16.05.1958
Neðri deild: 96. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Angantýr Guðjónsson:

Herra forseti. Þegar núverandi ríkisstj. tók við völdum, gaf hún m.a. sérstök fyrirheit um það, að dýrtíðinni skyldi haldið í skefjum og kaupmáttur launa skyldi aukinn og skattbyrðum létt af öllum almenningi. Þessi yfirlýsing var í samræmi við yfirlýsingu hæstv. félmrh., Hannibals Valdimarssonar, sem jafnframt er forseti Alþýðusambands Íslands, en í útvarpsræðu, sem hann flutti skömmu fyrir alþingiskosningarnar 1956, sagði hann m.a.: „Það er bjargföst skoðun núverandi stjórnar Alþýðusambands Íslands, að nú ríði verkalýðshreyfingunni lífið á að eignast svo sterkan þingflokk á Alþ., að skuldbindi þá stefnuskrá Alþýðusambandsins, að gengislækkun og lögbindingu kaups og vísitöluskerðingu og nýju skattaflóði verði ekki með neinu móti komið fram á Alþ.“

Menn spyrja nú: Hverjar hafa orðið efndir þessara stóru loforða, sem stuðningsflokkar hæstv. núv. ríkisstj. töldu sig skuldbundna af? Fyrsta verk hæstv. ríkisstj. til að efna loforðin var vísitöluskerðing sú, sem kom til framkvæmda haustið 1956, en þá voru 6 vísitölustig tekin af launþegum. Um leið var þeim gefið hátíðlegt loforð hæstv. forsrh. fyrir því, að þetta væri aðeins gert í því skyni að auðvelda raunhæfar ráðstafanir í efnahagsmálum, sem byggðust á því að auka kaupmátt launa og lækka dýrtíðina, allsherjar úttekt þjóðarbúsins stæði fyrir dyrum og sú úttekt skyldi allri þjóðinni kunngerð. Þing Alþýðusambands Íslands var haldið rétt fyrir áramótin 1956, og var þar rætt allmikið um væntanlegar ráðstafanir í dýrtíðar- og efnahagsmálum þjóðarinnar og þess óskað, að ríkisstj. gæfi fulltrúum skýrslu um, hvað liði efnahagsráðstöfunum þeim, sem boðaðar hafa verið.

Hæstv. félmrh. hafði þó ekki aðstöðu til þess að gefa þinginu þessar upplýsingar en hæstv. félmrh. og forseti Alþýðusambands Íslands fullvissaði þingheim enn einu sinni um það, að ekkert yrði gert af hálfu ríkisvaldsins, sem hefði í för með sér auknar skattaálögur eða rýrnandi kaupmátt launa. En þrátt fyrir þessar margendurteknu yfirlýsingar ríkisvaldsins um, að ekki yrði gengið á rétt launþega, taldi Alþýðusambandsþingið nauðsynlegt að marka stefnu sína skýrt og ákveðið í efnahagsmálum og samþ. ályktun þess efnis m.a., að ekki kæmi til mála, að auknum kröfum útflutningsframleiðslunnar yrði mætt með auknum skattaálögum á almenning, og var 19 manna n. kosin á þinginu til þess að fylgja þessum kröfum fram. Í þessa n, voru valdir einkum þeir forustumenn núverandi stjórnarflokka innan verkalýðshreyfingarinnar, sem mest höfðu fordæmt skattaálögur, kaupbindingu, vísitölufals og gengisfellingu. En varla hafði þessi n. verið kosin og fulltrúarnir komnir heim af þingi, er birtar voru dýrtíðarráðstafanir hæstv. núv. ríkisstj., en þær voru, sem kunnugt er, 300 millj. kr. álögur í nýjum sköttum á margar helztu neyzluvörur almennings. Þetta var þá úttektin og bjargráðin, sem áttu að hafa í för með sér aukna kaupgetu almennings og bætt kjör. Brá nú flestum heldur, en ekki í brún eftir öll fögur loforð, og fannst víst mörgum launþegum þeir illa sviknir.

19 manna n. samþykkti þessar ráðstafanir þrátt fyrir stefnuyfirlýsingar Alþýðusambands Íslands, enda lofaði nú hæstv. ríkisstj. því, að þetta mundi koma efnahagsmálum þjóðarinnar á réttan kjöl og ekki þyrfti að leggja á þjóðina nýja skatta næstu árin og verðlag mundi ekki hækka, vegna þess að strangt verðlagseftirlit yrði tekið upp í samvinnu við verkalýðsfélögin. Allir þekkja nú efndir hæstv. ríkisstj. á þessum loforðum, þær sýna sig m.a. í stórkostlegri skattaálögum, en nokkru sinni áður hafa verið lagðar á þjóðina. En það var ekki nóg að leggja þannig skatta á allan almenning, heldur var vísitalan fölsuð á skipulagðan hátt, einmitt af þeim sömu mönnum, sem áður höfðu mest óskapazt vegna þeirrar vísitölufölsunar, sem þeir töldu eiga sér stað í tíð fyrrverandi ríkisstj. Á þeim árum sagði einn af fulltrúum í 19 manna n.: „Verið getur, að einstakir ráðh. ætli sér þá dul að stjórna landinu með lognum og fölsuðum tölum, en reyndin mun verða sú, að fólki gengur illa að lifa á þeim, og kannske líður ekki á löngu, þangað til þeir eiga sér formælendur fáa.“ Ég geri ráð fyrir, að öllum almenningi gangi illa að lifa á bjargráðum hæstv. ríkisstj., og veit, að hún á sér nú formælendur fáa, ekki sízt innan verkalýðshreyfingarinnar, þó sjálfsagt að undanskildum hæstv. félmrh., en það er ef til vill skiljanlegt, þar sem hann hefur í áraraðir verið embættismaður ríkisins og það hálaunaður og þekkir því ekki þau kjör, sem allur almenningur á nú við að búa. Það kom fljótt í ljós, að skattaálögur þær, sem lagðar voru á um áramótin 1956–57, voru lítil bjargráð. Vöruverð hækkaði, kaupgeta almennings rýrnaði og allstór hópur launþega fékk þó nokkra leiðréttingu mála sinna s.l. sumar með lagfæringu á kaupi og kjarasamningum, sem bættu heldur aðstöðu einstakra starfsgreina, svo sem iðnverkafólks, verzlunarmanna og sjómanna.

