13.11.1957
Sameinað þing: 13. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í D-deild Alþingistíðinda. (2335)

46. mál, jafnlaunanefnd

Flm. (Adda Bára Sigfúsdóttir):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér liggur fyrir, er flutt í samræmi við anda og ákvæði jafnlaunasamþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem Ísland fullgilti s.l. sumar, og henni er ætlað að vinna nokkurt gagn því höfuðbaráttumáli íslenzkra kvenna, að þeim verði greidd sömu laun og karlmönnum fyrir vinnu sína, að öðrum aðstæðum óbreyttum.

N., sem skipa á skv. þessari till., er ætlað tvíþætt hlutverk. Henni er í fyrsta lagi ætlað að gera grein fyrir því, hvernig aðstæður eru raunverulega í þessum málum nú, og henni er í öðru lagi ætlað að gera till. um það, hvaða ráðstafanir kunni að vera tiltækar til þess að bæta úr launamisréttinu.

Baráttan fyrir launajafnrétti er orðin mjög löng, og oftast hefur miðað heldur hægt í áttina. Þó hefur verkakvennafélögunum og ýmsum öðrum launþegasamtökum, sem konur eru aðilar að, orðið þó nokkuð ágengt. Einnig hefur töluvert unnizt á löggjafarsviðinu.

Við ýmis störf, t.d. við kennarastörf, virðist aldrei annað hafa komið til greina, en að konum skyldu greidd sömu laun og karlmönnum. Og svipuðu máli gegnir um öll störf kvenna, sem hafa háskólamenntun. En almenn viðurkenning á því, að konum bæri sömu laun og karlmönnum við sömu störf í ríkisþjónustu, fékkst ekki fyrr en árið 1945, er launalög voru samþykkt á Alþingi. Þá var þessum orðum skotið inn í lögin: „Við skipun í launaflokka og flutning milli launaflokka skulu konur að öðru jöfnu hafa sama rétt og karlar.“

Það var búið að ganga frá lögunum að öllu leyti, þegar þessum ákvæðum var skotið þar inn, og þess vegna höfðu þau sem slík engin áhrif á beinar launagreiðslur samkvæmt lögunum.

En þrátt fyrir það að þetta ákvæði hefur ekki nægt til þess að tryggja fullkomið launaréttlæti hjá ríkinu, telja konur sig eiga ómetanlega stoð í þessu ákvæði. Og sama máli gegnir um jafnlaunasamþykktina. Það er engum ljósara en konum, að undirritun hennar ein veldur engri byltingu í launakjörum kvenna, en engu að siður hafa þær sótt það mjög fast, að Ísland fullgilti þessa samþykkt. Og þótt undarlegt megi virðast, hafa þær mætt töluverðum andblæstri í þeirri baráttu. Það var tregðazt lengi við að fullgilda samþykktina, og því var meira að segja borið við, að ekki væri hægt að fullgilda hana að óbreyttum íslenzkum lögum.

En hvaða íslenzk lög skyldu mæla á móti því, að stuðlað sé að því að tryggja það, að svo miklu leyti sem það samrýmist þeim aðferðum, sem hafðar eru við ákvörðun launataxta á Íslandi, að reglan um jöfn laun karla og kvenna nái til alls starfsfólks í landinu? Hvaða lög skyldu vera til í landinu, sem banna, að þetta sé gert, að stuðlað sé að launajafnrétti? En annað og meira felst í rauninni ekki í jafnlaunasamþykktinni sjálfri.

Einmitt vegna þess, að meira er það í rauninni ekki, sem samþykktin sjálf segir, en að stuðlað skuli að því að koma á sömu launum, er þessi till. borin fram. Því er æði oft haldið fram, að konur geri allt of mikið úr launamisréttinu og oftast nær megi skýra launamismuninn með því, að karlarnir gegni bæði erfiðari og ábyrgðarmeiri störfum.

