það sé séð fyrir, að heimild sú verði uppfyllt, sem í lögum er, að 1/4 hluti sé greiddur af ríkissjóði, eins og áður var. Það er því alveg auðséð, að þetta hlýtur að lenda í miklum erfiðleikum, ef ekki er séð fyrir lánsfé, ef engin aðstoð er frá hinu opinbera, hvorki áætlaður styrkur í lögum, á fjárlögum, og heldur ekki neitt lánsfé, sem ætlað er til þessa. Hér er þó um að ræða meðhöndlun á aðalframleiðsluvöru bænda í þremur sýslum og vitað, að önnur mjólkurbú munu brátt þurfa sams konar endurbyggingar.

Vöxturinn í framleiðslunni hefur verið svo ör, að það hefur sprengt af sér yfirleitt allar byggingar og vélakost, sem fyrir hefur verið. Þetta mjólkurbú, hið stærsta, sem nú er verið að endurbyggja, var upphaflega byggt aðeins fyrir 3 millj. lítra á ári, en meðhöndlar nú orðið um 24 millj. og fer ört vaxandi, og er þar af leiðandi augljóst, að endurbyggingin gat ekki lengur beðið.

Það virðist á allan hátt vera mjög eðlilegt, að samhliða sé sett aðstoð til frystihúsanna og til mjólkurbúanna. — annars vegar verksmiðjur til þess að meðhöndla sjávarafurðirnar, sem koma í land víðs vegar í kringum landið, og hins vegar að meðhöndla landbúnaðarvörurnar til þess að gera þær söluhæfar sem bezt, koma þeim í sem bezt ástand.

Ég vænti þess, að sú n., sem fær þetta mál til athugunar, líti með velvilja á þetta, því að það er áreiðanlega ekki síður þjóðhagsmál og mikils virði, að mjólkurbúin séu jafnan í það góðu ásigkomulagi, að þau geti framleitt hina beztu vöru, ekkert síður en að meðhöndla fiskinn, sem úr sjónum kemur.