Á s.l. hausti kom svo til umræðu í mörgum verkalýðsfélögum, hvað gera ætti í kaup- og kjaramálum. Nítján manna nefndin hafði þá setið á rökstólum og rætt ástandið. Féllst nefndin þó á, að enn skyldi verðstöðvunarstefnan reynd, er þá lá fyrir enn eitt loforð hæstv. ríkisstj., gefið af sjálfum hæstv. forsrh., að gengið yrði ekki fellt meira, en orðið væri og hefði hæstv. forsrh. lagt sérstaka áherzlu á þetta atriði. Efndir þessara loforða sjást nú bezt á því bjargráðafrv., sem nú liggur fyrir. Er gengið raunverulega fellt meira, en nokkru sinni fyrr. Verkalýðsfélögin sögðu ekki upp samningum sínum á s.l. hausti þrátt fyrir stóraukna kjararýrnun, vegna þess að margir forustumenn verkalýðsfélaganna trúðu enn fullyrðingum hæstv. ríkisstj. um, að ekki yrði um auknar skattaálögur að ræða eða gengisfellingu, og vildu þeir þess vegna bíða átekta enn um stund.

Þegar leið á árið, boðaði hæstv. ríkisstj., að bjargráðin frá árinu áður mundu ekki reynast einhlít til björgunar þjóðarbúskapnum, það mundi því verða nauðsynlegt að leggja nýjan skatt á þjóðina. Um upphæð þessa nýja skatts fóru svo tvennar sögur. Blað stærsta stjórnmálaflokksins, sem styður hæstv. núverandi ríkisstj., sagði, að álögurnar yrðu aldrei meiri en 90 millj. kr., en önnur stjórnarblöð létu í það skína, að meira þyrfti við.

Dagar, vikur og mánuðir liðu. Búizt var við hinum nýju bjargráðum eftir síðustu áramót, en tíminn leið, án þess að þau sýndu sig. Þá stóð yfir stjórnarkosning í verkalýðsfélögunum, og töldu margir aðstandendur bjargráðanna, að það hefði óheppileg áhrif fyrir stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. innan verkalýðsfélaganna, ef þau kæmu fram á þeim tíma. Þannig lauk stjórnarkosningu í verkalýðsfélögunum, að engin sáust bjargráðin, og enn biðu menn. Þegar leið á s.l. mánuð, tók að gæta ókyrrðar í mörgum verkalýðsfélögum, svo sem eðlilegt var, þar sem óðum leið að uppsagnarfresti félaganna. Blöð stjórnarflokkanna boðuðu bjargráðin viku eftir viku og dag eftir dag, en ekkert gerðist. Ólgan óx í verkalýðsfélögunum, og mörg þeirra sögðu upp gildandi kaup- og kjarasamningum rétt undir síðustu mánaðamót, og var svo 19 manna nefndin loksins kölluð saman og þá aðeins til þess eins að taka afstöðu til bjargráðanna, eins og þau lágu fyrir frá hæstv. ríkisstjórn. Miklar umræður og deilur urðu í n. um málið, en engin fékkst breyting. Niðurstaðan varð svo sú, sem kunnugt er, að atkv. hæstv. félmrh. og annars manns, sem ekki hafði þó atkvæðisrétt um málið, réð úrslitum um það, að n. samþykkti ekki bein mótmæli gegn bjargráðunum, og þó var svo að hæstv. félmrh. þrengt, að hann sjálfur, sem er einn aðalhöfundur bjargráðanna, varð að greiða atkv. með till., sem taldi, að fallið hefði verið frá hinni svonefndu verðstöðvunarstefnu.

Augljóst er, að það, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú lagt fram í dýrtíðar- og efnahagsmálum, verður þess valdandi, að allt verðlag stórhækkar og lífsafkoma launþega versnar að sama skapi. Öll loforð hæstv. ríkisstj. um bætta afkomu launþega hafa reynzt blekkingar einar. Með þessum síðustu ráðstöfunum er stefnt út í hreint öngþveiti í efnahagslífi þjóðarinnar. Kaupgeta almennings rýrnar, allar verklegar framkvæmdir dragast saman, með þeim afleiðingum, að atvinnuleysi og skortur er á næsta leiti. Sú kauphækkun, sem launþegunum er heitið, á sér enga stoð í veruleikanum, þar sem vísitalan er skert strax sem þeirri upphæð nemur og reyndar meira, en það. Fyrir hina íslenzku þjóð er fram undan stóraukin dýrtíð og launarýrnun samfara atvinnuleysi, sem kemur í kjölfar minnkandi kaupgetu og aukinnar dýrtíðar. En hvenær rís verkalýður landsins einhuga upp gegn ráðlausu fálmi þeirra, sem ginntu hann til fylgis við sig með fögrum fyrirheitum? Sú stund getur ekki verið langt undan.