Nefndinni er ætlað að skera úr um það, að hve miklu leyti þessi skoðun er á rökum reist. En ég vil samt sem áður nú þegar benda á nokkur atriði, sem mættu vera til glöggvunar í málinu.

18. þing Bandalags starfsmanna ríkis og bæja kaus n., sem skyldi athuga launagreiðslur hjá opinberum stofnunum, eftir því sem við væri komið. N. kannaði launagreiðslur á þrjátíu ríkisstofnunum. Þar voru starfsmenn 643.

Niðurstöður n. eru þessar: Í þrem lægstu launaflokkunum eru 56% af öllum starfandi konum í ríkisþjónustu. Í sömu launaflokkum er enginn karlmaður. Niðurstaðan er því þessi: Meira en helmingur kvennanna er í það lágum launaflokkum, að þeir þykja ekki bjóðandi nokkrum karlmanni.

Þegar komið er upp í hálaunaflokkana, snýst málið að sjálfsögðu algerlega við. Í 4.–6. launaflokki reyndist vera 1% af konunum og 20% af körlunum. 3. launaflokkur var mjög sjaldgæfur. Þar var að sjálfsögðu engin kona, en hins vegar 1% af karlmönnunum.

Er hugsanlegt, að allur þessi gífurlegi launakjaramunur sé skýranlegur með því, að konurnar gegni yfirleitt ábyrgðarminni störfum? Ég held, að það sé alveg fráleitt, að svo sé, en ég vænti þess, að n. skeri til fullnustu úr um það.

Þá vildi ég benda ofur lítið á kjör verzlunarmanna í Reykjavík. Kjarasamningum verzlunarmanna er skipt algerlega í tvennt. Það eru kjarasamningar skrifstofufólks og kjarasamningar afgreiðslufólks. Um starfslið á skrifstofum gildir þetta: Um þrjá efstu launaflokkana er það tekið fram, að þeir séu eingöngu fyrir karlmenn. Í fjórða flokknum fá svo loksins konurnar að fljóta með, en fimmti flokkurinn er ætlaður sendisveinum eingöngu. Hæstu laun, sem konan getur fengið samkv, þessum samningum, eru 35% lægri en hæstu laun karla. Það er gert ráð fyrir því, að kona geti borið starfsheitið bókari, en þá skal hún líka hafa 28% lægri laun en karlmaður, sem nefnist aðalbókari, og hún skal hafa 17% lægri laun en karlmaður, sem nefnist annars flokks bókari.

Það fær mig enginn til þess að játa, að konur séu svo lélegir bókarar allar upp til hópa, að engin þeirra geti einu sinni talizt annars flokks bókari.

Þá kemur að afgreiðslufólkinu í búðunum. Kona, sem er deildarstjóri, skal hafa 10% lægri laun en karlmaður, sem er deildarstjóri. Byrjunarlaun stúlku með verzlunarskólamenntun skulu vera 37% lægri en byrjunarlaun karlmanns með sömu menntun. Hafi nú hvorugt þeirra þessa menntun, skal það taka karlmanninn þrjú ár að vinna sig upp í þessi réttindi, en stúlkuna fjögur ár. Hún á þannig að vera mun tornæmari á störfin. Sé um að ræða fólk án sérmenntunar, er munurinn 36%.

Allir þekkja störf afgreiðslufólks af daglegri reynslu sinni. Og það er ofur litið erfitt að finna nokkra skýringu á því, að afgreiðslustúlkan skuli hafa 37% lægri laun, en afgreiðslumaðurinn. Ef menn leita vel og vendilega, finna sumir þá skýringu á málinu, að það þurfi stundum að bera vörur úr bíl inn í búðina, og það gerir karlmaðurinn, en það gerir stúlkan ekki.

Ég vil í fyrsta lagi svara því til, að mér þykir mjög ótrúlegt, að stúlkan grípi ekki æði oft undir pokahornið, ef með þarf. A.m.k. væri dótturdóttur gömlu konunnar, sem bar kolapoka á Reykjavíkurhöfn, illa úr ætt skotið, ef hún treysti sér ekki til þess. Og í öðru lagi, þótt um það væri að ræða, að stúlkan gripi aldrei undir kassahorn, er þá kassaburðurinn virkilega svo mikils virði, að hann réttlæti 37% launamun?

Ef hugsanlegt væri að meta á skynsamlegan hátt, hvers virði vöruburðurinn er, hve mikill hluti launanna má skoðast umbun fyrir það að bera vörur fram og til baka frá búð í bil eða draga þunga poka inn á lager, þá væri ekkert því til fyrirstöðu, að settir væru upp tveir launaflokkar afgreiðslufólks, annars vegar fólk, sem tekur að sér að bera vörur, ef á þarf að halda, og hins vegar fólk, sem neitar því algerlega að bera vörur og verður ekki látið vinna þá vinnu. En báðir þessir flokkar ættu að sjálfsögðu að standa konum opnir.

Ég hef fjölyrt svo mjög um þennan pokaburð til þess að skýra ofur lítið nánar, hvað við eigum við með sömu launum fyrir sömu vinnu.

Við skulum að lokum líta á kjör iðnverkafólks í Reykjavik. Byrjunarlaun kvenna eru þar 30% lægri, en byrjunarlaun karla. Eftir 12 mánaða starf lækkar þessi munur niður í 25%. En eftir tveggja ára starf breikkar bilið aftur upp í 30%, því að karlmaðurinn á rétt á launahækkun eftir tvö ár, en kvenmaðurinn ekki. Það kann að vera um það að ræða að einhverju leyti, að karlmennirnir gegni yfirleitt erfiðari störfum í iðnaði, en kvenfólk. En úr því mætti skera með athugun. Ýmislegt er þó upplýst í því máli, t.d. það, að við vélvefnað stjórna konurnar nákvæmlega jafnmörgum vefstólum og karlmenn, en þær fá 30% lægri laun. Sé hér um að ræða mismunandi störf, mundi engin mótmæla því, að settir væru upp mismunandi launastigar fyrir þessi mismunandi störf, en konunum ættu að standa öll störfin opin. Það má að vísu gera ráð fyrir því, að vegna gamallar hefðar og vegna nokkuð minni líkamsburða, en karlmenn hafa muni konur ekki almennt gegna öllum störfum, sem karlmenn gegna nú, en það er allt annað mál, en spurningin um sömu laun fyrir sömu vinnu, eins og ég vona að ljóst sé orðið.

Hv. alþingismenn viðurkenna sjálfsagt réttmæti þeirrar kröfu, að konum skuli greiða sömu laun fyrir jafnverðmæta vinnu. Ég geri varla ráð fyrir að heyra hér þá gömlu og fráleitu mótbáru, að kvenfólkið sé nú yfirleitt svo lélegir og óábyggilegir starfskraftar, að það geti aldrei staðið sig í samkeppninni og það verði því sjálfu fyrir verstu, ef lögleitt verði eða komið á með einhverjum hætti þeirri algildu reglu, að konum skuli alltaf greiða sömu laun, þegar um sömu vinnu sé að ræða. En láti sú mótbára einhvers staðar á sér kræla, þá vil ég hafa svarað henni með þessum orðum: Við höfum þegar reynslu af jöfnum launum í erfiðri stritvinnu við fiskflökun, og við höfum þegar langa reynslu af jöfnum launum kennara. Og ekki hefur mér vitanlega borið á því, að kvenfólkinu fækkaði í þessum starfsgreinum. Ég held ég geti svarað því fyrir kvenfólksins hönd, að áhættuna af launajafnrétti tökum við á okkur mjög svo áhyggjulausar.

Ég vænti þess fastlega, að engin önnur annarleg sjónarmið komi til greina og þm. sjái sér fært að samþykkja þessa till. og veita með því jafnlaunamálinu stuðning. Ég vil að lokum mælast til þess, að málinu verði vísað til allshn.